12.02.1980
Sameinað þing: 24. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 759 í B-deild Alþingistíðinda. (816)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Nokkur orð út af þeirri fsp. sem hér kom fram frá hv. þm. Karvel Pálmasyni.

Eins og ég sagði áðan gerði ég grein fyrir ákvörðun minni í ríkisstj. í morgun og um hana urðu nokkrar umræður. Þar kom vissulega fram frá fleiri ráðh., ekki bara Alþýðubandalagsráðh., heldur ýmsum öðrum, sú ábending sem mér var að sjálfsögðu ljós, að þarna væri um ákaflega mikilvæga ákvörðun að ræða sem yrði vafalaust mótmælt og mundi hafa afleiðingar í sambandi við atvinnu sjómanna o.s.frv., eins og við höfum rakið í þessum umræðum. Hins vegar var mönnum einnig fullkomlega ljóst að veiðimagnið var orðið 250 þús. tonn þegar, og mönnum var fullkomlega ljóst að ekki væri hægt að búast við að ríkisstj. eða sjútvn. tæki á stundinni slíka ákvörðun. Ef um það hefði átt að vera að ræða varð vitanlega að fresta allri ákvörðun í nokkra daga. Þar með var örugglega komið langt yfir það magn sem menn höfðu m.a. í rammanum sem síðasti hv. ræðumaður talaði um að var gert ráð fyrir. Menn stóðu frammi fyrir þessu. En ég vil sem sagt láta koma fram, að þarna komu fram athugasemdir við ákvörðun mína af þeim ástæðum sem ég hef nú rakið.

Hér hefur verið talað um samráð stjórnarflokkanna, m.a. af hæstv. félmrh., og vil ég staðfesta það. En menn verða aftur á móti að gæta þess, um hvað er haft samráð. Hvar eru mörkin? Ég nefndi, hygg ég, í upphafi ákvarðanir sem sannarlega varða einstök byggðarlög mjög miklu, við skulum segja takmarkanir á rækjuveiðum eða hvenær á að stöðva rækjuveiðar o.s.frv., sem ég gæti rakið hér og allir þekkja. Vitanlega veit ég að stöðum loðnuveiða er miklu stærri ákvörðun. Ég vil taka það skýrt fram. En ég tel að fyrst og fremst eigi að hafa slíkt samráð á meðan stefnan er mótuð, meðan ramminn er ákveðinn, eins og hæstv. fyrrv. sjútvrh. sagði áðan. Ég hef t.d. í huga að athuga að nýju alla þá ákvörðun eða það sem hefur verið sagt um stefnuna í sambandi við þorskveiðar. Þar er nokkurt svigrúm, þó það sé ekki mikið. Ég legg á það áherslu að kanna breyttar leiðir til að ná markmiðum eða standa við þau markmið sem ákveðin eru í þorskveiðum, ég get ekki farið að rekja það hér, og í því sambandi er alveg nauðsynlegt að hafa náið samráð bæði við hagsmunaaðila og þingnefndir.

Ég vil segja það út af því, sem hv. þm. Stefán Jónsson sagði, að sjútvrn. var að sjálfsögðu ljóst og þar liggja fyrir, upplýsingar um magn af hrognum í Japan. En ég sagði áðan, að mér væri ekki ljóst að magnið væri svona mikið af þeirri ástæðu sem hv. þm. greindi í fyrri ræðu sinni, vegna vonbrigða sem Japanir hefðu orðið fyrir í sambandi við hrognin. Hitt get ég svo upplýst, að mikil eftirspurn er eftir frystri loðnu og Japanir hafa fallist á að kaupa hrogn með þessari frystu loðnu, svo þeir eru tilbúnir að bæta nokkru við sig. (StJ: Inni í loðnunni?) Nei. Þeir virðast þess vegna ekki alveg vonlausir um einhver góð áhrif af loðnuhrognunum.