12.02.1980
Sameinað þing: 24. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 758 í B-deild Alþingistíðinda. (814)

Umræður utan dagskrár

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Satt best að segja undrar mig ekki að til umræðna komi hér í þinginu um fiskveiðimál, því að þannig hefur verið staðið að þeim málum á undanförnum árum að fyrr eða síðar hlaut að koma að því að menn færu að gera upp við sig hvort sem ja ætti stefnu fyrst og standa svo við hana eða hvort halda ætti því áfram, sem verið hefur, að taka ákvörðun nánast eftir á um hvað ætti að gera.

Það vítaverða, sem gerst hefur varðandi veiðar á loðnu ef horft er á tímabilið frá áramótum til þessa tíma, er fyrst og fremst að sjómenn hafa verið látnir sækja loðnuna langt norður í haf og stunda loðnuveiðar í misjöfnum veðrum, en þegar loðnan er komin fast upp undir landið eru veiðarnar stöðvaðar. Þetta er vítavert stjórnunarlegt atriði í veiðunum sem heild og algjörlega óverjandi fyrir neinum skynsömum manni.

Sannleikurinn er sá, að það er ekkert vit í að standa að máli eins og að þessu hefur verið staðið. Það hefði þurft að ákveða í fyrsta lagi að seinka heimild til loðnuveiðanna, þannig að það hefði ekki verið byrjað að veiða loðnuna fyrr en hún var komin nær, og með þeirri aðgerð hefði jafnframt átt sér stað eðlileg dreifing á hafnir landsins á því aflamagni sem skynsamlegt er talið að veiða. Ég held að í ljósi þeirrar reynslu, sem hér er fengin, hljóti það atriði að verða tekið til athugunar fyrir næstu loðnuvertíð, þegar ákvörðun verður tekin um það fyrir fram hversu mikið magn á að veiða, og þá jafnframt í ljósi þess reynt að standa þannig að málum, að loðnan verði veidd þegar hún er komin nær landi, og jafnframt að það leiði til eðlilegrar dreifingar aflans á verstöðvar.