03.12.1980
Neðri deild: 24. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1105 í B-deild Alþingistíðinda. (1047)

144. mál, eftirlaun til aldraðra

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Það frv., sem hér er lagt fram, er flutt í samræmi við fyrirheit ríkisstj. í sambandi við lausn kjaradeilu Alþýðusambands Íslands og atvinnurekenda í október s.l.

Í samkomulagi um lífeyrismál á milli aðila vinnumarkaðarins lýsa þeir yfir að þeir séu sammála um að frá 1. des. 1980 skuli lífeyrisréttur samkv. lögum um eftirlaun til aldraðra miðast við grundvallarlaun eins og þau eru samkv. kauptaxta 1. des., 1. mars, 1. júní og 1. sept. ár hvert í stað dagsetningar mánuði síðar. Í yfirlýsingu ríkisstj., er hún gaf við gerð kjarasamninganna, var heitið lagabreytingu í samræmi við fyrrgreint fyrirkomulag. Tilgangur þessarar breytingar er að lífeyrir samkv. lögum um eftirlaun til aldraðra breytist á sama tíma og verðbætur á laun, þannig að lífeyrisþegar þeir sem í hlut eiga njóti hækkunar lífeyris vegna hækkunar verðbóta með sama hætti og launþegar.

Ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða um mál þetta, herra forseti, og legg til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.