20.02.1980
Efri deild: 41. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 855 í B-deild Alþingistíðinda. (947)

44. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég þakka hv. fjh.- og viðskn. deildarinnar fyrir hraða afgreiðslu á þessu máli, enda komu nm. ekki ókunnugir að því, höfðu fylgst með vinnu nefndar í Nd. í seinustu viku.

Það hefur verið ráðgerð samstaða um að afgreiða nú alla þá þætti þessa máls sem ekki er ágreiningur um milli flokkanna, og á sameiginlegum fundum fjh.- og viðskn. d. var gengið út frá því, að það yrði gert á þessum dögum, afgreitt það sem fullt samkomulag væri um. Hins vegar varð ljóst að ekki væri heppilegt að afgreiða skattstiga, persónuafslátt og önnur mál, sem lúta að sjálfri skattheimtunni, upphæð hennar og heildartekjum ríkissjóðs, á 2–3 dögum. Ég hélt að það væri einmitt niðurstaðan með sérstöku tilliti til stjórnarandstöðunnar og af sérstakri tillitssemi við stjórnarandstöðuna, að ekki væri ástæða til að afgreiða skattstigamálin núna í tengslum við önnur atriði frv. sem full samstaða er um.

Auðvitað segir það sig sjálft, að fjh.- og viðskn. vilja nú eins og alltaf áður athuga skattstigamálið og yfirheyra sérfræðinga um hvernig hinar mismunandi tegundir skattstiga koma út. Ég hef sjálfur hvað eftir annað verið viðstaddur slíka meðferð í fjh.- og viðskn., og þar hafa komið hinir færustu sérfræðingar með skuggamyndavél og brugðið upp ýmsum línuritum og talnarunum sem hafa sýnt þm. hvernig mismunandi tilbrigði skattstiga kæmu út í reynd. Ég hef alltaf gengið út frá því sem gefnu, að nm. í fjh.- og viðskn. Ed, jafnt sem Nd. hefðu þá sjálfsvirðingu gagnvart starfi sínu og gagnvart sjálfum sér, að þeir samþykktu ekki eitthvað út í bláinn án þess að það hefði verið ítarlega rætt í n. og fjallað um það með sérfræðingum þannig að menn vissu raunverulega hvað þeir væru að samþykkja. Þess vegna verð ég að segja alveg eins og er, að mér kemur harla mikið á óvart að seinasta daginn sem þetta frv. er til meðferðar í þinginu, allir gera ráð fyrir að það verði afgreitt í dag eða í allra seinasta lagi á morgun, þá skuli nokkrir nm. í fjh.- og viðskn. Ed. koma með flóknar og ítarlegar till. um einmitt skattstigamálið sem ekki var annað vitað en fullt samkomulag væri um að láta bíða þar til betra ráðrúm gæfist til að ræða það í nefndum.

Ég vildi ósköp vinsamlega mega bera upp þá spurningu, hvort þessar till, eru bornar fram með það í hyggju að atkvgr. fari fram um þær. Ég tel ekkert óeðlilegt að sýna till., það eru ágæt vinnubrögð að menn fái að sjá svona till. með góðum fyrirvara, og ég hef ekkert við það að athuga að hv. þm. úr Alþfl. og Sjálfstfl. komi með þessar till. nú þegar frv. er á dagskrá þannig að mönnum gefist betra tóm til að skoða þær áður en skattstigar verða teknir til afgreiðslu í þinginu. En ég tel alveg útilokað að hv. þm. meini það í fullri alvöru, að till. þeirra verði afgreiddar nú.

Það er augljóst, að þegar þm. greiða atkv. um till. og væntanlega fella þær, ef þær ganga til atkv., þá segir það út af fyrir sig ekkert um afstöðu manna til till. Þeir hafa ekki fengið nokkurt tækifæri til að ræða þær í n. eða kynna sér þær nánar og kynna sér aðra möguleika, sjá hvað aðrir hafa fram að færa. Það er þá ekki um neitt annað að ræða en að fella till. á þessu stigi málsins og taka svo málið allt til athugunar þegar menn eru almennt tilbúnir til að ræða um þá hlið málsins. Ef svo ólíklega vildi nú til, að það hafi hvarflað að hv. þm. Sjálfstfl. og Alþfl., sem bera fram þessar till., að láta þær ganga undir atkv., þá vildi ég mega bera fram þá bón til þeirra, að þeir hugleiddu hvort þeir gætu ekki fallist á að till. yrðu dregnar til baka og skoðaðar í tengslum við skattstigamálið í heild þegar það kemur til afgreiðslu í þinginu innan nokkurra vikna.

Ég er alveg sammála því sem fram kom í ræðu hv. þm. Lárusar Jónssonar áðan, að vissulega væri miklu æskilegra að geta afgreitt skattstigamálið nú. Það hefði verið miklu æskilegra. Ég var fyrst í stað á þeirri skoðun, að það væri best að drífa það af. En það var ljóst, að skattstigamálið væri það viðamikið og flókið og að kröfur yrðu gerðar um svo nákvæma og vandaða úttekt á þeirri hlið málsins í nefndum að varla mundi gefast tími til að afgreiða skattamálið almennt áður en þinghlé yrði gefið.

Ég hvarf því alveg frá þeim hugmyndum, og það hefur ekki hvarflað að mér fyrr en í dag að slíkt gæti verið á dagskrá. Ef stjórnarandstaðan hefði verið með ósk um að afgreiða skattstigamálið samhliða hinum atriðum frv. og borið þá ósk fram fyrir einni viku er ég ekkert frá því að orðið hefði fullt samkomulag um að afgreiða þá þann þátt málsins líka. Ekki hefði staðið á okkur í ríkisstj.flokkunum að bera fram till. okkar og útkljá þessa hlið málsins. Við hefðum þá haft alla seinustu viku og nokkra daga í þessari viku til að líta á málið, og það hefði sjálfsagt mátt gera þó að það hefði verið gert í nokkurri tímanauð. En þetta varð ekki, allt annað varð uppi á teningnum. Þess vegna hef ég látið skattstigahlið málsins bíða. Við höfum ekki tekið það mál neitt fyrir í flokkunum og það mun vera algerlega órætt. Við erum því ekki tilbúnir að leggja okkar till. fram nú.

Þetta vildi ég að kæmi hér skýrt fram, vegna þess að mér finnst það út af fyrir sig ekkert óeðlileg vinnubrögð að bera fram till. og sýna þær, en hitt væru í hæsta máta undirfurðuleg vinnubrögð á Alþ., ef þær ættu að ganga undir atkv.

Svo vil ég að lokum ítreka þakkir mínar til hv. fjh.- og viðskn.