20.02.1980
Neðri deild: 39. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 862 í B-deild Alþingistíðinda. (961)

110. mál, lögskráning sjómanna

Flm. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Ég hef á þskj. 169 leyft mér að flytja frv. til l. um breyt. á lögum um lögskráningu sjómanna. Ég vil taka skýrt fram strax, að þetta frv. er ekki hluti af svonefndum félagsmálapakka, hvorki núv. ríkisstj. né tveggja fyrrv., en þeir munu vera einstæðasta framlag sem saga verkalýðshreyfingarinnar á Íslandi hefur kynni af, a.m.k. hvað varðar þann hluta félagsmálapakkanna sem hafa verið loforð til íslenskrar sjómannastéttar. En það má segja í örstuttu máli, að þeim loforðum megi jafna við þessi fjögur orð: Svik ofan á svik.

Ég flyt frv. um breyt. á þessum lögum nú, þótt frv. um breyt. á þeim sé á ferðinni í hv. Ed., að gefnu tilefni, einnig vegna þess að þetta mál var á sínum tíma flutt inn á þing af mér og nokkrum öðrum hv. þm. Það er um að sá embættismaður hins opinbera, sem á að sjá um lögskráningu sjómanna, gæti þess að samningsbundnar tryggingar sjómanna séu í gildi. Ég flutti frv. um þetta 1962, og fjallaði það um þá grein laganna um lögskráningu sem telur upp þau gögn sem skipstjóri á að afhenda lögskráningarstjóra þegar skráning í skipsrúm fer fram. Efni frv, var á þá leið, að auk þeirrar upptalningar, sem fyrir var í lögum um skjöl þau sem skipstjóri þyrfti að hafa með sér, þyrfti hann að hafa vottorð frá tryggingarfélagi þess efnis, að samningsbundnar líf- og slysatryggingar sjómanna væru í gildi. Ég benti á það þá í ítarlegu máli og reyndar í grg. einnig, að mjög hefði færst í vöxt á þeim tíma að samtök sjómanna hefðu samið um og tekið upp í kaup- og kjarasamninga sína líf-, slysa- og örorkutryggingar. En vegna mjög tíðra sjóslysa, sem urðu á þeim árum, og í framhaldi af þeim komst upp um ítrekaða vanrækslu þeirra sem um lögskráninguna áttu að sjá og gæta þess að hinar samningsbundnu tryggingar væru í gildi, þá var þetta frv. flutt. Það var ekki eingöngu að um væri að ræða kröfu frá einum þrýstihóp, eins og það hefur verið orðað í sölum þessarar hv. d. af embættismönnum deildarinnar, heldur var hinn þrýstihópurinn, samtök útgerðarmanna, líka á ferðinni og tók undir það við útgerðarmenn — einstaklinga úr þeirra röðum — að þeir gættu þess að tryggingar væru fyrir hendi og þeir hefðu þær í gildi.

Það var í sjálfu sér mjög einföld brtt. sem lögð var til. Hún var á þá leið, að við upptalningu þeirra skjala, sem skipstjóri ætti að leggja fram hjá lögskráningarstjóra, ætti að bætast yfirlýsing frá viðkomandi tryggingarfélagi um að samningsbundnar líf- og slysatryggingar væru í gildi, eins og þar stóð.

Nú kom í ljós í meðförum Alþ., þegar málið kom til Ed., að þar kom hik á ákveðna þm. Ég geri ráð fyrir að það hafi m.a. verið vegna þess, að þeir voru embættismenn sem höfðu með slíka lögskráningu að gera í heimabyggð sinni. Það kom hik á þá um að svo gæti farið, ef undirsátar þeirra í embætti gegndu ekki sinni embættislegu skyldu, að þeir yrðu sjálfir skaðabótaskyldir ef þessarar embættisskyldu væri ekki gætt. Því varð það úr til að ná samkomulagi og til að fá málið þó í gegn með breyt., að bætt var í frv. brtt., sem síðar var svo samþ. í Nd., þess efnis, að ef útgerðarmaður vanrækti að hafa slíka líf- og slysatryggingu í gildi yrði viðkomandi útgerðarfyrirtæki ábyrgt fyrir umsömdum bótagreiðslum. Skylda embættismannsins til að gegna starfi sínu var þannig ekki tekin í lög og um leið ekki heldur baktryggingin, sem var ábyrgð ríkissjóðs á gerðum þessa starfsmanns síns.

Nú kom í ljós þegar fram liðu stundir að aðvörunarorð mín þá reyndust rétt. Það kom að því að það fórust skip þar sem einmitt hafði gerst að lögskráningarstjóra hafði láðst að lúta settum reglum. Hann hafði lögskráð á skipið án þess að gæta þess að í gildi væru hinar samningsbundnu tryggingar.

Ég hélt að mér höndum í þessu máli. Það voru ekki margir aðrir sem sýndu því athuga þá. Alla vega hafa þeir, sem hafa verið að hamast við að bjóða yfir búðarborðið svokallaða félagsmálapakka á undanförnum árum, ekki haft mikinn áhuga á þessum þætti hagsmunamála sjómanna. Ég beið eftir því að dómur félli í Hæstarétti varðandi eitt slíkt mál. Málið er nr. 87 í Hæstarétti frá árinu 1976, en dómur var kveðinn upp í nóv. 1978. Þar komst meiri hl. dómenda að því — eða þrír af fimm — að útgerð skipsins, eins og reyndar segir í lögunum, en ekki ríkissjóður, bæri skaðabótaábyrgð þegar lögskráð hafi verið á skip án þess að í gildi væri líf- og slysatrygging sem um er fjallað í greindu lagaákvæði.

Ég geri ráð fyrir því, ef menn skoða hæstaréttardóma á liðnum árum í sambandi við skyld mál, að þar komi í ljós að mjög naumur meiri hluti fylgi hinum skráðu lögum, en síðan komi minni hlutinn sem viðurkenni hið siðferðilega rétta í málinu og dæmi samkv. því. Þannig var það í þessu máli, að minni hluti dómenda — eða tveir af fimm — sagði í sératkvæði sínu á þessa leið, — vil ég leyfa mér að fara með það orðrétt, með leyfi forseta, en þeir segja í mjög ítarlegri grg. sinni einmitt á þessa leið:

„Könnunarskylda skráningarstjóra er sérstaklega brýn, og lýtur hún að afmörkuðu og auðkönnuðu atriði. Lagaákvæðinu er ætlað að tryggja, að líf- og slysatrygging sjómanna, sem lögskráðir hafa verið, sé ávallt í gildi í samræmi við kjarasamninga, svo sem grg. með frv. til l. ber með sér. Skráningarstjóra urðu á saknæm mistök, er hann gætti þess ekki, áður en hann lögskráði skipverja á vélbátinn, að krefjast yfirlýsingar tryggingarfélags um líf- og slysatryggingu þeirra. Sætti hann áminningu í sakadómi fyrir brot á þessari starfsskyldu sinni, eins og í héraðsdómi greinir. Þessi mistök skráningarstjóra leiddu til þess, að vélbáturinn lét úr höfn með lögskráða áhöfn, án þess að skipverjar væru líf- og slysatryggðir í samræmi við gildandi kjör. Urðu afleiðingarnar þær, að áfrýjendur fengu ekki greidda vátryggingarfjárhæð þá, er þeir áttu rétt á samkv. framansögðu, þar sem útgerðarmaður reyndist ógjaldfær. Eins og hér stendur á, þykir vera um að ræða slík mistök í stjórnsýslu, að leggja verði bótaábyrgð vegna þeirra á ríkissjóð, en hann ber ábyrgð á þessum mistökum lögskráningarstjórans.“

Svo mörg voru þau orð. Það var ekkja sem sótti málið vegna sjálfrar sín og þriggja ólögráða barna sinna. En dómurinn féll á þá leið, að hvorki hún né börnin fengju neitt af tryggingarupphæðinni. Meiri hluti Hæstaréttar kvað upp þann dóm, að þrátt fyrir sannaða vanrækslu embættismanns ríkisins bæri ríkissjóður ekki ábyrgð.

Það, sem ég legg til nú með breyt. á þessum lögum, er orðrétt á þessa leið: „Reynist útgerðarfyrirtæki eigi fært um greiðslu slíkra bóta ber ríkissjóður fulla ábyrgð á greiðslu þeirra.“ Þetta þýðir að það verði gengið fyrst að útgerðarfyrirtækinu og séð hvort það sé greiðslufært. Ef svo er ekki og fyrir liggur þá um leið og jafnframt að lögskráningarstjóri, embættismaður ríkisins, hefur vanrækt að gegna embættisskyldu sinni beri ríkissjóður fulla ábyrgð. Mér finnst það satt að segja ansi hart, — ég hef nú ekki þann langa lista með mér yfir þau mörgu laga- og reglugerðarákvæði sem Íslensk sjómannastétt, allt frá hinum lægst setta á einu skipi til skipstjóra, verður að hlíta í starfi sínu fram yfir aðra borgara þessa lands, — að það skuli geta átt sér stað, þegar sjómenn hafa, kannske eftir langa og harða samninga við viðsemjendur sína, náð samkomulagi um þessi þýðingarmiklu atriði, líf- og slysatryggingar, sem engri stétt hér á landi ber frekar en þeim mönnum sem geta sannað ákveðið prósentuhlutfall af sínum aðilum sem dauðahlutfall í starfi, á hverju einasta ári, að hægt sé að leysa embættismenn undan ábyrgð sem þeir eiga skilyrðislaust að bera og hlíta í embætti.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta nema frekari ástæða gefist til. Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til að frv. þessu verði vísað til 2. umr. að lokinni 1. umr. og, að ég hygg, allshn.