13.02.1980
Neðri deild: 35. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 774 í B-deild Alþingistíðinda. (840)

107. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég held að það sé misskilningur hæstv. fjmrh., að ég hafi sagt áðan að engar upplýsingar hefðu komið fram á fundi fjh.- og viðskn. í morgun frá starfsmönnum fjmrn. Formaður fjh.- og viðskn. greindi frá því áðan, hvaða upplýsingar komu þar fram, m.a. að þar voru nefndar fjórar tölur, tvær um tekjuhliðina og tvær um útgjaldahliðina hinn tiltekna tíma. Það, sem óskað var eftir á þessum fundi ítrekað, var að n. fengi beinagrind af sundurliðaðri greiðsluáætlun hliðstæðri þeirri sem m.a. fulltrúar í fjh.- og viðskn. úr þingflokki hæstv. núv. fjmrh. gerðu kröfu til að fá í des. s.l. Mér virðist þetta vera eitt ljósasta dæmið um hvernig menn breyta afstöðu til mála eftir því, hvort þeir eru í ráðherrastól eða hvort þeir eru óbreyttir þm. og í stjórnarandstöðu. Hér er verið að óska eftir nákvæmlega því sama og hæstv. núv. fjmrh. og flokksbræður hans gerðu í des. s.l., sem var sjálfsagt að mínu áliti. Nú er verið að óska eftir nákvæmlega því sama, en þá stendur hæstv. fjmrh. þversum fyrir og segir að ekki sé hægt að verða við slíku nema þá því aðeins að það taki viku til 10 daga. Þetta er eitt ljósasta dæmið um hvað menn virðast vera fljótir að hafa buxnaskipti eftir því hvort þeir sitja í ráðherrastól eða hvort þeir sitja í þingmannsstól hér á hv. Alþ. Og það er eins gott að í ljós komi hverjir ráða ferðinni í þeim buxnaskiptum. Það er núna hæstv. fjmrh. sem hvað harðast gengur fram í því. (Gripið fram í.) Það skyldi nú ekki vera að hann stæði upp berstrípaður áður en lýkur.

Ég trúi því ekki, þó að hæstv. fjmrh. lýsi því hér yfir, að ekki sé hægt að leggja fram álíka sundurliðaða greiðsluáætlun nú og gert var í des. s.l. Ég hef enga trú á því. Og eftir þær upplýsingar, sem hæstv. ráðh. gaf áðan um að honum finnist a.m.k. líklegt eða í vissum tilfellum muni ekki vera hægt að komast hjá því að um fjárfestingarframkvæmdir yrði að ræða, finnst mér ekki óeðlilegt að þm. almennt vilji fá að sjá í hvaða tilfellum yrði um fjárfestingarframkvæmdir að ræða. Ég held a.m.k. að fjh.- og viðskn.-menn hafi ekki skilið málið svo, að það ætti að vera um neitt nýtt að ræða umfram það sem gert var ráð fyrir í des. s.l. En mér fannst fullkomlega koma fram hjá hæstv. fjmrh. að slíkt gæti orðið. Ef hann lýsir því yfir, að hann ætli að fylgja fyrirmynd Alþfl. í sambandi við þetta og leggja til grundvallar þá greiðsluáætlun sem var gerð í vetur, horfir málið auðvitað öðruvísi við, því að þar hafa menn þó eitthvað á blaði um hvað verið er að tala, en ekki eingöngu almennar yfirlýsingar og í grófum dráttum tvær tölur að því er varðar tekjuhlið og útgjaldahlið málsins.

Mér finnst því að ekki sé að ástæðulausu að þm. almennt geri þá kröfu til ríkisstj., hver sem hún er, að hún leggi á borðið einhverjar upplýsingar þegar verið er að fara fram á heimildir eins og um ræðir í þessu tilfelli. Það er ekki til of mikils ætlast. Og það á ekki að skipta máli hvaða einstaklingur situr í ráðherrastól að því er varðar fjmrn. Mér virðist þó, að það sé farið að skipta máli fyrir hæstv. núv. fjmrh. hvaða einstaklingur það er sem í stólnum situr.