19.12.1979
Efri deild: 5. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í B-deild Alþingistíðinda. (81)

16. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég vil gera grein fyrir fyrirvara þeim sem ég hafði á við undirritun nál., þar sem iðnn. Ed. leggur til að frv. til l. um verðjöfnunargjald af raforku verði samþ. Ég þreifaði fyrir mér um það í n., hvort hv. samnm. mínir í iðnn. gætu fallist á breytingu á efnisgrein frv. á þá lund, að á eftir orðunum „endurseld raforka“ komi: verðjöfnunargjaldinu skal varið til að jafna verðmun á rafmagni milli Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða annars vegar og annarra rafmagnsveitna hins vegar — þannig að kveðið yrði á um það beinlínis í lagagreininni að til þess arna skyldi verðjöfnunargjaldinu varið, en á ekki til þess að ganga beinlínis inn í fjárhag þessara stofnana og verja ráðstöfunarfé þeirra með þeim hætti. Sem sagt, þarna var skákað í því skjóli, að nást mundu fram önnur fjárframlög til þess að bæta rekstrarstöðu Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða, svo sem við höfum raunar ástæðu til að ætla að þingvilji sé fyrir. Þá ástæðu getum við m.a. fundið í fjárlagafrv., þar sem fjallað er um Rafmagnsveitur ríkisins á bls. 221, en þar segir: „Á árinu 1980 mun ríkissjóður yfirtaka 600 000 þús. kr. lán sem RARIK tók samkv. lánsfjáráætlun 1979 til að bæta greiðslustöðu sína. Enn fremur er fyrirhugað að ríkissjóður yfirtaki 600 000 þús. kr. af skuldum RARIK á árinu 1981. Auk þessa er gert ráð fyrir framlagi til RARIK í fjárlagafrv. 1980 að upphæð 400 000 kr. Það sem liggur að baki framlaginu og að dregið er úr skuldabyrði RARIK eru ýmsar félagslegar framkvæmdir á vegum fyrirtækisins“. Og enn fremur segir í næstu mgr. þar fyrir neðan: „Ríkisstj. samþykkir að frá og með árinu 1980 beri ríkissjóður allan kostnað af félagslegum framkvæmdum, sem Rafmagnsveitum ríkisins er falið að ráðast í og standa fyrir. Verði gert ráð fyrir slíku framlagi frá ríkissjóði í fjárlagafrv. fyrir árið 1980. Um mat á félagslegum þætti framkvæmda verði fjallað af fulltrúum frá fjárlaga- og hagsýslustofnun, Rafmagnsveitum ríkisins og iðnrn.“

Nú er það ljóst og það var okkur nm. ljóst af samtali okkar á nefndarfundi í morgun við hæstv. iðnrh. og einnig við rafmagnsveitustjóra ríkisins, að hvorugur þeirra telur á vísan að róa um það, að aflað verði í tæka tíð nauðsynlegra fjármuna til þess að gera hag Rafmagnsveitna ríkisins bærilegan, einnig það, að svo mikið er í húfi að við afgreiðum þetta frv. sem lög nú áður en þm. fara í jólafrí, að þar má engu til hætta. Ég vil aftur á móti undirstrika það sjónarmið mitt, að það sé ekki til heilla að verðjöfnunargjaldi af raforku sé í sífellu varið til annarra nota heldur en þeirra sem á er kveðið í hinum upphaflegu lögum með þessu heiti, eins og hefur verið gert æ síðan árlega, að þar er tjaldað til einnar nætur og raunverulega verið af takmarkaðri fyrirhyggju og litlum myndarskap að velta á undan sér vandamáli sem er þess eðlis að það verður ekki leyst nema með beinum fjárveitingum í því skyni.

Ég hefði kosið að flytja brtt. í þessa átt hér í Ed. við 2. umr. um málið, við þessa umr. Vegna tímaskortsins, vegna þess sem við okkur blasir um möguleika á töfum í Nd., hef ég þó ekki treyst mér til þess og raunar ekki við 3. umr. heldur. Ég vil aftur á móti að það komi fram þegar við þessa umr. af minni hálfu og af hálfu fyrrv. iðnrh., Hjörleifs Guttormssonar, að það er augljóst mál, að við hljótum að ætlast til þess að séð verði fyrir nauðþurftum Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða á annan hátt en þennan og að verðjöfnunargjaldinu af raforku á að verja til þess að jafna þann mismun sem er á raforku annars vegar seldri frá Rafmagnsveitum ríkisins og Orkubúi Vestfjarða og hins vegar frá öðrum rafmagnsveitum.

Vegna þess, eins og hv. formaður iðnn. greindi frá í framsöguræðu sinni, að þeir komu til okkar á nefndarfundinn, Siglfirðingarnir, og röktu fyrir okkur vandkvæði sín varðandi rekstur Rafmagnsveitu Siglufjarðar og Skeiðsfossvirkjunar, þá vil ég taka það fram, að ég tel nauðsynlegt, að jafnframt því sem gerðar verða sérstakar ráðstafanir til þess að gera rekstur Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða bærilegan verði vandkvæði þeirra Siglfirðinganna í sambandi við rekstur Skeiðsfossvirkjunar tekinn til ítarlegrar og mjög vingjarnlegrar athugunar, því að ljóst er að Rafmagnsveita Siglufjarðar er í mjög miklum vanda, þótt ég viðurkenni að umdeilanlegt kunni að vera að hann sé sprottinn af sömu rót og efnahagsvandi Rafmagnsveitu ríkisins og Orkubús Vestfjarða. Vandinn er þar eigi að síður fyrir hendi, og ég tel að við hljótum að taka hann til sérstakrar velviljaðrar athugunar og athuga möguleika á því að hlaupa þar undir bagga einnig.