03.12.1980
Efri deild: 19. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1080 í B-deild Alþingistíðinda. (1000)

107. mál, manntal 1981

Frsm. (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Allshn. hefur fjallað um frv. til l. um manntal 31. jan. 1981 og leggur til einróma að frv. verði samþykkt með brtt. sem nefndin flytur á þskj. 171 og ég mun gera grein fyrir hér á eftir. Nefndin ræddi við hagstofustjóra, sem gaf henni margháttaðar upplýsingar um fyrirhugaða framkvæmd allsherjarmanntalsins í lok janúar.

Þegar frv. þetta var hér til 1. umr. komu fram frá hv. 11. þm. Reykv., Ólafi Ragnari Grímssyni, nokkrar ábendingar, m.a. um hvort ekki væri rétt að binda það í lögum að manntal skyldi fara fram á 10 ára fresti og þá næst í byrjun níunda áratugsins. Það varð niðurstaða nefndarinnar, að menn voru sammála um að ekki væri rétt að binda þetta ákvæði í lögum. Ýmsar forsendur, tæknilegar og annars konar, gætu verið breyttar þá og því ekki rétt að binda það nú að þetta skuli fara fram með þessum hætti. Hins vegar var það og er skoðun nefndarmanna, að stefna beri að því að hér verði tekið manntal á 10 ára fresti.

brtt., sem nefndin varð sammála um að flytja á þskj. 171, er í þá veru að taka af tvímæli og gera orðalag nokkuð skýrara en var. Sú breyting, sem lögð er til, er að við bætist setning sem svo hljóðar, með leyfi forseta:

„Heimilt er þó að láta viðurkenndum rannsóknaraðilum og opinberum stofnunum í té upplýsingar skráðar á manntal, enda sé þá nöfnum og auðkennisnúmerum einstaklinga sleppt.“

Þetta er eingöngu gert til þess að taka af öll tvímæli um að opinberar stofnanir, t.d. eins og Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands og Þjóðhagsstofnun, eigi greiðan aðgang að þeim upplýsingum, sem manntalið geymir, án þess að þær séu þó bundnar eða tengdar einstaklingum.

Nefndin varð sammála um að leggja til þessa breytingu og það er gert í fullu samráði við hagstofustjóra. Nefndin leggur sem sagt til að frv. verði samþykkt með þeirri breytingu sem hún flytur á þskj. 171.