13.02.1980
Neðri deild: 35. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 773 í B-deild Alþingistíðinda. (839)

107. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins láta það koma fram að hér var ekki í des. og er ekki nú beðið um nákvæma sundurliðaða greiðsluáætlun um einstök verk. Eins og allir þm. væntanlega þekkja er útgjöldum fjárlaga skipt í tiltekna málaflokka, sem ekki eru mjög margir. Eftir að gerð hefur verið verið sú grófa greiðsluáætlun, sem lögð var fyrir 20. des. 1979, er eftir innan við dagsverk. Það er nánast ráðherrans að ákveða hvort hann ætlar að fylgja þeirri skiptingu, sem þar er, eða ekki eða ákveða hvaða breytingar hann vill á henni gera.

Áætlunin, sem miðað var við, er á einni lítilli bls., um 20 línur eða svo. Þar kemur fram að greiðsluheimildir samkv. þeirri heimild, sem Alþ. veitti, nái til launa, annarra rekstrargjalda, viðhalds, vaxta, almannatrygginga, niðurgreiðslna, útflutningsbóta, olíustyrks, annarra rekstrartilfærslna, hreinna ríkisframkvæmda, framkvæmda kostaðra af fleiri aðilum og framlaga til lánagreiðslna. Málið er einfaldlega unnið þannig að tekin er fjárhæðin, sem var til þeirra liða í fjárlögum ársins 1979, hún lögð saman, reiknaður 1/12 af samtölunni, gert ráð fyrir að útkoman sé það sem greitt er í hverjum mánuði. Utan greiðsluheimildar verða hins vegar vextir af yfirdráttarskuld, vegagerðarframkvæmdir, nýjar hreinar ríkisframkvæmdir, nýjar framkvæmdir kostaðar af fleiri aðilum, fjárfestingarstyrkir til sveitarfélaga, fjárfestingarstyrkir til einstaklinga og framlög til fjárfestingarlánasjóða. Hið einfalda verk er að taka ákvörðun um og skýra þinginu frá því, hvort eigi að starfa í stórum dráttum eftir þessari greiðsluáætlun eða ekki. Það þarf hvorki 10 daga né viku til að ákveða sig. Hæstv. ráðh. getur nánast ákveðið sig þar sem hann situr þarna í stólnum. Hann hefur greiðsluáætlunina, sem lögð var fyrir þingið með þessum hætti fyrir nokkrum vikum, og hann þarf að gera þá einföldu spurningu upp við sig hvort hann ætti að fylgja henni í stórum dráttum eða ekki. Ef hann ætlar ekki að gera það, hverju ætlar hann þá að breyta í hinni mjög svo einföldu áætlun? Þetta ætti væntanlega að liggja öllum þm. ljóst fyrir. A.m.k. liggur það ljóst fyrir í mínum huga.

Ég vil aðeins taka fram í þessu sambandi, að það hefur aldrei gerst samkv. þeim upplýsingum sem ég fékk, það eru þá ný vinnubrögð á Alþ.,ríkisstj. sem fær bráðabirgðagreiðsluheimild í hendur, haldi þannig ámálunum að hún verji fé úr ríkissjóði til greiðslu stofnkostnaðar eða til nýrra fjárfestingarframkvæmda. Það hefur aldrei gerst áður, og koma þá nýir siðir með nýjum herrum, einfaldlega vegna þess að bráðabirgðagreiðsluheimildir eru veittar af því að fjárlög eru ekki til, fyrst og fremst til þess að hjólin í samfélaginu geti haldið áfram að snúast, fyrst og fremst til að heimila ríkisstj. að greiða launakostnað og launatengd gjöld og standa við skuldbindingar sem ríkisstj. hefur áður gert, t.d. við verktaka og aðra slíka. Það hefur hins vegar aldrei gerst, ég lét kanna það sérstaklega þegar ég bað um greiðsluheimild, — það hefur aldrei gerst í þingsögunni að fjmrh. hafi óskað eftir óútfylltri ávísun frá þinginu svo að hann gæti hafið greiðslur á stofnkostnaðarframlögum eða nýjum fjárfestingum ef honum dytti í hug. Hvað þýðir það? Það þýðir einfaldlega að þá er ekki lengur nein pressa á ríkisstj. að láta afgreiða fjárlög. Tíu þm. eru þá komnir með fjárveitingavaldið eins og það leggur sig, — þeir tíu þm. sem sitja í ráðherrastólunum. Þegar fjárlög koma til afgreiðstu gæti ríkisstj. verið búin að taka stefnumarkandi ákvörðun um allar þær framkvæmdir sem ætti að ráðast í á árinu 1980. Alþ. hefði þá nánast ekkert að gera.

Ég vil taka fram, að það, sem kom fram hjá hæstv. fjmrh. áðan í þessu sambandi, að menn mættu alveg eins eiga von á því að hann hæfi greiðslur úr ríkissjóði, stangast gersamlega á við þær upplýsingar sem starfsmenn hans, embættismenn í fjmrn., hafa veitt á fundi fjh.- og viðskn. og formaður hennar greindi frá áðan. Ég tel að það sé alger lágmarkskrafa Alþingis, ef yfirlýsingar ligg ja frammi frá hæstv. fjmrh. um að hann hugsi sér að nota bráðabirgðagreiðsluheimild svona, þá á hann skilyrðislaust að greina Alþingi frá, hvaða fjárfestingarframkvæmdir og stofnkostnaðarframlög hann hefur í huga. Ég segi alveg eins og er, að ef þetta er ekki bara misskilningur hjá hæstv. ráðh., heldur ætlun hans að taka upp þá nýju siði að gerast ásamt hinum nýju félögum sínum nánast einvaldur um nýjar framkvæmdir á Íslandi, þannig að ekki sé lengur neinn þrýstingur á það af hálfu ríkisstj. að ganga frá fjárlögum, hún ætli sér að hefja greiðslur á stofnkostnaði og greiðslu á kostnaði við nýjar framkvæmdir og telji það rúmast innan þeirra bráðabirgðagreiðsluheimilda sem Alþ. veitir henni, þá mun ég endurskoða hug minn um afstöðu til þessa máls.