03.12.1980
Neðri deild: 24. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1093 í B-deild Alþingistíðinda. (1032)

88. mál, grunnskólar

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Frv. það, sem hér hefur verið lagt fram, snertir hvern einasta mann í þessu landi og ég vil byrja á að geta þess, að ég er samþykkur þeim anda sem liggur á bak við frv., ef ég túlka hann jákvætt, þ.e. að virða beri trúar- og lífsskoðanir manna og virða beri rétt foreldra yfir börnum sínum. En jafnánægður og ég er með þennan anda er ég óánægður með þann texta sem hér er. Ég tel að það eigi að tryggja virðingu fyrir trúar- og lífsskoðunum forráðamanna á þann veg, að hér á landi eigi að vera fræðsluskylda, en ekki skólaskylda, og þar með sé fullnægjandi trygging fengin fyrir forráðamenn barnanna.

Hitt atriðið, að kennari megi í engu fræða um eitt eða neitt ef einhver af forráðamönnum þess nemanda, sem á hlýðir, er á annarri skoðun, er hrein og klár vitleysa. Hvað um áfengislöggjöfina? Ef einn skyldi vera ákaflega hlynntur því, að allir drykkju jafnmikið og þeir vildu, má þá kennarinn ekki tala um áfengi í skólanum, foreldri eins barnsins hefði þá stöðvunarvald? Ef eitt barnið skyldi eiga stjórnleysingja fyrir foreldra má hann þá ekki tala um uppeldi, t.d. að það sé eðlilegt að nemendur mæti á réttum tíma í kennslustund, sitji í stólum sínum og þar fram eftir götunum? Hvernig er hugsunin í þessu? Við erum í veröld þar sem jafnt og þétt koma inn í þjóðfélag okkar fleiri og fleiri sem eru á annarri skoðun en meiri hluti þessarar þjóðar. Eiga þeir að fá algert neitunarvald innan skólakerfisins? Ef Múhameðstrúarmaður settist hér að og ætti barn í skólanum þýddi það að sá bekkur ætti ekki að fá neina kennslu í kristnum fræðum? Ég held að við verðum að gera okkur örlitla grein fyrir því, hvað verið er að samþykkja í þessum efnum.

Það er nú svo og mun verða, að trúar- og lífsskoðanir manna fara ekki saman. Lýðræðishugsunin er byggð á því, að meiri hlutinn hafi rétt til að hafa rangt fyrir sér. Bjarni heitinn Benediktsson orðaði þetta svo:

„Og ég held að það verði að mæta sérvitringum á þann veg að gefa þeim foreldravaldið yfir börnunum, þannig að það sé fræðsluskylda í landinu, sem mundi þýða það, að þeir yrðu þá sjálfir að sjá um fræðslu á þeim börnum, sem þeir ættu, ef þeir neituðu að senda þau í skóla á Íslandi.“

Í 2. gr. þessara laga er komið að því efni, hvort heimilt sé að veita upplýsingar um vitnisburð nemenda öðrum en þeim sjálfum og forráðamönnum þeirra. Þegar grunnskólalögin voru samþ. á sínum tíma voru við velflesta skóla á Íslandi sjóðir sem einhverjir höfðu gefið til minningar um sína foreldra, skólastjóra eða aðra. Þetta voru verðlaunasjóðir til að verðlauna nemendur sem sköruðu fram úr. Samkv. lögunum; eins og þau eru nú, er óheimilt að veita verðlaun neinu barni fyrir góða ástundun í skólanum. Ég minnist þess, að ég hringdi sem skólastjóri í þáv. menntmrh. og tjáði honum hvernig komið væri. „Jahá, er þetta svona bölvað,“ sagði hann. „Ég veit ekki hvað á að segja, ég veit ekki hvað á að gera, en ég veit hvað ég mundi gera ef ég væri í Mjóafirði.“ Og ég setti mig í hans spor, hvað hann mundi gera í Mjóafirði, og hegðaði mér samkvæmt því.

Ég er sammála því, að skólinn á ekki að verða til þess að koma á framfæri neikvæðum upplýsingum um nemandann, auglýsa vanmátt hans á einu eða öðru sviði. En ég tel það ákaflega hæpið uppeldisfræðilega séð að koma í veg fyrir að nemandi, sem hefur lagt sig fram, megi njóta þess álits í samfélagi sínu sem hann þannig hefur áunnið sér. Mér er ekki ljóst hvort sundkennarinn hefur heimild til að gefa upp tímann á nemendunum í sundkeppni. Hann er að gefa vitnisburð um nemandann. Við þurfum að hafa þessi lög víðari. Þannig komumst við nær því að virða það sem ég mundi kalla rétt einstaklingsins og rétt foreldranna.

Ég get tekið undir það með flm., að tilraunastarfsemi og rannsóknastarfsemi í skólum á að vera þannig framkvæmd að aldrei komi til þess að börn eða foreldrar þurfi að líða fyrir slíkt. Í því sambandi eru m.a. félagsfræðilegar rannsóknir hvað hvimleiðastar. Ég minnist þess, að einu sinni voru send út gögn til skóla á Íslandi þar sem börnum var ætlað að svara löngum spurningalistum. Þar var spurt um hvaða dagblöð foreldrarnir læsu. Þar var spurt um viðhorf til Rússa, Bandaríkjamanna, Norðmanna og margra annarra þjóða. Eftir að hafa lesið þennan spurningalista var ég sannfærður um að lesa mætti út úr honum nokkuð vel, hverrar stjórnmálaskoðunar foreldrar barnanna væru, og ég framkvæmdi ekki þessa skoðanakönnun. Engu að síður var það hálærður maður sem stóð að henni. Ég er því flm. fullkomlega sammála varðandi það atriði, að það þurfi skýlaust ráðherraleyfi ef á að fara að framkvæma einhverjar rannsóknir í skólunum.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri, en vænti þess að í umr. um þessi mál reyni menn að ná samstöðu á dálítið breiðari grunni en hér er fram settur.