19.12.1979
Neðri deild: 5. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í B-deild Alþingistíðinda. (96)

42. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði

Fjmrh. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Út af spurningu hv. 3. þm. Austurl. vil ég taka það fram að frv., sem hér um ræðir, er alfarið samið af embættismönnum fjmrn. í samvinnu við fjárlaga- og hagsýslustofnun og Seðlabanka Íslands. Ég hef aðeins óskað eftir því við þá, að þeir semdu frv. af þessu tagi, sem fæli í sér það sem þessir embættismenn væru sammála um að væri minnsta heimild sem hægt væri að veita ríkisstj. við slíkar aðstæður.

Varðandi þá 12 milljarða kr., sem talað er um í 3. gr. frv., þá byggist þessi lánsfjárþörf á mati fjárlaga- og hagsýslustofnunar og Seðlabanka Íslands á þeim greiðslum og þeim framkvæmdum sem þegar er búið að stofna til af fyrrv. ríkisstj., fyrrv. Alþ. og fyrrv. fjvn. og er með öllu óhjákvæmilegt að afla fjár til og er ekki nema þriðjungurinn af því fjármagni sem þessir aðilar, Seðlabankinn og fjárlaga- og hagsýslustofnun, telja augljóst að þurfi að afla á fyrstu mánuðum næsta árs.

Ég mun að sjálfsögðu óska eftir því við fjárlaga- og hagsýslustofnun og Seðlabanka, að fjh.- og viðskn. þessarar hv. d. fái allar þær upplýsingar um þessar fjárgreiðslur sem eftir verður leitað. Það blað, sem ég las upp af hvernig áætlað er að þetta skiptist á einstaka liði, hef ég þegar afhent formanni hv. fjh.- og viðskn., eins og hann gat um áðan.

Eins og ég sagði, þá hef ég ekkert á móti því, að 1. gr. sé breytt og í staðinn fyrir að ótakmörkuð greiðsluheimild sé veitt, eins og þar er gert ráð fyrir, eða þar til fjárlög hafa verið samþ., sé settur þar einhver ákveðinn endapunktur þannig að heimildin sé ekki veitt nema til tiltekins tíma. Ég var, eins og ég sagði áðan, reiðubúinn að breyta frumvarpsdrögunum þannig strax, áður en ég hafði lagt frv. fyrir Alþingi, og óskaði raunar eftir að þingflokkarnir gerðu grein fyrir afstöðu sinni m.a. til þess máls. Sú afstaða lá ekki fyrir í gær þegar óhjákvæmilegt var að útbýta frv. hér í hv. d., og varð ég því að taka þann kost sem kemur fram í frv. En ég er fús til að standa að öllum þeim breytingum, sem þingflokkarnir og hv. fjh.- og viðskn. telja óhjákvæmilegt að gera í þessu efni, og tek undir það með formanni hv. n., að þó svo að þarna séu sett tímamörk, þá er í fyrsta lagi hægt að breyta þeim, ef þörf krefur, og í öðru lagi er e.t.v. æskilegt að setja mörkin, því þá verður þrýstingur á Alþ. og í hv. fjvn. að afgreiða fjárlög á tilsettum tíma.

Í þriðja lagi vil ég geta þess í sambandi við tímabundinn yfirdrátt ríkissjóðs hjá Seðlabanka Íslands, að staðan er nú þannig að áætlun, sem gerð var um afkomu ríkissjóðs í ágústmánuði s.l., virðist ætla að standast og vonandi rúmlega það, þannig að á þeim mánuðum, sem liðið hafa af þessu hausti, hefur ekki aðeins tekist að varðveita þá stöðu ríkissjóðs, sem áætlun var um gerð um mánaðamótin ágúst-sept., þrátt fyrir ört vaxandi verðbólgu, heldur eru a.m.k. vonir um, þó ég vilji ekki fullyrða meira á þessu stigi málsins, að útkoma ríkissjóðs þessa síðustu tvo mánuði ársins verði hagkvæmari en ástæða þótti til að gera sér vonir um. Ýmsar ástæður liggja því að baki, sem ég ætla ekki að ræða hér, en e.t.v. gefst tækifæri til að ræða síðar. En það eru sem sé a.m.k. líkur á að þær ráðstafanir, sem fyrrv. ríkisstj. gerði til þess að skila hallalausum ríkisrekstri í árslok með álagningu nýrra skatta með brbl. og með yfirdráttarheimild eða réttara sagt samningum við Seðlabanka Íslands um skammtímalán fram á næsta ár, eða þær áætlanir og rúmlega það.

Í fjmrn. er nú verið að gera greiðsluáætlun um fyrstu mánuði næsta árs, þar sem leitast verður við að grípa aðeins til greiðslna út af óhjákvæmilegum kostnaði, og að sjálfsögðu verður leitað eftir samningum við Seðlabanka Íslands um tímabundinn yfirdrátt fyrstu mánuði ársins, eins og verður að gerast og ávallt hefur gerst. Seðlabankinn hefur ákveðnar hugmyndir um að reynt verði að mæta því með samningum við viðskiptabankana í meira mæli en gert hefur verið. En ég er reiðubúinn að hafa um þessi mál samráð við fulltrúa þingflokkanna hér á hinu háa Alþingi.

Ég vænti þess, að þessi svör mín skoðist fullnægjandi af hv. 3. þm. Austurl. og þeim öðrum þm. sem kynnu að hafa áhuga á að vita eitthvað meira um það, hvað verið er að vinna að þessum málum nú af hálfu ríkisstj.