19.02.1980
Sameinað þing: 25. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 847 í B-deild Alþingistíðinda. (939)

220. mál, landgrunnsmörk Íslands til suðurs

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Það er undarleg árátta hjá hv. síðasta ræðumanni þegar hann telur að enginn megi mynda sér skoðanir um eitt eða neitt í þessu þjóðfélagi nema hann eigi sæti á Alþingi og ég tala nú ekki um helst í kommúnistaflokknum. Við sjálfstæðismenn byggjum upp málefnastefnu okkar þannig, að við leitum út fyrir raðir þm. til að fá fram skoðanir þeirra, sem hagsmuna eiga að gæta, og mótum stefnu okkar m.a. í þessu máli á grundvelli þess sem þaðan kemur. Og þótt ég hafi ekki átt sæti á síðasta Alþ. vil ég benda hv. þm. á að það fóru ekki svo litlar fréttir af þeim ósköpum sem hér gengu á, m.a. af hans völdum, að það færi fram hjá mér eða öðrum, alla vega ekki læsu fólki eða þeim sem höfðu fulla heyrn því það kom líka í hljóðvarpi.

Ef hv. þm. dregur í efa að við gerum þetta langar mig til að spyrja hann á móti: Hvern fjandann var hann að þvælast á fundi hjá farandverkamönnum fyrir ekki alls löngu? Var hann ekki að leita að skoðunum þess fólks? Var hann ekki að kynna sér hvað það hefði fram að færa í vandamálum sínum og hagsmunamálum? Mér er ekki kunnugt um, eins og ég hef áður orðað það á hv.

Alþ.,hv. þm. væri farandverkamaður. Hins vegar hef ég haft orð á því, að hann væri mesti farandriddari sem íslensk stjórnmál hefðu haft sögur af fyrr og síðar.

Ég skal hins vegar ekki taka undir það, og ég vil leiðrétta það hjá hv. þm., að við sjálfstæðismenn eða ég séum að gagnrýna Eyjólf Konráð. Við höfum einmitt verið hrifnir af þeirri forgöngu, sem hann hefur haft um stefnumótun okkar sjálfstæðismanna í þessum málum, og þá ekki síður þeirri miklu vinnu sem hv. þm. Matthías Bjarnason hefur lagt fram. Þessir menn hafa aldrei tekið neinar ákvarðanir á eindæmi sitt, heldur haft fullt samráð við flokksbræður sína — og systur að sjálfsögðu — og hagsmunaaðila sem hlut eiga að máli. Við erum hreyknir af því. Það er m.a. vegna þess, sem ég tek undir gagnrýni hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar þegar hann gagnrýnir þá stjórn sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson studdi og gat sjaldan fundið að þessum málum opinberlega —gat ekki fundið að þeim fyrr en Benedikt Gröndal varð forsrh. og utanrrh. Alla vega sá hv. þm. ekki ástæðu til að segja af sér eða sprengja stjórnina eins og kratarnir gerðu þó út af öðru máli síðar.