18.02.1980
Neðri deild: 38. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 815 í B-deild Alþingistíðinda. (885)

44. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Friðrik Sophusson :

Herra forseti. Ég vil byrja á því að taka undir þau atriði sem komu fram í máli hv. síðasta ræðumanns, en ég er meðflm. að brtt. sem hann lýsti hér og gerði grein fyrir. Erindi mitt hér í ræðustól er þó annað, og það er að fá leyfi forseta til þess að leitað verði afbrigða, þannig að hægt sé að ræða nýja brtt. sem mig langar til að flytja við þessa 3. umr. málsins.

Mig langar til þess að gera í örstuttu máli grein fyrir þessari brtt. Hún er brtt. við brtt. á þskj. 170, 1. lið, og er á þá leið, að 1. töluliður á þskj. verði 1. a, en síðan komi viðauki, 1. b, sem orðist þannig: Í lok 3. tölul. e-liðs laganna komi ný málsgr. sem orðist svo: “Námskostnað, sem stofnað er til eftir 20 ára aldur, má, eftir því sem nánar verður ákveðið í reglugerð, draga frá tekjum næstu fimm ár eftir að námi er lokið, enda sé gerð fullnægjandi grein fyrir kostnaðinum. Námskostnaður, sem viðurkenndur er til frádráttar samkv. ákvæði þessu, skal umreiknast samkv. ákvæðum 26. gr. laga þessara.“

Ástæðan fyrir því, að ég flyt þessa brtt., er sú, að til mín hafa leitað fulltrúar stúdenta við Háskóla Íslands og bent mér á það, að í lögunum sem giltu fyrir gildistöku laga nr. 40/1978, þ.e. í lögum nr. 68 frá 1971, hafi þessi ákvæði verið og komið sér afar vel. Þetta ákvæði hafi hins vegar fallið brott. Það hafi áreiðanlega verið tilgangur þeirra, sem undirbjuggu lögin, að fækka frádráttarliðum, og jafnframt virðast þeir hafa gert ráð fyrir að um vaxtafrádrátt yrði að ræða samkv. lögum nr. 40/1978 sem gæti að einhverju marki komið í staðinn. Það skýrist þannig, að þegar stúdentar fá námslán, þá var það til skamms tíma þannig að verðbætur og vextir, þ.e. allur fjármagnskostnaðurinn, var til frádráttar. En eins og við höfum orðið vitni að hefur þetta breyst nú í meðförum deildarinnar þannig að um ákveðið vaxtahámark verður að ræða í framtíðinni. Þar af leiðandi virðist eins og þetta atriði hafi orðið á milli og þess vegna sé full þörf á að þetta ákvæði verði í þessum nýju lögum nr. 40/1978.

Ef við ímyndum okkur að þær breytingar, sem hv. þd. hefur gert á lögunum, verði að lögum, þá má segja að þeir námsmenn, sem hafa tekjur undir 860 þús. á ári, njóti ekki fulls frádráttar samkv. lögunum. Það þýðir, að viss hópur námsmanna, sem hefur ekki tækifæri til tekjuöflunar, verður að taka lán, greiða það lán verðbætt til baka, verður síðan að afla hærri og meiri tekna að námi loknu til þess að standa straum af þeim kostnaði og endurgreiðslum, en nýtur ekki skattfríðindanna eins og mundi hafa gerst ef þessar tekjur hefðu komið fram fyrr eða á sama ári og námið fór fram. Til skamms tíma hefur reglan verið sú, að þessa frádráttarliði var hægt að framlengja, ef svo má að orði komast, þannig að þeir, sem ekki náðu tilskildum tekjum og gátu þess vegna ekki nýtt sér frádráttinn á tekjuárinu, gátu tekið hann út á næstu fimm árum eftir að námi lauk. Það er um þennan hóp sem stúdentarnir eru að hugsa. Og það er samkv. þeirra ósk að ég hef ákveðið að leggja fram þessa brtt. til að koma til móts við sjónarmið þessara aðila, en þar kemur enn fremur fram, að ef þetta ákvæði, sem brtt. mín fjallar um, nær ekki fram að ganga má segja að það ýti undir það, að menn sækist ekki eftir háum tekjum að námi loknu, því að endurgreiðslureglur Lánasjóðs ísl. námsmanna eru með þeim hætti.

Ég hef hér gert örstutta grein fyrir þessu máli, sem kom allt of seint til hv. deildar. Ég er þess fullviss, að það ríkir skilningur meðal hv. þm. á að leiðrétta þetta þegar það er skoðað, að önnur atriði hafa breyst í lögunum samkv. því frv. sem fyrir liggur. Þess vegna er eðlilegt að þetta ákvæði fái að koma inn í lög aftur.

Vegna orða hæstv. fjmrh. þess efnis að skora á þá, sem flytja hér brtt., að draga þær til baka, get ég fallist á það út af fyrir sig, ef veitt verða afbrigði hér um að það megi ræða þessa till. Ég geri það þá í skjóli þess, að hæstv. ráðh. hefur a.m.k. í orði kveðnu verið stúdentum og námsmönnum, þó ekki sé meira sagt, haukur í horni, a.m.k. á meðan hann var menntmrh. Ég veit að þeir vonast til þess, að afstaða hans hafi ekki breyst þegar hann sest nú í stól í fjmrn., því að þar reynir jafnvel enn þá meira á hæstv. ráðh. í þessum efnum. Í trausti þess, að hann styðji þessa málaleitan námsmannanna, er ég tilbúinn til þess að draga þessa till. til baka, ef hún fæst hér til umræðu við 3. umr. þess frv. sem fyrir liggur.