12.02.1980
Sameinað þing: 24. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 740 í B-deild Alþingistíðinda. (804)

Umræður utan dagskrár

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það virðist nú vera komið á daginn, kannske fyrr en nokkurn hefði grunað, að farið er að bresta í stoðum stjórnarsamstarfs þeirrar ríkisstj. sem er aðeins á fjórða starfsdegi frá því hún tók við völdum. Þó að heyrst hafi um það sögur, að hv, þm. Garðar Sigurðsson væri ekki dyggur stuðningsmaður þessa stjórnarsamstarfs, hafa menn líklega ekki gert ráð fyrir að yfirlýsingar á borð við þær, sem hér voru gefnar áðan úr ræðustól af hans hálfu, kæmu þó þetta snemma. (Gripið fram í.) En til viðbótar þessu hafði það líka heyrst að hv. þm, Stefán Jónsson hefði ekki verið mjög hrifinn af þessu margumtalaða stjórnarsamstarfi, og það virðist á sama hátt vera komið upp í hans huga að kannske hefði verið betra að huga betur að málum áður en gengið var til þessa stjórnarsamstarfs.

En út af því máli, sem hér er til umr., er það vissulega rétt sem hér hefur verið sagt, að það er fullkomin ástæða til þess hér á Alþ. að ræða ákvörðun sem þá sem greint var frá í ríkisútvarpinu nú í hádeginu. Og ég verð að segja það sem mína skoðun, að mér finnst það furðulegt, meðan Alþingi situr, að ekki skuli vera gert svo lítið að hafa samráð við sjávarútvegsnefndir eða fulltrúa stjórnmálaflokkanna hér á Alþ. (Gripið fram í.) Ekki stjórnarandstöðunnar. Sér í lagi verður þó að hafa það í huga, að ekki heldur virðist hafa verið haft samráð við stjórnarliða sjálfa. Ég ítreka því og tek upp spurningu sem hv. þm. Matthías Bjarnason spurðist fyrir um áðan og ekki var svarað: Stendur ríkisstj. öll á bak við þessa ákvörðun hæstv. sjútvrh.? Ég vænti þess, að hæstv. ráðh. svari því skýrt og skorinort. Það er þegar vitað af yfirlýsingum hér, að einstakir stuðningsmenn ríkisstj. hafa ekki haft vitneskju um þetta. En það hefur ekki fengist upplýst enn fyllilega hvort hæstv. ríkisstj. stendur öll að þessari ákvörðun eða ekki. (Gripið fram í.) Væntanlega kemur það í ljós, hefur ekki komið enn, og eftir því er spurt áfram.

Að þessu sögðu held ég að ég verði að fara nokkrar vikur aftur í tímann að gefnu tilefni og af fyrra umtali núv. hæstv. sjútvrh., fyrir rúmum tveim mánuðum, þegar hann var á biðilsbuxum í atkvæðaleit vestur á Vestfjörðum, meðal annars hjá sjómönnum og útgerðarmönnum. Barst þá talið að sjálfsögðu að verulegu leyti að stjórnun fiskveiða og sjávarútvegi. Þá gagnrýndi núv. hæstv. sjútvrh. þá stjórnun sem átt hefði sér stað á undanförnum árum, fyrst og fremst að ekki hefði verið haft nægilegt samráð og tekið tillit til þeirrar þekkingar sem sjómenn, er við þetta hafa starfað, hefðu aflað sér, og ekki tekið tillit til álits þeirra. Hann tók sem sagt undir þær gagnrýnisraddir, sem hafa heyrst og að mínu áliti réttilega margar hverjar, að það verður ekki stjórnað svo vel sé fiskveiðum við Ísland eftir reiknistokk eða reglustiku. En mér virðist að það sé einmitt þetta sem núv. hæstv. sjútvrh. ætlar sér að gera, þrátt fyrir marggefnar yfirlýsingar og ítrekaðar fullyrðingar um að þetta eigi ekki svo að vera. Ég er nærri því viss um að hæstv. núv. sjútvrh. hefur tekist að fá nokkur atkvæði sjómanna og útvegsmanna til dæmis á Vestfjörðum út á svona tal, sem er þó á fölskum forsendum þegar á reynir. Hann virðist ekki, ef fram heldur sem horfir í áframhaldi af þessari ákvörðun, ætla að tileinka sér neitt annað en það sem hann hefur verið að gagnrýna undanfarin ár og ætlar sér að tiltölulega litlu sem engu leyti að taka tillit til þeirrar þekkingar og reynslu sem þeir einstaklingar hafa aflað sér sem vinna við þennan útveg.

Svo kemur hæstv. núv. sjútvrh. og ætlar að skjóta sér á bak við það, — þó að ég út af fyrir sig þurfi ekki að verja fyrrv. sjútvrh., hann getur annast það sjálfur, — en svo kemur núv. hæstv. sjútvrh. og ætlar að skjóta sér á bak við það að hann Kjartan hafi ætlað að gera þetta. Þetta er mannlegt eða hitt þó heldur! Hafi átt að taka mark á orðum hæstv. núv. sjútvrh. sem hann viðhafði í haust, þá hefði hann að sjálfsögðu gerbreytt þessari hugsanlegu ákvörðun sem hann segir að Kjartan hafi ætlað að taka, en hann sjálfur er nú að framkvæma. — Auðvitað er þetta út í hött. Það var ekki búið að taka neina ákvörðun um þessi mál. Það er núv. hæstv. ráðh. sem hefur tekið þessa ákvörðun og gert það með þeim hætti sem hann nú hefur upplýst. En þó svo að fyrrv. hæstv ráðh. hefði dottið þetta í hug og hann ætlað að gera það, þá gat núv. hæstv. sjútvrh. sannarlega breytt því, hefði hann verið annarrar skoðunar í málinu. Það kemur í ljós að hann er samþykkur þessari hugsanlegu skoðun forvera síns í ráðherrastól.

Það er sagt og það réttilega að verulegu leyti, að nauðsyn beri til að taka tillit til sérfræðinganna í þessu sambandi sem og öðrum við stjórnun fiskveiða hér við land. En forsendur geta að sjálfsögðu breyst í þessum málum sem öðrum. Ég hygg að æðimargir séu þeirrar skoðunar, að forsendur að því er loðnuveiðina varðar, loðnustofninn og loðnumagnið hafi breyst æðimikið frá því í haust til undanfarandi daga eða vikna. Almennt er álitið af sjómönnum sem á miðunum eru, að þeir hafi aldrei orðið varir víð slíkt magn af loðnu sem þar hefur verið á undanförnum dögum. Skip hafa siglt mílu eftir mílu, líklega tug mílna eftir tug mílna, í gegnum loðnutorfur þannig að svartur sjór hefur verið þar. Trúi menn þá því, sem það vilja, að það hafi verið nauðsyn á því að taka ákvörðun eins og hér hefur nú verið tekin með þeirri skyndingu og á þann óeðlilega hátt sem hér hefur verið að staðið, miðað við þessar forsendur sem menn eru nú að tala um. Ég held að hér sé um að ræða fljótfærni af hálfu hæstv. sjútvrh. Og ég a.m.k. teldi hann mann að meiri ef hann að athuguðu máli endurskoðaði ákvörðun sína í þessum efnum. Auðvitað getur honum sem og öðrum verkfræðingum skjátlast og þá eiga menn að viðurkenna það. Það er enginn maður að minni fyrir það.

Ég tók eftir því, að hæstv. ráðh. sagði áðan að hann efaðist ekki um hyggjuvit t.d. núv. hv. 1. þm. Vestf. svo og margra annarra, en hann ætlaði ekki að hafa slíkt hyggjuvit að leiðarljósi, orðaði það svo. Hann ætlar ekki að hafa að leiðarljósi reynslu og þekkingu þeirra manna sem hafa stundað þennan atvinnuveg svo árum og áratugum skiptir, heldur ætlar hann að láta reiknistokks- og reglustikuákvörðunina gilda fremur. Auðvitað kemur að því, að hann þarf á réttum stöðum að svara fyrir þau sinnaskipti sem hann virðist hafa tekið frá því fyrir nokkrum vikum. En það er auðvitað ekki aðalatriðið í þessu máli. Aðalatriðið er það, hvort mönnum er ekki farið að skiljast að það verður ekki fram hjá því gengið, að það verður að taka tillit til fleiri sjónarmiða við svona ákvarðanir heldur en bara þeirra sérfræðilegu sjónarmiða sem um er að ræða varðandi málin. Atvinnuleg sjónarmið ráða á hinum ýmsu stöðum og í hinum ýmsu landshlutum, og til þeirra verður einnig að taka tillit. Fram hjá því verður ekki gengið.

Ég vænti þess, að það sé rétt sem hæstv. ráðh. sagði áðan, að að baki þessarar ákvörðunar hans séu ekki nein tengsl varðandi hræðslu við Norðmenn í þessum efnum. Ég vænti þess, að það sé rétt. Það á eftir að koma í ljós á sínum tíma, en eins og er vil ég trúa því að svo hafi ekki verið.

Ég skal ekki, herra forseti, eyða öllu fleiri orðum að þessu nú, en ég taldi rétt, þar sem um svo veigamikið mál er að ræða sem hér er, að láta þessi sjónarmið mín koma fram og ekki síður að vekja á því athygli að menn hafa oft tungur tvær og tala stundum sitt með hvorri.