22.10.1980
Efri deild: 5. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 132 í B-deild Alþingistíðinda. (100)

Umræður utan dagskrár

Utanrrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég vil ekki á nokkurn hátt gera lítið úr því umræðuefni sem hér er fjallað um, en menn mega ekki tala um málið þannig að það verði skilið á þá lund að tekjur barna hafi áður verið skattfrjálsar, en nú séu þær skattlagðar. Spurningin er eingöngu um það, hvort tekjur barna skuli sérskattaðar eða skattlagðar ásamt tekjum foreldra sinna. Það getur verið mikið mál út af fyrir sig. Út í það ætla ég ekki að fara.

Ég ætla að leyfa mér að minna hv. þdm, á að það er á dagskránni, 1. mál á dagskránni, frv. til l. um málefni Flugleiða. Ég hef hingað til talið það eitt stærsta mál sem hefur verið lagt fyrir þetta þing til þessa. Kannske verður það stærsta málið sem þingið fjallar um. Mér hefur virst, og það er ekki að ástæðulausu, að margir væru orðnir langeygðir eftir því að fá að fjalla um þetta mál, fá að ræða það. Og eitt er víst, að málefni þessa fyrirtækis eru svo aðkallandi að það má ekki tefja fyrir því að ákvörðun sé tekin um málefni þess. Þess vegna vil ég leyfa mér að fara fram á að hv. þdm. leggi nokkrar takmarkanir á frábæra mælsku sína og stofni ekki til eins konar framboðsfundar um annars ágætt málefni áður en tekið er til við að ræða Flugleiðamálið. Það er þegar farinn klukkutími í umr. utan dagskrár. Það er þá skammur tími eftir til að fjalla um og ræða það stórmál sem hér liggur fyrir samkv. dagskránni. Ég held að virðing okkar þm. muni ekki vaxa við svona starfshætti.