11.02.1980
Sameinað þing: 23. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 725 í B-deild Alþingistíðinda. (795)

Tilkynning frá ríkisstjórninni

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Hv. þm. taldi að ég færi með rangt mál í þeim samanburði sem ég gerði á málefnasamningnum og tillögum hans meðan hann fór með umboð til stjórnarmyndunar. Ég undrast það. Ég er með fyrir framan mig það skjal sem okkur var afhent í þeim umr. sem hann stýrði, 2. jan. 1980. Ég skal út af fyrir sig ekki meta hvað var svo sett í fréttatilkynningu þegar tilraunin hafði mistekist. Ef það fer ekki saman er það af einhverjum ástæðum ákvörðun hv. þm. að setja í fréttatilkynninguna eitthvað annað. Ég kynnti mér það satt að segja ekki til hlítar.

Hér eru taldar upp í 2. lið heljarmargar ráðstafanir í félags- og skattamálum, beinar launabætur og fjölskyldubætur úr ríkissjóði, talið þar í lið a og lið b. Nefnd er sérstök hækkun ellilífeyris, í öðru lagi hækkun fjölskyldubóta, í þriðja lagi verðtryggð lífeyrisréttindi fyrir alla landsmenn og í fjórða lagi að tekjuskattur af almennum launatekjum verði lækkaður. Svo stendur hér fyrir neðan:

„Gert er ráð fyrir að heildarkostnaður þessara aðgerða nemi 25–30 milljörðum kr.“

Hér kemur hvergi fram að lækkun tekjuskatta eigi að bera 18 milljarða af þessu, enda hygg ég að með svo mikilli lækkun tekjuskatta séu felldir niður tekjuskattar af öllum almennum launatekjum en þeir ekki einungis lækkaðir.

Einnig er hér kafli um kjaramál sem nefnir hvergi að samráð skuli haft eða samstarf við aðila vinnumarkaðarins. Hér segir: „Miðað sé við að vísitölubætur séu felldar niður þann 1. mars og 1. júní n.k. Þar á eftir verði vísitölubætur greiddar í samræmi við núgildandi reglur á grundvelli vísitölu 100 þann 1. maí 1980“ o.s.frv. Ég hygg að ég þurfi ekki lengra að lesa. Ég vænti þess, að þm. hafi flestir lesið það. Þar er hvergi talað um að samstarf eða samráð skuli haft við aðila vinnumarkaðarins.

Sá samanburður, sem ég gerði áðan, er byggður á — þessum tillögum sem við ræddum á allmörgum fundum, og það er raunar það eina sem ég get byggt á í þessu sambandi. Ég get því ekki séð að neitt það, sem ég sagði áðan, sé rangt.