20.02.1980
Efri deild: 41. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 851 í B-deild Alþingistíðinda. (945)

44. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Það er einmitt vegna þess að meiri hl. n. vill ekkí að þjóðin sitji úti í myrkrinu sem við flytjum þær brtt. sem birtast á þskj. 179.

Eins og kunnugt er hefur ríkt mikil óvissa í þjóðfélaginu, og nú horfir til þess að almennum launþegum í landinu verði gert að telja fram án þess að skattstigi liggi fyrir. Við viljum ekki að almennir launþegar þurfi að búa við slíka óvissu, þurfi að búa við það myrkur. Við erum þess vegna sammála um að þeirri óvissu beri að eyða með því að setja nú skattstiga og önnur ákvæði sem nauðsynleg eru til þess að hinir almennu framteljendur, fólkið í landinu, geti gert sér grein fyrir hvernig það verður skattlagt. Auðvitað er það Alþingis að taka ákvörðun um það efni. Þess vegna er það lagt fyrir Alþ. og þessa d. af þm. í deildinni. Þeir, sem eru aðilar að ríkisstj., eru jafnframt alþm. og verða að taka afstöðu sem alþm.

Þessar till. eru síst af öllu flausturslega samdar. Þær hafa farið í gegnum mikla og ítarlega prófun. Það er þess vegna rangt þegar því er haldið fram að þær séu ekki ítarlega undirbúnar.

Eins og fram kemur í nál. hefur n. fjallað um þessi mál á allmörgum fundum, sem voru sameiginlegir með fjh.og viðskn. Nd. Á þeim fundum var einkum, og þá sérstaklega framan af, fjallað um þau atriði sem birtast í frv. eins og það hefur verið afgreitt frá Nd. Þessi atriði fjalla fyrst og fremst um skattlagningu atvinnurekstrar, en einungis lítillega um það sem varðar hinn almenna launamann. Við endanlega umfjöllun fjh.- og viðskn. þessarar d. kom fram, að allir nm. gátu sætt sig við þær breytingar sem þegar höfðu verið gerðar í meðferð Nd. á málinu og lutu einkanlega að skattlagningu atvinnurekstrar í landinu. Hins vegar vildi meiri hl. n. ekki láta staðar numið við þær breytingar einar saman, heldur einnig ganga frá skattstiga einstaklinga fyrir tekjuskatt og því sem honum tilheyrir, svo sem persónuafslætti og barnabótum. Minni hl. n. taldi sig hins vegar ekki í stakk búinn til þeirra verka. Fyrir því liggja hér fyrir sérstakar brtt. frá meiri hl. um þessi atriði til viðbótar þeim brtt. sem birtast á þskj. 168 og 174 og sýna búning málsins eins og frá var gengið af hálfu hv. Nd.

Rök meiri hl. fyrir tillöguflutningi sínum eru ákaflega einföld. Einstaklingar eiga á næstu vikum að ganga frá framtölum sínum. Það er mikilvægt fyrir þá að geta gengið úr skugga um hvernig þeir verða skattlagðir. Eytt hefur verið miklum tíma í að ganga frá atriðum sem varða atvinnureksturinn, en fólkið í landinu, hinn almenni framteljandi, velkist enn í óvissu um skattlagningu sína. Svo verður áfram nema gengið sé frá skattstigum og þess háttar sem þá varðar. Nú er m.a.s. haft á orði, reyndar yfirlýst, að senda þingið heim í tvær vikur. Ef skattstigi og þess háttar er ekki afgreitt við þær kringumstæður velkist almenningur enn um nokkurra vikna skeið — og þá fram yfir endimörk framtalsfrests — í vafa um skattlagningu sína. Slíka óvissu teljum við óviðunandi. Alþ. hefur ekki síður skyldu við fólkið í landinu, hinn almenna framteljanda, en við atvinnureksturinn. Við þessar aðstæður á almenningur, fólkið í landinu, kröfu á því, að óvissu sé eytt og að það fái að vita hvar það stendur.

Í annan stað er það skoðun meiri hl. n., að rétt sé að ganga þannig frá skattstigum og því sem þeim tilheyrir að skattbyrði aukist ekki milli áranna, heldur léttist frekar nokkuð. Þetta er fyrst og fremst stutt tvennum rökum:

1) Nauðsyn ber til að jafna kjör í landinu. Það verður m.a. gert með því að létta skattbyrði af hinum tekjulægri og að hluta af þeim sem hafa meðaltekjur.

2) Tekjuskattskerfið er meingallað og því ástæða til að afnema tekjuskatt af almennum launatekjum. Það skref, sem hér er stigið, má líta á sem áfanga á þeirri braut.

Ég ætla að leyfa mér að víkja aðeins nánar að nokkrum efnisatriðum.

Þegar frv. til l. um tekjuskatt og eignarskatt var lagt fyrir Alþ. á árinu 1978 fylgdi því frv. til l. um staðgreiðslu opinberra gjalda. Sem alkunna er náði tekjuskattsfrv. fram að ganga og varð að lögum, en staðgreiðslufrv. dagaði uppi. Skattstigar og aðrir þættir álagningarkerfisins voru engu að síður samþ. óbreyttir frá frv., en þeir voru sniðnir að staðgreiðslu. Af þessum orsökum og vegna verðbólguþróunar að undanförnu er auðvitað óhjákvæmilegt að endurskoða álagningarkerfið.

Með þeim brtt., sem hér eru lagðar fram, er lagt til að tekjuskattur af almennum launatekjum meðalfjölskyldu verði felldur niður að hluta. Má líta á þann hluta, sem hér er um að ræða, sem þann fyrri af tveimur áföngum. Hér er gert ráð fyrir að þetta verði gert með ákvörðun skattstiga þannig að árið 1980 verði tekjuskattur lækkaður um rúmlega 7 milljarða kr. frá áætlun í fjárlagafrv. Tómasar Árnasonar og þeirri lækkun þannig hagað að hún komi þeim mest til góða sem lágar tekjur hafa svo og einstökum hópum, svo sem einstæðum foreldrum sem eiga erfiðum aðstæðum að mæta. Síðara skrefið mætti svo stíga á næsta ári með einfaldri breytingu á neðsta skattþrepinu eins og það lítur þá út.

Með frv. til fjárlaga, sem fjmrh. lagði fram í des. s.l., var gert ráð fyrir að innheimtur tekjuskattur á árinu 1980 lækkaði um 7,2 milljarða kr. frá áætlun fyrra fjárlagafrv. fyrir árið 1980. Því var jafnframt lýst yfir, að ætlunin væri að beita þeirri lækkun fyrst og fremst til að lækka skatta þeirra einstaklinga sem lægstar hafa tekjur. Þeim till., sem við tölum hér fyrir, er einmitt ætlað að ná þessu marki, en jafnframt, eins og áður greindi geti þær verið áfangi á þeirri leið að fella niður tekjuskatt ríkissjóðs á almennar launatekjur. Þessi aðferð, bæði sá áfangi, sem hér er tekinn fyrir, og hinn hugsanlegi síðari áfangi, tekur einungis til upphæða og hlutfalla í álagningarkerfi laga nr. 40/1978, en breytir að litlu leyti grundvallaratriðum kerfisins.

Samkv. till. er gert ráð fyrir að skattstigi tekjuskatts einstaklinga verði þannig: Af fyrstu 21/2 millj. tekjuskattstofni reiknast 15%, af næstu 31/2 millj. 30%, en 50% af því sem er umfram 6 millj. kr. Skattafsláttur frá reiknuðum skatti verði 400 þús. kr. Sami skattstigi og skattafsláttur gildi fyrir einhleyping og fyrir hvort hjóna.

Munur milli hæsta og lægsta skatthlutfalls er því meiri en lög nr. 40/1978 gefa tilefni til, raunar einnig meiri en var við álagningu tekjuskatts á árinu 1979, en þetta er gert í því skyni að nýta það svigrúm, sem hér er til skattalækkunar, fyrst og fremst til hagsbóta þeim tekjulægstu og um leið til eins mikillar hækkunar skattfrelsismarka tekjuskatts og talið er kleift.

Samkv. þessum till. eru barnabætur 140 þús. kr. með fyrsta barni, en 215 þús. kr. með hverju barni umfram eitt. Barnabætur með börnum yngri en 7 ára skulu vera 55 þús. kr. hærri. Einstæð foreldri skal ætíð njóta hæstu barnabóta eða 270 þús. kr. með hverju barni. Barnabætur þessar eru 10% hærri en beinn framreikningur á tölum laga nr. 40/1978 gefur tilefni til. Er hér gerð breyting á barnabótum einstæðra foreldra frá ákvæðum þeirra laga, en þar var mælt fyrir um að barnabætur með börnum einstæðra foreldra skyldu vera 40% hærri en barnabætur með öðrum börnum. Það er ljóst að ákvæði laga nr. 40/1978 mundu valda mikilli röskun á skattbyrði einstæðra foreldra innbyrðis þótt skattbyrði hópsins í heild breytist ekki mjög mikið og þá heldur til lækkunar. Það fyrirkomulag, sem hér er lagt til, dregur úr slíkri röskun.

Lækkun tekjuskatts með framangreindum hætti á árinu 1981 mundi á verðgildi ársins 1980 kosta ríkissjóð nær 10 milljarða kr. í álögðum skatti til viðbótar því tekjutapi sem leiddi af samþykkt þessa frv. Þannig mundu báðir áfangarnir samanlagt kosta ríkissjóð um 18 milljarða kr. í álögðum tekjuskatti ef sú braut yrði farin. Talnalegur samanburður á því álagningarkerfi, sem hér er gerð tillaga um, við þau skattalög, sem síðast var beitt við álagningu, er auðvitað að ýmsu leyti torveldur, enda er álagningargrunnur hinna nýju laga mjög frábrugðinn þeim sem áður giltu. Engu að síður hefur verið framkvæmdur allítarlegur samanburður af þessu tagi. Sá samanburður leiddi m.a. eftirfarandi atriði í ljós:

1) Meðalskattgreiðslur einstaklinga til ríkissjóðs mundu lækka um 16%. Hjá hjónum er meðaltalslækkunin um 10%, en hjá einhleypingum um 29%.

2) Skattalækkunin verður tiltölulega meiri hjá barnmörgum fjölskyldum en hjá barnfáum, t.d. um 25% hjá hjónum með þrjú börn o.fl., en aðeins 6% hjá barnlausum. Sé hjónum skipt í flokka eftir tekjuöflun eiginkonu er skattalækkunin vel yfir meðallag hjá þeim hjónum þar sem eiginkonan aflar engra tekna eða tekna allt að 1. millj. kr. Skattalækkun þeirra hjóna, þar sem eiginkonan aftar milli 1 og 2 millj. kr. í tekjur, er nálægt meðallagslækkun, en lækkunin er lítil sem engin í þeim hjónahópi þar sem eiginkonan aflar meira en 2 millj. kr. tekna. Innan síðast talda hópsins eru þó verulega misjafnar aðstæður.

Það verður umtalsverð lækkun á skattbyrði meiri hluta hópsins, enda þótt veruleg hækkun á tiltölulega litlum hluta hans valdi því að hópurinn í heild standi í stað.

3) Skattalækkunin er veruleg hjá gjaldendum með meðaltekjur, en þeir tekjuhæstu lækka ekki og skattar hinna allra tekjuhæstu fjölskyldna hækka í sumum tilvikum lítils háttar. En í heild lækka skattar merkjanlega hjá um 60% framteljenda.

4) Skattfrelsismörk hækka hjá öllum fjölskylduhópum. Sé miðað við að almennur frádráttur sé 10% af tekjum verða skattfrelsismörk einhleypinga í tekjuskatti um 2,8 millj. kr., en sé miðað við að frádráttur sé 15%fara mörkin yfir 3 millj. Hækkun skattfrelsismarka nemur 370 þús. kr. miðað við 10% frádrátt, en 390 þús. kr. sé miðað við 15% frádrátt. Vegna takmarkaðrar sérsköttunar hjóna er samsvarandi samanburður erfiður að því er þau varðar, en hafi t.d. eiginmaður aflað allra teknanna hækkar þessi skattfrelsismörk fyrir barnlaus hjón um 630 þús. kr., enda sé þá miðað við 15% frádrátt af tekjum. Þessi hjón verða þá skattlaus ef tekjur þeirra eru undir 4,6 millj. kr. Skattfrelsismörk hjóna með tvö börn, þar sem eiginmaðurinn aflar allra teknanna og ef reiknað er með 15% frádrætti, hækka um 520 þús. kr. eða í 6,1 millj. kr. Skattfrelsismörk hjóna sem eins er ástatt um, nema hvað hjónin skipta tekjuöfluninni jafnt á milli sín, verða 7,6 millj. kr. og hækka þá um 140 þús, kr.

Þetta er hinn efnislegi samanburður á skattlagningu eins og skattalög gerðu síðast ráð fyrir að beitt væri við álagningu annars vegar og hins vegar samkv. þeim brtt. sem hér er lagt til að verði samþykktar.

Við flm. þessarar brtt, teljum að hér sé stigið ákveðið skref í réttlætisátt til að jafna kjörin í landinu. Við teljum að hér hafi átt sér stað vandlegur undirbúningur sem geri að verkum að allur samanburður sé vel grundaður. En síðast en ekki síst teljum við að með því að samþ. þessar brtt. sé verið að eyða óvissu hjá hinum almenna launþega í landinu, þannig að hann viti hvar hann stendur þegar hann telur fram. — Og einmitt það að eyða þessari óvissu er mikilvægt. Alþ. hefur auðvitað alveg sérstakar skyldur við fólkið í landinu — ekki bara við atvinnureksturinn einan — að eyða þeirri óvissu, sem hér hefur verið fyrir hendi, og sjá til þess, að allur almenningur þurfi ekki að stökkva út í myrkrið, heldur viti hvar hann stendur.