07.02.1980
Sameinað þing: 22. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 678 í B-deild Alþingistíðinda. (785)

1. mál, fjárlög 1980

Fjmrh. (Sighvatur Björgvinsson):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé um það bil einn mánuður síðan ég óskaði eftir fundum með formönnum þingflokka til þess að ræða einmitt afgreiðslu fjárlagafrv. sem lagt var fram í des. Ég óskaði eftir því að ná samkomulagi við þingflokkana um það að fá málinu vísað til fjvn. með aðeins örfáum inngangsorðum. Þessi beiðni mín hlaut ekki undirtektir formanna þingflokkanna. Formenn þingflokkanna sögðust ekki geta fallist á það fyrir hönd flokka sinna að sá háttur yrði á hafður, því miður.

Fjárlagaræða er nú flutt ekki aðeins á óvenjulegum tíma, heldur einnig við óvenjulegar aðstæður og ber hún þess að sjálfsögðu merki. Eins og hv. þm. vita standa nú fyrir dyrum stjórnarskipti og innan skamms mun væntanlega setjast að völdum ríkisstj. sem leggja mun fyrir þingið stefnu sína í efnahagsmálum og þ. á m. í ríkisfjármálum. Án efa mun hún hafa sitthvað við að athuga það fjárlagafrv. sem nú liggur fyrir Alþingi, eins og raunar hefur þegar fram komið. Ráðrúm til þess að gera slíkar breytingar á frv. mun gefast milli 1. og 2. umr., en til þess að svo geti orðið þarf sú formlega afgreiðsla að hafa farið fram, að fjárlagafrv. sé vísað til 2. umr. og hv. fjvn.

Skoðun mín er sú — og ég hef rætt það nokkrum sinnum á fundum formanna þingflokka — að á meðan óvissuástandið, sem ríkt hefur í stjórnmálum frá kosningum, héldist og yfir stæðu viðræður þingflokka um myndun nýrrar ríkisstj. væri ekki æskilegt að efna til almennrar umræðu um ríkisfjármál og efnahagsmál. Af þeim ástæðum hef ég frestað að halda fjárlagaræðu, þótt vissulega hefði verið æskilegt að 1. umr. fjárlaga hefði farið fram fyrr. Frestun á að fá fjárlagafrv. vísað til fjvn., sem af þessari ákvörðun hefur hlotist, hefur þó ekki torveldað störf nefndarinnar né fjárlagavinnuna í Alþingi, því að fjvn. hefur allt frá því fjárlagafrv. var lagt fram í byrjun desember unnið sín venjubundnu störf með sama hætti og nefndin hefði gert við venjulegar aðstæður.

Ég hef jafnframt tjáð formönnum þingflokka, að mér þætti með sama hætti æskilegt og eðlilegt, að áður en ný ríkisstj. yrði mynduð væri lokið við að mæla fyrir fjárlagafrv. og fá því vísað til fjvn. Sú formlega afgreiðsla á frv. þarf að fara fram, og ég tel ekki æskilegt og raunar mjög óeðlilegt að draga þá afgreiðslu fram yfir stjórnarskipti. Bæði fyrir núverandi og væntanlega ríkisstj. er æskilegast að 1. umr. fjárlaganna sé lokið fyrir stjórnarskiptin, og hef ég haft um það samráð við formenn þingflokka að haga málum þannig að mæla fyrir fjárlagafrv. og fá því vísað til fjvn. skömmu áður en sýnt þætti að stjórnarskipti færu fram. Í því sambandi hef ég tekið tillit til allra óska formanna þingflokka um frestun þangað til á síðustu stundu, og mér finnst það því ómaklegt að verða fyrir árásum af hálfu manna úr öðrum þingflokkum fyrir þann hátt sem ég hef haft á þessu máli, sem ég hef frá upphafi gert í nánu samráði við formenn annarra þingflokka. Þar sem stjórnarskipti eru nú á næsta leiti hef ég afráðið að láta af því verða að óska eftir að fjárlagaumr. fari nú fram, og ég hef einnig haft um það samráð við formenn þingflokka og fallist á þau tilmæli tveggja þeirra, að fjárlagaumr., sem ég stefndi að að hafa s.l. þriðjudag, yrði frestað þangað til í dag.

Í ræðu minni mun ég ekki fjalla að neinu marki um stefnumótun í ríkisfjármálum eða efnahagsmálum í heild, sem venjulega er einn af meginþáttum í fjárlagaræðu, enda tel ég rétt að það bíði nýrrar ríkisstj. Með sama hætti mun ég ekki fara nema örfáum orðum um skattamál og tollamál, launa o kjaramál svo og um fjárfestingar- og lánsfjáráætlun. Ég mun einkum og sér í lagi greina frá ástandi efnahagsmála og afkomu ríkissjóðs á s.l. ári, auk þess sem ég geri grein fyrir efni fjárlagafrv. og forsendum þess. Ég mun þannig ekki hefja almenna umræðu um efnahagsmál eða um stefnumótun í efnahagsmálum eða ríkisfjármálum, en mun að sjálfsögðu ekki skorast undan því að taka þátt í umræðum um slík mál ef aðrir verða til þess að vekja hana. En ég ítreka, að mér finnst slík umræða tilgangslítil við þessar aðstæður og mun sjálfur ekki hefja hana.

Þótt fátt liggi enn fyrir af tölum um helstu þjóðhagsstærðir ársins 1979 er ljóst, að niðurstaðan hefur um sumt orðið önnur en reiknað var með haustið 1979, þegar unnið var að undirbúningi fjárlagafrv., þótt megindrættir séu hinir sömu. Sjávarafli varð talsvert meiri en reiknað var með og verðbólgan talsvert meiri en áætlað var.

Þjóðarframleiðslan í heild er talin hafa aukist um a.m.k. 3% á árinu 1979 eða um 2% á mann. Viðskiptakjör eru á hinn bóginn talin hafa dregist saman sem nemur 31/2% af þjóðarframleiðslu, mest vegna hækkunar olíuverðs, en einnig rýrði lækkun á gengi Bandaríkjadollars kaupmátt útflutningstekna gagnvart innflutningi. Þessi rýrnun viðskiptakjara veldur því, að þjóðartekjur eru taldar hafa dregist saman um 1–2% á mann. Eftir þennan afturkipp eru þjóðartekjur á mann svipaðar og þær voru á árinu 1977.

Framleiðslan í einstökum atvinnugreinum breyttist misjafnlega mikið. Sjávarvöruframleiðslan jókst afar mikið, e.t.v. um 12–15%, iðnaðarframleiðsla er álitin hafa aukist um 4–5%, en búvöruframleiðsla hefur líkast til dregist saman um 5–6% vegna harðinda og óþurrka. Samdráttur er einnig talinn hafa orðið í byggingarstarfsemi og í ýmsum þjónustugreinum. Heildarframleiðsla til útflutnings jókst að líkindum um 12–14%, en vegna þess hve mikið var gengið á birgðir á árinu 1978 og Útflutningur var mikill á því ári er vöruútflutningurinn á árinu 1979 talinn hafa aukist minna en nam framleiðsluaukningunni, eða sennilega um 6–8%.

Þjóðarútgjöld eru talin hafa aukist um 1% á árinu 1979, einkaneysla og samneysla um 11/2–2%, en um 6% samdráttur hefur líklega orðið í fjármunamyndun. Vöruinnflutningur hefur að raunvirði orðið svipaður eða ívið minni en árið áður. Innflutningsverð hækkaði hins vegar mikið, án olíu að jafnaði líkt og útflutningsverð eða um 9% í erlendri mynt, en að olíu meðtalinni nemur verðhækkun alls innflutnings 20% í erlendri mynt. Þar sem verð erlends gjaldeyris í krónum hefur hækkað um 34% svarar þetta til um 60% innflutningsverðshækkunar í krónum á móti 46% verðhækkun á útflutningi. Endanlegar tölur um verðmæti útflutnings og innflutnings allt árið 1979 liggja ekki enn fyrir, en síðustu áætlanir benda til þess, að vöruútflutningur hafi orðið nær 278 milljarðar króna, en vöruinnflutningur allt að 9 milljörðum minni þegar reiknað er á sambærilegu verði. Því hefur orðið afgangur í vöruskiptum við útlönd. Á hinn bóginn er líklegt að nokkru meiri halli hafi orðið á þjónustuviðskiptum en nemur afgangi á vöruskiptum, ekki síst vegna samdráttar í tekjum af samgöngum. Reynist áætlanir réttar hefur orðið lítils háttar halli í viðskiptum við útlönd á árinu 1979. Útkoman má þó teljast vel viðunandi, m.a. þar sem útflutningsvörubirgðir um s.l. áramót voru mun meiri en í upphafi ársins.

Vegna innstreymis erlends lánsfjár hefur greiðslujöfnuður orðið hagstæður og gjaldeyrisstaða batnað um 17 milljarða kr. Erlendar skuldir þjóðarbúsins hafa að líkindum aukist um 24 milljarða kr. 1979, og í árslok munu erlendar skuldir hafa numið rúmlega 280 milljörðum eða u.þ.b. þriðjungi af þjóðarframleiðslu ársins. Er það svipað hlutfall og árið áður. Greiðslubyrði af löngum erlendum lánum, þ.e.a.s. greiðslur vaxta og afborgana í hlutfalli við útflutningstekjur, er áætluð 14% eða svipuð og undanfarin 4–5 ár.

Á mælikvarða framfærsluvísitölu hækkaði verðlag um 45% að meðaltali á árinu, en um rúmlega 60% frá upphafi til loka ársins. Vísitala byggingarkostnaðar hefur hækkað jafnar yfir árið en framfærsluvísitala og er sennilega um margt betri mælikvarði á verðlagsþróunina, m.a. vegna áhrifa breytinga niðurgreiðslna á framfærsluvísitöluna. Byggingarvísitalan hækkaði um 46% að meðaltali á árinu, en frá upphafi til loka ársins var verðhækkunin um 54%.

Kauptaxtar hækkuðu heldur minna að meðaltali á árinu heldur en verðlag, en ráðstöfunartekjur heimila eru taldar hafa aukist a.m.k. svipað og verðlag að jafnaði á árinu. Meðalkaupmáttur tekna hefur því haldist óbreyttur milli áranna 1978 og 1979.

Við gerð fjárlagafrv. var tekið mið af þjóðhagsspá fyrir árið 1980, eins og hún lá fyrir á s.l. hausti, með tilliti til framvindu 1979 og markmiða efnahagsstefnu um hjöðnun verðbólgu, jafnvægi í utanríkisviðskiptum og atvinnuöryggi. Forsendur frv. um þjóðarútgjöld eru þær, að almenn þjóðarútgjöld, sem miklu ráða um tekjur af óbeinum sköttum, verði nokkurn veginn óbreytt að raungildi á árinu 1980 frá því sem talið var að þau yrðu á árinu 1979. Þetta er ein af mikilvægustu forsendum tekjuáætlunarinnar. Þessi forsenda ræðst af því, að talið var að aukning þjóðarútgjalda umfram þetta mark hefði í för með sér viðskiptahalla miðað við þær forsendur um útflutningsframleiðslu og viðskiptakjör sem þjóðhagsspáin á s.l. hausti var reist á. Í spánni var gert ráð fyrir, að dregið yrði úr þorskveiðum í ár frá því sem var í fyrra, í ljósi þess að þorskaflinn á árinu 1979 stefndi fram úr því sem talið var ráðlegt. Þorskaflinn í fyrra varð reyndar enn meiri en búist var við á s.l. hausti. Einnig voru horfur á að loðnuaflinn gæti orðið minni í ár en í fyrra. Af þessum ástæðum var í spánni gert ráð fyrir heldur minni framleiðslu sjávarafurða á árinu 1980 en í fyrra, en jafnframt að það yrði vegið upp af aukningu í annarri útflutningsframleiðslu þannig að heildarframleiðsla til útflutnings yrði óbreytt.

Nú nýverið hefur sjútvrn. kynnt nýjar reglur um stjórnun þorskveiða. Þessar reglur eru þannig, að ætla má að þorskaflinn á yfirstandandi ári verði svipaður og hann var á s.l. ári, eða nokkru meiri en gert er ráð fyrir í þjóðhagsspánni sem lögð var fram sem forsenda fjárlagafrv. Sú ákvörðun er svo nýtilkomin að ekki hefur unnist tími til þess að skoða áhrif hennar, en það verður væntanlega gert í meðferð málsins.

Í þjóðhagsspá er gert ráð fyrir að viðskiptakjör haldist óbreytt á árinu 1980 frá því sem þau voru áætluð fyrir síðasta fjórðung liðins árs. Þetta hlýtur þó að vera afar óviss spá, ekki síst með tilliti til hinna miklu sviptinga á olíumarkaði í heiminum á s.l. ári og mikillar óvissu um framhaldið. Í spánni var reiknað með því, að olíuverð yrði nokkurn veginn óbreytt frá því sem það var í okt. s.l.

Enda þótt óvissa á viðskiptakjarasviði sé óneitanlega mikil, er ekki séð að ástæða sé til að breyta viðskiptakjaraforsendum fjárlagafrv. að svo stöddu. Olíuverð rauk upp í janúar og fór langt upp fyrir það sem miðaðvar við í þjóðhagsspánni, en hefur nú lækkað aftur, hvað sem síðar kann að verða. Verð á nokkrum freðfisktegundum á Bandaríkjamarkaði hefur lækkað nokkuð, en hins vegar hefur heimsmarkaðsverð á mjöli hækkað frá því í haust. Þannig skiptast á skin og skúrir eins og oft áður.

Að svo stöddu virðist því ekki ástæða til þess að breyta forsendum fjárlagafrv. um sem næst óbreytt þjóðarútgjöld, ef ná á markmiðinu um jafnvægi í utanríkisviðskiptum og aðeins lítils háttar aukningu þjóðarframleiðslu, sem þó ætti að nægja til að tryggja viðunandi atvinnuástand.

Verðlags- og launahækkanir í síðustu mánuðum ársins 1979 voru meiri en við var miðað við undirbúning fjárlagafrv. Þetta felur í sér að verðlag og kauplag um síðustu áramót var hærra, miðað við meðaltal ársins 1979, en reiknað var með í fjárlagafrv. Jafnvel þótt tækist að draga svo úr verðbólgu á árinu 1980 sem að var stefnt í frv., þá verður meðalbreytingin milli ára meiri en reiknað var með vegna stöðunnar um áramót. Ef hamla á gegn verðhækkunum, verður ríkisfjárhagurinn að vera traustari 1980 en 1979 og einnig verður að leggja sérstaka áherslu á að draga eins mikið og unnt er úr tímabundnum halla ríkissjóðs fyrstu mánuði ársins með samningu mun aðhaldssamari og ákveðnari greiðsluáætlunar en fylgt hefur verið á undanförnum árum.

Þegar núv. ríkisstj. tók við völdum lá fyrir fullbúið fjárlagafrv. fyrrv. fjmrh. Það frv. hafði verið lagt fram á Alþingi og því verið dreift meðal þingmanna. Framsaga var hins vegar aldrei flutt af ástæðum sem alkunnar eru. Þegar nýtt þing kom saman að loknum kosningum var ljóst að fyrir því þingi mundi ekki liggja neitt frv. til fjárlaga nema ríkisstj. gerði til þess ráðstafanir. Vaknaði því sú spurning, hvernig með skyldi fara —hvaða skyldur ríkisstj. hefði í því sambandi. Ég óskaði eftir því, að samin yrði í fjmrn. álitsgerð um skyldur ríkisstj. varðandi undirbúning fjárlagafrv. fyrir 102. löggjafarþing.

Álitsgerð þessi var samin og lögð fyrir ríkisstj. og er hún mjög ítarleg. Er þar vitnað í ákvæði stjórnarskrár um skyldur ríkisstj. til þess að leggja fram fjárlagafrv. og í álit tveggja fræðimanna, sem ritað hafa um það mál, þeirra Bjarna Benediktssonar og Ólafs Jóhannessonar. Einnig voru könnuð fordæmi og hliðstæður úr íslenskri þingsögu og vitnað til ákvæða í dönskum stjórnarskipunarlögum um undirbúning fjárlaga og skyldur ríkisstj. í því sambandi.

Niðurstöður álitsgerðar um þessi mál var á þá lund, að ríkisstj. bar í fyrsta lagi að hlutast til um að Alþingi yrði kvatt saman svo fljótt sem verða mátti að loknum alþingiskosningunum 2. og 3. desember og að þegar í upphafi þess þings ætti ríkisstj. að leggja fram frv. til fjárlaga fyrir árið 1980. M.ö.o. var framlagning fjárlagafrv. stjórnskipuleg skylda ríkisstj. sem henni bar að uppfylla án tillits til þess, hvort hún styddist við meiri eða minni hluta á Alþingi og hvort líklegt væri, að hún ætti sér lengri eða skemmri lífdaga.

Ríkisstj. afréð að fenginni þessari álitsgerð að vinna að gerð nýs fjárlagafrv. til þess að leggja fyrir Alþingi að kosningum loknum, eins og skylda hennar var. Vegna þess skamma tíma, sem ríkisstj. hafði til þess að undirbúa og vinna nýtt frv., ákvað hún að styðjast í ýmsum veigamiklum atriðum við frv. það sem lagt var fram af fyrrv. fjmrh. í október, en takmarka brtt. sínar við nokkra meiri háttar stefnumarkandi þætti þess. Þannig hefur fjárlagafrv. 101. löggjafarþingsins, frv. fyrrv. fjmrh., verið lagt til grundvallar við samningu þess fjárlagafrv. sem nú er flutt. Í samræmi við afstöðu Alþfl. til fjárlagafrv. 101. löggjafarþingsins hlaut ríkisstj. Alþfl. hins vegar að sjálfsögðu að gera á því frv. nokkrar efnisbreytingar. Ýmsar aðrar breytingar á frv. hefði ríkisstj. kosið að gera, en vegna takmarkaðs tíma var svigrúm hennar til þess mjög lítið og ógjörningur að semja nýtt heildarfrumvarp.

Þær helstu breytingar, sem gerðar voru frá því frv. sem lagt var fram á 101. löggjafarþinginu, eru þessar:

Í fyrsta lagi var dregið úr skattheimtu ríkissjóðs og þannig auknar ráðstöfunartekjur launþega. Tekjuskattslækkunin um 7.2 milljarða króna er aðgerð sem skapar svigrúm til þess að vinna gegn kjaraskerðingaráhrifum, rn. a. vegna hækkaðs olíuverðs. Miðað við tekjuáætlun frv. tekur ríkissjóður til sín 28.3% þjóðarframleiðslunnar, en sambærilegt hlutfall í fyrra frv. var 29%.

Í öðru lagi var dregið úr útgjöldum til að vega á móti tekjuskattslækkuninni. Frá því var nánar skýrt á sínum tíma og tímans vegna rek ég það ekki nánar hér.

Í þriðja lagi er í frv. stefnt að mjög auknu aðhaldi heildarútgjalda ríkissjóðs vegna stýringar útgjalda innan ársins. Samkvæmt frv. var ráð fyrir því gert að reynt yrði að mæta óhjákvæmilegum árstíðabundnum halla ríkissjóðs með skammtímalántöku hjá viðskiptabönkum, þannig að ekki safnist upp skuldahali á viðskiptareikningi ríkissjóðs við Seðlabanka Íslands. Hér má í þessu sambandi geta þess, að þegar ég leitaði á sínum tíma heimilda Alþingis til bráðabirgðafjárgreiðslna úr ríkissjóði var lögð fyrir fjh.- og viðskn. greiðsluáætlun um bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði fyrstu vikur ársins 1980 og var sú greiðsluáætlun mun strangari en áður hefur tíðkast. Sú greiðsluáætlun var síðan endurskoðuð í fjmrn. og enn hert á henni til þess að reyna eftir föngum að draga úr venjubundnu hallarekstrarmunstri ríkissjóðs í upphafi árs. Hefur tekist nokkuð vel að framfylgja þessari ströngu greiðsluáætlun þessar fyrstu vikur.

Í fjórða lagi er svo stefnt að því í frv. og drögum að fjárfestingar- og lánsfjáráætlun, sem ríkisstj. hefur látið vinna, að innlend lánsfjáröflun verði nýtt eins og frekast er kostur áður en leitað er erlendra lána. Að öðrum breytingum, sem ríkisstj. vill gera, var ákveðið að vinna í samvinnu við fjvn. og láta þeirra þátta getið í fjárlagaræðu.

Fjárlagafrv. það, sem hér liggur fyrir, er miðað við sömu verðlags- og kauplagsforsendur og frv. það sem lagt var fram í október af hæstv. fyrrv. fjmrh. Í lögum nr. 13 frá 1979, um stjórn efnahagsmála o.fl., er tekið fram, að frv. til fjárlaga skuli samið með tilliti til þjóðhagsáætlunar og að áætlanir um tekjur og gjöld í fjárlagafrv. skuli gerðar á sömu meginforsendum og þjóðhagsáætlun ríkisstj. Í samræmi við þetta er frv. við það miðað, eins og hið fyrra, að verðhækkun frá upphafi til loka ársins 1980 verði um 30% og meðalhækkun verðlags 1979–80 verði 37%. Eins og ég hef vikið að hér að framan verða launaforsendur og forsendur frv. almennt endurskoðaðar áður en frv. verður afgreitt sem lög.

Fjárlagafrv. ber með sér að sérstök áhersla er lögð á framkvæmdir í orkumálum. Einnig eru fjárveitingar til vegamála auknar nokkuð frá árinu 1979 að óbreyttum forsendum frv., en í því frv., sem hér er lagt fram, er dregið úr vegaframkvæmdum um 2.5 milljarða króna frá því sem ákveðið var í vegáætlun. Þetta er liður í því að sporna gegn erlendum lántökum, en sú aukna framkvæmd í vegamálum, sem vegáætlun gerði ráð fyrir, byggðist öll á auknum erlendum lántökum. Á síðasta ári voru framlög til fjárfestingarlánasjóða 10% lægri en ákveðið er í lögum. Í fjárlagafrv. 1980 er hins vegar gert ráð fyrir 15% skerðingu framlaga til sjóðanna. Þessa stefnu frv. má skoða sem fyrsta skref í þá átt að draga úr og í vissum tilvikum að fella niður öll sjálfvirk framlög úr ríkissjóði. Þetta er mikilvæg stefnumörkun sem þarf að ná festu til þess að ráðið verði betur við ríkisfjármálin en hingað til. Í frv. er dregið nokkuð úr framlögum til tilraunabúa, m.a. til að hvetja til endurskoðunar á tilrauna- og rannsóknastarfsemi landbúnaðarins. Sú stefna er einnig mörkuð að draga úr kostnaði við landhelgisgæslu með sölu flugvélar og með breyttum rekstri varðskipa. Sama máli gegnir um starfsemi hafrannsóknarskipa. Að lokum má geta þess, að ríkisstj. ákvað að 500 millj. kr. af innheimtu aðlögunargjaldi iðnaðarins skuli renna til iðnþróunar samkvæmt tillögum fjárlagafrv. Er hér um að ræða stefnubreytingu frá fyrra frv., en nánar verður að þessu máli vikið síðar.

Nú liggur fyrir bráðabirgðayfirlit um afkomu ríkissjóðs á árinu 1979 og er við hæfi að gera nokkra grein fyrir stöðu ríkissjóðs á þeim tímamótum.

Frá því fjárlög fyrir árið 1979 voru afgreidd af Alþingi voru gerðar ýmsar ráðstafanir í efnahagsmálum sem áhrif höfðu á ríkisbúskapinn á árinu og endurspeglast í afkomu ríkissjóðs í árslok. Má í þessu tilliti nefna, að þróun kauplags og verðlags hafði að sjálfsögðu áhrif á afkomu ríkisbúskaparins. Verðbætur á laun og tengda þætti juku umfram annað útgjöld ríkissjóðs, en auk þess koma til ýmsar ákvarðanir á árinu sem ekki voru séðar fyrir við gerð og afgreiðslu fjárlaga. Þetta leiddi m.a. til nauðsynlegrar viðbótarfjáröflunar fyrir ríkissjóð.

Niðurstöðutölur bráðabirgðayfirlits um afkomu ríkissjóðs 1979 eru í aðalatriðum þær, að útgjöld reynast samtals 241.6 milljarðar kr. eða 39.2 milljörðum kr. hærri fjárhæð en í fjárlögum. Þetta er um 19.3% umfram fjárlög. Tekjurnar eru 238.7 milljarðar kr., eða tæpum 30 milljörðum eða 14% umfram fjárlög. Samkvæmt þessu eru gjöld umfram tekjur um 2.9 milljarðar kr. Um lánamál ríkissjóðs er það að segja, að við afgreiðslu fjárlaga ársins 1979 var að því stefnt að lánveitingar og afborganir lána ríkissjóðs næmu rúmum 4 milljörðum kr. umfram ráðgerðar lántökur og innheimtu af veittum lánum. Í þessari áætlun var við það miðað að Seðlabankanum yrðu greiddir um 5.1 milljarður á árinu og að greiðsluafgangur ríkissjóðs yrði tæpir 2.5 milljarðar kr.

Sérstaklega er ástæða til að gera grein fyrir greiðsluafkomu ríkissjóðs og stöðunni við Seðlabankann í árslok 1979.

Samkvæmt bráðabirgðauppgjöri varð greiðsluafkoma ríkissjóðs við Seðlabankann hagstæð um 2.2 milljarða kr. á árinu 1979 skv. bókum ríkisbókhalds. Bætt staða á hlaupareikningum nam um 15.3 milljörðum kr., en greiðsluhreyfing á skuldabréfum og tveimur skammtímalánum fól í sér skuldaaukningu á móti að fjárhæð 13.1 milljarður kr.

Greiðsluhreyfing sjóðs og annarra bankareikninga fól í sér lækkun að fjárhæð um það bil 1 milljarður kr., þannig að greiðsluafkoma sjóðs og bankareikninga í heild var hagstæð um 1.2 milljarða kr.

Skuld ríkissjóðs við Seðlabankann í árslok 1979 nam um 27 milljörðum kr. eða lítið eitt hærri fjárhæð en í árslok 1978 þrátt fyrir mikla verðbólguþróun á árinu. Er þá meðaltalin verðbótaþáttarhækkun sem kom til útreiknings á gjalddaga láns í desember, alls 2.3 milljarðar kr., en ekki áfallinn, ógjaldfallinn verðbótaþáttur að fjárhæð tæpir 2 milljarðar kr. Ákvörðun hefur ekki verið tekin um færslu á þessari fjárhæð, enda hafa vísitölubundin skuldabréf ekki verið hækkuð upp í árslok frá nafnverði þeirra, eins og t.d. skuldabréf vegna andvirðis seldra spariskírteina, enda spariskírteinin sjálf færð á nafnverði. Innlausnarvirðis þeirra hefur hins vegar verið getið í athugasemdum. Gengisbundin lán hafa hins vegar verið skráð á gengi í árslok.

Meðferð þessara verðbréfa allra er nú í sérstakri athugun með hliðsjón af þeim reglum sem settar hafa verið um hin ýmsu lánsform, m.a. hjá bankakerfinu. Athugunin beinist einnig að því að kanna, hvaða áhrif breyttur uppgjörsmáti skuldabréfa kann að hafa á fjárlagagerð og fjárlagatölur, en á liðnum árum hafa verðbætur verið felldar undir vexti í fjárlögum og þar með í ríkisreikningi. Uppfærsla á höfuðstól vísitölubundinna bréfa í árslok fæli í sér breytingu á fjárlögum m.a. með þeim hætti, að greiðslur vegna afborgana mundu hækka, en greiðslur á vaxtagjöldum lækka að sama skapi. Því er nauðsynlegt að afstaða sé tekin til þessara atriða við fjárlagagerð, áður en reikningsuppgjöri er breytt, og hefur það mál sérstaklega verið rætt við fjvn. Til greina kemur að færa lánin upp með þessum hætti í árslok 1979 og jafnframt endurskoða skiptingu vaxta og afborgana í fjárlagafrv. 1980, en þetta hvort tveggja verður að sjálfsögðu að fyljast að.

Í þessu sambandi má einnig vekja athygli á því, að áfallnir, ógjaldfallnir vextir frá gjalddaga til ársloka hafa ekki verið teknir með í uppgjöri ríkisreiknings og fjárlaga. Einnig er í athugun breyting á því á þann veg að færa áfallna ógjaldfallna vexti til gjalda og sem lausaskuldir í árslok.

Samkvæmt bráðabirgðayfirliti ríkisbókhalds hefur heildarinnheimta tekna ríkissjóðs numið um 238.7 milljörðum kr. á árinu 1979. Er þetta tæplega 30 milljörðum kr. eða 14% umfram áætlun fjárlaga. Fjárlagaáætlunin var hins vegar sett fram á verðlagi í lok ársins 1978, og við samanburð á tölum ársins verður að hafa í huga að meðalverðlag ársins 1979 hefur orðið yfir 20% hærra en við var miðað í fjárlagafrv. Þegar litið er yfir skamman tíma er eðlilegt að tekjur hækki minna en nemur breytingum verðlags og launa, þar sem hluti teknanna er háður kauplagi og verðlagi á fyrra ári, einkum tekjuskattar og eignarskattar, hluti launaskatts og iðgjöld atvinnurekenda til almannatrygginga. Þessar tekjur hækka því ekki frá fjárlögum nema að því marki sem tekjubreytingar árið áður kunna að hafa verið vanmetnar. Hækkun söluskatts og sérstaks vörugjalds á s.l. hausti veldur nokkurri hækkun tekna umfram breyttar fjárlagaforsendur en á móti kemur töluvert tekjutap vegna lækkunar tollhlutfalls af innflutningi með samdrætti í innflutningi hátollavöru.

Í samanburði við fjárlög er rétt að athuga, að gjöldin hafa aukist um 19.3% og hefur aukning þeirra því fylgt verðlags- og kauplagsbreytingum að mestu. Þessar mismunandi breytingar tekna og gjalda sýna, að yfir skamman tíma má ætla að breytingar verðlags og kaupgjalds hafi meiri áhrif á gjöld en tekjur, eða m.ö.o. að breytinga gætir fyrr í gjöldum en tekjum, þótt áhrifin jafnist út þegar til lengdar lætur.

Samkvæmt bráðabirgðayfirliti hafa tekju- og eignarskattar numið rösklega 44 milljörðum kr. eða um 31/2 milljarði umfram fjárlög, einkum vegna þess að tekjur hækkuðu meira á árinu 1978 en reiknað var með við samþykkt fjárlaga. Gjöld af innflutningi yrðu rúmir 48 milljarðar kr., eða 13% umfram fjárlög. Þetta er lítil aukning og töluvert minni en breytingar á gengi og erlendu verðlagi ættu að hafa gefið tilefni til. Ástæðan er sú, að dregið hefur úr innflutningseftirspurn — sérstaklega úr kaupum á hátollavöru—og tollhlutfall í ríkissjóð þá lækkað töluvert umfram þá lækkun sem stafaði af tollalækkunum og var fyrir séð.

Innheimta söluskatts í ríkissjóð nam rúmlega 73 milljörðum kr. á s.l. ári, en þar af er áætlað að hækkun söluskatts í september hafi numið 1700 millj. kr. Tekjuaukning sveitarfélaga af söluskattshækkuninni hefur sennilega numið 150 millj. kr. Hagnaður Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins nam 18.2 milljörðum kr. á árinu 1979 og er það sama fjárhæð og reiknað var með á fjárlögum. Í þessu sambandi þarf að hafa í huga, að í fjárlögum var reiknað með verðhækkun áfengis og tóbaks á miðju ári og því eðlilegt að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins skilaði ekki hagnaði umfram fjárlagaáætlun. Á síðari hluta ársins voru horfur á að fjárlagaáætlun næðist ekki. Útsöluverð hækkaði í júlí í samræmi við forsendur áætlunar, en síðan var tóbaksverð hækkað sérstaklega í nóvember og áfengis- og tóbaksverð svo hækkað fyrri hluta desembermánaðar, og dugðu þessar hækkanir til að skila fjárlagatölunni. Af öðrum mikilvægum tekjuliðum má nefna að sérstakt vörugjald nam 14.6 milljörðum kr., eða 1.6 milljörðum umfram fjárlagaáætlun. Vörugjaldinu var breytt þannig í sept. s.l., að lægri gjaldflokkur þess var hækkaður úr 18 í 24%, en jafnframt var gjaldið fellt niður af nokkrum vöruflokkum. Þessi breyting var upphaflega talin skila um 1100 millj. kr. í tekjuauka á þessu ári, en aukningin hefur orðið minni og heldur dró úr innheimtu gjaldsins með samdrætti í innflutningseftirspurn á síðari hluta ársins. Launaskattur varð 12 milljarðar kr., eða 1.2 milljörðum umfram fjárlagaáætlun.

Sem fyrr segir eru heildartekjur ríkissjóðs taldar hafa orðið 238.7 milljarðar kr. á s.l. ári, en í áætlun, sem sett var fram í fjárlagafrv. á 101. þingi, voru tekjur taldar verða 231.2 milljarðar. Þetta eru þó ekki sambærilegar tölur, þar sem í septemberáætlun var ekki reiknað með þeirri breytingu á uppgjörsaðferð sem orðið hefur á árinu, að innheimta Rafmagnsveitna ríkisins á verðjöfnunargjaldi yrði í fyrsta sinn færð í ríkisbókhaldi, en jafnframt er færð með tekjum ársins 1979 samsvarandi innheimta verðjöfnunargjalds frá árinu 1978. Þessar breytingar koma að sjálfsögðu fram í gjaldahlið og hafa því engin áhrif á niðurstöður rekstrarreiknings, en hækkuðu báðar hliðar um 1.9 milljarða. Þannig hafa tekjur farið 51/2 milljarði fram úr áætlun í september. Er hér einkum um að ræða mun betri innheimtu beinna skatta en reiknað var með, svo og söluskattsinnheimtu umfram áætlun á síðustu mánuðum ársins.

Vegna fjölmargra efnahagsráðstafana, sem gerðar voru á árinu 1979, hafa gjöld ríkissjóðs aukist verulega frá því sem upphaflega var áætlað. Alts reyndust gjöld um 241.6 milljarðar kr. samanborið við 202.5 milljarða sem gert var ráð fyrir í fjárlögum ársins. Rétt er að hafa í huga, eins og drepið hefur verið á í sambandi við tekjur ársins 1979, að fjárlögin voru afgreidd á verðlagi eins og það var um áramótin 1978–79. Hækkun útgjalda á árinu um 39.2 milljarða á sér því margvíslegar skýringar. Fyrst ber að nefna að launaútgjöld starfsmanna ríkisins hækkuðu um 11.2 milljarða kr. vegna verðbóta á laun á árinu og umsaminna launahækkana. Í þessu sambandi má geta þess, að sérstakar ákvarðanir í launamálum, eins og samningar við starfsfólk Sóknar, leiddu til milli 500 og 550 millj. kr. aukaútgjalda fyrir ríkissjóð. Launahækkanir svo afmarkaðra hópa færa ríkissjóði ekki nema hluta upp í útgjöld í formi tekna. Útgjöld vegna tryggingamála reyndust um 12.1 milljarði kr. hærri en áætlað var í fjárlögum. Í megindráttum á hækkunin sér þá skýringu, að útgjöld almannatrygginga fylgja almennri launaþróun í landinu. Bætur lífeyristrygginga hækka samtímis hækkun launa, og á árinu 1979 fylgdi sú hækkun þeirri hækkun sem láglaunahóparnir fengu. Svipuðu máli gegnir um útgjöld vegna sjúkratrygginga. Vistgjöld á sjúkrahúsum, sérfræðiaðstoð, tannlæknaþjónusta og dagpeningar eru allt liðir sem fylgja launa- og verðlagsþróun innanlands. Þá skal þess getíð, að ríkissjóður varð fyrir verulegum útgjöldum, milli 1.5–2, milljarða kr., vegna halla á sjúkrahúsum 1978 og vegna breyttrar framkvæmdar á lögum um þátttöku ríkissjóðs í viðhaldskostnaði á sjúkrahúsum, sem ekkí var áætla.ð fyrir að fullu. Niðurgreiðslur reyndust um 3.5 milljörðum kr. hærri en áætlað var í fjárlögum. Helsta skýringin á þessu er að vaxta- og geymslukostnaður 1979 reyndist hærri en talið var, auk þess sem neysla reyndist nokkuð önnur en talið var í fjárlagaáætluninni.

Auk þeirra atriða, sem ég hef hér drepið á, eru nokkur atriði til viðbótar sem vert er að nefna. Þegar lánsfjáráætlun og drög þar að lútandi voru afgreidd, hafði það í för með sér um 1.3 milljarða kr. hækkun útgjalda vegna meiri skila markaðra tekna til stofnana en að var stefnt í fjárlögum. Þá ákvað ríkisstj. hækkun á olíustyrk vegna húshitunar á árinn, og leiddi það til þess að útgjöld ríkissjóðs vegna þessa viðfangsefnis reyndust rúmlega 600 millj. kr. meiri en fjárlög gerðu ráð fyrir. Að síðustu er rétt að geta þess, að um 2.5 milljarða kr. má rekja til breytinga á bókhaldsvenju og gjaldfærslu lána. Innheimta Rafmagnsveitna ríkisins á verðjöfnunargjaldi, alls um 1.9 milljarðar kr., er nú færð í fyrsta skipti sem gjöld og tekjur, eins og nefnt hefur verið í yfirlitinu um tekjur. Einnig eru á árið 1979 gjaldfærðar 600 millj. kr. vegna yfirtöku láns ríkissjóðs frá Rafmagnsveitum ríkisins, sem ákveðið var með lögum nr. 20/1979, um heimild til erlendrar lántöku og ríkisábyrgðir.

Auk þess sem talið er hér að ofan hefur reynst óhjákvæmilegt að fallast á allnokkrar umframgreiðslur, sem ílestar eiga rót sína að rekja til meiri útgjalda en áætlað var vegna þróunar verðlags og gengis.

Frv. það til fjárlaga fyrir árið 1980, sem nú er til umræðu, hefur sérstöðu hvað framlagningu varðar, eins og vikið hefur verið að. Í nokkrum þáttum ríkisfjármála felur frv. í sér stefnumörkun, bæði varðandi tekjuöflunaráform ríkissjóðs svo og útgjaldaáform. Að þessum atriðum hef ég nú þegar vikið nokkrum almennum orðum og skal gera nánari grein fyrir þessum þáttum hér á eftir.

Niðurstöður fjárlagafrv., eins og það liggur nú fyrir, eru þær, að gert er ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs verði um 323.1 milljarður kr., og gjöld 314.6 milljarðar kr. Tekjur umfram gjöld nema því um 8.5 milljörðum kr. Reiknað er með að úr ríkissjóði verði greiddir 7.5 milljarðar kr. 1980 vegna lánahreyfinga umfram það sem greitt verður inn í ríkissjóð. Að auki er gert ráð fyrir 0.8 milljarða kr. útstreymi á viðskiptareikningi umfram innstreymi. Afborganir af lánum ríkissjóðs samkvæmt 1. gr. frv. nema alls um 16.9 milljörðum kr., en þar af renna 13.1 milljarður til Seðlabankans, bæði til greiðslu af skammtímalánum, sem aflað var á árinu 1979, og af lánum til langs tíma. Lánsfjárþörf vegna A- og B-hluta ríkissjóðs nemur alls 28.5 milljörðum kr., samanborið við 17.3 milljarða kr. á árinu 1979 samkvæmt bráðabirgðayfirliti. Lánsfjárþörf eykst því verulega, en það ber að athuga að á árinu 1980 er um 50% lánsfjárþarfar mætt með erlendum lánum, en 1979 voru það um 70%.

Heildarniðurstaða frv., eins og það liggur fyrir, er því að greiðsluafgangur ríkissjóðs verði um 0.3 milljarðar kr. Svigrúm til aukinna útgjalda ríkissjóðs er því nánast ekkert án þess að fjáröflunaráformum verði breytt, ef komast á hjá að afgreiða fjárlög með greiðsluhalla.

Ég vil sérstaklega taka það fram í þessu sambandi, að fjárlagafrv. þetta er ekki verulega frábrugðið öðrum fjárlagafrv. sem lögð hafa vérið fram og afgreidd á s.l. árum. Frv. er reist á mjög veikum grunni, og ástæða er til að ætla, eins og raunar hefur áður verið að vikið, að erfitt verði að ná þeim árangri sem að er stefnt í áætlun frv. Jafnvel þótt gripið yrði til nýrra vinnubragða, eins og samningar strangari greiðsluáætlunar og aukinnar fjármögnunar tímabundins ríkissjóðshalla með tilstuðlan viðskiptabanka, þá má ætla að erfitt verði að fá áætlun fjárlaga til að standast. Ástæðan er sú, að framtíðin er ekki þekkt með vissu. Reynsla undanfarinna ára sýnir að á hverju ári verður ríkissjóður fyrir óvæntum útgjöldum. Óhjákvæmilegt er að stjórnvöld og Alþingi fari að horfast í augu við þær staðreyndir, að gera verður ráð fyrir mun meiri greiðsluafgangi á fjárlögum eða áætla fyrir óvissum útgjöldum í mun ríkari mæli en venja hefur verið, eigi ríkissjóður að vera hallalaus í lok árs.

Tekjuáætlun ríkissjóðs fyrir árið 1980 er reist á þeirri áætlun um tekjur á árinu 1979 sem sett var fram í fjárlagafrv. á 101. þingl. Jafnframt er áætlunin reist á ákveðnum forsendum um breytingu kauplags, verðlags og veltu á árinu 1980, auk sérstakra forsendna um einstaka tekjuliði. Ljóst er að sá dráttur, sem orðið hefur á afgreiðslu fjárlaga, veldur því, að tekjuáætlun þarfnast óvenjumikillar endurskoðunar, bæði vegna þess, að grunnur áætlunarinnar breytist töluvert, og svo hins, að breytingar einstakra tekjuliða eru nú betur þekktar en áður var, auk þess sem forsendur um veltubreytingar á þessu ári þarfnast endurskoðunar.

Tekjuáætlun þessa frv. er óbreytt frá frumvarpi 101. þings, nema hvað varðar áætlun um tekjuskatt einstaklinga. Heildartekjur nema 323.1 milljarði kr., samanborið við 238.7 milljarða samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum ársins 1979. Tekjur aukast um 84.4 milljarða, eða 35%, samanborið við 30% aukningu gjalda, enda er að því stefnt að tryggja töluverðan rekstrarafgang á fjárlögum.

Ég mun hér fjalla stuttlega um helstu liði tekjuáætlunarinnar, en um einstaka þætti leyfi ég mér að vísa til grg. með frv. því sem lagt var fram á 101. þingi.

Áætlun um tekjuskatt og eignarskatt í frv. því, sem lagt var fram á 101. þinginu, voru miðaðar við að skattstigar og skatthlutfall í hinum nýju lögum um tekju- og eignarskatt yrðu ákveðin þannig að lögin skiluðu sömu álagningu og fyrri lög hefðu gert. Á hinn bóginn hefur áætlun um tekjuskatt einstaklinga í frv. því, sem ég hef lagt fram, verið lækkuð um 7.2 milljarða kr. frá frv. fyrrv. fjmrh., og er að sjálfsögðu ætlunin að lækka tekjuskattsheimtu að sama skapi. Frv. um skattstiga og skattahlutföll hinna nýju laga hefur verið í undirbúningi, og hefur þetta frv. nú verið lagt fram á Alþingi. Miðast þau að sjálfsögðu við þá álagningu tekju- og eignarskatts sem gert er ráð fyrir í áætlun fjárlagafrv. Samkvæmt því er áætlað að innheimtur eignarskattur einstaklinga verði tæpir 2.5. milljarðar kr., en eignarskattur félaga röskir 3.3 mill jarðar. Gert er ráð fyrir að skattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði verði framlengdur óbreyttur fyrir árið 1980, og er innheimta skattsins áætluð 1300 millj. kr. Í heild eru eignarskattar taldir verða 7.5 milljarðar kr., eða 2.3 milljörðum kr. meiri en í fjárlögum 1979.

Álagður tekjuskattur einstaklinga er áætlaður nema 48 milljörðum kr., en um 34 milljörðum að frádregnum barnabótum og persónuafslætti til greiðslu útsvars og sjúkratryggingagjalds. Innheimtur tekjuskattur einstaklinga er áætlaður 30.2 milljarðar, eða 7.2 milljörðum lægri en í fyrra fjárlagafrv., eins og áður sagði.

Í frv. er reiknað með óbreyttri innheimtu sjúkratryggingagjaldsins, og hefur frv. þess efnis verið lagt fram á Alþingi. Innheimta sjúkratryggingagjaldsins er talin verða 6950 millj. kr.

Áætlun um álagningu tekjuskatts félaga er einkar óviss vegna hinna nýju skattalaga. Miðað er við að þau skili svipuðum fjárhæðum og eldri lög. Innheimta tekjuskatts félaga er áætluð 10 850 millj. kr.

Samkvæmt frv. verða beinir skattar, þ.e. tekju- og eignarskattar, röskir 56 milljarðar kr., eða 17.4% af heildartekjum. Vegna þeirrar lækkunar tekjuskatts, sem frv. gerir ráð fyrir, er hlutfall beinna skatta um 11/2%, lægra en á árinu 1979.

Af helstu stofnum óbeinna skatta má nefna, að í frv. eru tolltekjur ríkissjóðs miðaðar við að innflutningur haldist óbreyttur að raungildi milli áranna 1979 og 1980 og verð innflutnings, annars en olíu, hækki um 35% í krónum. Þá er reiknað með að tollhlutfall lækki vegna tollalækkunar í byrjun þessa árs, og er tolltekjutapið talið nema nær 4000 millj. kr., en það svarar til þess að tollhlutfall almenns vöruinnflutnings lækki um 1.6%. Tollheimta síðustu mánaða ársins 1979 bendir hins vegar til, að tollhlutfall á síðasta ári hafi lækkað töluvert meira en reiknað var með og því verði að gera ráð fyrir minni tollheimtu og lægra tollhlutfalli 1980 en reiknað er með í áætlun. Þetta atriði verður athugað sérstaklega þegar endanlegar innheimtutölur liggja fyrir.

Áætlun um söluskatt er miðuð við innheimtuáætlun þá fyrir árið 7 979 sem gerð var í september, en hún reyndist of lág og gefur það vísbendingu um að áætlunin fyrir 1980 kunni að vera það líka. Á hinn bóginn er reiknað með að velta haldist óbreytt að raungildi, en að undanförnu hefur raungildi söluskattsveltu dregist saman og gæti það rýrt tekjuaukningu vegna of lágs grunns í áætluninni. Innheimta er talin verða tæpir 105 milljarðar kr., eða nær þriðjungur af heildartekjum ríkissjóðs, og er það svipað hlutfall og á s.l. ári. Rekstrarhagnaður Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins er áætlaður 23 milljarðar á næsta ári, og er þá miðað við nokkra verðhækkun á árinu og er hluti hennar þegar kominn til framkvæmda með verðhækkun í desember s.l.

Sem fyrr segir eru heildartekjur ríkissjóðs áætlaðar 323.1 milljarður kr., en þar af eru markaðar tekjur taldar nema röskum 38 milljörðum, eða um 12%, og er það svipað hlutfall og á s.l. ári.

Heildarútgjöld á rekstrarreikningi eru 314 milljarðar 617 millj. kr., og er hækkun gjalda frá fjárlögum ársins 1979 um 55%. Samræmi er milli verðforsendna gjalda og tekna, og var við gerð frv. stuðst við ákveðnar forsendur um verðlag 1980, en fjárlög fyrir árið 1979 voru miðuð við verðlag í desember 1978, eins og getið var hér að framan.

Í heild nemur launakostnaður 89 711 millj. kr., sem er 3.5 839 millj. kr. hækkun frá fjárlögum, eða um 66.5%. Er hér um að ræða 28.5% heildarútgjalda frv. Laun ársins eru miðuð við 9.5% hækkun 1. des. s.l., en það jafngilti á þeim tíma að verðbætur á öll laun hækkuðu þá að meðaltali um 9%. Almenn hækkun launa 1. des. s.l. reyndist hins vegar 13.2%. Laun einstakra stofnana eru sett fram í frv. á desemberverðlagi 1979, eins og það var talið mundu verða. Áætluð launahækkun 1980 er talin leiða til 9703 millj. kr. útgjalda ríkissjóðs og er sú fjárhæð færð á sérstakan lið fjmrn. Fjárhæðin var upphaflega miðuð við að laun hækkuðu um 8% 1. mars og síðan drægi úr hækkuninni nálægt 1% á ársfjórðungi og verði því 5% 1. des. n.k. Sé hins vegar lítið á það, að við hækkun 1. des. varð 3.4% meiri kauphækkun en reiknað var með í upphaflegri áætlun, rúmar þessi launafjárhæð ekki nema sem svarar 5% launahækkun til jafnaðar á ársfjórðungi 1980.

Að áætluðum launahækkunum 1980 frátöldum hækkar launaliður frv. um 48.5% frá fjárlögum 1979 og skýrist sú hækkun í eftirfarandi megindráttum:

Í fyrsta lagi nemur hækkun launataxta og hækkun launatengdra gjalda frá fjárlögum 1 979 til áætlaðs verðlags í des. 1979 um 44.5%. Í þessari hækkun er tekið tillit til afnáms vísitöluþaks af launum í árslok 1978 og hækkunar launatengdra gjalda, 3% grunnkaupshækkunar til opinberra starfsmanna 1. apríl s.l. og hækkunar vegna verðbóta á laun á árinu.

Í öðru lagi hafa frá síðustu fjárlögum orðið ýmsar breytingar sem leiða til aukinna launaútgjalda. Þessi þáttur skýrir um 2.8% launahækkunarinnar. Í þessu tillíti vegur þyngst hækkun launaliðar vegagerðarinnar um 450 millj. kr. umfram almennar taxtabreytingar. eftirlaunasjóður aldraðra rúma 400 millj. kr., nýjar stöður á ríkisspítölum rúmar 370 millj. kr. og ýmis verkefni önnur, svo sem embætti ríkissáttasemjara, Heyrnar- og talmeinastöð Íslands o.fl. Ýmis önnur atriði í launamálum hafa leitt til hækkunar þessa útgjaldaþáttar ríkissjóðs. Má þar nefna breytta flokkaskipun heilbrigðisstétta og annarra, auk Sóknarsamninga snemma árs 1979.

Í frv, er beitt aðhaldi, eftir því sem fært þykir, og miðað við þær aðstæður sem fyrir hendi voru þegar þetta frv. var unnið. Miðað við það frv., sem lagt var fyrir 101. löggjafarþing, er, eins og áður segir, dregið úr starfsemi Landhelgisgæslu og Hafrannsóknastofnunar. Sparnaður í launakostnaði, sem af þessu leiðir, er um 435 millj. kr. Í fjárlögum 1979 voru fjárveitingum vegna ríkisspítala vegna yfirvinnu og álagsgreiðslna settar skorður sem fólu í sér allnokkurt aðhald sem ekki náðist að fullu. Frv. þetta miðar við að áfram verði haldið á sömu braut. Hliðstæðu máli gegnir um löggæslukostnað. Á árinu 1979 var dregið úr launagreiðslum í grunnskólum með því að takmarka yfirvinnu og fækka kennslustundum, og var það gert í samræmi við markaða stefnu fyrrv. fjmrh. og fyrrv. menntmrh. Árangur þessara aðgerða kemur m.a. fram í þessu frv.

Nokkur atriði skal þó sérstaklega nefna sem þarfnast athugunar, Með lögum nr. 32 frá 1979 var ákveðin forfalla- og afleysingaþjónusta fyrir bændur og skal henni á komið á næstu tveim árum. Í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir launum til 8 manna. Áætlaður fjöldi afleysingamanna, sem til þarf svo lögin um afleysingaþjónustu komi að fullu til framkvæmda, er hins vegar 60, þannig að Alþingi og ríkisstj. verða á næstu tveimur árum að sjá fyrir fé til þessa mannahalds ef lögin eiga að koma til framkvæmda á tilsettum tíma. Þá ber þess einnig að geta, að í fjárlagafrv., eins og í fjárlagafrv. því sem lagt var fyrir 101. löggjafarþing, er gert ráð fyrir framlagi vegna starfa forseta Alþjóðaskáksambandsins. Í því er gerð tillaga um 8 millj. kr.

Eins og kunnugt er ríkti mikill og almennur stuðningur hér á landi við þá ákvörðun Friðriks Ólafssonar að gefa kost á sér sem forseti Alþjóðaskáksambandsins, og var kjöri hans í það embætti almennt fagnað. Í því sambandi höfðu stjórnvöld og Alþingi góð orð um að veita Friðrik Ólafssyni þá fjárhagsaðstoð sem þyrfti til þess að hann gæti gegnt þessu umsvifamikla starfi sínu, sem er ekki aðeins traust við hann persónulega, heldur tvímælalaust til mikils álits og vegsauka fyrir íslenskt skáklíf og íslensku þjóðina. Ljóst er að framlagið, sem lagt er til í fjárlagafrv., að upphæð 8 millj. kr., nægir hvergi nærri til þess að staðið verði við fyrirheitið við Friðrik Ólafsson af hálfi fjárveitingavaldsins. Til þess að forseti FIDE geti gegnt þeim störfum, sem hann hefur tekið við, hvattur til af íslensku þjóðinni og studdur af henni, er ekki aðeins nauðsynlegt, heldur óhjákvæmilegt að fjvn. taki það mál til betri skoðunar, en beiðni um framlag í þessu sambandi hljóðar upp á 22 millj. kr.

Þá þarf einnig að huga sérstaklega að framkvæmd samþykktar með aðild allra þingflokkanna um sérstaka aðstoð við Grænhöfðaeyjar í formi kaupa á fiskiskipi og útgerð þess þar næstu 18 mánuði, en málið hefur verið undirbúið af hálfu ríkisstj. og var lagt fyrir undirnefnd fjvn. og þingflokka til afgreiðslu og hafa þeir lýst samþykki við þá fyrirætlan, en einmitt nú í dag hefur endanlega verið gengið frá skipakaupum í þessu sambandi.

Þá er einnig mjög svo tímabært að taka nú á þessu þingi stefnumarkandi ákvörðun um framtíð Bændaskólans á Hólum, þ.e.a.s. með hvaða hætti uppbygging skuli fara fram á Hólastað, þannig að þar geti áfram verið gróskumikil fræðslu- og menntastarfsemi. Nýjar hugmyndir um uppbyggingu Hólastaðar hafa verið reifaðar, en þær eru fjárfrekar og þarfnast athugunar, en óhjákvæmilega verður að stefna að því að ákvörðun um framtíð staðarins verði tekin nú á þessu þingi.

Þá er einnig nauðsynlegt að fjalla nánar en gert hefur verið um svonefndan félagsmálapakka sjómanna. Enn skortir nokkuð á að þau atriði, sem þar hafa verið nefnd, hafi komið til framkvæmda, m.a. sökum þess að ekki hefur verið gert ráð fyrir fjárveitingum í því skyni.

Þá þarf einnig að skoða sérstaklega og betur en tími hefur unnist til ráðstöfun svonefnds jöfnunar- og aðlögunargjalds til iðnaðarins, þ. á m. um notkun og greiðslu þessara gjalda iðnaðinum til eflingar. Í því sambandi má sérstaklega benda á ráðstöfun sem ríkisstj. ákvað að tillögu iðnrh. í nóv. s.l. Frekari ákvarðanir í þeim efnum bíða hins vegar meðferðar fjvn. og ákvarðana nýrrar ríkisstj.

Þess er vænst, að þessi atriði, auk ýmissa annarra, verði skoðuð sérstaklega í fjvn. í samvinnu við fjmrn. og væntanlega ríkisstj.

Þá er einnig ástæða til að benda á, að í frv. er bryddað á nýmæli í meðferð fjárlagabeiðna. Í 25. gr. laga nr. 13 frá 1979, um stjórn efnahagsmála o.fl., segir: „Til stuðnings áætlanagerðar um atvinnuvegina skal efla rannsóknarstarfsemi í þeirra þágu með hliðsjón af langtímaáætlun Rannsóknaráðs ríkisins um það efni, eins og hún verður staðfest af stjórnvöldum.“ Á s.l. ári fjallaði fjvn. Alþingis allnokkuð um þá langtímaáætlun sem fyrir lá.

Sem skref í átt að því marki, sem langtímaáætlun felur í sér, var leitast við að gera tvennt: Annars vegar að gefa forstöðumönnum rannsóknarstofnana kost á að raða verkefnum frjálsar innan tiltekins fjárlagaramma en verið hefur. Hins vegar að kanna möguleika á auknum sértekjum stofnunum til handa. Var þá haft í huga að stofnanir gætu eflst við að fá verkefni sem gæfu af sér nægar tekjur til að standa straum af kostnaði þeim samfara. Tekið er skýrt fram að starfsmenn, sem að slíkum verkefnum eru ráðnir, verði aðeins ráðnir til að leysa tímabundin verkefni. Sá háttur, sem hér er hafður á fjárveitingum, er tilraun til að sveigja fjárveitingar ríkisins meira en nú er gert inn á braut málefnaflokka og auka þannig yfirsýn fjárveitingavaldsins á útgjaldaþróun til helstu málaflokka ríkisins.

Önnur rekstrargjöld eru áætluð 19 968 millj. kr. og er það 42.5% hækkun frá fjárlögum. Stafar þetta einfaldlega af verðhækkun milli ára.

Útgjöld vegna viðhalds eru áætluð 8119 millj. kr., og er það 53.8% hækkun frá fjárlögum 1979.Almennar forsendur um hækkun vísitölu byggingarkostnaðar frá meðaltali 1979 til 1980 eru 37%. Þá ber að hafa í huga að um 71% alls viðhalds er vegna viðhalds vega, en til viðhalds vega renna alls 5870 millj. kr. og er það hækkun um 58.6%. Annað viðhald í ríkisrekstrinum en vegaviðhald nemur alls 2249 millj. kr. og eykst um sem svarar 4% að raungildi. Í frv. hefur verið leitast við eftir föngum að auka viðhald þar sem fasteignir liggja undir skemmdum vegna skorts á viðhaldi utanhúss. Samkvæmt lögum nr. 57 frá 1978, um heilbrigðisþjónustu, skal ríkissjóður greiða 50% viðhaldskostnaðar sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva. Til þessa verkefnis renna 600 millj. kr. Á árinu 1979 var viðhald greitt sem hluti af daggjöldum með 85% þátttöku ríkissjóðs. Verður að taka afstöðu til þess, hvernig best verði staðið að þátttöku ríkissjóðs í viðhaldi sjúkrastofnana þannig að framkvæmd stangist ekki á við lög og valdi ríkissjóði auknum útgjöldum sem hvergi er áætlað fyrir. Af öðrum stórum viðhaldsliðum má nefna, að til viðhalds á ríkisspítölum renna alls 670 millj. kr. og Landhelgisgæslu 247 millj. kr.

Vaxtakostnaður af almennum lánum ríkissjóðs er áætlaður 15 497 millj. kr. Er þar um 8553 millj. kr. hækkun að ræða.

Framlög til almannatrygginga nema alls 82 544 millj. kr. og er það hækkun um 34 641 millj. kr. eða 72.3%. Framlög til lífeyristrygginga nema alls 40 178 millj. kr. og hækka um 61.4%. Þessi mikla hækkun er vegna þess að lífeyrisbætur eru áætlaðar á verðlagi 1980 í samræmi við meginforsendur frv. um þróun launamála. Athygli er vakin á að tillag til varasjóðs lífeyristrygginganna hækkar um 92 millj. kr. frá fjárlögum, en samkvæmt 21. gr. almannatryggingalaga má gera ráð fyrir tillagi allt að 2% af áætluðum útgjöldum. Ástæða þess, að gert er ráð fyrir að varasjóðstillagið verði einungis 1% af áætluðum útgjöldum, er að frv. þetta byggir á þeirri forsendu, að lög og reglur um greiðslur barnsmeðlaga verði endurskoðaðar fyrir afgreiðslu fjárlaga. Sá háttur er nú á, að Tryggingastofnun ríkisins leggur út fyrir meðlögum, en fær þau endurgreidd af Innheimtustofnun sveitarfélaga, allt eftir því sem þau innheimtast. Í árslok 1978 námu skuldir sveitarfélaga vegna þessa um 1860 millj. kr. og í árslok 1979 er útlit fyrir að þessi skuld nemi um 2500 millj. kr. Náist ekki fram breyting á tilhögun þessara greiðslna, er óhjákvæmilegt að reikna Tryggingastofnun ríkisins vexti af útistandandi skuldum sveitarfélaga við stofnunina. Framlög ríkissjóðs til sjúkratrygginga hækka um 20 040 milljónir króna, eða 93.7%. Allir útgjaldaliðir sjúkratrygginga eru áætlaðar á verðlagi 1980 miðað við almennar forsendur frv. Nokkrir þættir skýra verulega hækkun framlaga til sjúkratrygginga. Þess skal getið, að í frv. er ekki áætlað fyrir viðhaldi í sjúkrahúsum sem hluta af vistgjöldum vegna ákvæða sem ég nefndi áður. Áætlun frv. miðast við það, að þátttaka sjúklinga í lyfjakostnaði og kostnaði við sérfræðiþjónustu aukist hlutfallslega eins og útgjöld sjúkrasamlaga vegna þessa.

Niðurgreiðslur á vöruverði innanland og framlag til Lífeyrissjóðs bænda er áætlað alls 20 980 millj. kr., þar af eru beinar niðurgreiðslur 19 790 millj. kr. Framlag til niðurgreiðslna er við það miðað, að núverandi niðurgreiðslustig haldist óbreytt. Lætur nærri að fjárframlög til niðurgreiðslna jafngildi um 6.5 stigum í verðbótavísitölu í dag.

Útflutningsbætur landbúnaðarins eru áætlaðar 6500 millj. kr. Miðað við fullnýtingu verðábyrgðar ríkissjóðs samkvæmt gildandi lögum næmi framlag ríkissjóðs alls 7600 millj. kr. samkvæmt frv. Þetta frv. miðast við að lögum um hámarksverð ábyrgðar verði breytt þannig að á árinu 1980 nemi framlag ríkissjóðs vegna verðábyrgðar sem svarar 8.5% framleiðsluverðmætis landbúnaðarafurða í stað 10%. Aðrar leiðir en bein lækkun á ábyrgðinni koma til greina í þessu sambandi, t.d. sú leið að miða verðábyrgð við framleiðsluverðmæti hvorrar búgreinar um sig, nautgriparæktar og sauðfjárræktar. Ég hef beðið Hagstofu Íslands og landbrn. að skoða það mál sérstaklega og gera tillögur til fjmrn. um aðrar viðmiðanir, svo sem þá sem ég nú nefndi.

Aðrar neyslu- og rekstrartilfærslur hækka um 7648 millj. kr., eða um 52.1%. Hækkunin er nokkru meiri en eðlilegar launa- og verðlagshækkanir. Veldur þar umfram annað að framlög til Lánasjóðs ísl. námsmanna og verðjöfnunargjald af raforku hækka yfir 100%.

Framkvæmdaframlög hækka í heild um 14 530 millj. kr. — er það 37.7% hækkun frá fjárlögum — og nema alls 52 977 millj. kr. Hækkun framlaga til hreinna ríkisframkvæmda er 5325 millj. kr., eða 48.1%, þar af 3934 millj. kr. vegna vegagerðar. Hækkun annarra ríkisframkvæmda er því 1391 millj. kr. Framkvæmdir kostaðar af ríki og fleiri aðilum aukast um 2312 millj. kr., eða um 26.5%. í hækkuninni vega þyngst framlög til grunnskóla og sjúkrahúsa og nemur hækkun þeirra liða 844 millj. kr., en annarra liða um 1468 millj. kr. Samtals hækka því framlög til verklegra framkvæmda um 7637 millj. kr., eða um 38.6%.

Miðað við verðlagsforsendur frv., þ.e. 37% hækkun verðlags milli áranna 1979 og 1980, er magnaukning í verklegum framkvæmdum um 1.2%, en að vegagerð frátalinni er um 7.9% magnminnkun að ræða. Á liðnum fjárfestingarstyrkir til sveitarfélaga verður 410 millj. kr. hækkun, eða 32.7%, og er sú hækkun vegna framlaga til vegamáta, þ.e.a.s. í kaupstöðum og kauptúnum. Aðrir liðir þessa flokks hækka ekki. Framlag í formi styrkja til einstaklinga og samtaka lækkar um 171 millj. kr., og skýrist sú lækkun í megindráttum af því, að framlög til Styrktarsjóðs fatlaðra og Styrktarsjóðs vangefinna hafa verið felld niður, en verkefni þessara sjóða falla nú undir Framkvæmdasjóð öryrkja og þroskaheftra. Framlög til fjárfestingarlánasjóða hækka um 5551 millj. kr., eða um 47.7%, og er þá fylgt þeirri stefnu, að framlög til allra veigamestu fjárfestingarlánasjóðanna verði skert um 15%.

Tvö ný verkefni teljast til þessa flokks, þ.e. framlag til Framkvæmdasjóðs öryrkja og þroskaheftra, alls 1020 millj. kr., og 300 millj. kr., sem eru hluti af aðlögunargjaldi og renna til iðnaðaruppbyggingar. Framlög til lánagreiðslna og endurlána hækka um 1104 millj. kr., eða um 20.3%. Hækkunin er í megindráttum vegna aukinna fjármagnsútgjalda vegna Kröfluvirkjunar um 1520 millj. kr. Á móti þessu er nú ekkert framlag til Orkusjóðs vegna lánveitinga til hitaveituframkvæmda né jarðhitaleitar, en það nam 780 millj. kr. í fjárlögum 1979. Fjár til þessara verkefna er aflað með lántökum, eins og fram kemur í greinargerð um lánsfjáröflun ríkissjóðs. Framlög til annarra lánagreiðslna hækka því um 364 millj. kr., og hækkuninni veldur umfram annað vísitölu- og gengisbreyting frá fjárlögum 1979, auk framlags til iðnþróunar, 200 millj. kr., sem er ráðstöfun hluta aðlögunargjaldsins.

Um skattamál almennt get ég að þessu sinni verið fáorður, þar sem það verður verkefni næstu ríkisstjórnar um að fjalla. Örfá orð vildi ég þó segja í því sambandi.

Í fyrsta lagi komu til framkvæmda nú um áramótin ný lög um tekju- og eignarskatt, eins og menn vita, og er Alþingi enn að fjalla um hluta af því máli. Verður fastlega að vona að Alþingi afgreiði á allra næstu dögum frv. það um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt sem ég lagði fram nokkru fyrir jólin, ella mun til stórvandræða horfa og vafasamt að hægt verði að koma fram skattlagningu á fyrirtæki. Lögin nr. 40 frá 1978, sem komu til framkvæmda um s.l. áramót, hafa í för með sér margvísleg nýmæli og margt af þeim nýmælum er með þeim hætti, að ómögulegt er að segja fyrir um hver reynslan af þeim verður. Þeir, sem að hafa staðið, hafa þó reynt eftir föngum að sníða af lögunum alla þá annmarka sem framast er hægt að sjá fyrir, og er frv., sem nú er til meðferðar í Alþingi og ég ræddu áðan, veigamikill þáttur í því. Hins vegar er ljóst, að menn verða að búa sig undir að gera þurfi enn frekari breytingar á lögunum á næsta ári, þegar nokkur reynsla er fengin af framkvæmdinni, og eins munu þeir, sem með framkvæmd skattalaganna fara, eiga fullt í fangi með að framkvæma hið nýja tekjuskattskerfi.

Enda þótt ljóst sé að þær veigamiklu breytingar, sem gerðar voru á tekju- og eignarsköttum með lögum nr. 40 frá 1978, muni vera yfrið nóg verkefni fyrir skattyfirvöld fyrsta kastið, á meðan nýmæli laganna eru að festast í sessi, þá er engu að síður ljóst, að nauðsynlegt er að stefna að frekari kerfisbreytingum í skattamálum. Í því sambandi hafa menn einkum rætt um tvær breytingar:

Í fyrsta lagi að hverfa frá heimtu söluskatts á síðasta stigi viðskipta yfir í virðisaukaskatt. Gallar söluskattskerfisins eru orðnir mjög augljósir. Undanþágur eru margar, kerfið götótt og erfitt um eftirlit með því. Þó ekki væri nema vegna þeirra ástæðna er orðið nauðsynlegt að framkvæma kerfisbreytingu á innheimtu þessa mikilvæga óbeina skatts, og hefur virðisaukaskattur, eins og ég áðan sagði, oftast verið nefndur. Hins vegar hefur aldrei á Alþingi komið fram, hvort þingvilji er fyrir því að undirbúa þá kerfisbreytingu frekar. Sá undirbúningur tekur óhjákvæmilega nokkurn tíma, minnst tvö eða jafnvel þrjú ár, og er því nauðsynlegt fyrir skattyfirvöld og alla þá sem með skattamál fara, að eitthvað sé vitað um áhuga alþingismanna á slíkri kerfisbreytingu áður en hafist er handa. Mætavel má skipta þeirri ákvörðun í tvo ákvörðunarþætti. Mætti hugsa sér að Alþingi ákvarðaði fyrst að hafin skyldi gerð frv. um virðisaukaskatt, þar sem í fyrsta sinn yrði sýnt í fullgerðu frv. hvernig sá skattur mundi verka við íslenskar aðstæður, og aðilum í þjóðfélaginu, sem hagsmuna eiga að gæta, síðan gefinn kostur á að fjalla um málið í þeirri mynd. Alþingi tæki svo endanlega ákvörðun um kerfisbreytingu þegar frv. yrði lagt fyrir þingið.

Í samræmi við þetta hefur ríkisstj. lagt fram á Alþingi till. til þál. um virðisaukaskatt í stað söluskatts á síðasta stigi viðskipta. Í tillögunni felst að þingið marki þá stefnu, að raunverulegur undirbúningur að skattkerfisbreytingunni verði hafinn með samningu frv. um virðisaukaskatt í stað söluskatts á síðasta stigi viðskipta og frv. síðan lagt fyrir Alþingi næsta haust. Ef Alþingi sýndist svo, eftir að hafa séð frv. og fengið um það umsagnir aðila, að rétt væri að afgreiða það, hefði Alþingi þannig allan næsta vetur til þess að fjalla um málið. Verði frv. samþykkt getur skattkerfisbreytingin komið til framkvæmda um áramótin 1981–1982.

Síðari kerfisbreytingin, sem mjög hefur verið um rætt, er staðgreiðsla skatta. Væri athugandi hvort hægt væri að vinna það mál með líkum hætti og hér hefur verið gerð grein fyrir.

Eins og ég hef áður sagt gerir fjárlagafrv. ráð fyrir því að áætlun um tekjuskatt einstaklinga verði lækkuð um 7.2 milljarða kr. frá fjárlagafrv. því sem lagt var fyrir 101. löggjafarþing. Framkvæmd þess máls ræðst við ákvörðun skattstiga og skattvísitölu. Ákvörðun um þetta er að sjálfsögðu pólitískt mál, sem ræðst af því hvort meirihlutavilji er fyrir slíkri ráðstöfun á Alþingi.

Um skeið hefur núverandi ríkisstj. unnið að undirbúningi þessa máls, enda ber henni skylda til þess, jafnframt því sem hún leggur fram áætlun um lækkun tekjuskatts í fjárlagafrv., að sýna fram á hvernig hún hyggst framkvæma þá tekjuskattslækkun. Það verður svo að ráðast, hvort Alþingi fæst til að afgreiða málið í líkum dúr og ríkisstj. leggur það fram. Unnið hefur verið að samningu frv. um skattstiga með það fyrir augum að framkvæma tekjuskattslækkunina þannig að hún komi lágtekjufólki og lægra meðaltekjufólki að sem mestum notum. Þetta frv. hefur, eins og ég áður sagði, verið í smíðum í fjmrn., og hefur með vilja verið dregið að leggja það fram, þar sem reynt hefur verið að láta reyna á það fyrst, hvort frv. til leiðréttingar á lögum nr. 40 frá 1978 næði ekki fram að ganga, og hið pólitíska deilumál um ákvörðun skattstiga yrði þá ekki til þess að tefja það frv. Hins vegar liggur nú ljóst fyrir, að ekki hefur enn tekist að afgreiða frv. um breytingu á lögum nr. 40 frá 1978, sem ég lagði fram fyrir jólin. Tafir á því hafa orðið miklar, því miður, og er ekki um annað að ræða en fá að fjalla um bæði málin í einu. Því hefur ríkisstj. tekið þá ákvörðun að leggja nú í dag fram á Alþingi frv. það, sem legið hefur tilbúið í fjmrn. um allnokkurt skeið, um ákvörðun skattstiga, þar sem stefnt er að því að gerðar verði mjög verulegar breytingar frá þeim hugyndum sem menn áður höfðu um þau mál, m.a. í þá átt að ýmsir lágtekjuhópar, eins og einstæð foreldri, fái leiðréttingu sinna mála. Með þeirri framkvæmd, sem fyrirhuguð var í lögum nr. 40 frá 1978, hefðu skattalegar aðstæður þessa hóps versnað allverulega, og enn fremur miðað við þær álagningarhugmyndir sem menn höfðu í frv. fyrrv. fjmrh.

Frv. um skattstiga er lagt fram sem fyrri áfangi af tveimur nokkuð jafnstórum í þá átt að fella algjörlega niður tekjuskatt af almennum launatekjum. Í grg. frv. kemur fram, að ráðgert er að síðara skrefið verði stigið á næsta ári, og eins og fram kemur í grg. frv. yrði þá fjölskylda tekjuskattslaus miðað við meðaltekjur og þá skiptingu tekna milli hjóna og þann frádrátt sem ætla má eftir nýjustu úrtökum að gefi nokkuð rétta mynd af aflafé meðallaunamannafjölskyldu í þessu landi. Þar er stuðst við úrtök sem tekin er úr tuttugasta hverju skattframtali á árinu 1978 og þau færð upp til tekna á árinu 1979. Með þessari breytingu væri tekjuskattur því afnuminn af almennum launatekjum skv. þessari úrtaksskilgreiningu í tveimur áföngum á þessu ári og því næsta.

Eins og segir í aths. með fjárlagafrv. felast í því tillögur um fjárfestingar- og lánsfjármál að því marki er beinlínis tilheyra A- og B-hluta fjárlaganna, en þess var ekki kostur, að fjárfestingar- og lánsfjáráætlun í heild fylgdi frv. Það hlýtur að vera verkefni nýrrar ríkisstj. að móta gerð þeirrar áætlunar og leggja fyrir þingið, enda hvílir ekki sú stjórnskipulega skylda á ríkisstj. að leggja fram slíka áætlun í upphafi þings, eins og á við um fjárlagafrv. sjálft.

Núv. ríkisstj. hefur engu að síður haldið áfram vinnu við gerð lánsfjáráætlunar sem hafin var af fyrrv. ríkisstj.ríkisstj., sem við tekur, ætti þannig ekki að þurfa langan tíma til þess að taka ákvarðanir um endanlega gerð fjárfestingar- og lánsfjáráætlunar.

Þegar núv. ríkisstj. tók við völdum var vinna við gerð fjárfestingar- og lánsfjáráætlunar fyrir árið 1980 skammt á veg komin. Samkvæmt þeim frumdrögum, sem ekki höfðu hlotið neina afgreiðslu, stefndi í 85–90 milljarða króna lántökur erlendis á árinu, en það er mun meiri erlend lántaka en óhætt og eðlilegt getur talist. Með tilliti til greiðslujafnaðar við útlönd er erlend lántökuþörf um 65 milljarðar króna á árinu 1980. Að áliti Seðlabankans virtist ekki veruleg ástæða til þess að auka lántökur erlendis umfram þetta til að bæta gjaldeyrisstöðuna frá því sem hún var um s.l. áramót. Framreiknaðar lántökur ársins 1979 samkvæmt áætluðu verðlagi 1980 nema 69 milljörðum kr. og allt fram yfir það er hrein aukning erlendrar lántöku umfram lántökur s.l. árs. Eins og sakir standa eru erlendar skuldir og greiðslubyrði þjóðarbúsins mjög þungar. Af ýmsum ástæðum er mjög varhugavert að auka skuldasetningu og greiðslubyrði meira en orðið er. Aukin greiðslubyrði og meiri skuldasetning hefur fljótlega óhagstæð áhrif á þau lánskjör sem í boði eru ytra, og samanburður, sem gerður hefur verið af hálfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, leiðir í ljós, að Ísland stóð árið 1976 næsthæst Vestur-Evrópulanda, bæði á mælikvarða skuldsetningar og greiðslubyrðar. Enda þótt slíkur samanburður kalli á nánari skýringar gefur hann enn frekara tilefni til þess að staldra við. Aukning skulda og lánagreiðslna umfram vöxt útflutningstekna er vart réttlætanleg nema sýnt verði fram á að slíkt leiði til meiri hagvaxtar og gjaldeyrisöflunar en næst með innlendum sparnaði. Reynslan af gerð fjárfestingar- og lánsfjáráætlunar undanfarin ár hefur sýnt að nauðsynlegt er að ríkisstj. setji sér ákveðin mörk erlendrar lántöku. Að öðrum kosti er ekki um neina fasta viðstöðu að ræða gegn þrýstingi og kröfugerðum. Að vísu hefur í framkvæmd ekki verið haldið fast við þau mörk sem sett hafa verið með samþykktri lánsfjáráætlun og þyrfti að standa til bóta.

Ég tel að ekki sé óhætt að stefna að því, að erlendar lántökur verði umfram 70 milljarða kr. á árinu 1980, og er þá miðað við forsendur þjóðhagsspár um framvindu verðlags og gengis. Sé gert ráð fyrir 70 milljarða lántöku erlendis 1980 verður ferill síðustu þriggja ára sem hér segir: Erlendar lántökur árið 1978 námu 35 876 millj. kr., erlendar lántökur árið 1979 námu 52 000 millj. kr., og var það 44.9% aukning frá árinu áður. Við erlendar lántökur árið 1980, miðað við áætlun um 70 milljarða kr., yrði 34.6% aukning frá árinu 1979. Á tveimur árum yrði þannig um nánast tvöföldun að ræða í erlendum lántökum, sem fellur mjög illa að áformum um að draga verulega úr verðbólgu, þar sem erlendar lántökur umfram gjaldeyrisþörf munu óhjákvæmilega hafa í för með sér aukna þenslu og aukna verðbólgu, ef menn þá hafa áannað borð nokkurn áhuga á því að takast á við slík vandamál. Er jafnvel örðugt að verja 70 milljarða kr. erlenda lántöku út frá þessu viðhorfi.

Þá ber þess einnig að geta, að með framhaldi jákvæðrar raunvaxtastefnu má gera ráð fyrir aukningu innlends sparnaðar. Í áætlunum Seðlabankans hefur raunar sýnt sig, að sú jákvæða vaxtastefna, sem rekin hefur verið á umliðnum mánuðum, hefur leitt til talsverðrar rýmkunar á hinum innlenda lántökumarkaði umfram það sem áður var ráð fyrir gert. Til þess að tryggja jafnvægi á gjaldeyris- og fjárfestingarmarkaði þarf að láta innlendan sparnað koma í viðeigandi mæli í staðinn fyrir erlendar lántökur.

Mjög varhugavert er, ef menn hafa í huga að ná verðbólgu verulega niður, að gera ráð fyrir að allur sá umframsparnaðar fari í aukna fjárfestingu. Miklu nær er að mæta jákvæðri þróun á lánamarkaðinum innanlands með því að færa áætlun um erlendar lántökur niður og gera ráð fyrir að áætlaðar framkvæmdir verði í auknum mæli kostaðar af innlendu fé.

Löng erlend lán námu um 320 milljörðum kr. í árslok 1979, eða um 1.4 millj. kr. á hvert mannsbarn í landinu. Fært til meðalgengis ársins svarar þetta til 34.6% af þjóðarframleiðslu. Þetta er nokkru hærra en árið 1978, en er að vísu enn bráðabirgðatala. Þar sem Ísland er með einna hæsta skuldahlutfall þróaðra landa, hlýtur að vera keppikefli að halda því í skefjum með því að takmarka lántökur.

Svipuðu máli gegnir um greiðslubyrði af útflutningstekjum. Hún reyndist vera 13.4% samkvæmt bráðabrigðatölum 1979, eða litlu hærri en árið áður. Búist er við hækkun hennar fram til 1983 upp í um 17%, nema sérlega vel takist til um útflutningsaukningu, en þessa aukningu má takmarka með því að hamla á móti erlendum lántökum.

Ríkisstj. hefur samþykkt að tillögu minni, að í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun skuli við það miðað að erlendar lántökur fari ekki fram úr u.þ.b. 70 milljörðum kr. Drög að fjárfestingar- og lánsfjáráætlun liggja nú fyrir og hafa þau verið gerð út frá þessari samþykkt ríkisstj. Verður það svo að sjálfsögðu á valdi komandi ríkisstj., hvort hún fellst á þá stefnumörkun, sem í drögunum felst, eða kýs að gera þar breytingu á.

Herra forseti. Ég hef rakið þau efnisatriði ríkisfjármála á árinu 1979 og áætlunar fjárlagafrv. fyrir árið 1980 sem mér þótti ástæða til þess að nefna, og er því ræða mín meira í skýrsluformi en í formi hefðbundinnar fjárlagaræðu. Ég hef reynt eftir mætti að forðast að hefja almennar eldhúsdagsumræður um stefnu í ríkisfjármálum og efnahagsmálum atmennt, enda tel ég að slíkar umræður séu ekki tímabærar nú og alls ekki hlutverk mitt né núv. ríkisstj. að gefa tilefni til slíkrar umræðu. Ég vona aðeins að mér hafi tekist að gera nokkra grein fyrir hreinum og ótvíræðum efnisatriðum þeirra málaflokka sem ég hef kosið mér að umræðuefni, en er að sjálfsögðu reiðubúinn til að svara frekari spurningum þar um ef mönnum þykir ástæða til.

Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjvn.