12.02.1980
Neðri deild: 34. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 764 í B-deild Alþingistíðinda. (824)

107. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Það er laukrétt hjá hv. þm. Sighvati Björgvinssyni að þegar greiðsluheimildin var til umr. fyrr í vetur var hún upphaflega sett fram sem ótímabundin heimild til fjmrh., en við Alþb.-menn gerðum þá kröfu ásamt ýmsum öðrum að heimildin yrði bundin einhverjum ákveðnum tímamörkum. Það töldum við eðlilegt og sjálfsagt. Í fullu og rökréttu framhaldi af afstöðu okkar þá leggjum við aftur til, eins og gert er í þessu frv., að heimildin verði tímabundin, ekki almenn. Við teljum sjálfsagt að Alþ. veiti þessa heimild aðeins til takmarkaðs tíma í senn.

Ég þakka hv. þm. ábendingar sem fram komu í máli hans áðan. Það má vel vera að orðalag í lögunum eins og þau eru nú sé of þröngt, a.m.k. eins og hann túlkaði það áðan. Ég tel alveg sjálfsagt að athuga í n. hvort ekki sé eðlilegra að haga orðum á annan veg þannig að heimildin sé ekki svo þröng sem hann vildi vera láta.

Ég get ekki svarað spurningu hans um ríkissjóðsvíxla og ríkisskuldabréf. Ég held að viðræður við bankakerfið þurfi að eiga sér stað áður en nokkrar fullyrðingar verða fram settar um það efni. En ég held að upphæðin í þessum efnum breyti ekki neinu, aðalatriðið sé að Alþ. veiti heimild til að afla fjár til bráðabirgða með þessum hætti.

Ég hef orðið var við að fyrrv. fjmrh. hefur gert mikið veður út af því, að afkoma ríkissjóðs hafi verið óvenjulega góð á seinustu stjórnardögum fráfarandi stjórnar og t.d. hafi afkoma ríkissjóðs verið betri á fyrsta mánuði þessa árs en var á fyrsta mánuði seinasta árs. Ég held að rétt sé að skjóta því inn í þessu samhengi, að skýringin er sennilega sú sem hann gaf hér áðan, að fráfarandi fjmrh. taldi sig ekki hafa heimildir til að greiða eitt og annað, sem þó telst vera lögbundið, og greiddi t.d. alls ekki útflutningsbætur í þeim mánuði eins og ég hygg að venjulegast hafi áður verið gert. Eins er mér sagt að skuldahali við Tryggingastofnun ríkisins hafi lengst talsvert mikið í janúarmánuði. En fráfarandi fjmrh. gaf skýringu á þessu áðan. Hann virðist ekki hafa talið sig hafa heimild til að inna þessar greiðslur af hendi. Það er gott að fá það upplýst hér.

Ég vil sem sagt að lokum þakka honum fyrir þá ábendingu, sem hann kom með hér áðan, að vel megi vera að orðalag laganna sé í þrengsta lagi miðað við þær heimildir sem þurfa að vera fyrir hendi.