19.12.1979
Efri deild: 6. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 72 í B-deild Alþingistíðinda. (89)

18. mál, öryggi á vinnustöðum

Félmrh. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Það frv. til l. um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, sem hér liggur fyrir, var lagt fyrir Alþingi á s.l. vori og vísað til 2. umr. og félmn. þessarar hv. d. Eins og ég gat um í ræðu minni þegar ég fylgdi frv. þessu úr hlaði í þessari hv. d. í maí s.l., þá var í tengslum við gerð kjarasamninga vorið 1977 undirritað samkomulag milli Alþýðusambands Íslands annars vegar og Vinnuveitendasambands Íslands og Vinnumálasambands samvinnufélaganna hins vegar um að fara þess á leit við ríkisstj., að hún hlutaðist til um að skipuð yrði nefnd til að semja nýtt lagafrv. um aðbúnað, hollustuhætti og vinnuumhverfi verkafólks almennt. Í samkomulagi þessu var enn fremur tekið fram að í nýrri löggjöf um þetta efni yrði ákveðið: Að ein eftirlitsstofnun sjái um framkvæmd laganna í stað þeirra sem nú heyra undir ýmis rn. Að í lögunum verði ótvíræð ákvæði um skyldu eftirlitsstofnunar til að banna vinnu verkafólks á þeim vinnustöðum sem ekki eru búnir í samræmi við lög, reglugerðir eða fyrirmæli eftirlitsstofnunar. Að nefndin verði skipuð fulltrúum frá Alþýðusambandi Íslands, Vinnuveitendasambandi Íslands og Vinnumálasambandi samvinnufélaganna og sérfróðum mönnum í þessum málum. Að gerð verði sérstök könnun og úttekt á ástandi aðbúnaðar og hollustuhátta á vinnustöðum. Og loks að gert væri ráð fyrir að nefndin lyki störfum innan 12 mánaða.

Í júní 1977 gaf þáv. ríkisstj. út yfirlýsingu þar sem staðfest er framangreint samkomulag aðila vinnumarkaðarins. Í framhaldi af þeirri ákvörðun ríkisstj. skipaði þáv. félmrh. hinn 14. sept. 1977 nefnd til að semja frv. til l. um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Formaður var skipaður Hallgrímur Dalberg ráðuneytisstjóri, en ásamt honum voru skipaðir Bolli B. Thoroddsen hagræðingarráðunautur, Karl Steinar Guðnason, formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og Guðjón Jónsson, formaður Málmiðnaðarsambands Íslands, tilnefndir af Alþýðusambandi Íslands, Barði Friðriksson hrl. og Geir Þorsteinsson verkfræðingur, tilnefndir af Vinnuveitendasambandi Íslands, Júlíus Kr. Valdimarsson framkvæmdastjóri, tilnefndur af Vinnumálasambandi samvinnufélaganna, Friðgeir Grímsson öryggismálastjóri, tilnefndur af Öryggiseftirliti ríkisins, og Hrafn V. Friðriksson, forstöðumaður Heilbrigðiseftirlits ríkisins, tilnefndur af Heilbrigðiseftirliti ríkisins.

Nefndin tók þegar til starfa og afhenti mér frv. það, sem hér liggur fyrir, hinn 20. apríl 1979. Standa að því átta af níu nm., sem hafa einróma orðið sammála um allar greinar frv. og aths. þær sem því fylgja. Einn nm., Hrafn V. Friðriksson, skilaði séráliti sem prentað er sem sérstakt fskj. með frv.

Þar sem ég gerði í alllöngu máli grein fyrir frv. þessu í ræðu minni á s.l. vori, er það var lagt fram, tel ég á þessu stigi óþarft að fara um það frekari orðum, en læt mér nægja að vísa til hennar svo og mjög ítarlegra aths. við frv. sem fylgdu frá nm. þeim er það sömdu og birtar eru hér aftur.

Ég vil þó víkja stuttlega að einu atriði. Í skipunarbréfi nefndarinnar segir m.a. að ríkisstj. hafi ákveðið að beita sér fyrir því, að næstu mánuði verði gerð sérstök athugun á aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi á vinnustöðum sem nái til ákveðins og takmarkaðs fjölda vinnustaða og skuli gerð í því skyni að knýja á um úrbætur á aðbúnaði og öryggi á vinnustöðum. Í skipunarbréfi er gert ráð fyrir því, að nefndin leggi á ráðin um þessa könnun og fylgist með henni og að hún skuli hafa niðurstöður könnunarinnar til hliðsjónar við undirbúning lagasetningar um þau mál sem hér er fjallað um. Nefndin lagði á það ríka áherslu frá byrjun, að framkvæmd og úrvinnslu könnunarinnar yrði hraðað, enda var í tillögum aðila vinnumarkaðarins frá 19. apríl 1977 gert ráð fyrir að nefndin lyki störfum innan 12 mánaða og úttekt vinnustaðanna yrði framkvæmd á 12 mánuðum. Hefði þessari tímaáætlun verið fylgt hefðu frv. og niðurstöður könnunarinnar legið fyrir samtímis fyrir árslók 1978. Þegar til kastanna kom reyndist mjög tímafrekt að koma athugun þessari af stað, enda þótt ákveðið hafi verið strax á fyrsta fundi nefndarinnar að aðilar vinnumarkaðarins kæmu sér saman um hvaða vinnustaði skyldi athuga og Heilbrigðiseftirlitið og Öryggiseftirlitið skyldu síðan sjá um framkvæmd hennar.

Á fundi í nefndinni 13. jan. 1978 var lagður fram sameiginlegur listi ASÍ og atvinnurekenda yfir 160–170 fyrirtæki víðs vegar um landið sem fyrrgreind könnun skyldi taka til. Af ýmsum ástæðum, sem ekki verða hér tíundaðar, komst könnun þessi bæði seint af stað og miðaði hægar áfram en vonir höfðu staðið til og það þrátt fyrir margítrekaðan eftirrekstur allra aðila vinnumarkaðarins í nefndinni. Nefndin hefur, eins og áður segir, lagt á ráðin um þessa könnun, bæði um ákvörðun úrtaks þeirra fyrirtækja, sem skoðuð skyldu, og hverra upplýsinga skyldi leitað um ástand varðandi aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum þessara fyrirtækja. Nánari útfærsla og framkvæmd sjálfrar könnunarinnar hefur hins vegar verið, eins og áður segir, sameiginlega hjá Heilbrigðiheftiliti ríkisins og Öryggiseftirliti ríkisins. Úrvinnslu úr gögnum varðandi könnunina er ekki að fullu lokið, en þess verður að vænta, að endanlegar niðurstöður könnunarinnar liggi bráðlega fyrir.

Hinn 10. okt. s.l. ritaði ég nefnd þeirri, sem samdi frv. það er hér um ræðir, og fól henni m.a. að kynna sér niðurstöður umræddrar vinnustaðakönnunar og hvort líklegt mætti telja að þær gerðu það að verkum að gera þyrfti breytingar á frv. í núverandi mynd. Fulltrúar aðila vinnumarkaðarins hafa nú kynnt sér frumgögn könnunarinnar og þær niðurstöður sem nú þegar liggja fyrir.

Allir þeir átta nm., sem að frv. þessu standa, hafa tjáð mér að þeir telji að niðurstöður könnunarinnar muni ekki breyta neinu um gerð og efni frv., enda um rammalöggjöf að ræða. En þær munu hins vegar leiða glöggt í ljós að mjög brýna nauðsyn beri til að frv. þetta verði að lögum sem allra fyrst og ómissandi við samningu reglugerðar og reglna sem kveðið er á í frv. að settar skuli.

Herra forseti. Ég læt þessa framsögu nægja að sinni, en legg til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og félmn. þessarar hv. deildar.