18.02.1980
Neðri deild: 38. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 811 í B-deild Alþingistíðinda. (882)

44. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Sighvatur Björgvinsson Herra forseti. Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um það frv. sem hér er til umr., enda fjallaði ég nokkuð ítarlega um það fyrst þegar frv. var lagt fram af minnihlutastjórn Alþfl. í des. og svo aftur þegar það kom til 2. umr. um helgina.

Ég vil aðeins láta það koma fram, að ljóst var þegar í sumar að mjög víðrækar breytingar þurfti að gera á lögum nr. 40 frá 1978 til að leiðrétta ýmislegt það sem í ljós hafði komið við betri athugun á málinu að leiðrétta þurfti, en ekki hafði gefist tími til að gera þegar lögin voru sett. Þá var sérstaklega skoðað, hvort til greina gæti komið að láta ekki reyna á þær breytingar, sem þyrfti að gera á lögunum til þess að þau næðu tilgangi sinum, heldur fresta gildistíma laganna um eitt ár í viðbót, eins og hæstv. fjmrh. ræddi áðan um að hefði nú komið aftur til skoðunar. Að höfðu samráði við embættismenn í fjmrn. og ríkisskattstjóra taldi ég engu að síður rétt að reyna að standa við þá fyrirætlun sem Alþ. mótaði við afgreiðslu laga nr. 40 frá 1978 sem komu til framkvæmda um s.l. áramót. Til þess að það væri hægt þurfti að gera á lögunum mjög verulegar breytingar. Frv. þetta fjallar um það.

Hins vegar hefur ávallt verið vitað, allt frá því að lögin voru sett, að nær ógerningur væri að segja fyrir um hver áhrifin af slíkri nýrri lagasetningu í tekju- og eignarskattsmálum yrðu í einstökum atriðum. Það var í senn mjög erfitt að sjá, hver niðurstaðan mundi verða fyrir tiltekna hópa, og enn fremur, hvaða afleiðingar hin nýja lagasetning mundi hafa fyrir tekjuöflun ríkissjóðs í heild. Enn meiri óvissa er náttúrlega ríkjandi um þessi mál þar sem í frv., eins og það er nú úr garði gert, vantar alla skattstiga. Meðan skattstigar hafa ekki verið settir inn í frv. verður enn erfiðara að áætla hvaða afleiðingar það muni hafa. Þess vegna hefði verið æskilegt og raunar eðlilegt, þegar frv. er nú afgreitt og lagabreytingin gerð, að skattstigar hefðu verið ákveðnir jafnframt, eins og við Alþfl.-menn gerðum ráð fyrir með flutningi frv. um skattstiga sem við lögðum fram fyrir nokkrum dögum.

Ég ætla ekki að fara frekar út í efnisatriði þessa máls, ég hef þegar gert það rækilega en ég vil gjarnan óska eftir því við hæstv. fjmrh., — jafnframt því sem ég fagna þeirri yfirlýsingu sem hann gaf áðan, að brugðist yrði við í fjmrn. ef í ljós kæmi við framkvæmd skattalaganna, að eitthvað væri þar að gerast sem engan hefði órað fyrir, og það yrði leiðrétt, að hann gerði svo vel að láta þess getið að hann mundi á næsta hausti a.m.k. gefa Alþ. skýrslu um framkvæmd hinna nýju skattalaga svo að unnt væri þá að taka lögin aftur til endurskoðunar þegar á næsta hausti, ef í ljós kemur að eitthvað verulega hafi brugðið út af.

Ég held, eins og ég sagði fyrir 2–3 dögum , að menn verði að búa sig undir að gera meiri og minni breytingar á hinum nýju skattalögum, raunar á hverju ári, því að ekki má búast við því og er vart hægt að gera slíka kerfisbreytingu í skattamálum sem lögin frá 1978 hafa í för með sér á einni nóttu. Slík lagasetning þarf stöðugt að vera í endurskoðun og þarf sjálfsagt að breyta henni nokkuð oft áður en hún kemur í endanlegan búning.

Meira ætlaði ég ekki að segja um frv. sjálft. En það er annað sem ég hef áhuga á að ræða í þessu sambandi og vitna þá til upphafsorða hæstv. fjmrh.

Við þ.m. höfum lesið í blöðum og heyrt í útvarpi undanfarna 7–10 daga að það standi til, eins og þar er sagt, að senda þingið heim. Hæstv. forsrh. hefur a.m.k. einu sinni látið hafa eftir sér í útvarpi að ekki væri unnt að senda þm. heim fyrr en búið væri að afgreiðu tiltekin verkefni sem biðu óafgreidd á þingi. Þetta hefur verið rætt bæði í blöðum og útvarpi, eins og ég sagði áðan, — var birt í forsíðufrétt í Þjóðviljanum um helgina, einu stuðningsblaði ríkisstj., og hæstv. fjmrh. gaf í upphafi ræðu sinnar áðan yfirlýsingu sem ekki er hægt að skilja öðruvísi en svo, að hann telji þetta verk búið og gert. Hitt vita hins vegar allir þm., að til þess að hægt sé að fresta fundum Alþ. nægir ekki að ríkisstj. gefi um það yfirlýsingu, ekki einu sinni í Þjóðviljanum, heldur verður Alþ. að samþykkja till. þar að lútandi.

Ég verð að segja eins og er, að ég man ekki til þess, ég hef ekki setið lengi á þingi, en ég man ekki til þess þann tíma sem ég hef tekið þátt í þingstörfum og fylgst með þeim, að ekki hafi verið haft um slíkt samráð við þingflokkana. Ég get upplýst að ekki eru aðeins forsetar þingsins gersamlega óvitandi um hvað til standi, heldur líka þingflokksformenn sem styðja ríkisstj. Við Alþfl.menn tókum fram, þegar umræður voru hér um tilkynningu forsrh., að við værum reiðubúnir til að gera það sem við gætum til að auðvelda hæstv. ríkisstj. störf hennar, við mundum ekkert gera til að leggja stein í götu hæstv. ríkisstj. eða til að koma í veg fyrir að hún fengi eðlilegan umþóttunartíma. Ég vil aðeins taka það fram, að mér finnst sjálfsagt og eðlilegt að ríkisstj. kunni að þurfa á því að halda að fá nokkurra daga þinghlé og tíma til að ráða ráðum sínum. En mér finnst það frumskylda og raunar ekki annað en einber kurteisisskylda hæstv. forsrh. og ríkisstj. að hafa a.m.k. málamyndasamráð um slíkt við þingflokkana, svo að menn séu ekki að lesa það í blöðum og heyra það í ræðum á Alþ., að til standi að senda þingið heim í hálfan mánuð og allt upp í þrjár vikur, án þess að um það hafi verið haft nokkurt samráð við þingið né heldur að það hafi verið látið svo lítið að hafa um það samráð við þm. og þingflokka, hvaða mál það eru sem hæstv. ríkisstj. mundi kjósa að fá afgreidd áður en þinghléið kæmi. Ég vil ítreka, að við Alþfl.-menn ætlum ekki að leggja stein í götu ríkisstj. Við munum ekki neita henni ef hún biður um eðlilegan umþóttunartíma. Við erum reiðubúnir til að hafa við hana samráð um þau mál sem hún telur að þurfi að afgreiða áður en þinghlé verður gefið. En við teljum það frumskyldu af hálfu hæstv. ríkisstj. að taka upp þá almennu mannasiði hér í þinginu að hafa um slíkt samráð við þm. og þingflokka og þá ekkert síður þingflokka stjórnarliða en þingflokka stjórnarandstöðu, því að bæði eru þm. stjórnar og stjórnarandstöðu í jafnmikilli óvissu um fyrirætlanir hæstv. ríkisstj.

Ég vil taka fram í þessu sambandi, að ef til stendur að senda Alþ. nú heim í allt að þrjár vikur svo hæstv. ríkisstj. geti gefist tími til að skoða málin öllu betur en hún hafði tíma til að gera á meðan hún var að semja málefnasáttmálann þá þurfa menn að sjálfsögðu að ákveða hvaða mál eigi að afgreiða áður en þinghlé verður gefið. Ég vil í því sambandi taka fram, að ég er ekki viss um að menn geri sér grein fyrir hvað af því mundi hljótast ef þinghlé yrði t. d, gefið í þrjár vikur án þess að jafnhliða þeirri afgreiðslu, sem nú fer fram, væru afgreiddar till. um skattstiga. Menn tala hér mikið um að það hafi skapast erfið og vandasöm staða í skattamálum, m.a. vegna þess hve ýmsar breytingar á skattalögum, sem nauðsynlegt er að gera, eru seint á ferðinni. En hvílík óvissa mun ekki skapast í þeim málum ef þarf að bíða í fjórar eða fimm vikur eftir því að fá skattstiga afgreidda. Ef það stendur til að hæstv. ríkisstj. óski eftir þinghléi á næstu dögum vil ég fá að vita, eins og ég tel að allir þm. eigi kröfu á, hvaða mál hæstv. ríkisstj. hugsar sér að afgreiða áður en þinghlé yrði gefið. Og ég vara mjög alvarlega við því, að t.d. skattstigunum og ákvörðun þeirra sé frestað fram yfir þinghlé. Ef þinghléið yrði þrjár vikur yrði það ekki fyrr en að loknu því hléi sem hægt væri að taka til umræðu á Alþ. nýtt frv. um breytingu á þeim lögum sem við erum að afgreiða breytingafrv. á við núna. Þá er ekki hægt að fara að taka til umræðu skattstiga eða tillögur um ákvörðun skattstiga fyrr en eftir a.m.k. þrjár vikur. Gera má ráð fyrir að þingið þurfi minnst viku, jafnvel 10 daga, til að afgreiða slíkt mál. M.ö.o. mun líða á annan mánuð frá því að þingi verður frestað og þangað til skattstigar verða ákveðnir. Mun þá verða komið langt yfir framtalsfrest áður en ákvörðun skattstiga fer fram. Það mun hafa í för með sér framlengingu á því óvissuástandi sem ríkir í skattamálum í þessu landi. Þá mun enginn Íslendingur vita hvað á að leggja á háa skatta á Íslandi, hvernig skattbyrðin á að dreifast, hverjir eiga að greiða skatta, hve háa og hverjir ekki.

Ég vil sem sé ítreka þær óskir mínar til hæstv. forsrh., eftir að búið er að tilkynna fyrirætlanir ríkisstj. á öllum öðrum stöðum en á Alþingi Íslendinga, að hann upplýsi nú Alþ. um fyrirætlanir ríkisstj. um heimsendingu þingsins, eins og það er orðað í því ágæta blaði Þjóðviljanum, og hvaða hugmyndir ríkisstj. hefur í því sambandi um mál sem hún vill fá afgreidd áður en sú frestun verður gefin. Ég vara mjög eindregið enn og aftur við því, ef ríkisstj. ætlar sér að fresta afgreiðslu á skattstigamálinu fram yfir slíka þingfrestun, ef til kemur, sem í því ágæta blaði Þjóðviljanum er boðað að eigi að standa a.m.k. þrjár vikur.