12.02.1980
Sameinað þing: 24. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 748 í B-deild Alþingistíðinda. (809)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég skal koma inn á nokkur þau atriði sem hér hafa verið nefnd í allmörgum ræðum.

Hv. 4. þm. Suðurl. mun ekki vera einn af súkkulaðidrengjunum, enda var hann kokhraustur í sínu máli eins og oft fyrr. Hann kvartaði undan því, að ekki hefði verið haft samband og samráð við hann um þessa ákvörðun, og hafði í hótunum í því sambandi, sem ég læt mér í léttu rúmi liggja. Ég vil hins vegar láta það koma fram strax, að ég mun hafa samráð og samband við þingið og þingflokka um ákvarðanir í þessum mikilvægu málum og mun ekki spara það. Ég vek hins vegar athygli á því, sem ég þekki nokkuð vel, hafandi verið formaður sjútvn., að þetta samband og samráð hefur verið með ákveðnum hætti. T.d. veit ég ekki betur en sjútvn. hafi verið boðaðar á fund á laugardegi fyrir rúmri viku. Það mun hafa verið hringt á föstudeginum. Ég fékk að vísu aldrei þau boð og varð ekkert var við þau, en það kom í dagblöðunum að aðeins einn hefði mætt. Þar skilst mér að fyrrv. sjútvrh. hafi tilkynnt nefndunum um ákvörðun um hvernig haga skyldi takmörkunum á þorskafla. Ég mun ekki hafa slík samráð við þingnefndir. Ég mun gera það áður en ákvörðun er tekin, og ég mun leggja áherslu á að gera það einmitt þegar ákvörðun er tekin um fiskveiðistefnuna, sem er hið stóra og mikilvæga mál.

Ég vil hins vegar endurtaka það sem ég sagði áðan og koma nánar að því, að í þessu tilfelli taldi ég mig vera að framkvæma ákvörðun sem hefði verið tekin. Fyrrv. sjútvrh. ber það til baka og ég mun láta kanna það vandlega. Ég taldi mig vera að taka ákvörðun sem reyndar var komin á lokastig, ég var kominn upp að vegg, getum við sagt, þar sem búið var að veiða 250 þús. lestir, og ráðuneytisstjóri sjútvrn. lagði fyrir mig um helgina að nú þyrfti að ákveða hvort framfylgt yrði því sem fyrrv. sjútvrh. hefði ákveðið í þessu efni. Þannig var mér tjáð að málið væri, og ég skal láta kanna það vandlega. Þá er í raun og veru aðeins verið að taka ákvörðun um framkvæmdaratriði.

Mér er ekki kunnugt um hvort sú stefnumörkun um heildarloðnumagnið, sem rekja má allt aftur til mánaðamótanna okt.–nóv. hefur verið lögð fyrir ríkisstj. Ég hef ekki setið í þeirri ríkisstj., sem betur fer, og ég get vissulega látið kanna það. En ég held að ekki hafi farið fram hjá nokkrum manni þær yfirlýsingar sem hafa birst í fjölmiðlum um hve mikið mætti taka af loðnu og t.d. hvað fyrrv. sjútvrh. taldi eðlilegt að veiða. Ég skal viðurkenna það, að ég tók það svo, að það væri ákvörðun þeirrar ríkisstj. sem sat eða a.m.k. sjútvrh.

Ég get einnig rakið það nokkuð hér og stutt með fundargerðum, hvernig farið var með slík mál í tíð vinstri stjórnarinnar síðustu. Ég get t.d. rakið það hér, hvernig mikilvægar ákvarðanir voru þar teknar — eða ekki teknar réttara sagt — um stefnumörkun í sambandi við þorskveiðarnar. Það voru lagðar fram í ríkisstj. ýmsar hugmyndir, gagnmerkar hugmyndir um ýmsar leiðir í þessu sambandi, og þær voru einnig lagðar fyrir samstarfsnefnd, getum við kallað, hér á þinginu. Endanleg ákvörðun var tekin af sjútvrh., en aldrei samþ. í ríkisstj., og að því reyndar fundið. Það eina, sem var samþykkt í ríkisstj., var heildarmagnið af þorski sem talið var eðlilegt að veiða. Ég segi það með sanni, að ég hefði talið eðlilegt að ganga nokkru lengra og ákveða í ríkisstj. hvaða leiðir ætti að fara til að standa við þau mörk, en það var ekki gert.

Ég hef einnig heyrt undan því kvartað, að endanleg ákvörðun hafi ekki verið tekin í samráði við þá samstarfsnefnd sem hér starfaði þá. Við skulum reyna að bæta úr þessu. En ég verð hins vegar að taka undir það með fyrrv. hæstv. sjútvrh., að það voru eðlileg vinnubrögð að leggja ekki fyrir ríkisstj. eða aðra aðila hvenær hann stöðvaði veiðar til að standa við þær ákvarðanir sem höfðu verið teknar. Ég veit ekki hvar slíkt endaði, ég verð að segja það eins og er.

Menn hafa rætt nokkuð, m.a. hv. 4. þm. Suðurl., um fiskifræðingana og Norðmenn o.s.frv. En það er mjög athyglisvert, að ekki einn einasti hv. þm. hefur treyst sér til að segja, hvað mátti þá veiða, og meira að segja hv. 4. þm. Suðurl. sagði nokkurn veginn orðrétt: Ég treysti mér ekki til að segja hve mikið má veiða. — Allir hv. þm. hafa talað um hvað þeir bæru mikið traust til fiskifræðinganna, en allir hafa keppst við að úthúða þeim og telja þá ekki færa um að gera rökstuddar og góðar tillögur nánast. A.m.k. hafa menn ekki viljað hafa þær að miklu, er e.t.v. réttara að segja.

Menn hafa gert lítið úr vinnubrögðum fiskifræðinganna. Ég er ekki dómbær á vinnubrögð fiskifræðinganna fremur en þeir hv. þm. sem hér hafa talað. Ég þekki hins vegar þessa menn af margra ára samstarfi, og ég er sannfærður um að þeir leggja sig allir fram við að komast að þeirri niðurstöðu sem er réttust. Ég er sannfærður um það og get ekki tekið undir þá gagnrýni sem kemur fram um þeirra vinnubrögð. Ég þekki þessa menn að því að vera samviskusama með afbrigðum. Ég þekki þessa menn einnig að því að vinna með sjómönnum, hafa við þá samband, ræða við þá, og það hefur stundum verið sagt okkar fiskifræðingum til hróss, borið saman við erlenda, hvar þeir hafi miklu betri tengsl við sjómenn en erlendir menn á þessu sviði. Vitanlega styrkir þetta þá mjög í þeirra starfi. Hitt vil ég svo leggja ríka áherslu á, að þeir eru ráðgjafar. Þeir taka ekki tillit til byggðasjónarmiða eða t.d. atvinnusjónarmiða. Vitanlega verðum við að taka tillit til þeirra sjónarmiða.

Ég lít svo á að það hafi m.a. verið gert í þeirri ákvörðun — ef ég má kalla það ákvörðun, það verður kannske hlaupist frá því — að gera ráð fyrir svipuðum þorskafla nú á þessu ári og var á síðasta ári. Þar er farið töluvert upp fyrir það sem fiskifræðingar hafa mælt með. Sú ákvörðun hygg ég að hafi verið tekin í sambandi við ákvörðun á fiskverði með tilliti til ástands okkar þjóðarbús og fleira þess háttar. Þetta er eðlilegt. Ég gagnrýni það ekki.

Í þessu sambandi var nánast um það að ræða, hvort fara ætti fram úr ákvörðun um 250 þús. tonn til bræðslu og 300 þús. tonn í heild eftir áramótin eða ekki, og varð að gera það strax. Það var ekkert valfrelsi, eins og hv. þm. Sighvatur Björgvinsson talaði um. Það var ekkert valfrelsi t.d. að minnka aflann. Hann fer fram úr þessu magni nokkurn veginn ákveðið. Það var einnig um það að ræða, hvort átti að veiða eitthvað til frystingar og til hrognatöku. Í raun og veru var kosturinn þessi: að halda áfram og skjóta töluvert yfir markið. Ég tel út af fyrir sig enga stórhættu í því, þó að farið væri upp í 330, 340, kannske 350 þús. lestir. En þá verður ekki tekin ein einasta loðna til hrognatöku. Menn skulu gera sér grein fyrir því. Við höldum ekki þannig áfram. Eða telja menn alveg skaðlaust að fara kannske upp í 400–450 þús. lestir? (Gripið fram í: Já.) Já, segir maðurinn með mesta hyggjuvitið eflaust. Þetta verðum við að athuga. Það er um þetta tvennt að ræða.

Ég hugleiddi það mikið í þessu sambandi, hvort við ættum að halda áfram og gera ekki ráð fyrir neinni loðnu til frystingar og hrognatöku. Það kom vel til greina að halda eitthvað áfram. Við hefðum líklega getað haldið áfram í nokkra daga. Ég er alveg sannfærður um að af þeim, sem láta ráðast meira af kappi en forsjá, hefði það verið gert. Ég tali hins vegar rétt að stöðva veiðarnar nú í nokkurn tíma, m.a. til þess að ákveða hvernig sú loðna verður nýtt sem tekin yrði í frystingu og hrognatöku, því að það verður ekki gert fyrr en eftir dálítinn tíma, upp úr næstu mánaðamótum.

Ég get tekið undir það sem hér hefur komið fram, að það er æskilegt að beita flutningasjóði á annan máta en gert hefur verið. En ákvörðun varð að taka fyrr. (GS: Hann er ekki til.) Nei, hann er ekki til. Þess vegna varð að taka þá ákvörðun fyrr. Það er ekki hægt að taka þá ákvörðun í lok loðnuvertíðar að beita honum á annan máta. Þegar hv. þm. Sighvatur Björgvinsson segir að ég hafi haft valfrelsi, þá er það ekki rétt. Ég hafði það ekki. Það eru fjölmargar slíkar ákvarðanir sem búið er að taka. Menn standa frammi fyrir gerðum hlutum að mjög mörgu leyti.

Hv. þm. Karvel Pálmason talaði um það, að ég talaði tungum tveim, annarri við sjómenn vestur á fjörðum og hinni hér. Ég mun ræða við sjómenn vestur á fjörðum og standa skil gerða minna og ekki þurfa aðstoðar hans við það. Ég mun leggja áherslu á það að hafa samráð við sjómenn um land allt, eins og hv. þm. Matthías Bjarnason talaði áður um að hann hefði gert. Hann gagnrýndi mig að vísu fyrir það einhvern tíma í fyrra, að ég hefði haldið fundi með bændum. (MB: Nei, nei.) Jú, þú gerðir það, vinur. (Gripið fram í.) Ja, það getur vel verið að þú hafir ekki verið að gagnrýna það, en þú orðaðir það svo: að þeytast um landið og hafa samráð við bændur. Ég ætla mér að fara um landið og hafa samráð við sjómenn líka, og ég er sannfærður um að það verður ekki síðra að ræða við þá en við bændur. Ég legg mjög mikla áherslu á, að þannig verði unnið, og mun gera mér far um það.

Ég tek því heilræði vel, sem hv. þm. gaf mér, að mynda sér sjálfur skoðun. Það gerði ég í þessu tilfelli. Ég myndaði mér sjálfur skoðun. Ég hljóp ekki til hv. þm. og spurði hann: Hvað á ég að gera? (GS: Þá hefðir þú kannske gert eitthvað meira af viti.) Ég er ekki viss um að ég hefði fengið neitt meira af viti. Ég efast stórlega um það. Ég get hins vegar sagt, að áður en þessi ákvörðun var tekin var rætt við ýmsa aðra. Ég ræddi m.a. við formann LÍÚ í morgun um þetta mál, og það hafa fleiri haft samband við mig um helgina, því að staðreyndin er vitanlega sú, að t.d. skipstjórum hefur verið ljóst að að þessu stefndi. (GS: Hvað sagði formaðurinn í morgun?) Þeir hafa talið að þessi ákvörðun hafi verið tekin af einhverjum ástæðum og hafa spurt um það, hvort yrði stöðvað við 300 þús. tonn. (GS: Hvað sagði formaður LÍÚ?) Formaður LÍÚ vildi láta veiða meira, en formaður LÍÚ viðurkenndi einnig að það er ekki bæði haldið og sleppt. Hann viðurkenndi einnig, að ef ætti að halda einhverju eftir til frystingar og hrognatöku væri líklega nauðsynlegt að stöðva. (Gripið fram í: Það er ekki bæði sleppt og haldið.) Ekki bæði sleppt og haldið, já. Ég vil hins vegar segja það, að sú ákvörðun, sem var tekin um hvernig skyldi stöðva, var tekin m.a. í samráði við hann, eða það var rætt við hann um hvernig þetta yrði gert þannig að sem hagkvæmast yrði. Annars vil ég taka það alveg skýrt fram, að þetta er mín ákvörðun og ég er ekki að skjóta mér bak við einn eða neinn.

Það er, skilst mér, misskilningur hjá mér, að fyrrv. sjútvrh. hafi tekið nokkra ákvörðun eða sagt nokkuð um þetta. Ég tek þá þau orð til baka. Hins vegar skal ég láta kanna það mjög vandlega.

Hv. þm. Stefán Jónsson sagði að þessi ákvörðun væri röng. Hann lítur svo á, og ég ætla ekkert að draga í efa skoðun hans á því. En hann treysti sér ekki heldur til þess að svara hvaða ákvörðun hann hafði tekið. Ég hefði t.d. gaman af að vita hvort menn hefðu heldur viljað halda áfram og fara töluvert fram yfir og geyma ekkert til frystingar og hrognatöku. Það væri fróðlegt að heyra hvað menn segja um það. Um þetta spurði ég ýmsa menn, m.a. skipstjóra sem hringdi til mín, og hann sagðist vilja hafa eitthvað í frystingu og hrognatöku. Það er lítið, en það gæti orðið 30, 40, 50 þús. tonn. Ég skal ekkert segja um það hér. Það gæti orðið eitthvað meira. Vitanlega förum við þá fram yfir, og mér finnst það alveg ljóst, að sú verður niðurstaðan ef veitt verður í frystingu og hrognatöku.

Það var athyglisvert, að hv. þm. Stefán Jónsson sagði að aðrir vissu betur en fiskifræðingarnir. Eftir hverju á þá að fara? Vitanlega verðum við að hlusta á fiskifræðinga. — Þetta með áhrif loðnuhrogna í Japan, ég skal viðurkenna að það er enginn sérfræðingur í sjútvrn. sem þekkir það. En við vitum nú hvar hann er og munum leita til hans.

Ég er nú búinn að svara ýmsu sem hér hefur komið fram og skal ekki út af fyrir sig lengja þetta um of. En út af ákveðinni spurningu hv. þm. Matthíasar Bjarnasonar vil ég segja það, að ég skýrði ríkisstj. frá þessu í morgun, en ég lagði þessa ákvörðun ekki fyrir ríkisstj., og menn geta út af fyrir sig talið það rangt. Ég hef skýrt frá því, að gert sé ráð fyrir að innan ríkisstj. verði í sameiningu teknar ákvarðanir um fiskveiðistefnuna. Ég er því hlynntur og tel það sjálfsagt, því að þar er um gífurlega mikilvæg mál að ræða. Ég hef hins vegar skýrt það hér, að ég leit ekki svo á að hér væri verið að taka ákvörðun um fiskveiðistefnuna, heldur framkvæmd á því sem áður hefur verið að stefnt og varð að gera annaðhvort strax eða fara þá langt fram úr.

Hv. þm. Matthías Bjarnason svaraði því ekki, hve mikið mætti veiða. Ég skal gæta þess að spyrja hann fyrr næst. T.d. væri gaman að heyra frá hv. þm. hvað megi veiða mikið af þorski. Ég get vel skilið að menn séu dálítið hikandi við að gefa slíkar yfirlýsingar. Hverjum er um að kenna ef of mikið er veitt og stofninn hrynur? Ætla hv. þm., sem hafa talið að ætti að veiða meira, að standa þá ábyrgir orða sinna? Vitanlega verður sjútvrh. og ríkisstj. hverju sinni að vera ábyrg gerða sinna í þessu sambandi. Ef illa fer verður náttúrlega flett upp í því, sem ákveðið var, kannske á móti áliti fiskifræðinga, og þeir menn, sem það gerðu, standa þar ábyrgir.

Menn hafa talað um að þessu réði að einhverju leyti ótti við Norðmenn. Ég mótmæli því algerlega og vísa því á bug. Menn virðast ekki mega ræða hér kosti og galla mikillar loðnuveiði í viðræðum við Norðmenn, heldur eigum við að berja okkur á brjóst og fara okkar fram. Ég hygg að staðreyndin sé þó þessi — alveg óháð því hvað við veiðum af loðnunni — að við verðum að ná samningum við Norðmenn um að vernda loðnustofninn. Norðmenn geta með flota sínum ausið svo upp loðnu við Jan Mayen að stofninn bíði ákaflega mikið tjón af. Ég held að við getum allir verið sammála um það. Við viljum hafa áhrif á þetta. Eigum við að ganga blindir til viðræðna við Norðmenn? Við eigum ekki að gera það. Við eigum að sjálfsögðu að gera okkur grein fyrir því, hvaða afleiðingar sú ákvörðun, sem við tökum eftir bestu upplýsingum sem við höfum, kann að hafa. Það er það sem ég á við. Ég vil benda mönnum á það, að ef við förum langt fram úr umræddu aflamagni munu Norðmenn vitanlega nota það. Menn segja að það séu sannanir fyrir því, að þessi ákvörðun sé tekin í samráði við Norðmenn, og komi fram í því bréfi sem ég las áðan. Þar segir aðeins að íslenskir og norskir fiskifræðingar hafi unnið saman, eins og þeir hafa gert áratugum saman. Þeir tóku ekki þessa ákvörðun um hve mikið skyldi veiða. Það var gert í sjútvrn.

Herra forseti. Ég skal ekki hafa um þetta fleiri orð nema ástæða reynist til í frekari umr. En ég vil segja það að lokum, að mér var fyllilega ljóst, þegar á borði mínu lágu þær upplýsingar frá ráðuneytisstjóra s.l. laugardag að taka þyrfti mjög skjóta ákvörðun í þessu máli, að hún yrði erfið. Það var svo til orða tekið, að taka þyrfti ákvörðun um það, hvort framfylgja ætti þeim takmörkunum á loðnuveiðum sem ákveðnar hefðu verið, og meira að segja dagsetningar nefndar í því sambandi, en það allt mun ég kanna betur. Þar var einnig á það bent, að taka þyrfti ákvörðun um það, hvort geyma ætti eitthvað af loðnu í frystingu og hrognatöku. Ég snerist við þessu á þann máta sem ég sá bestan, með viðræðum við ýmsa aðila um málið, og tók því þá ákvörðun, sem hér hefur verið um deilt, fullkomlega í ljósi þess að hún er mín og ég ber ábyrgð á henni. Mér er fullkomlega ljóst að hún kemur illa við marga. Von mín var hins vegar sú og er, að með framhaldsákvörðunum á þessu sviði verði eitthvað þar úr bætt, og á ég þar við loðnu til frystingar og hrognatöku. Ég tók þá ákvörðun að halda ekki áfram veiðum. Menn kunna að deila á það og telja það rangt. En ég vil bara ljúka þessu með því að segja að ég er á engan hátt að skjótast undan ábyrgð á þessari ákvörðun.