19.02.1980
Sameinað þing: 25. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 846 í B-deild Alþingistíðinda. (937)

220. mál, landgrunnsmörk Íslands til suðurs

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs til að árétta það, sem raunar hefur komið fram í umr. áður hjá hv. þm. Eyjólfi Konráð Jónssyni, að á fundi utanrmn. í fyrramálið munu þessi mál verða á dagskrá samkv. ósk hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar á utanríkismálanefndarfundi s.l. mánudag. Vænti ég þess, að ritari utanrmn., ráðuneytisstjórinn í utanrrn., hafi óskað eftir því við hæstv. utanrrh. að vera þar innan handar og fjalla um málið ásamt henni.

Ég skildi orð hæstv. utanrrh. ekki þegar hann var að tala um málflutning hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar í hálfgerðum dylgjutón sem einhvers konar flokkshagsmunamálflutning. Ég segi: Ég skildi ekki málflutning hæstv. utanrrh. vegna þessa dylgjutóns. Ég vonast til þess, að ég fari villur vegar þegar ég geri því skóna að hann hafi með þessum dylgjum átt við málflutning hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar þegar hann talaði um að við mættum ekki setja flokkshagsmuni ofar þjóðarhagsmunum í þessu máli. Ég held að það sé viðurkennd regla, að þm. hafi rétt til að flytja till., að þm. hafi rétt til þess að spyrjast fyrir um hver orðið hafi framkvæmd þeirra till. sem þeir hafi flutt hér á Alþ. og fengið samþykktar. Ég hygg líka að það sé réttur þm. að gagnrýna ef þeim finnst áfátt um framkvæmdina, — það sé ekki eingöngu réttur þm., heldur og skylda þm.

Ég vonast til þess að umræður í utanrmn. og landhelgisnefnd séu til þess fallnar að undirbúa málsmeðferð þessara mikilvægu mála í samningaviðræðum við aðrar þjóðir. Það er í þeim tilgangi sem till. hv. þm. Eyjólfs Konráðs hafa verið fluttar. Það er í þeim tilgangi sem spurt er um framkvæmd till. Og það er í þeim tilgangi sem beðið er um frekari umfjöllun í utanrmn. og landhelgisnefnd áður en næsti þáttur Hafréttarráðstefnunnar er haldinn. Ég vænti þess, að hæstv. utanrrh. fallist á að þetta sé mjög eðlileg málsmeðferð, og mælist til þess fyrir hönd utanrmn. að farsæt og góð samvinna takist við hann um þessi mál sem önnur.