18.02.1980
Neðri deild: 38. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 818 í B-deild Alþingistíðinda. (889)

44. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég vil taka það skýrt fram, að ég hef enga afstöðu tekið til brtt. sem hér hafa verið lagðar fram, annarra en þeirra sem samkomulag hefur tekist um í fjh.- og viðskn. Þessi mál koma hér til umr. og afgreiðslu eftir þrjár vikur og þá gefst tækifæri til að athuga allar þær till. sem menn kynnu að vilja koma með.

Hv. þm. Vilmundur Gylfason hlýtur að hafa misskilið orð mín áðan. Ég átti einfaldlega við það, að hann og aðrir drægju till. sínar algerlega til baka við afgreiðslu þess frv., sem hér liggur fyrir, og bæru þær síðan hugsanlega fram aftur að þremur vikum liðnum, þegar nýtt frv. verður lagt fram. Ég held að sjálfsagt sé og eðlilegt, úr því að svona stendur á, að við gefum okkur tíma til að skoða þær hugmyndir, sem felast í þessum tillögum, áður en við greiðum um þær atkvæði.

Út af orðum hv. þm. Sighvats Björgvinssonar, þegar hann spurði hvort ég vildi ekki gefa þá yfirlýsingu, að gefin yrði skýrsla á komandi vetri um framkvæmd skattaálagningar á þessu ári, þá vil ég taka undir það og segja það, að ég tel alveg sjálfsagt að í kjölfar þess, að álagning fer fram samkv. þessum nýju lögum, verði gerð ítarleg skýrsla um framkvæmd álagningarinnar og Alþ. taki síðan málið í heild til endurskoðunar á næsta vetri.