13.02.1980
Neðri deild: 35. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 776 í B-deild Alþingistíðinda. (842)

107. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Mér virðist ýmislegt óljóst í málflutningi hæstv. ráðh. um hvað hann ætlar sér að gera á næstu vikum í sambandi við útgjöld úr ríkissjóði. Ég vil leggja þá fsp. fram og óska að fá upplýsingar um það, hvaða hugmyndir hann hefur gert sér varðandi niðurgreiðslur á þeim sex vikum sem hann fer fram á greiðsluheimildir til, hvort hann búist við að niðurgreiðslur verði hækkaðar 1. mars, hvort hann búist við að fara í þeim efnum eftir fjárlagafrv. Tómasar Árnasonar, sem að vísu hefur ekki verið lagt fyrir þetta þing, eða hvað hann hyggist gera í þeim efnum.

Ég vil svo þiggja hans góða boð að fá. í hendur greiðsluyfirlit frá fjmrn., þó að það dragist í 7 daga eða 10 daga, og vænti þess að hann sendi þm. það strax og það verður tilbúið, fyrir febr. og mars, svo að við getum haft það í höndum.