11.02.1980
Sameinað þing: 23. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 713 í B-deild Alþingistíðinda. (789)

Tilkynning frá ríkisstjórninni

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Þegar Alþfl. tók þá ákvörðun í septembermánuði s.l. að hætta stuðningi við þá ríkisstj., sem flokkurinn hafði þá um nokkurra mánaða skeið verið aðili að, voru ástæðurnar tvær. Sú fyrri lá í augum uppi, sem sé sú, að ríkisstj. hafði engum árangri náð í því meginviðfangsefni sínu að ná stjórn á efnahagsmálunum í þessu landi. Hin ástæðan kom síðar í ljós, í kosningabaráttunni og í áframhaldi kosningabaráttunnar. Hún var sú, að milli stjórnarflokkanna var engin samstaða til um úrræði. Þeir sátu á rökstólum í næstum því tvo mánuði upp á hvern einasta dag að kosningunum loknum til þess að reyna að ná höndum saman um úrræði á grundvelli samstarfsins í fyrrv. ríkisstj. Og hafi einhver efast, þá áttu menn ekki að þurfa að gera það eftir að vera búnir að horfa á þessa þrjá flokka í tvo heila mánuði reyna að ná höndum saman án árangurs.

Þegar við Alþfl.-menn tókum þá ákvörðun í septembermánuði s.l. að hverfa frá stuðningi við þá ríkisstj., sem við höfum verið í um nokkurra mánaða skeið, á þessum grundvelli, að hún náði engum árangri og þar var engin samstaða, þá þýddi sú. ákvörðun okkar að sjálfsögðu að við mundum ekki að kosningum loknum taka aftur þátt í slíkum leik. Og það voru fleiri en við sem voru þeirrar skoðunar. Bæði framsóknarmenn og Alþb.menn tóku þráfaldlega fram, að það, sem nú þyrfti að gera, væri að hnýta alla enda fasta í málefnasáttmála. Menn geta svo velt því fyrir sér, hversu fast hnútarnir eru hnýttir í því lausgyrðisverki sem lagt hefur verið fram og kallað málefnasáttmáli af þeirri ríkisstj. sem nú hefur tekið við völdum.

En það var ekki aðeins eftir kosningarnar í desembermánuði að erfitt væri að mynda ríkisstj. vegna þess, hve skoðanir manna voru skiptar, heldur tóku ýmsir stjórnmálaforingjar upp þann hátt að gefa yfirlýsingar út og suður af engu tilefni um þá menn og þá flokka sem þeir voru að ræða við hverju sinni, eins og litlir krakkar í sandkassa: Þessum vil ég vinna með, þessum vil ég ekki vinna með. — Auðvitað hafði þetta sín áhrif til þess að draga stjórnarmyndunarviðræðurnar á langinn.

Alþfl. hafði enga slíka fordóma uppi. Við vorum reiðubúnir til að ræða við alla stjórnmálaflokka og alla forustumenn þeirra án undantekninga. En við vorum ekki reiðubúnir til þess að endurtaka leikinn frá haustinu 1978: að fara inn í ríkisstj. upp á von og óvon, án þess að fyrir lægi hvað sú ríkisstj. ætlaði sér að gera og hvernig hún ætlaði að ná árangri. Tvívegis lögðum við Alþfl.menn fram okkar tillögur í þessum viðræðum. Eins og alkunna er tókst ekki að ná samkomulagi flokka á grundvelli þeirra og við því er að sjálfsögðu ekkert að segja.

Um tilorðningu núv. hæstv. ríkisstj. er best að hafa sem fæst orð, en án efa hefur það, sem varð til þess að hún varð mynduð og var búið að vaka á bak við í stjórnarmyndunarviðræðunum frá því í desembermánuði s.l., haft sitt að segja um það, hversu seint þessar viðræður gengu. Líklegt er að þeir atburðir eigi eftir að draga á eftir sér nokkurn dilk í samskiptum manna hér í þinginu, en ég býst þó við að við Alþfl.- menn komum þar hvergi nærri.

Hitt er svo aftur á móti annað mál, að þeir atburðir, sem gerst hafa í Sjálfstfl., hafa átt nokkurn aðdraganda. Ástandið í þeim flokki hefur nokkuð lengi verið með þeim hætti sem nú hefur brotist út. Morgunblaðið boðaði raunar samstarf af þessu lagi í skrifum sínum fyrst eftir kosningarnar, og ýmsar.tilraunir voru gerðar til þess að ná fram því samstarfi sem nú hefur orðið að veruleika, þó svo að þær tilraunir hafi verið með nokkuð öðrum hætti en sú tilraun sem lokaárangurinn bar. En það er best að hafa sem fæst orð um þessi mál, þau koma okkur Alþfl. mönnum ekkert við. Hitt verður sjálfsagt lærdómsríkt að sjá, þegar kemur nú að því að eigi að fara að afgreiða hér fjárlög, — sem byggð verða væntanlega, eins og ríkisstj. hefur tekið fram, á fjárlagafrv. hæstv. núv. viðskrh., Tómasar Árnasonar, — hvernig þeir menn úr Sjálfstfl., sem standa að myndun þessarar ríkisstj. og annaðhvort sitja í ráðherrasætum í henni eða í sætum óbreyttra þingmanna, ætla nú að bregðast við þegar kemur að því að afgreiða þurfi þau skattalög fyrrv. ríkisstj. sem eru forsenda þess, að fjárlagafrv., sem lagt var fram á 101. löggjafarþinginu, fái staðist. Það verður forvitnilegt að sjá t.d. þá hv. þm. Albert Guðmundsson og Eggert Haukdal taka afstöðu til þeirra mála, svo að maður tali ekki um þegar þeir hv. þm. þurfa að fara að taka afstöðu til þess þegar lagt verður hér fram á Alþ. frv. um nýjan skattstiga þannig frábrugðið frv. því sem ég lagði fram fyrir tveimur dögum, að gert sé ráð fyrir í því frv. að taka í tekjuskatt af almenningi 7.2 milljarða umfram það sem það frv. gerir ráð fyrir sem liggur nú fyrir þinginu. Þá verður forvitnilegt að sjá hver verða viðbrögð þessara hv. tveggja þm. og raunar einnig annarra þm. úr Sjálfstfl. sem sitja í þessari ríkisstjórn.

Alþfl. hefur enn ekkert ályktað formlega um afstöðu sína til ríkisstj. Við Alþfl.-menn höfum að sjálfsögðu skoðað málefnasamning hennar. Þar er vissulega ýmislegt jákvætt og margt í þessum málefnasamningi, sem við getum vel hugsað okkur að styðja. Þetta er málefnasamningur um góðan vilja ýmissa mætra manna. En reynslan hefur bara sýnt fram á þá einföldu staðreynd, að í þessu sambandi gjörir góður vilji enga stoð. Ef ekki tekst samstaða í ríkisstj. og ekki er geta í ríkisstj. til þess að takast á við þau vandamál, hverra farsæl lausn er forsenda þess að hinn góði vilji nái fram að ganga, þá gerir sá góði vilji enga stoð, vegna þess að þá fer allt öfugt við það sem ætlað er af góðviljuðum mönnum í málefnasamningi.

Þetta er auðvitað það alvarlegasta í sambandi við þennan málefnasamning og þessa ríkisstj. Það hafa allar ríkisstj., sem tekið hafa víðvöldum á Íslandi, ætlað að láta gott af sér leiða. En undanförnum ríkisstj. hefur ekki tekist að fá sínum góða vilja framgengt vegna þess að þær hafa ekki ráðið við þau vandamál, hverra lausn er forsenda þess að hægt sé að skila af sér góðum verkum. Og þessi ríkisstj. sem nú hefur tekið við völdum, miðað við málefnasamning hennar, eins og hún hefur lagt hann fram, mun feta í fótspor annarra ríkisstj. að þessu leyti. Án efa verður vegferð hennar svipuð. Hún mun í tilraunum sínum til þess að leysa ákveðin vandamál búa til önnur, svo sem í ríkisfjármálum, í peningamálum og í viðskiptunum við útlönd, sem munu reynast svo örðug henni eins og öðrum ríkisstj. að hún mun ekki geta áorkað neinu því til góðs sem þessi ríkisstj. gjarnan vill.

Það er mjög mikilvægt fyrir hverja ríkisstj. og fyrir þjóðfélagið í heild að skilningur milli samtaka launþega og þeirrar ríkisstj. sem fer með völdin í landinu hverju sinni, þannig að gagnkvæmt traust geti ríkt milli verkalýðs og valdhafa og friður á vinnumarkaði. Þetta er mjög mikilvægt atriði, því jafnvægi verður ekki náð í efnahagsmálum þjóðarinnar nema jafnvægisstefnu sé fylgt í launamálum. Svo miklum sköpum skipta launamál í efnahagslífi okkar, hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Ég vil á þessari stundu engu spá um samskipti núv. hæstv. ríkisstj. við verkalýðshreyfinguna. Ég vona hins vegar að henni takist að ná góðu sambandi við samtök launafólks, því að vissulega er þjóðinni mikil þörf á að það takist. Hins vegar óttast ég, að þó svo að núv. ríkisstj. taki höndum saman við samtök launafólksins og verkalýðshreyfinguna og fái þessi samtök a.m.k. til þess að una því, að launafólk í þessu landi taki á sig allverulegar byrðar til þess að ná árangri í efnahagsmálum, þá óttast ég að þær fórnir launafólksins verði unnar fyrir gýg, vegna þess að ég fæ ekki betur séð af málefnasamningi hæstv. ríkisstj. en að ríkisstj. ætli sér ekki og geti ekki haldið jafnvægi í þeim málum sem hún hefur ein á valdi sínu.

Við skulum huga í þessu sambandi að reynslunni árið 1979. Þau eru fá árin á þessum áratug sem jafnmikið jafnvægi hefur ríkt í launamálum eins og það ár. Þá urðu almennar grunnkaupshækkanir aðeins 3%. Ríkisstj. tókst á árinu 1979 að ná samkomulagi við verkalýðshreyfinguna um jafnvægisstefnu í launamálum og talsverðar fórnir verkafólks, sem þurfti að færa í því sambandi. En það gjörði bara enga stoð, því að þrátt fyrir að samkomulag næðist við verkalýðshreyfinguna um jafnvægi í launamálum, þá ríkti slíkt jafnvægisleysi í öllum þeim þáttum efnahagslífsins sem ríkisstj. hafði ein á valdi sínu og þurfti ekki við neinn um að semja, að niðurstaðan varð 60% verðbólga þrátt fyrir jafnvægisstefnuna í launamálum. Ég óttast að sama sagan sé nú að endurtaka sig, — þó að hæstv. ríkisstj. nái samkomulagi við launþegahreyfinguna í landinu um jafnvægisstefnu í efnahagsmálum, sem ég vona að hún geri, þó svo að launafólkið vilji leggja það til sem framlag sitt í baráttuna fyrir jafnvægi í efnahagsbúskap þjóðarinnar að taka á sig nokkrar fórnir og þó svo að launþegahreyfingin samþykki þetta, þá verði árangurinn enginn, vegna þess að ég sé ekki betur en að ríkisstj. ætli sér að halda áfram á sömu braut og undanfarnar ríkisstj. hafa haldið. Hún ætlar sér ekki að fylgja sömu jafnvægisstefnu í sínum málum, þeim málum sem hún ein ræður yfir, og hún mun krefjast af verkalýðshreyfingunni að hún geri.

Það er sjálfsagt að gefa þessari hæstv. ríkisstj. tækifæri. Við Alþfl.-menn munum ekkí torvelda henni störfin með því að leggja að óþörfu steina í götu hennar. Við munum meta þau mál, sem þessi hæstv. ríkisstj. lætur frá sér fara, fordómalaust og taka til þeirra afstöðu eftir efnisatriðum hverju sinni, styðja þau mál ríkisstj. sem til heilla horfa, en berjast gegn hinum. Alþfl. mun verða að sjálfsögðu í stjórnarandstöðu gegn þessari ríkisstj. Sú andstaða verður afdráttarlaus og ákveðin, en hún verður líka sanngjörn og heiðarleg. Við Alþfl.-menn berum engan kvíðboga fyrir því að fara í stjórnarandstöðu gegn þessari ríkisstj., síður en svo. Ætli það séu ekki einhverjir ríkisstjórnarsinnar sem bera meiri kvíðboga fyrir slíku? Satt að segja erum við því hlutskipti okkar fegnir og munum að sjálfsögðu hafa þá forustu í þeirri stjórnarandstöðu sem eðlilegt er að við höfum sem heill, óskiptur og samstæður stjórnmálaflokkur. Hvort valdatími núv. ríkisstj. verður langur eða skammur skiptir í þessu sambandi litlu máli. Það er miklu þýðingarmeira fyrir þjóðina og framtíðarstöðuna í íslenskum stjórnmálum, að núv. ríkisstj, fái að lifa nógu lengi til þess að ná að falla afdráttarlaust á eigin verkum. Og þá ætla ég að taka mér í munn orð hæstv. forsrh.: „Þá verður veður til að skapa.“