20.02.1980
Neðri deild: 39. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 876 í B-deild Alþingistíðinda. (976)

109. mál, tollskrá

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Hæstv. heilbrmrh. hafði orð á því, að ég hefði verið í vondu skapi áðan, og ég get þá sagt það, að mér þótti maðurinn býsna ísmeygilegur, sem var hér í ræðustólnum, raunar í bæði skiptin, og verð að gera nokkrar athugasemdir við ræðu hans. Fyrst kemur mér það mjög mikið á óvart, að hann skuli vera að reyna að slá keilur með því að við skulum ekki vera búnir að leggja fram brtt. í Nd. við fjárlagafrv. sem hefur ekki verið afgreitt úr nefnd. Ég hef aldrei heyrt um það fyrr og hef þó ekki setið í ráðherrastól og síst af öllu verið viðskrh., að það sé vaninn hér á Alþ. að leggja fram brtt. við fjárlagafrv. löngu áður en það kemur úr nefnd til 2, umr. En það getur verið að þessi þingreyndi ráðh. og mikli gáfumaður viti það betur en við hinir eða hafi kannske séð þetta í einhverri rauðri hillingu eða eitthvað því um líkt. (Félmrh.: Hv. þm. til upplýsingar, þá eru fjárlög afgreidd í Sþ.) Ég vissi það. Ég var að segja það. En mér heyrðist ráðh. sakna þess að hafa ekki hér fyrir framan sig einhverjar brtt. við fjárlagafrv. Hvar bjóst hann við að fá þær? (Félmrh.: Það er misheyrn, hv. þm.) Var það misheyrn?

Ég vil svo aðeins vekja athygli á því, að hæstv. trmrh. láðist að gefa hér það loforð sem beðið var um, að hann beitti sér fyrir því að fjárlögum yrði breytt og tekið tillit til þess af meiri hl. fjvn. og af ríkisstj. í þá veru sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Það er að Sjálfsögðu til einskis að vera að samþykkja frv. í deildum Alþingis á þessu þingi ef ekki er gert ráð fyrir því í fjárlögum, að þær heimildir, sem þar eru samþykktar, nái fram að ganga. Þetta láðist hæstv. ráðh, að gera. Ég vil samt vona í lengstu lög að ríkisstj. bregði ekki fæti fyrir þetta mál, heldur láti undan þeim þrýstingi sem hún mun verða fyrir í þingsölunum, vegna þess að hér er um mikið réttindamál að ræða.

Hér höfum við fyrir framan okkur frv. til fjárlaga fyrir árið 1980, sem lagt var fram á haustþinginu og yfirlýst hefur verið af hæstv. ríkisstj. að hún líti á sem sitt skilgetna afkvæmi og ætli að leggja til grundvallar við gerð fjárlaga fyrir yfirstandandi ár. Sú yfirlýsing vekur furðu mína og einnig ummæli hæstv. félmrh. í sambandi við verkamannabústaðina, dagvistunarmálin, og í sambandi við þetta allt saman, vegna þess að ég man mætavel eftir því frá haustdögum 1978 þegar hann lofaði félagsmálapakkanum þá og fékk í staðinn þá gjöf frá launþegum að þeir gáfu eftir þrjú vísitölustig fyrir félagsmálapakkann og tvö fyrir skattalækkanirnar. Finnst hæstv. trmrh. að það, sem í þessu plaggi stendur, og það, sem felst í fjárl. ársins 1979, sé einhverjar efndir á þeim fyrirheitum sem gefin voru í desembermánuði 1978? Það væri t.d. fróðlegt að fá það fram hjá honum eða öðrum mönnum sem báru ábyrgð á þeirri gjöf og vildu þiggja hana, hvað sjómenn hafa borið úr býtum. Og ef við lesum blöðin í dag sjáum við þá yfirlýsingu frá flokksbróður hæstv. trmrh., Jóni Hannessyni, formanni launamálaráðs Bandalags háskólamanna, að í þeirra hlut hafi ekkert komið. Það er þess vegna ekki nóg þó maðurinn sé mælskur og beri af okkur hinum í því að vera ísmeygilegur, það er náttúrlega ekki nóg að vera að flagga svona hlutum hérna. Og ég vil segja það við hv. 1. þm. Vesturl. — vegna þess að ég veit að hann getur verið harður í horn að taka þegar svo ber undir og hefur sýnt það ekki síst í sinni heimabyggð — að honum veitir ekki af að taka á núna í þingflokknum og í stjórnarherbúðunum, ef hann ætlar að ná því fram að hæstv. ríkisstj. fáist til að ætla nægilegt fjármagn á fjárl. þessa árs til að hægt verði við þau fyrirheit að standa sem í þessu frv. felast.