14.02.1980
Neðri deild: 37. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 782 í B-deild Alþingistíðinda. (870)

44. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Það hefur orðið veruleg umræða um skattamál á undanförnum árum og það óréttlæti sem ríkt hefur á ýmsum sviðum skattamálanna. Þar verður að sjálfsögðu að skilja á milli þess, sem er löggjafaratriði, og þess, sem er framkvæmdaatriði. Það er ljóst, að ekki er nægilegt að við höfum í þessu landi góð skattalög, það verður einnig að búa þannig um, að réttlát og þolanleg framkvæmd þeirra sé tryggð. En þau vandamál, sem komið hafa upp varðandi löggjafaratriði í skattamálum nú á undanförnum árum, má flest hver rekja til verðbólgunnar. Verðbólgan hefur gífurleg áhrif á þau hugtök sem endanleg skattlagning miðast við, þ.e. tekjuhugtakið og eignahugtakið. Aðalatriðið er það, að einstaklingar, sem búa við sambærilegar aðstæður, greiði sambærilega skatta, og þetta hefur löggjöfin ekki getað tryggt. Þar kemur ýmislegt til:

frádráttarheimildir, sérstaklega vaxtafrádráttur, söluhagnaðarákvæði og kannske ekki sterk framkvæmd laganna, en veik framkvæmd laga hlýtur að skapa misrétti í ákveðnum tilfellum.

Í því frv., sem hér liggur fyrir, er að mjög litlu leyti fjallað um skattlagningu einstaklinga og þær leiðréttingar sem hafa verið gerðar og breytingar á framtali einstaklinga — þar er fyrst og fremst fjallað um vaxtafrádráttinn — og mun ég ekki fjalla um það hér, því ekki er gert ráð fyrir að þau ákvæði taki gildi við skattlagningu nú á næstunni. En þar er gert ráð fyrir því að setja ákveðið hámark á vaxtafrádráttinn og binda það því, að vextirnir séu greiddir vegna öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota. En auðvitað er ljóst, að takmarkalaus frádráttur vaxta, sem er í flestum tilfellum greiðsla fyrir verðrýrnun skulda, skapar ákveðin forréttindi þeim til handa sem mest skulda og bestan aðgang hafa að lánsfé.

Í því frv., sem hér liggur fyrir, er fyrst og fremst fjallað um skattlagningu atvinnurekstrarins og skilgreiningu á þeim hugtökum sem skattlagningin byggir á, þ.e. hagnaðarhugtakinu og eignahugtakinu. Verðbólgan hefur brenglað svo skilgreiningu þessara hugtaka, að það er orðið óhjákvæmilegt að líta til þeirra áhrifa sem verðbólgan hefur á þau. Að vísu er skattlagning byggð á ýmsu öðru, eins og veltu fyrirtækja og öðru slíku. En það er skoðun mín að slík skattlagning sé ekki réttlát. Skattlagning á fyrst og fremst að byggja á tekjum aðila, en ekki umsvifum og eignum aðila, þannig að það er mjög mikilvægt að skilgreining þessara hugtaka sé sem best.

Það, sem gerist í verðbólgu, er að ýmislegt brenglast í reikningsskilum fyrirtækja, sem leiðir til þess að niðurstöður reikninga fyrirtækja er ekki hægt að leggja til grundvallar mati á afkomu þeirra og þar með skattlagningu þeirra. Afskriftir eru samkvæmt eldri lögum byggðar á kostnaðarverði, sem í mörgum tilfellum er gamalt kostnaðarverð og löngu úrelt, þannig að afskriftir eru þess vegna ekki nægilega miklar í flestum tilfellum og ekki byggðar á endurmatsverði. Samkvæmt þessu frv. er gert ráð fyrir að stöðugt endurmat fari fram á eignum og afskriftir verði miðaðar við þetta endurmat. Hins vegar eru afskriftarhlutföll verulega lækkuð, en það hefur verið stefna á undanförnum árum, til þess að mæta því vandamáli sem verðbólgan hefur skapað, að hækka fremur afskriftarhlutföll, taka upp hina svokölluðu flýtifyrningu og verðstuðulsfyrningu til þess að mæta vandamálum verðbólgunnar. Í öðru lagi hefur verðbólgan þau áhrif, að vörunotkun er færð á verðlagi, sem er skakkt, í reikningum fyrirtækja. Og í þriðja lagi er fjármagnskostnaður allur færður til gjalda án tillits til þeirrar verðbólgu sem ríkir, þannig að hagnaður, sem myndast af verðrýrnun skulda, kemur ekki til tekna við skattlagninguna.

Það eru þessi atriði, sem skekkjan felst einkum í, og það eru þessi vandamál, sem þetta frv. tekur einkum á. Hins vegar er ljóst að það er ekki einfalt mál að taka á þeim vanda sem fylgir slíku verðbólguástandi sem nú er varðandi skattlagningu atvinnurekstrarins. Og mörgum finnst þær reglur, sem hér eru komnar á blað, vera flóknar og erfiðar í framkvæmd. En þetta eru þær afleiðingar sem menn hljóta að standa frammi fyrir í slíku verðbólguástandi sem hér hefur ríkt mörg ár, að það mun kosta þjóðfélagið mikla vinnu og verulega skriffinnsku ef á að aðlaga ýmsa hluti þessu verðbólguástandi.

Það er vissulega rétt, að betra væri að koma verðbólgunni alveg niður en að þurfa að aðlaga skattalög verðbólgu. En þegar hún hefur ríkt jafnlengi og raun ber vitni tel ég að flestum sé það ljóst, að ekki verður lengur hægt að loka augunum fyrir því ástandi sem þar hefur skapast.

Nefndin hefur starfað að þessum málum nú í nær tvo mánuði, og við höfum átt sameiginlega fundi með fjh.og viðskn. Ed. Með nefndunum hafa starfað Árni Kolbeinsson deildarstjóri í fjmrn. og Ólafur Nilsson löggiltur endurskoðandi og aðstoðað okkur við það st.arf sem þar hefur farið fram.

Þegar n. fékk frv. til meðferðar í des. s.l. var öllum ljóst að nauðsynlegt var að þetta mál fengi skjóta meðhöndlun, þar sem mikil óvissa ríkti um það, með hvaða hætti framtöl skyldu gerð af einstaklingum og af fyrirtækjum, og nú hefur þurft að framlengja framtalsfresti tvívegis vegna þessa óvissuástands. Hins vegar þótti n. ekki mögulegt að afgreiða málið nokkrum dögum eftir að hún fékk það til meðferðar. Hér var um miklu stærra mál að ræða en svo að slíkt væri verjandi.

N. taldi nauðsynlegt að athuga málið allítarlega og hafa samráð við ýmsa aðila sem hagsmuna eiga að gæta. Var frv. sent til umsagnar margra aðila og bárust bréf og umsagnir frá eftirgreindum aðilum: Sameiginleg umsögn frá Félagi ísl. iðnrekenda, Landssambandi ísl. útvegsmanna, Vinnuveitendasambandi Íslands, Landssambandi iðnaðarmanna, Sambandi fiskvinnslustöðva og Verslunarráði Íslands. Frá Félagi löggiltra endurskoðenda, Sambandi ísl. bankamanna, Kauphöllinni c/o Aron Guðbrandsson, Sambandi ísl. bankamanna, Jafnréttisráði, Stéttarsambandi bænda, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Sambandi ísl. samvinnufélaga, Sölustofnun lagmetis, Félagi ísl. iðnrekenda, Félagi einstæðra foreldra, Alþýðusambandi Íslands, Stúdentaráði Háskóla Íslands og Bandalagi háskólamanna. Auk þess komu fulltrúar frá ýmsum þessara aðila á fund n. Þeim var boðið að koma á fund n. ef þeir óskuðu eftir því, og voru ýmsir sem þáðu það og komu til þess að gera grein fyrir sínum málum.

Umsagnir þessar eru mismunandi ítarlegar, því að stuttur frestur var gefinn til þess að skila umsögnum og aðilar höfðu ekki langt ráðrúm til þess að ganga frá þeim. Þessar umsagnir fjalla fyrst og fremst um skattlagningu atvinnurekstrarins. Umsagnir frá aðilum eins og Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna, Sambandi ísl. bankamanna og fleirum eru ekki ítarlegar og báru allir við tímaskorti sem eðlilegt var. En öllum þessum aðilum var auk þess boðið að koma á fund n., ef þeir óskuðu eftir því, og þáðu það nokkrir aðilar.

Nefndarmönnum er það ljóst, að ýmsar ábendingar, sem þarna komu, eru mjög mikilvægar fyrir þessa aðila. Hins vegar hefur verið reynt að takmarka breytingar og brtt. við það sem hefur þótt óhjákvæmilegt og sæmileg samstaða hefur náðst um. Þykir mér rétt að gera grein fyrir aðalatriðum í þeim brtt. sem hér liggja fyrir frá n. á sérstöku þskj. og eru samtals á u.þ.b. 11 vélrituðum síðum og eru því nokkuð umfangsmiklar. Sannleikurinn er sá, að allar breytingar á skattalöggjöfinni eru mjög erfiðar í framkvæmd. Það eru svo miklar tilvitnanir frá einni grein í aðra, að ein breyting getur þýtt það, að gera þurfi margar breytingar á öðrum stöðum, og það er mikil hætta á mistökum þegar þessar breytingar eru gerðar.

Það atriði, sem n. hefur e.t.v. eytt mestum tíma í, er svokölluð fyrning, sérstök fyrning vegna verðbreytingarhagnaðar. Meginatriði þessa frv. er meðferð á verðbreytingarhagnaði eða tapi vegna peningaeigna og skulda, og það kemur skýrt fram í frv. að skattlagning þessa verðbreytingarhagnaðar getur skapað greiðsluvandræði. Deilt er um það, hvort slík skattlagning á að fara fram strax, þ.e. þegar rýrnun skuldanna verður, eða hvort skattlagningin skuli eiga sér stað þegar tekjurnar innleysast, t.d. við sölu viðkomandi eigna sem skuldirnar hafa verið notaðar til að fjármagna. Það er alveg ljóst, að þótt skuld rýrni um ákveðna upphæð á einu ári myndast ekkert nýtt peningastreymi í viðkomandi atvinnurekstri, þannig að skattlagning á slíkri rýrnun skuldanna hlýtur að skapa greiðsluvandræði. Frv. gerir ráð fyrir að slíkur hagnaður sé færður til tekna án tillits til þessa peningastreymis, en hins vegar er tekið tillit til þess með því að heimila afskrift á móti reiknuðum verðbreytingarhagnaði sem nemur 1/4 af þessum verðbreytingarhagnaði.

Eftir miklar umræður og umfjöllun í n. hefur þótt rétt að leggja til að þetta afskriftarhlutfall verði hækkað. Er hér gerð till. um að þetta hlutfall verði 45% af verðbreytingarhagnaði. Ég vil hins vegar taka það fram, eins og fram kemur í grg., að ekki er fullt samkomulag í n. varðandi þetta afskriftarhlutfall af verðbreytingarhagnaði, og mun n. taka það atriði til frekari umfjöllunar að lokinni 2. umr. Voru ýmsar hugmyndir uppi í n. um það, hversu hátt þetta hlutfall skyldi verða, en allir voru sammála um að vegna þeirrar miklu óvissu, sem ríkir um áhrif þessa ákvæðis, væri rétt að auðvelda aðlögun að þessum nýju aðstæðum, vegna þess að ekki er ljóst hvaða áhrif þetta hefur á einstök fyrirtæki í landinu.

Einnig er tekin upp sérstök heimild til 100% fyrningar af verðbreytingarhagnaði vegna skulda sem samsvara nýfjárfestingu sem ekki hefur verið tekin í notkun. Þetta er það atriði sem mestu máli skiptir í brtt. n. og þess vegna þótti mér rétt að gera nú strax í upphafi sérstaka grein fyrir því.

Á þskj. 164 eru brtt. sem n. gerir, og mun ég nú gera nokkra grein fyrir þeim.

brtt., sem fram kemur í 1. lið er varðandi sjálfseignarstofnanir og íþróttafélög og fleiri slíkar stofnanir, þ.e. að þessi félög séu ekki skattskyld. Þessi brtt. er í samræmi við það sem gilt hefur í þessum efnum og er til þess hugsuð að taka af þar allan vafa. Einnig er brtt. í 19. tölul. varðandi þessa aðila, en eins og menn e.t.v. vita og hafa orðið varir við gerðu lögin ráð fyrir því, að allir slíkir aðilar, sjálfseignarstofnanir, svo sem átthagafélög, slysavarnafélög og ýmis félagasamtök, væru framtalsskyld, en þyrftu að sækja um undanþágu frá því, og kom auglýsing um það í byrjun þessa árs. Hér er sennilega um nokkur þúsund aðila að ræða, og þótt ljóst sé að það er út af fyrir sig kostur að þessir aðilar geri grein fyrir fjárreiðum sínum, þá er lagt hér til að þessi skylda sé felld niður að sinni. Hins vegar er ljóst að skattyfirvöld geta að sjálfsögðu krafið þessa aðila hvenær sem er um upplýsingar um þeirra fjárreiður. En mönnum er ljóst að skattkerfið mundi ekki ráða vel við það að fara nú að fá reikninga nokkur þúsund aðila, sem kannske væri lítil ástæða til að líta á flesta hverja. Er því gert ráð fyrir að fella þessa skyldu niður.

Í 2. tölul. er engin efnisbreyting, aðeins um leiðréttingu að ræða, og það sama er varðandi 3. tölulið.

Í 4. tölul. er breyting varðandi fyrningu af íbúðarhúsnæði sem leiðir af breytingu sem er í 9. tölul., en þar er gert ráð fyrir að heimilt sé að fyrna íbúðarhúsnæði sérstakri fyrningu vegna verðbreytingarhagnaðar. Ekki er gert ráð fyrir því, að heimilt verði að fyrna íbúðarhúsnæði í þessum lögum, jafnvel þó að slíkt íbúðarhúsnæði sé notað í atvinnurekstri. Hins vegar þykir nauðsynlegt að heimilt sé að fyrna slíkt íbúðarhúsnæði í atvinnurekstri sérstakri fyrningu vegna verðbreytingarhagnaðar.

Í b-lið 4. tölul. er breyting sem skiptir verulegu máli. Þar er gert ráð fyrir því, að endurmat það, sem atvinnufyrirtæki mega framkvæma nú við þessa breytingu, verði byggt á fasteignamati í árslok 1979, en ekki í ársbyrjun 1979 eins og lögin gerðu ráð fyrir. Meginreglan er að vísu sú, að endurmatið skuli byggt á framreiknuðu kostnaðarverði, en hins vegar er heimilt að nota fasteignamat ef það er hærra. Síðan mun þetta fasteignamat verða framreiknað með sama hætti og annað í þessum lögum með verðbreytingarstuðli.

Í c-lið er gerð sú breyting, að reynt er að auðvelda þeim, sem landbúnað stunda, að flytja söluhagnað af bújörðum innan vissra marka yfir í íbúðarhúsnæði til eigin nota. En eins og lögin voru var söluhagnaður af landi í öllum tilfellum skattskyldur án tillits til þess, hvað væri fyrir hann keypt.

Nú er það náttúrlega ljóst, að í mörgum tilfellum, t.d. þegar bóndi hættir að búa vegna aldurs, er oft og tíðum ekki meira en svo að hann geti keypt litla íbúð fyrir andvirði jarðar sinnar, þó að það hafi vissulega nokkuð breyst á s.l. árum. Breytingin gerir ráð fyrir því, að ekki verði um skattlagningu af landinu að ræða noti hann söluverðið til þess að kaupa húsnæði til eigin nota í stað hinnar seldu eignar. Heimildin er hins vegar háð því, að þessi aðili hafi stundað búskap að aðalstarfi í a.m.k. fimm ár á s.l. átta árum á undan söludegi, þannig að hér er um verulega takmörkun að ræða. Og ef um sölu á landi er að ræða, t.d. hluta af landi út úr jörð undir sumarbústaði, eða einhver ákveðin slík gæði, þá er ekki gert ráð fyrir því, að heimilt sé að yfirfæra þann hagnað yfir í íbúðarhúsnæði.

Í 5. tölul. er mælt fyrir um það — sem út af fyrir sig þarf e.t.v. ekki að taka fram í þessum lögum, en þykir réttara að komi fram með skýrum hætti-að endurmatshækkun fyrnanlegra eigna samkv. ákvæðum laga þessara og matshækkun búfjár sé ekki skattskyld, enda kemur matslækkun ekki til frádráttar tekjum. Hér er fyrst og fremst átt við það, að árlegt endurmat t.d. á fasteign og lausafé færist ekki sem skattskyldar tekjur, því þar er fyrst og fremst verið að leiðrétta raungildi þeirra eigna.

Í 6. tölul. a er um leiðréttingu að ræða, en í b-, c- og d-lið eru breytingar á nokkrum fjárhæðum laganna. Eins og menn vita liggja ekki fyrir skattstigar nú á þessari stundu. Hins vegar munu menn þurfa að ganga frá framtölum sínum á næstunni og til þess að auðvelda það og koma í veg fyrir óþarfa breytingar eftir á hefur nefndinni þótt rétt að færa nokkrar fjárhæðir til þess verðlags sem nú gildir. Er það sjómannafrádráttur í fyrsta lagi, sem hækkar úr 1600 kr. á dag í 2700 samkv. brtt., í öðru lagi námsfrádráttur, sem hækkar úr 260 þús. í 430 þús., í þriðja lagi giftingarfrádráttur, sem hækkar úr 185 þús. í 306 þús., og í síðasta lagi líftrygging, sem hækkar úr 40 þús. í 66 þús. Einnig er lágmarksfjárhæð gjafa til menningarmála hækkuð úr 5 þús. í 10 þús., þ.e. ef gjafir til ákveðinna þátta menningarmála ná 10 þús. kr. eru þær upphæðir frádráttarbærar frá tekjum.

Ef nefndin hefði ekki tekið þessar breytingar upp, er ljóst að menn hefðu þurft að færa þessar fjárhæðir samkv. lögum nr. 40/1978 á framtöl sín nú, eða þá engar tölur, sem hefði kostað miklar breytingar og mikla vinnu hjá skattyfirvöldum. Þess vegna ættu þessar breytingar að auðvelda það, að menn geti nú loks farið að ganga frá framtölum sínum.

Í 7. tölul. er einnig um leiðréttingu að ræða í a-lið, en í b-lið er breyting, sem er allmikilvæg. Hún gengur út á það að framreikna rekstrartöp fyrri ára til þess verðlags sem gildir á uppgjörsdegi samkv. verðbreytingarstuðli. Frv. gerði ekki ráð fyrir slíkum framreikningi og þess vegna var ekki samræmi í þessum útreikningum. Þótti nefndinni nauðsynlegt að gera þar breytingu á.

Í 8. tölul. er hækkun á gjaldfærslu vegna kaupa á minni háttar eignum, en samkv. þeirri brtt. er gert ráð fyrir að hækka þá fjárhæð úr 200 þús. í 700 þús. Ef minni háttar eign er keypt í atvinnurekstri, að upphæð 700 þús., þá er heimilt að gjaldfæra kaupverðið strax. Gengur brtt. út á það.

9. tölul. fjallar um þá breytingu sem ég talaði hér fyrst um, þ.e. meðferð verðbreytingarhagnaðar eða taps vegna peningaeigna og skulda. Sú brtt. gerir ráð fyrir því, að heimilt verði að afskrifa 45% af þeim verðbreytingarhagnaði með sérstakri fyrningu. Einnig eru ákvæði vegna nýfjárfestingar, en ákvæði laganna hefðu getað valdið miklum erfiðleikum þegar um uppbyggingu er að ræða, og þess vegna þótti nauðsynlegt að setja ákvæði um að heimila þar hærri fyrningu varðandi eignir sem ekki hafa verið teknar í notkun í ársbyrjun, enda hafi beinn fjármagnskostnaður á byggingartíma verið eignfærður sem byggingarkostnaður. Þessi fyrirframfyrning má þó aldrei vera hærri en nemur heildarfjárhæð tekjufærslunnar, þ.e. verðbreytingarhagnaðinum, samkv. 53. gr. laganna.

Í 11. tölul. er breyting, sem fjallar fyrst og fremst um að gera það ljóst, að ákvæði um tillag í varasjóð séu byggð á skilgreiningu á því tekjuhugtaki, sem lögin og frv. gera ráð fyrir, þ.e. að heimilt sé að leggja tillag í varasjóð með tilliti til þess, að verðbreytingarhagnaður er reiknaður, og þeirrar niðurstöðu, sem rekstrarreikningurinn gefur til kynna samkv. ákvæðum þessara laga. Þetta á einnig við um úthlutun á arði og úthlutun á tekjuafgangi. Nauðsynlegt þótti að það kæmi skýrt fram, að þetta væri háð þessari skilgreiningu á tekjuhugtakinu. Það kemur einnig fram í ákvæði til bráðabirgða í 23. tölul., en þar segir: „Þrátt fyrir ákvæði III. kafla laga nr. 51/1968, um bókhald, XII. kafla laga nr. 32/1978, um hlutafélög, og laga nr. 46/1937, um samvinnufélög, sbr. 2. málslið 1. mgr. 91. gr. þessara laga, er öllum bókhaldsskyldum aðilum heimilt að miða gerð ársreikninga sinna við ákvæði þessara laga að því er varðar endurmat, fyrningar og færslu vegna verðbreytinga. Lögin raska þó ekki ákvæðum tilvitnaðra laga um að eignir í ársreikningi skuli ekki tilfæra með hærra verði en raunverulega svarar til verðmætis þeirra.“

Það er ljóst, að hvorki lög um hlutafélög né lög um bókhald gera ráð fyrir stöðugu endurmati, eins og hér er gert ráð fyrir. Þess vegna þótti nauðsynlegt að taka það fram í þessum lögum, að þetta væri heimilt þrátt fyrir ákvæði þessara laga um gerð ársreikninga og einnig væri heimilt að miða varasjóðstillag, arðsúthlutun og úthlutun á tekjuafgangi við niðurstöðu rekstrarreiknings samkv. skattalögum, þrátt fyrir ákvæði þessara laga um svipuð efni.

Einnig er gert ráð fyrir því í þessum 11. tölul., að heimilt sé að draga helming af matsverði bústofns frá skuldum áður en tekjufærsla er reiknuð. Þetta er vegna þess að bústofn er metinn um áramót eins og hann er framgenginn að vori með fóðri vetrarins í sér, ef svo má segja. Í mati búfjárins er tekið tillit til verðmætis þess að vori, en ekki um áramót. Af þessum sökum eru fóðurbirgðir bænda ekki eignfærðar um áramót. Þær eru taldar vera með í mati bústofnsins. Þess vegna er gerð tillaga hér um að þessi staðreynd verði viðurkennd með þeim hætti að heimila frádrátt helmings þessa mats frá skuldunum áður en útreikningurinn fer fram.

12. tölul. er fyrst og fremst leiðrétting og 13. einnig. 14. tölul. er aðeins orðalagsbreyting, og í 15. tölul. er fyrst og fremst fjallað um atriði sem varða eðlilega framkvæmd mála í sambandi við skilnað, sambúðarslit og fleira í a-, b- og c-lið.

16. tölul. er leiðrétting, en í 17. tölul. er gerð sú breyting, að námsfrádráttur er heimilaður, án þess að sérstaklega sé farið fram á það, til 30 ára aldurs. Hins vegar gera lögin ekki ráð fyrir því og ekki frv. heldur, að námsfrádráttur komi sjálfkrafa til eftir 30 ára aldur. Það þarf að sækja um þann frádrátt samkv. 66. gr. frv., en þar stendur: „Heimilt er skattstjóra að taka til greina umsókn manns um lækkun tekjuskattstofns þegar svo stendur á sem hér greinir“, og þar kemur fram í 5 tölul.: „ef útgjöld vegna menntunar manns eftir 30 ára aldur“ — samkv. þá þessari breytingu — „hafa skert gjaldþol hans verulega.“

Ég vil taka það fram, að í þessu sambandi hlýtur að vera eðlilegt, ef maður er í fullu námi eftir þrítugt, t.d. fer til náms tiltölulega seint miðað við það sem venjulega gerist, að hann njóti slíks frádráttar.

Hitt er svo annað mál, að ekki hefur verið talið rétt að hafa slíkan frádrátt ótímabundinn, án þess að eftirlit væri með því, og þess vegna var gerð tillaga um það á sínum tíma að binda þetta við ákveðinn aldur, en síðan þyrfti sérstök umsókn að koma til eftir 30 ára aldur.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um þetta ákvæði, en vænti þess, að við framkvæmd mála verði tekið sérstakt tillit til þeirra sem hef ja nám sitt tiltölulega seint, t.d. eftir 30 ára aldur.

18. tölul. er fyrst og fremst leiðrétting.

Í 19. tölul. hef ég þegar gert grein fyrir a-lið og næsti liður, b-liður, er leiðrétting á 41. gr.

C-liður, sem er breyting á 42. gr., er þess eðlis, að ástæða er til að fara um hann nokkrum orðum. Hann fjallar um upplýsingaskyldu og er breyting á 94. gr. laganna, en í henni segir: „Öllum aðilum, bæði framtalsskyldum og öðrum, er skylt að láta skattyfirvöldum í té ókeypis og í því formi, sem óskað er, allar nauðsynlegar upplýsingar og gögn er þau beiðast og unnt er að láta þeim í té. Skiptir ekki máli í því sambandi hvort upplýsingarnar varða þann aðila, sem beiðninni er beint til, eða aðra aðila, sem hann getur veitt upplýsingar um.“ En Samkv. brtt. er gert ráð fyrir að þetta hljóði þannig: „Öllum aðilum, bæði framtalsskyldum og öðrum, er skylt að láta skattyfirvöldum í té ókeypis og í því formi, sem óskað er eftir, allar nauðsynlegar upplýsingar og gögn er þau beiðast og unnt er að láta þeim í té. Skiptir ekki máli í því sambandi hvort upplýsingarnar varða þann aðila, sem beiðninni er beint til, eða þau skipti annarra aðila við hann er hann getur veitt upplýsingar um og varða skattlagningu þeirra aðila eða eftirlit með henni.“

Hér er ekki um neina efnisbreytingu að ræða frá þeirri framkvæmd sem verið hefur. Hér er fyrst og fremst verið að aðlaga textann að þeirri framkvæmd sem hefur verið í þessum málum. Það er ljóst, að allt skatteftirlit byggist að nokkru leyti á þessari grein, og þess vegna er mikilvægt að það sé skýrt, að hér er ekki gert ráð fyrir að um neinar breytingar verði að ræða á þeirri framkvæmd sem verið hefur, en fyrst og fremst verið að aðlaga textann að því og fella niður það orðalag, sem þar var áður, sem var nokkuð opið og þar með óljóst og hefur gefið tilefni til misskilnings. Þess vegna þótti nefndinni rétt að breyta þessu orðalagi.

Breytingar á 43. gr. hníga að því að tryggja rétt gjaldenda. Það, sem skiptir mestu máli í því sambandi, er að þar kemur fram að: „Tilkynning um skattbreytingu skal þó eigi send viðkomandi innheimtumanni fyrr en að loknum kærufresti til skattstjóra eða að loknum úrskurði kæru, hafi breytingin verið kærð, sbr. 99. gr.

Hér er verið að taka af tvímæli um það, að ekki sé hafin innheimta á opinberum gjöldum fyrr en úrskurður kæru liggur fyrir frá skattstjóra.

Í e-lið, 44. gr., er breyting á 98. gr. laganna. Gert var ráð fyrir því í lögunum, að lagt væri á félög jafnóðum og framtöl bærust, framtölin fullskoðuð og álagningu lokið. Þetta var að miklu byggt á því, að gert var ráð fyrir að taka upp staðgreiðslukerfi skatta, þannig að það eru verulega breyttar forsendur nú. Hér er gert ráð fyrir að álagning á félögin verði með svipuðum hætti, það verði lagt á þau í einu lagi tiltölulega fljótt, eftir því sem hægt er, og skoðun á framtölunum geti hafist eftir að álagning hefur farið fram.

Hér er fyrst og fremst um það að ræða að koma við ákveðnum vinnubrögðum. Þykir ljóst að skattkerfið muni ekki ráða við það nú á þessu ári að standa að málum eins og gert var ráð fyrir í lögunum, þótt það sé út af fyrir sig góð regla, og sérstaklega einnig með tilliti til þess, að nú er ekki gert ráð fyrir að staðgreiðslukerfi komist á með þessum lögum.

45. gr. leiðir af breytingu á 44. gr.

Í 46. gr. er breyting á 100, gr. í lögunum, en þar kom það fram, að ágreining um skattskyldu og skattstofna mætti ekki bera undir dómstóla nema úrskurður ríkisskattanefndar lægi fyrir, en þar stendur: „Ágreining um skattskyldu og skattstofna má bera undir dómstóla, enda hafi áður verið um hann úrskurðað af ríkisskattanefnd.“ Þetta er út af fyrir sig eðlileg regla, en hitt er svo annað mál, að það er út af fyrir sig nokkuð alvarlegt að meina aðilum aðgang að dómstólum ef þeir vilja sækja rétt sinn þangað. Það er hins vegar hægt að misnota þann rétt, en eftir þeim upplýsingum, sem nefndin hefur fengið er ekki talin ástæða til að ætla að um slíka misnotkun hafi verið að ræða í verulegum mæli. Þess vegna þykir ekki rétt að meina mönnum með þessum hætti að reka mál sín fyrir dómstólum ef menn sjá ástæðu til.

47. gr., sem er breyting á 108. gr. laganna, fjallar um málsmeðferð, opinbera rannsókn og fyrningarreglur. Þessi brtt. er í samræmi við niðurstöður vinnuhóps sem vann að þessu máli. Ljóst er að með hvaða hætti sem um þessi mál er fjallað þarf að vera tenging í þeim efnum við skattalög. Að vísu liggur hér frv. fyrir þinginu um það, að komið verði á fót sérstökum dómstól í sambandi við skattalagabrot, en hér er gert ráð fyrir að þau skuli rekin fyrir sakadómi. Hvað sem verður um afgreiðslu þess máls held ég að það sé ljóst, að það þarf að vera samræmi á milli skattalaganna og annarra laga um þetta efni, þannig að þessi breyting útilokar með engu meðferð þess máls og afgreiðslu þess hér í þinginu. Hitt er svo annað mál, að það hefði verið óheppilegt að um þetta ríkti óvissa nú í næstu framtíð. Nefndinni hefur því þótt rétt að taka þessa tillögu starfshópsins, sem vann að þessu á s.l. sumri, inn í brtt. sínar.

20. tölul. leiðir af breytingu í b-lið 7. tölul. og einnig 21. tölul. Í 22. tölul. er ákvæði þess efnis, að þrátt fyrir ákvæði XIII. kafla laga þessara skuli lög nr. 1/1980 gilda, eftir því sem við á, um greiðslu opinberra gjalda á fyrri hluta ársins 1980. Sett voru hér sérstök lög í byrjun þings um innheimtu opinberra gjalda á árinu 1980, þannig að með þessu er ljóst að innheimtuákvæði þessara laga taka ekki gildi fyrr en við fyrirframinnheimtu á árinu 1981.

Ég hef áður gert grein fyrir breytingu á 57. gr. í 22. tölul., og í 23. tölul. eru ákvæði þess efnis, að vaxtatekjur og verðbætur manna á árinu 1979 af verðtryggðum spariskírteinum ríkissjóðs skuli þó vera frádráttarbærar að fullu frá tekjum við álagningu skatts 1980. Það var nokkur óvissa á s.l. ári um það, hvernig farið skyldi með verðbætur af spariskírteinum ríkissjóðs. Samkv. ákvæðum laganna, sem tóku gildi nú 1. jan. 1980, er alveg ótvírætt að verðbætur af þessum spariskírteinum eru skattfrjálsar. Þess vegna er óviðunandi að það ríki einhver sérstök regla varðandi þá aðila, sem fá endurgreiddar sínar verðbætur á árinu 1979, og þess vegna þótti nefndinni rétt að taka af allan vafa og kveða á um að þessar verðbætur væru skattfrjálsar.

Herra forseti. Ég hef nú gert nokkra grein fyrir vinnu nefndarinnar og brtt. hennar. Ég sé ekki ástæðu til að fara að gera grein fyrir einstökum umsögnum sem nefndinni bárust. Þær eru margar nokkuð efnismiklar og hníga margar að þeim breytingum, sem hér eru gerðar, þótt það sé hins vegar ljóst, að nefndin gat að sjálfsögðu ekki orðið við öllum þeim óskum og tekið upp allar þær till. sem þar bárust.

Það er ljóst, að þetta mál er hið mikilvægasta. Það mun snerta sérhvern aðila í þessu landi með einhverjum hætti nú á næstunni, bæði einstaklinga og atvinnufyrirtæki. Þess vegna er mikilvægt að tryggja sem best framkvæmd þessara mála, vinna að góðu upplýsingastarfi, þannig að öllum megi vera ljóst hvernig þeir skuli gera sín framtöl. Ég tel það vera misskilning að það verði erfiðara fyrir almenning að ganga frá framtölum sínum nú en áður. Það er að vísu komið nýtt eyðublað sem þarf að kynna vel og menn þurfa að átta sig á. Hins vegar horfir ýmislegt til einföldunar, því að ljóst er að það mun ekki vera hagkvæmt fyrir mjög mikinn fjölda fólks að nota frádráttarliði laganna, heldur mun það velja svokallaðan 10% frádrátt af launatekjum sínum. Talið er að það muni verða hagkvæmara fyrir u.þ.b. 70% hjóna og yfir 90% einstaklinga. Þessi breyting, að taka upp val um fastan frádrátt í stað hinna ákveðnu frádráttarliða, mun því horfa til verulegrar einföldunar.

Ég held að það sé einnig ljóst, að þessi löggjöf mun hafa mikil áhrif á ýmislegt annað í þjóðfélaginu. Það er ljóst, að hugsunarháttur í atvinnurekstri hefur oft verið sá, að menn hafa haft mikinn áhuga á því að skulda mikið, komast yfir steinsteypu og eignir. Ég held að það sé ljóst, að þessi löggjöf muni hafa þau áhrif að menn snúi sér af meiri áhuga og meiri alvöru að því að reka hagkvæman atvinnurekstur án þess að hugsa — kannske ekki fyrst og fremst, en að nokkru leyti — um það að hagnast á verðbólgunni. Það er náttúrlega ljóst, að mikil verðmæti tapast í þjóðfélaginu með slíkum hugsunarhætti, ef atvinnurekstur, einstaklingar og aðrir, leggur mikið kapp á að hagnast á verðbólgunni í stað þess að reka arðsaman atvinnurekstur. Hins vegar er eðlilegt að fara ekki mjög geyst af stað og að það verði ákveðinn aðlögunartími, og ég tel að með þeim breytingum, sem nefndin leggur hér til, sé gætt skynsemi í þeim efnum. Einnig má geta þess, að ýmsar ákvarðanir, verðlagning, jafnvel fiskverðsákvörðun, byggjast á því, að vaxtagjöld atvinnurekstrarins séu ekki raunveruleg útgjöld, heldur fyrst og fremst greiðsla fyrir verðhækkun eigna. Þetta kemur oft fram í forsendum fyrir ýmsum slíkum ákvörðunum, þannig að þessi löggjöf getur vissulega haft áhrif á ýmsum öðrum sviðum. Nú mun liggja fyrir með miklu ljósari hætti hver er raunveruleg rekstrarafkoma atvinnurekstrarins.

Þessi löggjöf og frumvarp byggir á því, að atvinnureksturinn geti varðveitt eigið fjármagn. Ef um það er að ræða að eigið fé atvinnurekstrarins hefur aukist frá ársbyrjun til ársloka verður um skattlagningu að ræða, þá hefur orðið hagnaður. Ef þetta eigið fé hefur rýrnað og minnkað verður ekki um skattlagningu að ræða, þá hefur fyrirtækið tapað. Fyrri skattalög hafa á engan hátt tryggt þetta meginatriði. Það hefur í mörgum tilfellum verið svo, að fyrirtæki, sem hafa átt meira eigið fé í árslok heldur en í ársbyrjun, hafa ekki greitt neina skatta. Og það hefur líka verið algengt, að fyrirtæki, sem á minna eigið fé í árslok heldur en í ársbyrjun, hefur greitt verulega skatta. Það er þetta meginsjónarmið, sem heilbrigður atvinnurekstur verður að geta byggt á, að ekki sé um skattlagningu að ræða nema um raunverulega verðmætisaukningu hafi verið að ræða.

Það má til gamans geta þess, að oft er talað um hvað bankastofnanir á Íslandi hafi mikinn hagnað. En það er líka augljóst og sést á reikningum þeirra, að eigið fjármagn þessara stofnana hefur farið rýrnandi, þ.e. að þessar stofnanir hafa í reynd ekki haft neinn hagnað. Þær hafa margar hverjar verið að tapa á undanförnum árum, vegna þess að það er út af fyrir sig lítill hagnaður í því eða enginn hagnaður að eiga jafnmargar verðminni krónur í árslok en menn áttu í ársbyrjun, þegar þessar krónur voru verðmeiri.

Herra forseti. Það eru ýmis atriði sem eflaust hefði þurft að taka fram í þessu sambandi, en ég mun ekki nota meiri tíma að þessu sinni til þess að gera grein fyrir þessu máli. Það er sjálfsagt ýmislegt sem mætti taka fram og hefur verið óskað eftir að tekið væri fram. En hins verður að gæta, að margvíslegar útskýringar voru lagðar fram og yfirlýsingar gefnar á sínum tíma varðandi framkvæmd þessara mála — yfirlýsingar frá fjmrh. og útskýringar á því hvernig skilja ætti einstakar lagagreinar, sem hér er ekki gerð tillaga um breytingar á. ég sé því ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð, en vil aðeins ítreka það, að nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem ég hef nú mælt fyrir. Nokkrir nefndarmanna undirrita nál. með fyrirvara, þeir Albert Guðmundsson, Sverrir Hermannsson, Karvel Pálmason, og Matthías Á. Mathiesen, og munu þeir gera grein fyrir þeim fyrirvara. En það kemur m.a. fram í nál., að ekki er enn fullt samkomulag í nefndinni varðandi afskriftarhlutfall af verðbreytingarhagnaði, og lýtur fyrirvari þeirra fyrst og fremst að því atriði.