13.02.1980
Neðri deild: 35. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 769 í B-deild Alþingistíðinda. (836)

107. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði

Frsm. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins geta þess, að á sínum tíma, þegar frv. um greiðsluheimildir kom til afgreiðslu í fjh.- og viðskn. í desembermánuði, voru lagðar fyrir nefndina þær forsendur sem reiknað var út frá í þeirri greiðsluáætlun sem þá var lögð fyrir, og þá var gert ráð fyrir rekstrarhalla í febrúarmánuði upp á 5 milljarða 871 millj. kr. Í morgun, þegar þessi mál voru rædd, gerðu starfsmenn ráðuneytisins ráð fyrir svipuðum halla. En út af fyrir sig er lítið annað hægt að gera en að ganga út frá tölum, sem í fjárlagafrv. eru, og reikna ákveðið hlutfall af þeim og eins ákveðið hlutfall af tekjum ársins. Greiðsluáætlunin getur ekki verið með öðrum hætti.

Ég vil geta þess, að í þeim lögum, sem voru samþykkt í desembermánuði, voru heimildirnar ekki bundnar við neina ákveðna upphæð, og töldu starfsmenn ráðuneytisins það nauðsynlegt. Hins vegar gerðu þeir ráð fyrir því á fundi nefndarinnar í morgun, að fylgt yrði svipaðri aðhaldsstefnu varðandi þessi mál þar til fjárlög lægju fyrir, samkv. þeim orðum, sem þar féllu, og upplýsingum sem voru gefnar í nefndinni. Það er ljóst, að það voru gefnar vissar upplýsingar á fundi nefndarinnar í morgun þó að væntanlega fáum við þær upplýsingar frekar útfærðar og skriflegar. Ég vonast til að við fáum þær í dag.