20.02.1980
Neðri deild: 39. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 865 í B-deild Alþingistíðinda. (964)

110. mál, lögskráning sjómanna

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég vil taka undir mál þeirra, sem hér hafa talað, og mun veita þessu frv. brautargengi fyrir mitt leyti. Hins vegar hlýtur maður aðeins að staldra við vegna þess að hér er dálítið sérkennilegt mál á ferðinni.

Hér liggur það fyrir í hæstaréttardómi, að ríkið virðist ekki bera ábyrgð á „axarsköftum“, eins og hér hefur verið nefnt, eigin starfsmanna, og það er auðvitað réttlætismál, úr því að svo er, að fyrir það líði ekki konur og börn sjómanna sem farast við störf sín. Ég hlýt hins vegar aðeins að vekja á því athygli, að vissulega er þessi trygging öðruvísi til komin hjá sjómönnum en öðrum starfsstéttum í landinu, þar sem opinberir starfsmenn eiga að sjá um að tryggingin sé í lagi. En sú spurning hlýtur að vakna: Hver gætir hagsmuna annarra sem hafa slík ákvæði í kjarasamningum sínum? Þá eru það venjulega atvinnurekendur sem eiga að sjá um að sú trygging sé í lagi, og ég hef sterkan grun um að þar sé víða pottur brotinn. Og þá er auðvelt að sjá fyrir sér hvað gerist ef slíkt mál kæmi upp, að maður færist á sama hátt við starf sitt og það kæmi í ljós að slík trygging hefði ekki verið framkvæmd. Þess vegna vil ég óska eftir því, að þegar málið kemur til n., sem ég geri ráð fyrir að það geri, hugi menn aðeins að því að fleiri stéttir eru harla lítt tryggðar í slíkum tilfellum. Ef þetta er misskilningur bið ég hv. flm. að leiðrétta mig um þessar efasemdir.