12.02.1980
Sameinað þing: 24. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 758 í B-deild Alþingistíðinda. (815)

Umræður utan dagskrár

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég get ekki látið hjá líða að leiðrétta þann reginmisskilning sem kemur fram hjá síðasta ræðumanni.

Ákvörðun um loðnuveiðarnar á þessari vertíð var tekin fyrir fram að því er ramma varðar, og það var ljóst allan tímann hvert stefndi í þeim efnum. En það voru teknar ákvarðanir jafnóðum um stjórnunina, eftir því sem nýjar upplýsingar bárust. Það lá ljóst fyrir þegar í upphafi að þannig yrði haldið á málum.

Ég held í öðru lagi að ekki hefði verið mjög skynsamlegt að ætla sér að rýra tekjur sjómanna með því að bíða með veiðarnar þangað til loðnan væri orðin svo afkomurýr að það væri helst ekkert upp úr henni að hafa, en það virðist vera meginstefnuatriði síðasta ræðumanns.