12.02.1980
Sameinað þing: 24. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 760 í B-deild Alþingistíðinda. (819)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Vestf. beindi áðan til mín fsp. Raunar hefur hæstv. sjútvrh. svarað þeim, en ég vil þó ekki láta hjá líða að bæta við örfáum orðum.

Sú ákvörðun, sem hér hefur verið til umræðu, er tekin af hæstv. sjútvrh., eins og hann hefur mjög skýrt tekið fram sjálfur. Það byggist á lögum landsins, að það er sjútvrh. sem tekur slíka ákvörðun. Sú ákvörðun hans var studd sterkum rökum. M.a. hafði Hafrannsóknastofnunin lagt til að ekki yrði leyft að veiða meira af loðnu en 300 þús. tonn á tímabilinu 1. jan. til vertíðarloka, og segir svo í bréfi hennar, „að frekari skerðing hrygningarstofnsins verður að telja utan skynsamlegra marka“. Stofnunin leggur m.ö.o. á það þunga áherslu að ekki sé farið yfir þetta mark. Undir þetta skrifa Jón Jónsson forstjóri Hafrannsóknastofnunar og Hjálmar Vilhjálmsson fiskifræðingur, sá maður sem hefur allra manna mesta þekkingu og reynslu af vísindamanna hálfu í þessu efni.

Eins og hæstv. ráðh. hefur tekið fram, skýrði hann ríkisstj. á fundi í morgun frá ákvörðun sinni sem hann að lögum hafði tekið.

Varðandi stefnuna í fiskveiðamálum er, eins og hæstv. félmrh. skýrði frá áðan, þess getið í stjórnarsáttmálanum að fiskveiðistefnan verði ákveðin þannig að hagsmunaaðilum sé ljóst með góðum fyrirvara, hvaða reglur eigi að gilda um nýtingu fiskimiðanna, og framkvæmd stefnunnar verði endurskoðuð með það í huga að tryggja sem víðtækust samráð. Hér er þessi meginstefna og meginregla sett fram um samráð. Að sjálfsögðu verður rætt um mótun fiskveiðistefnunnar í ríkisstj. og á ráðherrafundum og hvernig hún skuli mótuð í heild og framkvæmd.

Ég vildi láta þetta koma hér fram. Það má vera að það hafi stundum komið fyrir að fiskveiðistefnan og þýðingarmiklar ákvarðanir í því efni hafi verið teknar án þess að nægilega hafi verið um það rætt í viðkomandi ríkisstj. Það er ætlunin að svo verði gert nú um ákvörðun fiskveiðistefnunnar.