21.02.1980
Efri deild: 43. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 891 í B-deild Alþingistíðinda. (984)

111. mál, lántaka Framleiðsluráðs landbúnaðarins

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja brtt. á þskj. 192, og að athuguðu máli hef ég ákveðið að draga hana til baka að sinni og ræða hana ekki frekar við þetta tækifæri.

Ég get ekki stillt mig um í sambandi við þær umræður, sem hér hafa farið fram, og í tilefni af ádeilum hv. 2. þm. Reykn., Kjartans Jóhannssonar, á það kerfi sem ríkir í landbúnaðinum, þ.e. uppbótakerfið, að rifja upp með örfáum orðum hvernig og hvenær þetta kerfi varð til. Það er nákvæmlega 20 ára gamalt á þessu ári. Það varð til á árinu 1960. Menn skyldu halda að það hefði verið Framsfl. sem stóð að því að koma á þessu kerfi, en það var nú eitthvað annað. Það var Alþfl. ásamt Sjálfstfl. sem kom á þessu kerfi, tók upp útflutningsbætur á landbúnaðarafurðir. Þetta gerðist í ríkisstj. sem var starfandi 1960 og starfaði raunar lengi síðan, og það var undir forustu Ingólfs Jónssonar þáv. landbrh. En það var ekki hægt að koma þessu máli fram þá nema með samþykki Alþfl., þannig að Alþfl. hefur sennilega ráðið úrslitum um að þetta kerfi var tekið upp. Á þetta vil ég minna. (Gripið fram í: Voru framsóknarmenn þá andvígir þessu?) Við töldum rétt að haga málum þannig að verja þessu fé til að greiða niður kostnaðarþætti landbúnaðarins til að hægt væri að selja landbúnaðarvörur við lægra verði innanlands. Það var stefna okkar í þessum málum. En síðan eru 20 ár og þetta kerfi hefur auðvitað reynst hvetjandi til útflutnings. Það er alveg ljóst og það má öllum vera það ljóst, enda viðurkennt, að hér er vissulega við vanda að fást. Það ber að snúast við honum, það er viðurkennt. Ég get vitnað til starfa fyrrv. landbrh., Steingríms Hermannssonar, í þeim efnum, án þess að ég fari að rifja það nánar upp hér. En ég get ekki stillt mig um það við þessa umr. að minna á forsögu þessa máls, að Alþfl. er á vissan hátt í þessu máli að vinda ofan af sjálfum sér.