19.12.1979
Efri deild: 5. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í B-deild Alþingistíðinda. (82)

16. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Tómas Árnason:

Herra forseti. Við framsóknarmenn leggjum mikla áherslu á jafnrétti í orkumálum og að landsmenn búi í öllum aðalatriðum við sama orkuverð. Án þess að ég ætli að stofna til almennra umr. um þessi málefni, sem eru að mínu mati ein þau brýnustu málefni sem þarfnast úrlausnar eins og ástatt er, vildi ég koma þessu sjónarmiði á framfæri og enn fremur því, að Framsfl. mun leggja á það mikla áherslu, að þessi mál í heild, ekki aðeins raforkuverðið og jöfnun þess, heldur einnig húshitunarmálin, verði tekin til heildarmeðferðar af ríkisstj. og Alþingi.

Þetta mál, sem hér er til umr., stefnir í þá átt að jafna raforkuverðið í landinu. Þess vegna erum við því að sjálfsögðu fylgjandi og munum greiða fyrir framgangi þess hér í þinginu nú fyrir jólaleyfi. Ég held að það sé rétt, að þessi upphæð sé áætluð á fjárl. að vera 2900 millj. kr., minnir mig vera, og greiðist úr ríkissjóði til Orkusjóðs og þaðan 80% til Rafmagnsveitna ríkisins og 20% til Orkubús Vestfjarða. Að sjálfsögðu kemur einnig til greina að verðjafna beint af fjárl. með öðrum hætti.

Þessi verðjöfnunaraðferð hefur sætt andmælum, eins og kunnugt er. Það hefur komið fram hér í umr. áður á Alþ. Í fyrravetur skiptist þingheimur nokkurn veginn í tvær fylkingar í þessu máli gagnvart þessari aðferð, þannig að það kemur vissulega til greina að finna aðrar aðferðir til að jafna raforkuverðið. Spurning er hvort ekki kæmi til álita að taka þetta mál og húshitunarmálin algerlega út úr fjárl. í heild, vegna þess að þau eru orðin svo brýn og vegna gerbyltingar í þeim málum á örfáum mánuðum, og taka þau þannig til meðferðar í heild sinni.

Það hefur einnig komið fram hér í umr., að Rafmagnsveitur ríkisins búa við mikinn fjárskort. Þær skulda geysimikið fé vegna starfsemi sinnar og aðstaða þeirra til þess að selja raforku á sambærilegu verði t.d. við Landsvirkjun er gersamlega fráleit eins og ástatt er, sérstaklega vegna þess þáttar í starfsemi Rafmagnsveitnanna sem er stundum kallaður félagslegar framkvæmdir, þ.e. línulagnir í dreifbýlinu. Þess vegna var það, að í fjárlagafrv. því, sem ég gekk frá og lagði fyrir Alþ. í haust, var gert ráð fyrir sérstöku framlagi á fjárl, til Rafmagnsveitna ríkisins, einum milljarði, sem sérstaklega var ætlaður til félagslegra framkvæmda. Einnig var gert ráð fyrir því, eins og kom fram í ræðu hv. 4. þm. Norðurl. e., að skilgreint yrði, hvað væru félagslegar framkvæmdir, og leitað leiða til þess, að þær væru kostaðar á annan hátt en þann, að menn yrðu að greiða það beint í rafmagnsverðinu.

Það verður að játa, að það er minna svigrúm fyrir ríkissjóð í þessum efnum vegna þess að hann þarf að standa undir gífurlegum framlögum vegna fjármagnskostnaðar við Kröflu. Á næsta ári eru þessar fjárhæðir áætlaðar 3.9 milljarðar kr. og það er náttúrlega geysilega stór biti fyrir ríkissjóð að kyngja. Ef þau mál færast til betri vegar, sem við skulum öll vona, kann að skapast svigrúm til þess að sinna þessum málum fljótar en ella hefði verið unnt.

Ég vildi með þessum fáu orðum undirstrika það, að við í Framsfl. greiðum auðvitað fyrir málinu í gegnum þingið, en höfum mikinn áhuga á því, að þessi mál í heild, orkumálin, verði tekin upp af Alþ. og ríkisstj. hið allra fyrsta.