19.12.1979
Efri deild: 5. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 70 í B-deild Alþingistíðinda. (83)

16. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Stefán Guðmundsson:

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir um verðjöfnunargjald af raforku, er ekki nýtt af nálinni og hefur verið til umfjöllunar í þessari hv. d. áður, eins og hefur þegar komið fram. Ég er þeirri hugsun sammála að ná sem mestum jöfnuði í þessum efnum meðal íbúa landsins alls. Ég er sammála því, að það verður á einhvern hátt að hamla gegn hinum mikla mun sem er á raforkuverðinu í landinu. Það er hins vegar spurning í mínum huga, hvort rétt sé að taka þetta jöfnunargjald sem prósentugjald af orkukaupendum eins og verið hefur nú um sinn og lagt til í þessu frv.

Rafveita Siglufjarðar hefur komið hér til umr. og var svo einnig þegar þetta mál var til umfjöllunar síðast í þessari hv. d. Siglfirðingar hafa að mínu mati hér nokkra sérstöðu. Þeir hafa byggt sitt orkuver sjálfir og eru ekki aðeins með dreifiveitu, heldur eiga þeir einnig og reka orkuöflunarveitu sem selur orku ekki aðeins til Siglfirðinga, heldur einnig í Fljót og til Ólafsfjarðar. Forsvarsmenn Rafveitu Siglufjarðar komu á fund iðnn. í gær, eins og hér hefur komið fram, og óskuðu þess að verða undanþegnir þessu jöfnunargjaldi, en um það náðist ekki samstaða í n. Hins vegar höfðu nm. skilning á fjárhagsvanda Rafveitu Siglufjarðar, sem er mikill, og vilja gera sitt til að leysa hann á sérstakan hátt eða með sérstökum aðgerðum, eins og hv. formaður iðnn., Þorvaldur Garðar Kristjánsson, sagði í sínu máli þegar hann talaði fyrir þessu frv. Ég treysti því, að svo verði að staðið. Af þeirri ástæðu flyt ég ekki brtt. við þetta frv., en legg ríka áherslu á að á vanda þessarar rafveitu verði litið með fullum skilningi og velvilja og úr honum reynt að leysa.

Vegna þeirra aðstæðna, sem nú ríkja á Alþ., og þess nauma tíma, sem þm. hafa til umfjöllunar um þetta verðjöfnunargjald og önnur mál sem nauðsynlega þurfa að fá afgreiðslu fyrir n.k. áramót, er í sjálfu sér ekki miklu hægt að breyta, hvað þá að bylta. Það er hins vegar rík ástæða til að lögð verði mikil vinna í að athuga þessi mál í heild sinni og reynt að finna færari leið að því marki að ná auknum jöfnuði í þessum efnum.

Ég ætla ekki að segja fleira um þetta mál. Það, sem ég vildi segja, er margt og nokkuð af því komið fram hjá öðrum nm. Ég styð þetta frv. og mun greiða því atkv., en það er nauðsynlegt, eins og ég sagði áðan að leggja meiri vinnu í og ríkari áherslu á að finna farsælli leið að þessu annars ágæta marki.