20.02.1980
Efri deild: 41. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 858 í B-deild Alþingistíðinda. (949)

44. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. (Ólafur Ragnar Grímsson):

Herra forseti. Við, sem fylgdumst með vinnu fjh.- og viðskn. beggja deilda að þessu skattafrv., vitum fullvel að áhugi þm. Sjálfstfl. á því að afgreiða þetta mál með skattstigum er í hæsta lagi 40 klukkustunda gamall. Í sameiginlegri vinnu n. kom það aldrei fram hjá fulltrúum Sjálfstfl., að nauðsynlegt væri að afgreiða þetta frv. með skattstigum. Mig langar til að bera fram þá fsp. til hv. þm. Lárusar Jónssonar, hvort þetta séu till. þingflokks Sjálfstfl. sem hann og hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson eru að flytja hér. (LJ: Þetta er í samræmi við grundvallarstefnu Sjálfstfl.) Hún er nú eins og guðspjöllin, allt eftir því hver túlkar, grundvallarstefna Sjálfstfl. En ég vænti þess, að hv. dm. hafi tekið eftir svarinu. Þetta er nefnilega alls ekki flutt í samráði við þingflokk Sjálfstfl. (Gripið fram í: Hver segir það?) Vegna þess að ef það væri, þá hefði hv. þm. Lárus Jónsson einfaldlega sagt já, en hann kýs að snúa sig út úr svarinu með því að vitna til einhverra guðspjalla sem heita grundvallarstefna Sjálfstfl. Menn vita að það er annars konar túlkun á þessu hjá kjósendum Sjálfstfl. en flokkseigendafélagi Sjálfstfl., eins og nýgengin skoðanakönnun hefur glögglega sýnt. Og hv. þm. Lárus Jónsson og Eyjólfur Konráð Jónsson eru ekki neinir prókúruhafar að grundvallarstefnu Sjálfstfl. Ég held þess vegna að það sé alveg ljóst, að þær till., sem hér hafa verið lagðar fram, eru fyrst og fremst till. Alþfl. Það er dálítið merkilegt að þessir þm. Sjálfstfl. skuli láta svo lítið að ganga í smiðju hjá Alþfl. og gerast í raun og veru bara meðflm. að till. Alþfl. Þetta er nú allt risið á því sem eftir er af þingflokki Sjálfstfl. eða þeim þm. sem skipa sér undir merki svokallaðrar stjórnarandstöðu í þessari deild.

Við, sem höfum fylgst með gangi þessa máls, vitum ósköp vel að þegar Alþfl. sat í svokallaðri ríkisstj. einn sér, þá voru ráðherrar flokksins að gamna sér við það, meðan þeir biðu eftir því að fullgild ríkisstj. væri mynduð í landinu, að semja hin og þessi frv. Þeir lögðu hér fram síðustu daga sína í stjórnarráðinu fjölda frv. um ýmisleg mál. M.a. var, að ég held, tveimur eða þremur dögum áður en Alþfl. gekk út úr stjórnarráðinu lagt fram þetta frv. á þskj. 152, sem Lárus Jónsson sagði í ræðu sinni áðan að útskýrði grundvallarstefnu Sjálfstfl. í ræðu sinni. Það er sem sagt þetta stjfrv. Alþfl. sem er helsti útskýringartextinn á því sem hv. þm. Lárus Jónsson kallar grundvallarstefnu Sjálfstfl.

Við skulum ekki vera með neinn skollaleik í kringum þetta. Staðreynd málsins er sú, að í nefndum þingsins hefur ekki farið fram nein skoðun á þessum skattstigum. Það er staðreynd málsins. Frá því getur enginn þm. hlaupið, að í nefndum þingsins hefur engin skoðun farið fram á þessum skattstigum, vegna þess að engin krafa var sett fram um það á því tveggja mánaða tímabili sem unnið var að þessum málum af hálfu fjh.- og viðskn. beggja d., að skattstigarnir yrðu skoðaðir. Það var engin krafa sett fram um það, hvorki frá þm. Sjálfstfl. né öðrum. Hins vegar gerðist það á síðustu dögum ríkisstj. Alþfl., að hún lagði fram þetta frv. á þskj. 152. Þegar síðan fyrrv. ráðh. Alþfl. tóku að mæta á nefndafundunum, þá allt í einu tóku þeir — ekki þm. Alþfl. sem þar höfðu átt sæti í tvo mánuði, heldur ráðh. sem voru nýhlaupnir út úr stjórnarráðinu — upp kröfuna um að afgreiða skattstigana um leið. Það getur vel verið að þessir fyrrv. ráðh. Alþfl. hafi haft tíma í stjórnarráðinu, meðan þeir sátu þar einir við borð, að athuga þessi mál. Ég skal ekkert um það segja. Það getur vel verið að þeir hafi gert það rækilega. En aðrir þm. hafa ekki gert það. Ef ætti að fara að greiða atkv. um þessa skattstiga hér, þá fullyrði ég, þó að ég hafi ekki setið hér lengi á þingi, þá fullyrði ég það samt sem áður, að það yrði í fyrsta skipti í þingsögunni á síðari árum og áratugum sem væri farið að greiða atkv. um jafnveigamikil mál eins og skattstigamál almennings í landinu án þess að einni einustu mínútu af nefndarstörfum þingsins hefði verið varið til þess að athuga málið. Það eru vinnubrögð sem ég held að þjóðin mæli ekki með í hagsmunamálum sem eru jafnmikilvæg fyrir almenning.

Það má vel vera að hv. þm. Alþfl, hafi athugað þetta meðan þeir sátu einir í stjórnarráðinu. En þm. Sjálfstfl., Framsfl. og Alþb. hafa ekki gert það. Ég held að sé þess vegna nauðsynlegt að það verði viðhöfð við þetta mál eins og önnur þau vinnubrögð, að í nefndum þingsins sé það rækilega athugað og síðan sé það kynnt þingflokkunum, þannig að allir þm. hafa fyllsta möguleika til að kynna sér hvað er hér á ferðinni. Og það er athyglisvert, eins og hér hefur komið fram, að þetta er ekki till. þingflokks Sjálfstfl., heldur eru það tveir þm. Sjálfstfl. sem hafa gerst ábekingar á áróðursvíxli Alþfl.