20.02.1980
Neðri deild: 39. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 871 í B-deild Alþingistíðinda. (973)

109. mál, tollskrá

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég get tekið undir það sem hæstv. forseti sagði, að það liggur býsna mikill málabunki fyrir þessu þingi sem hæglega ætti að vera hægt að vinna að á næstu dögum og þeim kannske tveimur vikum sem hugmyndin er að senda þingið heim, þó svo að ráðh. þyrftu ekki að sitja í þingsölum lon og don daginn langan og tefja sig frá störfum í ráðuneyti.

Erindi mitt í hingað í þetta sinn var að taka undir með hæstv. félmrh. og benda á þá staðreynd, þvílík beðja, þvílík ringulreið ríkir í löggjöf um málefni fatlaðra hér á landi. Það eru í gildi í dag hvorki færri né fleiri en 16 lög og reglugerðir um málefni fatlaðra á Íslandi. Það var fyrir alllöngu skipuð nefnd sem átti að endurskoða allan þennan laga- og reglugerðahóp. Ég veit ekki til þess að sú nefnd hafi haldið einn einasta fund og vil þó ekki hafa hana fyrir rangri sök, það gæti verið að þeir væru orðnir einn eða tveir.

Það er kannske rétt mönnum til fróðleiks að telja þau lög og reglugerðir og nefna með nafni sem samþ. hafa verið hér á þingi um málefni fatlaðra. Það eru lög um endurhæfingu, lög um aðstoð við þroskahefta, lög um almannatryggingar, lög um vinnumiðlun, lög um ráðstöfun erfðafjárskatts og erfðafjár ríkissjóðs til vinnuheimila, lög um grunnskóla, lög um heyrnleysingjaskóla, lög um heilbrigðisþjónustu, lög um ráðstöfun og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir, lög um tollskrá, byggingareglugerð nr. 292/1979, reglugerð um félagsmál og upplýsingadeild Tryggingastofnunar ríkisins, lög um heimilishjálp í viðlögum, reglugerð um heimilisþjónustu fyrir aldraða, reglugerð um öryrkjavinnu og reglugerð um sérkennslu. — Þetta eru öll þau lög, sem í gildi eru hér á landi um málefni fatlaðs fólks, sem vitað er um. Þau kunna að leynast einhvers staðar fleiri.

Ég vildi aðeins nefna þetta til þess að þeir hv. þm., sem hafa tíma til að sitja fundi Nd., gerðu sér grein fyrir hvers konar mál væri hér á ferðinni og hversu mikilvægt er fyrir þingið að reyna að vinna bráðan bug að breytingu á þessum lögum, endurbótum á þeim og samræmingu þeirra. Þetta er eitt hið stærsta mál fyrir hinn stóra hóp sem hefur ekki notið sömu kjara í þjóðfélaginu og við hinir sem heilbrigðir erum. Ég vænti þess fastlega, að hið háa Alþingi sjái sér nú fært í tilefni af ári fatlaðra 1981 að gera gangskör að því að hreinsa til í þeim lagabálkum og þeim lagaviðjum og flækjum sem þetta fólk býr við og þekkir ekki nema brotabrot af.