18.02.1980
Neðri deild: 38. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 818 í B-deild Alþingistíðinda. (890)

44. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Ekki var það ætlun mín að ræða þessi skattamál og kemur þar margt til. Í fyrsta lagi hef ég vegna fjarveru ekki getað tekið þátt í umr. í s.l. viku. En með öllum þessum lagabreytingum í heild, bæði þeim, sem á eru orðnar, og öðrum sýnist mér verið að taka eitt mesta heljarstökk út í náttmyrkrið sem hægt sé að hugsa sér. Hér kemur fram í fjölmiðlum spekingafans, og jafnvel þó meðalgreindir menn skilji ekki nema hluta af öllum vísdómnum er alltaf lögð áhersla á það í lokin: En náttúrlega er með öllu óvitað hvaða áhrif þessi lagabreyting hafi eða hvernig hún muni raunverulega verka og hver muni verða niðurstaða hennar. Þetta eru lög sem fjalla um á annað hundrað þúsund gjaldendur, skipta sköpum í afkomu fjölskyldna og fyrirtækja, svo að jafnvel er fullyrt af sumum spekingum að heitar atvinnugreinar muni leggjast í rústir. Ég tek ekki þátt í þeim leik. Það má vera að mig skorti yfirsýn yfir það frv. sem hér er ætlunin að samþykkja, en þar sem ekki er vitað hvernig lögin verka á fjölda gjaldenda né á fjárhag ríkissjóðs, sem er alltaf niðurstaða spekinganna eftir talnaflóðið, vil ég á engan hátt taka þátt í afgreiðslu frv.

Það er þó ástæða til að ég segi hér örfá orð. Það átti eftir að verða hlutskipti mitt að byrja umræður á þessu þingi með því að taka undir með Vilmundi Gylfasyni um brtt. þá sem liggur fyrir frá honum og Árna Gunnarssyni. Bætt er inn í 7. gr. laganna orðinu „lífeyrir“, og tryggt er þar með að sá 10% frádráttur, sem öðrum er ætlaður, nái einnig til eftirlaunafólks. Ég get ekki með nokkru móti skilið að það særi réttlætistilfinningu eins eða neins og allra síst úr nokkrum flokki sem vill kenna sig við verkalýð eða verkalýðsbaráttu. Ég held reyndar að þarna hafi orðið ákveðin pennaglöp. Ég vil lýsa því yfir, að ég styð mjög eindregið þessa brtt. og mun greiða henni atkvæði.