19.02.1980
Sameinað þing: 25. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 846 í B-deild Alþingistíðinda. (938)

220. mál, landgrunnsmörk Íslands til suðurs

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð vegna hinnar furðulegu ræðu sem hv. þm. Pétur Sigurðsson flutti áðan. Hann var að vísu ekki á þingi síðasta kjörtímabil og hefur sjálfsagt verið önnum kafinn við sjómennskustörf og annað sem honum er talið til tekna í Sjálfstfl. Á þessum tíma hafa þm. Alþb. og þm. Sjálfstfl. t.d. átt mjög gott samstarf um þennan málaflokk, eins og hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson rakti áðan. Við áttum verulegan hlut að því að knýja fram þá afgreiðslu og það „gentlleman“-samkomulag sem hér var gert 1978. (Gripið fram í: Hvaða samkomulag var það?) Það var um afgreiðslu á þáltill. Hæstv. fyrrv. utanrrh., Benedikt Gröndal, ætlaði að reyna að drepa málið í þinginu og vakti mjög mikla tortryggni með þeirri tilraunastarfsemi sinni, sem ég vænti að hv. þm. Alþfl., sem voru að kalla fram í, sé kunnugt um. (Gripið fram í: Hvað kallaðist þetta samkomulag? Hver tók þátt í því?) Gat hver tekið þátt í því? Vill þm. ekki skýra spurningu sína? Hann skilur hana kannske ekki sjálfur.

En staðreynd málsins er sú, án þess að það sé ástæða til að rekja það, að hér hafa fulltrúar bæði stjórnar og stjórnarandstöðu, og það hefur verið óháð því hvaða ríkisstj. hefur setið, reynt að taka höndum saman um að setja hagsmuni Íslendinga á oddinn. Þannig unnum við t.d., ég og hv. þm. Matthías Bjarnason, að því á s.l. sumri að ná samkomulagi um stefnu Íslendinga í Jan Mayenmálinu, vegna þess að við vorum ekki ánægðir með þann tillögugrundvöll sem þáv. hæstv. utanrrh., Benedikt Gröndal, lagði fram. Það er ekkert nýtt að þm. Alþb. og Sjálfstfl. hafi í þessum málum sett þjóðarhagsmuni ofar flokkshagsmunum og verið meginaflið í að skapa þá þjóðarsamstöðu og þá þjóðareiningu sem náðst hefur í þessu máli og á vonandi eftir að ríkja áfram.

Ég vona að næst þegar hv. þm. Pétur Sigurðsson fer að fordæma slík vinnubrögð með þeim hætti sem mér fannst hann gera áðan hafi hann kynnt sér vel þá sögu. Það má vel vera að hv. þm. svíði að einn flokksmanna hans, eins og ástandið er nú í þeim flokki, Eyjólfur Konráð Jónsson, skuli fá að njóta slíks sannmælis í þingsölum. Ég hef löngum talið, og þess vegna hafði ég þessi orð áðan, að mikill fjöldi þm. hafi annaðhvort haft skilning á eða vanmetið það frumkvæði sem hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson hefur haft í þessu máli.