18.02.1980
Efri deild: 40. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 825 í B-deild Alþingistíðinda. (903)

111. mál, lántaka Framleiðsluráðs landbúnaðarins

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Hér er ekki nýtt mál á ferðinni, en mér sýnist það vera stórmál. Þó hér sé aðeins talað um 3 milljarða að þessu sinni, þá er greinilegt af því, sem fram hefur komið þá fáu daga sem núv. ríkisstj. hefur starfað, að þar hafa framsóknarmenn þriggja flokka nú tekið höndum saman um að halda áfram þeirri röngu og rugluðu stefnu sem fylgt hefur verið í landbúnaðarmálum um langt árabil og leitt hefur íslenskan landbúnað í meiri ógöngur en dæmi eru til um áður.

Engar horfur eru á því að hér eigi að verða nokkur minnsta breyting á, heldur á nú þvert á móti að ganga lengra en nokkru sinni fyrr. Það leynir sér ekki af því sem þegar hefur verið sagt og hæstv. landbrh. sagði — mér þykir leitt að hann skuli ekki vera viðstaddur — þegar hann ávarpaði Búnaðarþing fyrir fáeinum dögum. Í uppsiglingu er gífurleg skattlagning á neytendur og allan almenning í landinu, sem s.l. kemur fram í þessu frv., þar sem Framleiðsluráðinu er heimilað að taka lán að upphæð 3 mill jarða kr. og ríkið á síðan að borga þetta lán með öllum þeim kostnaði sem því fylgir. Og hvar endar sá reikningur? Hann endar hvergi annars staðar en hjá skattborgurum og neytendum. En þetta er ekki það eina. Það kom líka fram í ræðu landbrh., að ríkisstj. mun leita eftir viðunandi lausn, eins og það er orðað, á greiðsluvanda vegna útflutnings landbúnaðarvara á þessu ári, sem hefur verið upplýst að muni nema eitthvað á sjöunda milljarð kr. Og í þriðja lagi mun ríkisstj. sjá til þess, að bændur fái greidda þá hækkun á vinnslu og dreifingarkostnaði mjólkur og mjólkurvara sem síðasta ríkisstj. synjaði um. Upplýst er að þetta muni nema 1–2% hækkun á verði búvöru núna á næstunni. Þá hefur verið frá því greint, að ríkisstj. muni athuga um greiðslur á vaxtakostnaði vegna geymslu á kjöti. Í fimmta lagi mun Bjargráðasjóði verða útvegað lán að upphæð 1100 millj. kr. til þess að hann geti staðið við skuldbindingar sínar.

Á sama tíma og þetta gerist tilkynnir hæstv. fjmrh. launþegum í landinu að nú sé enginn grundvöllur fyrir grunnkaupshækkunum. En á sama tíma á að taka 12–14 milljarða kr., varlega áætlað, og greiða til landbúnaðarins. Ég held að menn ættu að huga svolítið að þessu.

Mér er ekki kunnugt um að fyrir liggi ítarlegar og nákvæmar skýrslur um það, hve slæmt ástandið sé hjá bændum. Það má vel vera og er áreiðanlega rétt, að einstakir bændur hafi orðið fyrir þungum búsifjum í fyrra. En ég held að það sé langt frá því, að efnahagur íslenskra bænda sé eins lakur og afkoma þeirra jafnléleg og að hefur verið látið liggja. Bændur og samtök landbúnaðarins hafa launað fulltrúa sem gera ekki annað en að telja fólki trú um hversu léleg afkoma bænda og landbúnaðarins í heild sé. Þessir menn vinna sitt starf með slíkum ágætum, að nú orðið trúa því víst velflestir, að bændur hangi á horriminni og eigi ekki málungi matar. Þetta er, held ég, önnur saga en blasir við þeim sem ræða við bændur. Afkoma þeirra hefur verið góð. Árið 1978 var eitt besta ár sem um getur að því er varðar afkomu bænda. Það er rétt, að árið í fyrra var ýmsum þungt í skauti, en þeir voru vel undir það búnir að mæta erfiðleikum, og í búgrein eins og landbúnaði verða menn auðvitað að vera undir það búnir að taka líka því þegar koma mögur ár. Ég held að það væri vissulega athugandi að láta fara fram gaumgæfilega athugun á því, hvort ástandið í þessum efnum er jafnhrikalega slæmt og þær ráðstafanir, sem nú hafa verið boðaðar, benda til. Og þvert á móti því, sem hæstv. fjmrh. sagði áðan, að það ætti að hraða þessu frv. sem allra mest í gegnum þingið, þá held ég einmitt að menn eigi að gefa sér tíma til að skoða þetta mál býsna vel. Það á að athuga hag og kjör —bænda ekki aðeins afkomuna og afurðaverðið, heldur líka hvernig háttað er skattgreiðslum bænda og hvernig þeirra lífs- og launakjör eru almennt miðað við aðrar stéttir í þjóðfélaginu. Ég hygg að þá muni koma í ljós að málað hafi verið of svörtum litum. Ég tel að sé brýn ástæða til að gera slíka athugun.

Eins og ég sagði áðan eru auðvitað til þeir bændur sem þurfa á aðstoð og fyrirgreiðslu að halda. Og auðvitað á að greiða fyrir því, að hægt sé að veita þá aðstoð og fyrirgreiðslu. En í heild er ástandið áreiðanlega ekki eins slæmt og hér er af látið, og það, sem þarf auðvitað að gera fyrst og fremst, er að endurskoða stefnuna í landbúnaðarmálum.

Það eru vissulega váleg tíðindi þegar hæstv. landbrh., sem er nýtekinn við því embætti, boðar þjóðinni það, að halda skuli áfram offramleiðslustefnunni, en ekki síga í þá áttina sem menn hafa þó verið að tala um hér og virst nokkuð gott samkomulag um, að laga þessa framleiðslu að þörfum innanlandsmarkaðarins þannig að draga megi úr útflutningi og hætta að borga milljarða á ári með mat ofan í útlendinga. Nú er horfið frá því að aðlaga framleiðsluna að þörfum innanlandsmarkaðarins. Þvert á móti á að halda offramleiðslunni áfram. Þarna er stefnt í óefni sem neytendum og skattþegnum þessa lands á eftir að verða dýrt ef ekki verður til baka snúið.