20.02.1980
Efri deild: 41. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 854 í B-deild Alþingistíðinda. (946)

44. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja ásamt þeim hv. þm. Eyjólfi Konráð, Þorvaldi Garðari og Kjartani Jóhannssyni brtt. á þskj. 179 og vil leyfa mér að gera nokkra grein fyrir þeim brtt.

Eins og hv. þdm. er kunnugt var frv. um staðgreiðslukerfi skatta lagt fram á þinginu 1978 þegar tekjuskattslögin voru afgreidd sem nú eru í gildi. En þetta staðgreiðslufrv. dagaði uppi og því eru skattstigar í gildandi lögum nánast út í bláinn þar sem þeir eru miðaðir við staðgreiðslukerfið. Hæstv. ríkisstj. hefur lýst yfir að hún muni flytja frv. um skattstiga síðar á þessu þingi. Eins og fram hefur komið er ráð fyrir því gert að verði nokkurt hlé á þingstörfum, og þá getur svo farið að slíkt frv. verði ekki afgreitt fyrr en e.t.v. seint í vor. Afleiðing þess yrði sú, að allur almenningur yrði í algerri óvissu um hvaða skatta hann eigi að greiða til ríkisins þegar menn ganga frá framtali á næstu vikum. Til að koma í veg fyrir þetta m.a. höfum við flm. þessara brtt. lagt þær fram. Það er að mínu mati allsendis ófært að allur almenningur viti ekki fyrr en komið er fram á mitt ár hversu mikla skattbyrði hann eigi að bera, hversu miklar skattgreiðslur honum ber að inna af hendi til ríkissjóðs.

Þessar till. eru hliðstæðar fjórum greinum, í frv. sem hæstv. fyrrv. fjmrh., Sighvatur Björgvinsson, flutti á þessu þingi. Þær fela í sér breytingar á skattstigum einstaklinga og persónuafslætti og barnabótum. Samkv. þeim minnkar skattbyrði almennings um 6–7 milljarða kr. frá þeim forsendum sem gengið er út frá í fjárlagafrv. hæstv. fyrrv. fjmrh. Tómasar Árnasonar.

Hv. þm. Kjartan Jóhannsson gerði grein fyrir áhrifum þessara till. að öðru leyti, og ég skal ekki fara langt út í þá sálma, en meðaltalsskattgreiðslur einstaklinga mundu lækka með þessum till. um 16% og skattfrelsismörk hækka verulega þannig að skattfrelsismörk mundu hækka upp í 3 millj. hjá einhleypingi og 6 millj. hjá hjónum með tvö börn ef þessar till. ná fram að ganga.

Þessar till. eru þó að minni hyggju ekkert endanlegt markmið. Þvert á móti eru þær áfangi á þeirri leið að létta sköttum af almennum launatekjum, en það hefur verið grundvallarstefna Sjálfstfl. í áratugi. Hér er því um skref að ræða í þá átt að hverfa frá þeirri háskattastefnu og ofskattastefnu sem vinstri stjórnin á árunum 1978–1979 framkvæmdi. Í því sambandi má geta þess að einvörðungu hækkun söluskatts og vörugjalds, sem vinstri stjórnin kom á, mun leggja 16 milljarða kr. viðbótarskattálögur á þjóðina árið 1980, auk þess sem nýir skattar þeirrar stjórnar á gjaldeyri t.d., verslunar- og skrifstofuhúsnæði og nýbyggingagjald bæta við þá tölu tæpum 4 milljörðum kr. Þessar till. eru því, eins og ég sagði áðan, einungis tilraun í þá átt að létta af þjóðinni hluta af hinum gífurlega auknu álögum vinstri stjórnarinnar. Þessar till. um nokkra tilslökun í tekjusköttun til ríkissjóðs eru enn þá brýnni vegna þess, að nú eru uppi áform um að heimila 10% hækkun útsvara frá því hámarki sem nú er í gildi. Þetta gæti haft í för með sér gífurlega aukna skattbyrði ef ríkissjóður slakar ekki á á móti. Að sjálfsögðu kæmi til greina að sveitarfélög tækju verkefni að sér á móti hækkunum á tekjusköttum til þeirra, og í sjálfu sér er ekki nema gott um það að segja. En ef ákvörðun er tekin einhliða um að heimila sveitarfélögum 10% álag á útsvör miðað við það hámark sem nú er augljóst að það hefur haft veruleg áhrif á heildarskattbyrðina í landinu þar sem þarna er um 1% að ræða af brúttótekjum alls almennings.

Í þessu sambandi spyrja menn kannske hvort sé ætlun flm. að þessar skattalækkanir eigi að hafa í för með sér hallarekstur á ríkissjóði. Því er til að svara, að að sjálfsögðu þarf að koma til á móti lækkun ríkisútgjalda og það þarf að gæta þar aðhalds og sparnaðar. Ég lýsi mig reiðubúinn til að vinna með öðrum þm. að því að finna leiðir til þess. En hér er um svo augljóst sanngirnismál að ræða, ekki síst ef um yrði að ræða að heimila sveitarfélögunum hækkun á tekjuskatti sínum, útsvarinu, að ég held að framhjá því verði ekki gengið að þörf er á að þessar till. gangi fram.

Ég vil leggja að lokum áherslu á það meginatriði, að löggjafinn komi hreint til dyra og skattþegnar geti vitað nú þegar, þegar þeir telja fram, hvaða tekjuskatt þeir eigi að bera á árinu. Ég legg á það áherslu líka, að brýn nauðsyn er að slaka á tekjuskattsálagningu til ríkisins ef heimila á sveitarfélögunum 10% hækkun útsvara. Í síðasta lagi vil ég undirstrika að hér er um áfanga að ræða á þeirri leið, sem felst í grundvallarstefnumarki Sjálfstfl., að afnema tekjuskatt til ríkisins af almennum launatekjum.