20.02.1980
Efri deild: 41. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 850 í B-deild Alþingistíðinda. (944)

44. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. (Ólafur Ragnar Grímsson):

Herra forseti. Nefndin fjallaði um þetta frv. í samvinnu við fjh. - og viðskn. Nd. Það hafa fá frv. fengið eins ítarlega meðferð hér í þinginu, ef undirbúningur að gildandi lögum er hafður í huga, enda munu fjórir fjmrh. úr jafnmörgum flokkum hafa lagt hönd á plóginn við að koma frv. og lögum í höfn. Sjálfsagt má margt um þessi lög og frv. um breytingar á þeim segja, en það er sameiginleg niðurstaða okkar nefndar í framhaldi af samvinnu við fjh.- og viðskn. Nd., að það sé tími til kominn að setja punkt aftan við þá vinnu að sinni. Nefndin hefur því á þskj. 177 orðið sammála um að legg ja til að frv. verði samþ. eins og það var afgreitt frá Nd. Það er gert í fullvissu þess, að sú yfirlýsing, sem hæstv. fjmrh. gaf við umr. í Nd. um endurskoðun á lögunum og endurskoðun á álagningu hvað einstaka þætti snertir, verði framkvæmd um leið og fyrir liggur hvernig þessi lög reynast í framkvæmd gagnvart einstökum aðilum, bæði einstaklingum og rekstraraðilum í þessu landi.

Einn hv. þm. hefur látið svo um mælt, að hér sé um að ræða stökk út í myrkrið. Það kann vel að vera. Það eru hins vegar allir sammála um að grunnforsendur þess stökks séu nauðsynlegar og réttar. Við væntum þess, að sú endurskoðun, sem verður framkvæmd, stuðli að því að varpa ljósi á það svo að þjóðin og þingheimur sitji ekki í myrkri hvað þetta mál snertir seinni hluta ársins.

Nefndin stendur sem sagt heils hugar að því að mæla með að frv. verði samþ. í þeim búningi sem það var afgreitt frá Nd. En þar að auki hefur meiri hl. n. skemmt sér við að flytja brtt. á þskj. 179, og er þar á ferðinni tilraun stjórnarandstöðunnar til að ákveða fyrir hæstv. ríkisstj. skattstiga. (Gripið fram í.) Vissulega ber að þakka áhuga hv. þm., sem að þessum till. standa, á að veita hæstv. ríkisstj. liðsinni. En við stuðningsmenn stjórnarinnar í n. teljum réttara, í samræmi við þá venju sem hér hefur ríkt, að hæstv. ríkisstj. leggi fyrir Alþ. frv. um skattstiga og sú vinna sé tengd afgreiðslu fjárlaga þannig að ríkisbúskapurinn verði farsæll og árangursríkur þáttur í baráttunni gegn verðbólgunni og jöfnun lífskjara í þessu landi. Við teljum að flausturslega samdar brtt., sem vonsviknir þm. Alþfl. og nokkrir gamansamir þm. Sjálfstfl. standa að, stuðli ekki að því að þeim árangri verði náð. Þess vegna leggjum við í minni hl. n. eindregið til að d. flýti sér að fella þær brtt. sem fram eru komnar á þskj. 179 þannig að hæstv. d. geti afgreitt frv. í þeim búningi sem það var samþ. í frá Nd.