18.02.1980
Efri deild: 40. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 829 í B-deild Alþingistíðinda. (908)

111. mál, lántaka Framleiðsluráðs landbúnaðarins

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að svara þeim kjaraskerðingarásökunum sem hæstv. fjmrh. var með áðan. Það hefur ævinlega verið auðveldur leikur á Íslandi að lofa öllum meira en hægt er að inna af hendi. Árangurinn hefur verið verðbólga. Mér sýnist að ýmsu leyti að það sé verið að halda áfram á þeirri braut. — En hitt er annað mál, að mönnum þótti náttúrlega nýung að því og nokkuð nýstárlegt þegar fjmrh. allt í einu eftir að hann var kominn í stólinn, gat lýst því yfir að fyrir grunnkaupshækkanir væri ekki svigrúm. Það svigrúm hafði greinilega orðið að engu við það að hann settist í stólinn. (StJ: Aldrei nefndar grunnkaupshækkanir.) Þá var málflutningurinn annar.

En ég held að þjóðin sé í rauninni búin að fá nóg af þessari verðhækkunarskrúfu. Það hefur verið álit Alþfl. um nokkurn tíma, að nauðsynlegt væri að taka á öllum þáttum, og þ. á m. að vera með afmarkaða launastefnu og endurbætur á því vísitölukerfi sem hér hefur verið gildandi, og við það höldum við okkur hvort heldur við erum í ríkisstj. eða ekki.

Annars var aðalerindið hingað að bera fram fsp. til fjmrh., sem ég óska eftir að hann upplýsi fyrir fjh.- og viðskn. þegar hún kemur til fundar í fyrramálið. Spurningin er þessi: Eru fordæmi fyrir því, að aðilar úti í bæ taki lán og fái ríkisábyrgð á því, en að ríkissjóður greiði lánið, eins og hér er yfirlýst, nema aðrir aðilar bjóði sig fram í þeim efnum, eins og mér skildist að væri helsta úrræðið til þess að ríkissjóður greiddi ekki? Eru fordæmi fyrir því, að aðill út í bæ taki lán sem ríkissjóður lýsir yfir að hann muni greiða?