19.12.1979
Efri deild: 6. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 73 í B-deild Alþingistíðinda. (90)

18. mál, öryggi á vinnustöðum

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég vil aðeins leyfa mér við þessa 1. umr. málsins að láta í ljós fylgi við þetta frv. Það geta ekki talist tíðindi, vegna þess að ég hef átt sæti í þeim ríkisstj. sem hafa sérstaklega átt aðild að því, að þetta frv. hefur verið saman tekið. En ég tel að hér sé á ferðinni stórt mál, um aðbúnað og hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Hér er líka um allítarlegt frv. að ræða, og mér er kunnugt um að lögð hefur verið mikil vinna í það af hálfu þeirra aðila sem um málið hafa fjallað og frv. hafa samið. Og ég tel að þær breytingar, sem felast í þessu frv. frá núverandi skipulagi, séu til bóta.

En það er svo, að þetta mál er svo stórt og veigamikið að mínum dómi að það verðskuldar athygli og verðskuldar að það sé athugað rækilega. Það er ekki vonum fyrr, að átt hefur sér stað í þessu efni frumkvæði af hálfu verkalýðsfélaga eða aðila vinnumarkaðarins í sambandi við kjarasamninga. Ég tel að hér sé um ákaflega stórt atriði í kjörum og starfsskilyrðum verkamanna að tefla og raunar launþega allra. Það var sjálfsagt eðlilegt, þegar lítið var á þessi mál í öndverðu og löggjöf sett um þau og þeirri löggjöf fylgt eftir í framkvæmd, að þá væru það fyrst og fremst öryggismálin sem urðu þar efst á blaði, og það hefur auðvitað verið gert mikið til þess að haga útbúnaði á vinnustöðum þannig, bæði í sambandi við vélar og annað, að reynt væri að afstýra slysum. Og ég hygg að það verði að segja, að verulegur árangur hafi náðst í því. En hitt er svo annað mál og ekki minna í sjálfu sér, aðbúnaðurinn á vinnustaðnum og hollustuhættirnir sem þar ríkja. Það er í mínum augum geysilega þýðingarmikið mál. Og þar er ekki aðeins um það að ræða að mínum dómi að afstýra hreint og beint atvinnusjúkdómum sem svo má kalla og geta vissulega átt sér stað í sambandi við ýmis verk og ýmiss konar vinnustaði, heldur hitt, að allur aðbúnaðurinn sé þannig að hægt sé að segja að starfsmennirnir, sem starfa á vinnustöðunum, búi við mannsæmandi starfsskilyrði.

Sú úttekt á vinnustöðum, sem stofnað var til og unnið hefur verið að, liggur að vísu ekki enn beinlínis fyrir. En það þarf í rauninni enga úttekt til þess, að þeir sem fara um vinnustaði, geti séð með eigin augum að aðbúnaðurinn á vinnustöðum er mjög misjafn, og það vantar mjög mikið á það að mínum dómi að nægilegur gaumur hafi verið gefinn að þessu efni. Bara með því að kynna sér þetta og fara um nokkra vinnustaði sér maður að sumir eru þar að kalla má til fyrirmyndar. Það sama verður ekki sagt um alla. (StJ: Hvað heimsótti hv. ræðumaður marga vinnustaði nú í kosningabaráttunni?) Ég heimsótti marga, en hef heimsótt þá áður, ekki aðeins hér í Reykjavík, heldur víðs vegar um landið. Og þetta er alveg ljóst mál, að aðbúnaðurinn er ákaflega misjafn, og það verður að viðurkenna, að aðstaðan og möguleikarnir á að koma við æskilegum endurbótum í þessu efni eru misjafnir. Sums staðar er um að ræða gamalt húsnæði t.d. og húsnæði sem hefur e.t.v. verið alltaf dálitið áfátt, en hefur svo verið bætt við, og gefur auga leið að það getur verið erfiðara að koma á viðunandi aðbúnaði á slíkum vinnustöðum en ætti að vera á nýjum vinnustöðum. Ég álít að í sambandi við nýjar starfsstöðvar eigi beinlínis að setja ákveðin skilyrði í sambandi við hönnun þeirra, t.d. að séð sé sæmilega fyrir starfsskilyrðum starfsfólksins og aðstöðu, eins og drepið er á í því samkomulagi eða samþykkt sem gerð var á sínum tíma í sambandi við kjarasamningana 1977, að vel sé séð fyrir hreinlætisaðstöðu, böðum og aðstöðu mötuneytis, og margt og margt fleira. Ég held, þó að ekki sé hægt að tala um neina atvinnusjúkdóma endilega í sambandi við starf manna og líf á þessum vinnustöðum þar sem þeir eyða verulegum hluta ævi sinnar að þá sé þó aðbúnaðurinn þannig, að líðanin sé mjög mismunandi og hljóti að vera mjög mismunandi hjá þessum starfsmönnum. Og ég held að við séum að ýmsu leyti eftirbátar þeirra þjóða sem hafa komið þessum málum í það horf sem best þekkist og æskilegast er. Og ég held að í þessu sambandi sé ekki aðeins nauðsynlegt að líta á hreina atvinnusjúkdóma og það tjón sem stafar af þeim, heldur líka kannske á það tjón sem stafar af því að fólkið er e.t.v. ekki ánægt með þau starfsskilyrði sem það býr við. Það mundi e.t.v. borga sig fjárhagslega að gera eitthvað betur í þessu efni, það mundi skila árangri í starfi, skila betra og meira starfi. Þetta er að sjálfsögðu málefni sem mætti tala um langt mál. Ég ætla ekki að gera það hér að sinni. Ég hef aðeins viljað undirstrika þetta, að þó að þessum þætti málanna séu gerð allnokkur skil í þessu frv. og að öðru leyti opnað fyrir möguleika til að setja enn frekari reglur um þetta í framhaldi af þeirri rammalöggjöf, sem hér er um að tefla, þá er full ástæða til að halda áfram þessu verki, gefa þessu gaum og búa þannig að þessu fólki, að það geti unað allsæmilega við þau starfsskilyrði sem um er að tefla.

Svo að ég víki aftur að heimsóknum, þá er það t.d. alveg ljóst, ef maður miðar við fyrirtæki sem eru í sömu starfsgreinum, að þar er ákaflega mikill munur á í þessu efni, sumpart af eðlilegum ástæðum, þar sem í sumum tilfellum eru gömul fyrirtæki sem uppfylla ekki fyllstu skilyrði hvað húsnæði varðar, en hins vegar kannske alveg ný fyrirtæki þar sem mjög mikið tillit hefur verið tekið til þessa. Og þó mætti e.t.v. gera enn betur í þessu efni ef haft væri í huga alveg frá því fyrsta við uppbyggingu fyrirtækisins að þarna er þáttur sem þarf að sinna og telja með stofnkostnaði.

Eins og ég sagði, þá ætla ég ekki að tefja þessar umr. með því að tala langt mál. Ég vildi aðeins undirstrika það, að þó að þetta frv. verði að lögum þarf að halda áfram að athuga þessi mál og gera enn þá betur í þessum efnum en hér er þó gert ráð fyrir. En ég tel tvímælalaust að þessi ákvæði frv. horfi til bóta og það sé sjálfsagt að athuga þetta frv. Hins vegar er auðvitað eðlilegt, að n. fái málið til meðferðar og fái aðstöðu til að athuga það, því að e.t.v. má setja einhver frekari ákvæði í þessu frv. Og þetta er mál sem ekki skiptir sköpum hvort er afgreitt fyrir áramót eða ekki, enda á ég ekki von á að hæstv. félmrh. hafi gert ráð fyrir því. Það er nú því miður búið að dragast lengur, okkur sjálfsagt báðum til raunar, að ég hygg, því að ég hef einmitt, eins og hann mun kannast við í fyrrv. ríkisstj. minnt nokkuð á þetta mál og viljað stuðla að því að það fengi afgreiðslu. Og það, að það fékk ekki afgreiðslu á þinginu í fyrra, stafaði ekki af þessum smávægilega — vil ég segja — ágreiningi sem kemur fram í nefndinni, heldur var það bara þannig, að því var svo seint skilað frá nefndinni að það var þar af leiðandi lagt seint fram á Alþingi og þess vegna ekki hægt að vænta þess að það næði afgreiðslu á þinginu.

Ég tel það til bóta, sem er gert ráð fyrir, að fella saman stjórn þessara mála og setja undir eitt rn., og yfirleitt álít ég þessi ákvæði vera til bóta. Þó að það kunni að verða lítið svo á, að með þessu séu nokkrar kvaðir lagðar á atvinnurekendur, þá er ég fyrir mitt leyti sannfærður um að það mun fljótt borga sig að hafa aðbúnað á vinnustöðum þannig að starfsfólkið verði ánægt, það geti gengið inn á vinnustaðinn, skipt þar um föt og haft þar aðstöðu til að neyta matar og fara í bað áður en það fer aftur út af vinnustaðnum, að ég tali nú ekki um það sem ætti í rauninni að fylgja í stærri fyrirtækjum, að þar væru æfingasalir svo að fólkið hefði aðstöðu til að stunda þar æfingar og leikfimi sér til heilsubótar. Það getur vel verið að þetta hljómi einkennilega í eyrum sumra, en ég er sannfærður um að hér er á ferðinni mjög stórt mál og þarf að sinna því og athuga það, og það má ekki láta staðar numið við þetta frv. Þó að það feli í sér að áfanga sé náð, þá verður að halda áfram á sömu braut.

Við þetta tækifæri vildi ég sem sagt aðeins lýsa því yfir, að ég fylgi þessu frv., en tel sjálfsagt að athuga hvort ekki er hægt e.t.v. að koma við einhverjum enn frekari breytingum til bóta.