19.12.1979
Efri deild: 5. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 66 í B-deild Alþingistíðinda. (80)

16. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Rafmagnsveitur ríkisins hafa löngum átt við mikinn fjárhagsvanda að stríða. Þau fjárhagsvandræði stafa fyrst og fremst af því, að Rafmagnsveitum ríkisins hefur frá upphafi verið ætlað það hlutverk m.a. að kosta raflagnir og rafveitur, sem ólíklegt var eða útilokað að gætu borið sig, og þær hafa því haft með höndum verulegt félagslegt verkefni án þess að á sama tíma hafi verið séð um að ætla þeim tekjur beint frá ríkinu til þess að standa undir þeim kostnaði. Hvað eftir annað hefur því þurft að grípa til ráðstafana til að létta skulum af Rafmagnsveitum ríkisins, greiða beinlínis úr ríkissjóði til Rafmagnsveitnanna eða afla þeim nýrra tekjustofna.

Eins og hv. frsm. gat um, var árið 1965 tekinn upp sérstakur tekjustofn sem var í gildi í 9 ár, en vorið 1974 var augljóst að nauðsynlegt var að breyta þeim tekjustofni, m.a. til þess að afla meiri tekna til handa Rafmagnsveitunum. Þáv. iðnrh. lét semja frv. um verðjöfnunargjald í smásölu og var það lagt fyrir þingið vorið 1974, en náði þá ekki afgreiðslu, var flutt svo um sumarið 1974 að nýju af þeim sama hæstv. ráðh., og eftir stjórnarskiptin haustið 1974 féll það í hlut þess iðnrh., sem þá tók við, að flytja frv. og fá það lögfest. Síðan hefur þetta gjald verið framlengt á hverju ári því að frv. hefur verið ætlað að gilda aðeins um eitt ár í senn.

Það er auðvitað öllum ljóst og kemur fram í þessari sögu málsins, að menn hafa ekki viljað ákveða þetta gjald nema til eins árs í senn, að á því hafa verið og eru verulegir annmarkar. Í fyrsta lagi væri að margra — ég held flestra dómi æskilegra að afla Rafmagnsveitum ríkisins fjár með öðrum hætti en þessum, að leggja sérstakan skatt á alla rafmagnsnotendur. Í annan stað hefur þetta gjald sætt réttmætri gagnrýni vegna þess að það er hlutfallsgjald, viss prósenta, sem leggst á rafmagnsreikninga, og þýðir í framkvæmd að þeir, sem þurfa að búa við hæsta gjaldskrá fyrir rafmangsnotkun, verða um leið að borga mest í krónutölu í þetta gjald. Hins vegar hefur enn ekki tekist að leysa þessi vandamál þannig að annað kæmi í staðinn fyrir þetta gjald.

Á síðasta þingi var flutt frv. um að hækka gjaldið, sem þá hafði verið nokkur ár 13%, upp í 19%. Um þessa hækkun urðu miklar deilur. Ég ætla að menn hafi verið á einu máli um að óhjákvæmilegt væri að framlengja 13% gjaldið, en um þessa 6% viðbót varð ágreiningur. Við umr. í hv. Nd. lagði ég til að þessi hækkun yrði ekki samþykkt, heldur yrði sú upphæð sem þessi viðbót átti að skila, eða samsvarandi upphæð tekin beint inn í fjárlög, og lýsti því yfir fyrir hönd þm. Sjálfstfl. þá, að Sjálfstfl. væri reiðubúinn til að standa að lækkunartillögum um sömu upphæð á móti í fjárlögum. Þetta var 21. des. í fyrra, en þá voru fjárlög einmitt til meðferðar. Þessi till. náði ekki fram að ganga og stóðu mál nokkuð jafnt í Nd., en að lokum varð sú niðurstaðan, að hækkunin var samþykkt með litlum atkvæðamun.

Þegar þetta frv. liggur nú fyrir, um 19% gjald eða framlengingu þess, er að sjálfsögðu mikill vandi á höndum. Ljóst er að sú hugmynd, sem sett var fram fyrir ári um að taka tilsvarandi upphæð inn í fjárlög, er ekki raunhæf nú sem stendur a.m.k., þar sem fjárlög eru nú ekki til meðferðar eins og þá og verða ekki afgreidd fyrr en einhvern tíma á næsta ári. Ég tel því ekki rétt að flytja þá till. nú eins og sakir standa.

Í umsögn, sem iðnn. barst í morgun frá Sambandi ísl. rafveitna, er ítrekað að Sambandið andmælir þessu gjaldi og telur að leysa beri fjárhagsvanda Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða á annan hátt, m.a. með beinum framlögum úr ríkissjóði. M.a. er réttilega á það bent, að sú skipan getur í raun ekki staðist til lengdar að hið opinbera taki þannig í prósentugjöld af Rafmagnsveitunum samtals í kringum 40%, bæði verðjöfnunargjaldið, eins og það nú er, og söluskattinn. Þetta er of þung byrði á rafmagnsnotkunina í landinu og verður að vinda bráðan bug að því að reyna að finna aðrar leiðir.

Við umr. málsins á þingi fyrir réttu ári komst þáv. hæstv. iðnrh. svo að orði, að iðnrn. mundi beita sér fyrir athugun á tekjuöflun og fleiri þáttum hjá Rafmagnsveitum ríkisins og þá m.a. huga að þeim tekjustofni sem hér er mælt með að á verði lagður til loka þessa árs, þ.e. verðjöfnunargjaldinu. Að mínu mati, sagði hæstv, ráðh., þarf ríkissjóður að gera ráð fyrir að leggja Rafmagnsveitunum til framlag árlega, a.m.k. fyrst um sinn, sem svari til félagslegra þátta í framkvæmd fyrirtækisins.

Ég vil láta þessar aths. koma fram og tel nauðsynlegt að þetta gjald verði hið fyrsta endurskoðað og þess freistað að finna aðrar leiðir til þess að leysa fjárhagsvanda Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða. Þegar Orkubúið var stofnað var því beinlínis gefið fyrirheit um að það skyldi fá 20% af verðjöfnunargjaldinu, sem eðlilegt var þar sem Orkubúið tók við vissum þætti af starfsemi Rafmagnsveitna ríkisins, þ.e. starfsemi þeirra á Vestfjörðum, og var metið hæfilegt að fimmtungur af gjaldinu gengi þá Orkubúsins.

Ég vil taka það fram, að þótt ég hafi verið andvígur hækkun gjaldsins og telji gjaldið allt of hátt, þá sé ég ekki aðrar leiðir til þess að leysa þessi mál en að framlengja að sinni þetta gjald. Með þeim fyrirvörum, sem ég hef tekið fram, hef ég skrifað undir það nál. sem hv. frsm. hefur nú lýst.