20.02.1980
Neðri deild: 39. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 881 í B-deild Alþingistíðinda. (979)

109. mál, tollskrá

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Í sjálfu sér er það mál, sem hér er til umr., einfalt og auðskiljanlegt í framsetningu. Ég get strax sagt það, að ég fylgi þessu máli vegna þess að ég tek þetta frekast sem leiðréttingu á þegar orðnum hlut. Verðbólga sú, sem hér hefur ríkt, erlendar verðhækkanir, sem hafa átt sér stað, hafa valdið því, að í þjóðfélagi okkar hafa greiðslur tryggingabóta til þeirra aðila, sem eiga að njóta, ekki fylgt verðlagi í sama mæli og hefði þurft. En eins og hæstv. forseti tók fram hafa blandast inn í þetta nokkur „prinsip“-mál, sem vissulega varða þetta mál. M.a. hefur hæstv. trmrh. gefið ástæðu til þess að þetta mál verði nokkru frekar rætt og þá kannske nokkru víðtækar en aðeins í samhengi við þetta eina mál, og þá um leið vegna yfirlýsingar frá hæstv. fjmrh. um hækkun skatta til þess m.a., geri ég ráð fyrir, að standa undir ýmsum félagslegum umbótum.

Ég tek undir það með hæstv. trmrh., að við verðum að gera okkur grein fyrir því, að ef við ætlum að stuðla að eðlilegri þróun í okkar þjóðfélagi, sem fylgi að nokkru leyti og þá af einhverri skynsemi öðrum þjóðum á þessum sviðum, þá verðum við að vera reiðubúnir að kosta fjármunum til þess. Hins vegar er ekki alveg sama hvernig við förum að því. Hæstv. ráðh. talaði hér um einhvern Mr. X sem hefði flutt till. með gati. Ég hef nú ekki enn þá komist að því, hvort þetta er Mr. eða Mrs. X, sem þarna var á ferðinni, en alla vega veit ég að hæstv. trmrh. og félagar hans hafa fengið gatið til fylgilags við sig í núv. hæstv. ríkisstj. Hvað um það, við verðum að gera okkur grein fyrir því, eins og ég sagði áðan, að við þurfum að standa undir félagslegum umbótum og þær kosta peninga. En það er auðvitað ekki sama hvernig farið er að í sambandi við kostnað þessara félagslegu umbóta. Við gerum okkur grein fyrir því, að það frv., sem hér er á ferðinni, mun kosta útgjöld fyrir ríkissjóð, hvort sem það verður á yfirstandandi fjárhagsári eða næsta. Ég geri því miður fremur ráð fyrir því, að ef þetta frv. fer til n. nú, að það nái ekki fram ef fylgt verður till. ráðh., sem maður hefur heyrt um, að ríkisstj. ætli að senda þingið heim rétt þegar það er að komast á laggirnar til starfa, meðan hér liggja fyrir óafgreidd til umr. mál svo tugum skiptir, t.d. í Sþ., þá eigi að senda þessa drengi, þessa 50 sem standa í kringum ráðh., heim eins og hverja aðra stráka sem hafi hér ekkert að gera meðan þeir ráða ráðum þjóðarinnar uppi í stjórnarráði. (Gripið fram í.) Ja, ég hef alltaf álitið þennan hv. þm. dreng góðan, sbr. baráttu hennar í borgarstjórn Reykjavíkur fyrir því að fá samningana í gildi. Hins vegar hef ég heyrt lítið í hv. þm. hér á Alþ. um að fá samningana í gildi, enda skilst mér að í öllu loforðafargani hennar og hennar fylgismanna hér í sambandi við málefnasamning ríkisstj. sé alls ekki gert ráð fyrir efndum í því, miklu frekar hinu, að ef við ætlum að fara einhverja umbótaleið í félagsmalum hja þessari þjóð, þá eigi að draga það frá launum manna, en ekki að það eigi að auka við launin.

Kem ég þá aftur að því, að það er auðvitað ekki sama hvernig að félagslegum umbótum er unnið. Við sjálfstæðismenn höfum aldrei nokkurn tíma lagt það til, að dregið væri úr þörfu framlagi þjóðarinnar, hvorki til heilsugæslu, menntamála né annarra slíkra verkefna sem þjóðfélagið þarf að sinna. Okkur hefur hins vegar greint á við aðra um það, hvernig að þessu er farið og hvort ekki væri hægt að vinna þetta á ódýrari og skynsamlegri hátt en oft hefur verið gert. Og ég vil fagna ummælum hæstv. trmrh., þegar hann sagði hér áðan eitthvað á þá leið, að það mætti margt gott til Svíþjóðar sækja, en hann væri samt sem áður ekki hrifinn af öllu sem þaðan kæmi — ég held ég fari a.m.k. efnislega rétt með hans orð. Undir þetta vil ég heils hugar taka, vegna þess að það eru allt of margir í þessu þjóðfélagi sem hafa talið að þeir hafi öðlast hina æðstu visku með því að leita til Svíþjóðar um allar fyrirmyndir til félagslegrar framþróunar hér norður á Íslandi, sem ég tel fjarri öllu lagi.

En vegna þess að bæði hæstv. ráðh. og hv. 7. landsk. þm. komu hér inn á nokkur atriði úr málefnasamningi ríkisstj., sem vissulega blandast inn í þær umr. sem hér hafa orðið. Bið ég hv. flm. frv., sem hér er til umr., afsökunar á því, að þeirra mál skuli tefjast vegna þessa, en það er m.a. vegna hótunar ráðh. um að senda þingið heim, að menn óska eftir að ákveðnum spurningum sé hér svarað, hvernig þeir ætli sér að uppfylla þau loforð sem þar eru gefin. Ég hefði t.d. talið fulla ástæðu til þess fyrir hæstv. heilbr.- og trmrh., að hann hefði komið hér fram á þingi — áður en þingið væri sett í hugsanlegt eða væntanlegt hlé — með frv. sem liggur tilbúið á hans borði, um þjónustumál aldraðra, hjúkrunarheimili aldraðra o.fl. Þetta frv. hefur legið í rn. nokkrar vikur, en það var unnið af nefnd manna sem skipuð var af fyrrv. heilbr.- og trmrh. Ég held að það hefði ekki verið ónýtt fyrir ráðh. ef hann hefði áhuga á því að gera nokkra betrumbót á þessum málum. Ég tel fulla þörf á að þingið hefði fengið þetta mál til umfjöllunar í n. meðan á þinghléi stendur. Ég sé enga ástæðu til þess, þótt fundum Alþingis verði frestað, að nefndir þingsins leggi niður störf eða mæti ekki til leiks og vinni að þeim málum sem til nefnda eru komin.

Um þetta eina mál, vandamál aldraðra, get ég m.a. vegna þess að hv. 6. þm. Norðurl. e., Árni Gunnarsson, benti á það ófremdarástand sem ríkir í sambandi við löggjöf um fatlað fólk og öryrkja. Væri full ástæða til að vinna þau mál á sama hátt og reynt var að gera og byrjað var á í sambandi við öldrunarmálin, að ná þessum málum saman í einn málaflokk, í einn lagabálk, þar sem þeir, sem með þurfa að fylgjast, — ekki aðeins lagasmiðir, heldur hinir fjölmörgu sem að þessum málefnum vinna og þeir sjálfir sem hlunninda og bóta eiga að njóta samkv. gildandi lögum í þessum efnum, — geta gengið að viðkomandi ákvæðum á einum stað til að fylgjast með og finna það sem þarf. Það gefur enn frekar ástæðu til að spyrjast fyrir um þessi mál, að það kom fram í málgagni hæstv. forsrh. Gunnars Thoroddsens, Þjóðviljanum, í gær, að svokallaður félagsmálapakki, sem boðaður hefur verið, þegar reiknað hefur verið með u.þ.b. 30% verðbólgu, geti þýtt á næsta ári, ef loforðin koma þá til efnda, um 4 milljarða kr. eða um 60 þús. kr. á hvern launþega. Þetta mundu verða um 15–20 þús. kr. á hvert mannsbarn á næstu tveim árum. En nota bene — þessu fylgir, ef ég skil þennan loforðalista rétt, að engar grunnkaupshækkanir eigi að verða í þjóðfélaginu á þessu tímabili. Ef svo er ekki og þetta er rangt skilið hjá mér, þá vona ég að hæstv. ráðh. leiðrétti það og útskýri. Reyndar hefur hæstv. félmrh. útskýrt fyrir mér eitt atriði í sambandi við þennan stjórnarsáttmála, sem ég spurði hann um í persónulegu samtali, einmitt þennan kjara- og félagsmálaþátt.

Satt að segja hef ég ekki trú á að það, sem þar kemur fram og launþegum er lofað, nái frekar fram en allt það sem lofað var í tíð fyrrv. ríkisstj., ríkisstj. sömu flokka og nú stjórna landinu — að frádregnum krötunum, en viðbættum núllmönnunum sem svo voru nefndir hér áðan. Bendi ég m.a. í því sambandi á þá hlutfallsbreytingu sem varð í þeirra stjórnartíð á milli fiskverðs til fiskimanna hér á landi og kauptaxta verkamanna. Það var þó í tíð sjútvrh. Sjálfstfl., Matthíasar Bjarnasonar, eins og hefur reyndar verið um ótalin ár, það hlutfall þar á milli, að íslenskir fiskimenn væru prósentulega nokkru hærri en hinn almenni verkamaður í landi og kemur þetta til af mörgum eðlilegum ástæðum. Það kemur til bæði af vinnuaðstöðunni, þeirri vosbúð sem starfinu fylgir, hættu í starfi, fjarveru o.fl., o.fl. En það var svo undarlegt í tíð þessarar stjórnar alls verkalýðsins, að þetta snerist alveg við. Þetta hlutfall varð á þann veg og hefur verið síðan og fer ekki batnandi, að fiskverð til sjómanna lækkaði og varð undir í þessu hlutfalli, undir vísitölu kauptaxta, sérstaklega kauptaxta verkamanna. Ég veit að þannig má finna fleiri slík dæmi og reyndar var getið hér um eitt dæmi áðan. Það var frá Bandalagi háskólamanna um kvartanir þær sem frá því hafa komið í sambandi við afgreiðslu félagsmálapakka fyrrv. ríkisstj.

Nú vil ég taka það strax fram til þess að afstýra misskilningi og tefja ekki um of fyrir fundarstörfum, að margt af því, sem kom úr þeim félagsmálapakka til verkamanna og iðnverkamanna, var af hinu góða og var nauðsynlegt þeim til handa. Hins vegar endurtek ég þau orð mín fyrr í dag, að félagslegar umbætur til fólks í þessu landi þurfa ekki alltaf að nást fram í kaupslagi yfir búðarborð á milli ráðh. í einhverri ríkisstj. og pólitískra fylgisveina þeirra í verkalýðsfélögum.