12.02.1980
Sameinað þing: 24. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 761 í B-deild Alþingistíðinda. (820)

Umræður utan dagskrár

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umræður nema örlítið.

Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir það svar sem hann gaf við þeirri fsp. sem ég bar fram fyrr í dag. Mér var ljóst að lagaheimildin er algjörlega í höndum sjútvrh. Það hefur skeð áður og skeði í þeirri ríkisstj., sem hæstv. forsrh. átti sæti í á árunum 1974–1978, að öll slík mál og ákvarðanir voru lagðar fyrir ríkisstj. En nú virðist hafa verið höfð fljótaskrift á þessu þrátt fyrir málefnasamninginn sem hann var að vitna í. Nú skýrir hæstv. sjútvrh. bara frá þeirri mikilvægu ákvörðun að stöðva loðnuveiðarnar.

Það er auðvitað gott að fá að heyra að forsrh. landsins telur að eitt bréf frá Hafrannsóknastofnuninni í þessum efnum sé sama og lög. Það þarf ekkert að taka tillit til annarra, það þarf ekkert að taka tillit til þeirrar reynslu sem sjómenn og skipstjórnarmenn hafa í þessum efnum. Þessi ríkisstj. virðist því á öðrum virkum starfsdegi sínum hafa lýst því yfir að hún er bandingi sérfræðinga í einu og öllu.