03.12.1980
Neðri deild: 24. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1107 í B-deild Alþingistíðinda. (1051)

123. mál, hollustuhættir

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Frv. það sem ég mæli hér fyrir um hollustuhætti og hollustuvernd er samið af stjórnskipaðri nefnd sem þáv, heilbr.- og trmrh., Matthías Bjarnason, skipaði í ágústmánuði 1978 og falið var að endurskoða lög nr. 12/1969, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, með hliðsjón af fenginni reynstu og enn fremur að semja drög að nýrri heilbrigðisreglugerð.

Í upphafi voru skipaðir í nefndina eftirtaldir menn: Ingimar Sigurðsson deildarstjóri í heilbr.- og trmrn., formaður, dr. med. Jón Sigurðsson fyrrv. borgarlæknir, Þórhallur Halldórsson framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkurborgar, Hrafn V. Friðriksson yfirlæknir, forstöðumaður Heilbrigðiseftirlits ríkisins, og Albert K. Sanders bæjarstjóri í Njarðvíkum.

Fljótlega eftir að nefndin tók til starfa tók hún þá ákvörðun, að höfðu samráði við þáv. heilbr.- og trmrh., Magnús H. Magnússon, að gera tillögur um sameiningu þeirra stofnana svo og samvinnu þeirra nefnda og annarra aðila sem með mál á þessu sviði fara. Í framhaldi af þessari ákvörðun var Guðlaugur Hannesson forstöðumaður Matvælarannsókna ríkisins skipaður í nefndina. Enn fremur var Eyjólfur Sæmundsson fyrrv. deildarverkfræðingur hjá Heilbrigðiseftirliti ríkisins og núverandi Öryggismálastjóri ráðinn sérstakur ráðgjafi nefndarinnar með hliðsjón af mengunarmálefnum.

Meiri hluti nefndarinnar, þ.e. allir nema Hrafn V. Friðriksson, skilaði endanlegu áliti í lok maímánaðar s.l. í formi frv. til nýrra laga ásamt ítarlegri grg. og aths. Var brugðið á það ráð að gefa út álit nefndarinnar í fjölriti og fylgir eitt eintak með til hvers þm. auk þess sem unnt er að fá eintök í heilbr.- og trmrn. Er álit þetta gefið út sem rit heilbr.- og trmrn. merkt nr. 1 1980 og er það miklu ítarlegra en aths. með frv. þessu. Bendi ég mönnum — og einkum þá hv. þingnefnd — sérstaklega á að kynna sér þetta rit, en það hefur að geyma fróðleik um þessi mál sem ekki er að finna annars staðar í samandregnu máli.

Ég ákvað í sumar að leggja frv. þeirra fimm nefndarmanna, sem að tillögunum standa, óbreytt fyrir Alþ., en án skuldbindinga af hálfu þeirra flokka sem að ríkisstj. standa. Ég tel nauðsynlegt að Alþ. fái þetta mál til meðferðar og hv. heilbr.- og trn. þingsins geti áttað sig glögglega á því. Hér er um mál af því tagi að ræða að ég tel eðlilegt að þingið grandskoði það um leið og það fær meðferð.

Því er ekki að neita, að um jafnviðamikið mál og hér um ræðir kunna að vera mjög skiptar skoðanir og tel ég því að frv. þurfi að fá mjög gaumgæfilega umfjöllun á hv. Alþ. Taldi ég því ástæðulaust að breyta neinu í frv. eins og það lá fyrir í tillögum meiri hluta nefndarinnar.

Í sjálfu sér sé ég ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um þetta frv. þar sem því fylgir mjög ítarleg grg. Hins vegar vil ég fara nokkrum orðum um það, hvernig nefndin starfaði á þeim tíma sem hún hafði þetta mál til meðferðar, og eins gera grein fyrir helstu nýmælum og breytingum sem frv. felur í sér.

Nefndin gekk frá sínum fyrstu drögum á vormánuðum 1979 og sendi þau til umsagnar mjög margra aðila sem þessi mál snerta, jafnt opinberra sem óopinberra. Flestallir þessara aðila skiluðu umsögnum um tillögudrögin og tel ég því að þegar hafi verið fjallað um frv. þannig að nokkurt mark sé á takandi. Reyndi nefndin að samræma sjónarmið aðila eins og unnt var að hennar mati.

Það er álit þeirra, sem að frv. standa eða tillögunum í nefndinni, að tilgangur með frv. sem þessu hljóti að vera að reyna að tryggja landsmönnum svo heilnæm lífsskilyrði á öllum sviðum þjóðlífsins sem unnt er að veita hverju sinni. Í því skyni skuli leitast við að samræma kröfur um hollustuhætti um allt land og koma á viðhlítandi eftirliti með þeim, þ.e. hollustueftirliti. Yfirumsjón með því starfi, matvælaeftirliti, mengunarvörnum og rannsóknum þessu tengdum, skuli vera í höndum ákveðinnar stofnunar. Daglegt eftirlit sé hins vegar í höndum hollustufulltrúa samkv. gildandi lögum um heilbrigðisfulltrúa, sem starfa á vegum hollustunefnda sveitarfélaga í samræmi við skiptingu landsins í hollustueftirlitssvæði. Hollustueftirliti er ætlað að firra landsmenn svo sem verða má hvers konar óhollustu, skaðlegum og óæskilegum utanaðkomandi áhrifum á heilsu þeirra og jafnframt að stuðla með almennri fræðslu og á annan hátt að bættu heilsusamlegu umhverfi og andrúmslofti úti og inni, hollum mat og drykk, auknum þrifnaði almennings og bættri umgengni. Verksvið er margþætt, eins og upptalning 2. og 3. gr. frv. ber glögglega með sér.

Samkv. frv. er gert ráð fyrir að landinu verði skipt í hæfilega mörg og stór eftirlitssvæði til að tryggja annars vegar markvisst eftirlit, sem nær til allra þátta á öllu eftirlitssvæðinu, og hins vegar nægilega mannmörg til að unnt verði að gera kröfur um æskilega menntun eftirlitsmanna. Einnig er gert ráð fyrir að fram komi skýr ákvæði um valdsvið hollustueftirlits með það fyrir augum að ná fram nauðsynlegum umbótum, en samhliða verði ákvæði um sérstaka úrskurðarnefnd til að tryggja sem best rétt þeirra sem eftirlit er haft með.

Til að ná þessu markmiði leggur nefndin til í frv., sem hér liggur fyrir, eftirfarandi nýmæli:

Í 1. gr. frv. er lögð lit ákveðin stefnuyfirlýsing, þ.e. að lögunum sé ætlað að skapa grundvöll til að tryggja landsmönnum svo heilnæm lífsskilyrði sem á hverjum tíma séu tök á að veita. Þetta skal vera megintilgangur laganna.

Lagt er til að með markvissum aðgerðum skuli unnið að því að ná þessu fram, m.a. með því að gera eftirlitið sem virkast með umhverfi svo og öllum þáttum sem snerta hollustuhætti, heilnæmi matvæla og enn fremur að vernda þau lífsskilyrði sem felast í ómenguðu vatni og hreinu andrúmslofti. Enn fremur er lögð áhersla á skyldur opinberra aðila til að veita alhliða fræðslu og upplýsingar um þessi mál fyrir almenning.

Gert er ráð fyrir því í frv., að það nái yfir alla starfsemi og framkvæmd, sem haft geti í för með sér mengun lofts, láðs og lagar, að svo miklu leyti sem það er ekki falið öðrum með sérstökum lögum eða alþjóðasamþykktum.

Eins og menn vita er íslensk mengunarvarnalöggjöf mjög fábreytt og reyndar fá fyrirmæli nema í sérlögum um einstaka þætti og stofnanir og eru þau á engan hátt tæmandi. Hér er lagt til að bót verði ráðin á þessu, þannig að lög um hollustuhætti og hollustuvernd nái einnig yfir mengunarvarnir. Ekki er ætlast til að þau nái yfir þau mengunarmálefni sem þegar gilda sérlög um og alþjóðasamþykktir. Má sem dæmi nefna lög nr. 51/1970, um Siglingamálastofnun ríkisins, en þar er Siglingamálastofnun ríkisins m.a. falið að annast mengunarvarnir í sjó í samræmi við alþjóðasamninga frá 1966 um losun úrgangs í sjó.

Samkv. frv. tekur mengun yfir það þegar örverur, efni og efnasambönd geta valdið óæskilegum og skaðlegum áhrifum á heilsufar atmennings, röskun lífríkis eða óhreinkun lofts, láðs eða lagar. Þannig er ekki verið að hrófla við náttúruverndarlöggjöfinni frá 1970 á einn eða neinn hátt, því ekki er ætlast til þess, svo dæmi sé tekið, að jarðrask af manna völdum falli hér undir.

Í frv. er lagt til að sett verði ein hollustuverndarreglugerð fyrir landið allt, þar sem skuli vera ákvæði um tiltekin atriði sem talin eru upp í frv. Hér er um að ræða efnislega svipað ákvæði og er í 10. gr. núgildandi laga, nema ekki er ætlast til þess að í hollustuverndarreglugerð, þ.e. samkv. gildandi lögum um heilbrigðisreglugerð, verði kveðið á um þá þætti sem sérlög geyma ákvæði um. Skulu þá sem dæmi nefnd nýsett lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46 frá 1980. Ég legg áherslu á að hér geta komið til greina margs konar sérlög sem kunna að skarast við starfsemi samkv. þessu frv. og er þá ekki ætlast til að þessi almennu lög grípi þar inn í. — Auk þessa er farið inn á nýjar brautir sérstaklega hvað snertir matvæli og reglur um töku sýna og úrvinnslu þeirra.

Ég vil sérstaklega geta þess, að í frv. er lagt til að notað verði annað orð um samheiti yfir þessi mál, þ.e. orðið „hollusta,“ og það komi í staðinn fyrir orðið „heilbrigði,“ sem notað er í dag, svo sem hollustunefnd í stað heilbrigðisnefndar, hollustufulltrúi í stað heilbrigðisfulltrúa o.s.frv. Varðandi þessa orðanotkun, þ.e. þar sem orðið „hollusta“ er tekið í staðinn fyrir orðið „heilbrigði,“ skal það sagt, að meiri hl. nefndarinnar taldi að orðið „heilbrigði“ ekki réttnefni í lögum sem þessum, sbr. orðið „heilbrigðisþjónusta,“ en um hana gilda sérstök lög. Þetta frv. fjallar öðru fremur um vernd gegn ytri áhrifum sem valdið geta óhollustu, tjóni á heilsu manna, en ekki um heilbrigði einstaklinganna og heilbrigðisþjónustuna. Orðið „hollusta“ hefur að vísu tvenns konar merkingu, eins og menn vita, þar sem það getur bæði táknað heilnæmi og tryggð og trúmennsku. Heiti frv. á þó að girða fyrir misskilning og er lipurt í munni. Er ólíklegt að almenningur tileinki sér ekki réttan skilning á heitinu þegar fram í sækir.

Ég vil í þessu sambandi vísa nánar til álits dr. Jakobs Benediktssonar, fyrrv. ritstjóra Orðabókarinnar, en nefndin fór fram á álit hans á orðunum „hollusta“ og „heilbrigði“ og samsettum orðum úr þeim í þessu sambandi. Álit dr. Jakobs Benediktssonar fylgir með áliti nefndarinnar í grænu bókinni sem hv. þm. hafa fengið fyrir nokkru í hendur.

Í framhaldi af tillögu nefndarinnar um að undir lögin verði felld ákvæði um mengunarvarnir er lagt til að ráðh. setji sérstaka mengunarvarnareglugerð að höfðu samráði við önnur ráðuneyti sem með þessi mál fara. Er hér um nýmæli að ræða.

Eitt af nýmælum frv. er að gert er ráð fyrir að ekkert sveitarfélag skuli vera án viðhlítandi hollustueftirlits og þjónustu hollustufulltrúa. Þetta er eitt stærsta vandamálið hvað snertir samræmingu hollustueftirlits í landinu, því víðast hvar er ekki um neina slíka þjónustu að ræða og það oft hjá þeim aðilum sem hafa með höndum mjög viðkvæma matvælaframleiðslu. Verði þetta hins vegar að lögum á að vera girt fyrir slíkt.

Í frv. eru lögð til skýr ákvæði um hvernig hollustunefndir eigi að starfa út á við og innbyrðis og enn fremur að hverju þær skuli fyrst og fremst vinna. Ákvæði um hollustunefndir, verksvið þeirra og framkvæmdaratriði eru miklu ítartegri í frv. þessu en í gildandi lögum og er það gert til þess að afgreiðsla nefndanna verði vandaðri en oft hefur verið hingað til.

Eitt veigamesta nýmæli frv. er ákvæði um stofnun Hollustuverndar ríkisins, en þeirri stofnun er ætlað að hafa yfirumsjón með hollustueftirliti, matvælaeftirliti, mengunarvörnum og rannsóknum þessu tengdum og á hún að sjá um framkvæmd þessa í samræmi við frv. þetta, reglugerðir og ákvæði annarra laga og reglna.

Verkefni stofnunarinnar yrði m.a. að vinna að samræmingu hollustueftirlits í landinu. Stofnuninni er ekki ætlað það sem við köllum beint hollustueftirlit nema í undantekningartilvikum, þar sem kosið er að halda óbreyttu fyrirkomulagi og fela sveitarfélögum slíkt áfram, en þó á allt annan veg en hingað til.

Stofnuninni er sérstaklega ætlað að halda uppi fræðslu fyrir almenning um mál, er varða hollustu, og standa fyrir námskeiðum fyrir þá aðila sem vinna að þessum málum og enn fremur að standa fyrir menntun og fræðslu fyrir hollustufulltrúa. Á slíkt hefur skort til þessa og er hér um að ræða einhver mikilvægustu ákvæði frv.

Stofnuninni er ætlað að vera hollustunefndum og hollustufulltrúum til trausts og halds og veita þeim þá þjónustu sem tiltæk er. Enn fremur skal hún annast upplýsingar og tilkynningar til fjölmiðla þannig að slíkt komi frá einum og sama aðila.

Gert er ráð fyrir að við stofnunina starfi sérstök stjórn, sem ráðh. skipar og ýmsir aðilar tilnefni í, og að stjórnin fari með stjórn málefna stofnunarinnar undir yfirstjórn heilbrigðisráðherra.

Hollustuvernd ríkisins er skipt í þrjár deildir samkvæmt frv., þ.e. deild sem annast hollustueftirlit, deild er annast skal rannsóknir og deild er annast skal mengunarvarnir. Gert er ráð fyrir forstöðumanni fyrir hverri deild, þ.e. þremur forstöðumönnum, auk þess sem gert er ráð fyrir sérstökum framkvæmdastjóra. Með þessu er lagt til að starfsemi Matvælarannsókna ríkisins, Heilbrigðiseftirlits ríkisins og Geislavarna ríkisins verði sameinuð í einni stofnun og undir einni stjórn. Tel ég slíkt fyrirkomulag tvímælalaust til bóta, m.a. vegna þess að þannig verði unnt að koma í veg fyrir tvíverknað auk þess sem slíkt ætti að hafa í för með sér sparnað þegar fram í sækir sé rétt á málum haldið.

Enn fremur er gert ráð fyrir í frv. að Eiturefnanefnd, Áfengisvarnaráði og Manneldisráði verði sköpuð aðstaða innan þessarar stofnunar og þar verði um mjög náið samstarf að ræða. Eins og sakir standa er ekki talið ráðlegt að fella þessa aðila undir verksvið stofnunarinnar, en á næstu fimm árum gæti slíkt verið raunhæft og verði sérstaklega að því unnið.

Auk þess er stofnuninni ætlað að taka við málefnum samkv. lögum nr. 27 1977, um ráðstafanir vegna tóbaksreykinga, en á vegum rn. er unnið að gerð nýs frv. um þau mál og verður væntanlega gert ráð fyrir í því frv. að Hollustuvernd ríkisins fari með framkvæmdaratriði varðandi tóbaksvarnir, enda telst það á allan hátt eðlilegt að okkar mati.

Stofnuninni er falið að hafa sem nánasta samvinnu við Náttúruverndarráð, Vinnueftirlit og Siglingamálastofnun um öll mál er varða mengunarvarnir við atvinnurekstur og þess háttar.

Í gildandi lögum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit er gert ráð fyrir að sveitarfélög geti sett sér heilbrigðissamþykktir um einstaka þætti þar sem gerðar eru ríkari kröfur en í heilbrigðisreglugerð, en hún kom út 1972. Að öðru leyti fylgja engar skýringar þannig að ákvæði þessi eru á margan hátt haldlítil. 1 frv. því, sem ég mæli hér fyrir, er hins vegar lagt til að sérstakur kafli fjalli um samþykktir sveitarfélaga, þar sem tryggt verði þeim sveitarfélögum sem kjósa að setja sér sérstakar samþykktir að ákvæði slíkrar samþykktar verði virkari en nú gerist. Þannig er m.a. lagt til að heimilt sé að setja í slíkar samþykktir ákvæði um tiltekin atriði, svo sem gjaldtöku vegna leyfa, leigu eða veittrar þjónustu og enn fremur ákvæði um sérstakar tryggingar. Samþykktir sem þessar hafa oft og tíðum sætt lítilli virðingu og jafnvel verið þverbrotnar. Enn fremur gerir frv. ráð fyrir að sé leyfi, leiga eða þjónusta tengd notkun fasteignar séu gjöld tryggð með lögveðsrétti í viðkomandi fasteign. Er hér um nýmæli að ræða. Tel ég að verði þessi ákvæði lögfest hvað snertir hollustusamþykktir sveitarfélaganna muni sveitarfélögunum ganga miklu betur að fylgja eftir þeim reglum sem þau kjósa að setja á þessu sviði, sérstaklega hvað snertir umhirðu alla, svo sem sorpeyðingu og holræsamál. Fengju sveitarfélögin þá t.d. heimildir til að kveða á um sérstaka gjaldtöku til að koma frárennslismálefnum sínum í viðunandi horf, en eins og menn vita eru þau einhver mesta brotalöm í hollustukerfi landsins.

Gert er ráð fyrir því, að landinu verði skipt í ákveðin hollustueftirlitssvæði og er gerður greinarmunur á hollustueftirlitssvæðum og starfssvæðum hollustunefnda, en þau eru sveitarfélögin sjálf. Samkv. frv. eru hollustueftirlitssvæðin ellefu, þ.e. þrem fleiri en læknishéruðin samkv. lögum nr. 57/1978, um heilbrigðisþjónustu, en þau taka mið af kjördæmaskipuninni sem og lögum um grunnskóla um fræðsluhéruð og um aðstoð við þroskahefta hvað snertir þjónustusvæðaskiptinguna. Með því að koma á ákveðinni eftirlitssvæðaskiptingu eins og gert er ráð fyrir verður unnt að koma til leiðar einu af grundvallaratriðum frv., sem er að ekkert sveitarfélag skuli vera án þjónustu hollustufulltrúa. Svæðin eru ellefu, en ekki átta, eins og í áður tilvitnuðum lögum, og byggist það á landfræðilegum ástæðum svo og þeirri venju sem skapast hefur á þessu sviði á undanförnum árum. Þannig má sem dæmi nefna að Seltjarnarneskaupstað er þjónað frá Reykjavík, þannig að eðlilegast er að þessi tvö sveitarfélög haldi því starfi áfram. Hvað snertir Suðurnesjasvæðin sérstaklega er skipan þessi fyrir hendi þegar í dag og hið sama má raunar segja um Hafnarfjarðarsvæðið.

Gert er ráð fyrir að á hverju hollustueftirlitssvæði starfi svæðisnefnd, sem skal skipuð formönnum hollustunefnda á svæðinu. Svæðisnefndunum er falið að skipuleggja og samræma hollustueftirlitið, ákveða aðsetur hollustufulltrúa og annast ráðningu þeirra. Svæðisnefndum er ætlað að skipuleggja hollustueftirlitið í samvinnu við hlutaðeigandi hollustunefndir og sveitarstjórnir í samráði við Hollustuvernd ríkisins. Hér er því ekki um framkvæmdanefnd að ræða í þeim skilningi, heldur er ætlast til þess að hún komi saman tvisvar á ári eða svo til að sinna þessum tilteknu málum. Enn fremur er svæðisnefndum ætlað að annast árlega skýrslugjöf um ástand og horfur í hollustuháttamálum á viðkomandi svæðum.

Í frv. er að finna nýmæli hvað snertir starf hollustufulltrúanna sjálfra. Þar er gert ráð fyrir að þeir séu sérmenntaðir á sviði hollustueftirlits, en ráðherra skal heimilt, að fengnum tillögum Hollustuverndar ríkisins, að setja reglugerð um sérmenntun, réttindi og skyldur hollustufulltrúa, en slíku er ekki til að dreifa nú. Heilbrigðisfulltrúar sveitarfélaganna, sem nú starfa, hafa mjög mismunandi menntun, allt frá háskólamenntun til reynslumenntunar og allt þar á milli. Gert er ráð fyrir að þessir aðilar haldi fullum réttindum samkvæmt frv. þannig að hér er ekki verið að skera á eitt eða neitt, heldur er verið að horfa til framtíðarinnar.

Í frv. eru ítarlegri ákvæði um valdssvið og þvingunarúrræði en eru í gildandi lögum. Samkv. gildandi lögum hafa heilbrigðisnefndir mjög mikið vald til afskipta af öllu er snertir hollustuhætti, en þar eru hins vegar engin ákvæði um hvernig beita skuli þessu mikla valdi Í frv, er reynt að ráða þar bót á með því að kveða á um hvernig hollustunefnd skuli starfa þurfi hún að knýja á um framkvæmd ráðstafana er varða hollustumál. Þannig er t.d. lagt til að í fyrsta lagi beiti hollustunefndir áminningum, í öðru lagi áminningum og tilhlýðilegum fresti til úrbóta þar sem slíkt á við og í þriðja lagi að stöðvuð verði viðkomandi starfsemi eða notkun að öllu leyti eða að hluta til, þ.e. sé um að ræða alvarleg tilvik eða ítrekuð og þá jafnframt ef aðilar sinna ekki úrbótum innan tiltekins frests. Í reynd má segja að margar heilbrigðisnefndir hafi starfað á þennan hátt, en ástæða er til að lögfesta þetta sérstaklega, m.a. vegna þeirra sem eftirlit er haft með. Hollustufulltrúum er fenginn sami réttur og hollustunefndum nema hvað varðar stöðvun, en þá þarf hollustunefnd að staðfesta slíkt. Samkv. gildandi lögum eru hollustufulltrúar nær valdalausir og þurfa að bera allt undir heilbrigðisnefndir. Slíkt gengur ekki þar sem oft þarf að bregðast mjög skjótt við og erfitt kann að reynast að ná heilbrigðisnefndum saman.

Lagt er til að kostnaður við vinnu, sem hollustunefnd lætur framkvæma þar sem aðili vanrækir að vinna verk sem hollustunefnd hefur fyrirskipað í samræmi við gildandi lög, sé tryggður með lögveðsrétti í viðkomandi húsi, lóð eða faratæki í tvö ár eftir að greiðslu er krafist, sé um að ræða vanhirðu, óþrif eða heilsuspillandi aðstæður í húsi, á lóð eða farartæki. Þessi lögveðsréttur er ekki fyrir hendi í gildandi lögum, en yrði að mati allra, sem til þekkja, mjög til bóta og mundi létta störf hollustunefnda verulega þar sem sveitarstjórn hefur áður greitt fyrir viðkomandi verk. Þannig ætti slíkur lögveðsréttur frekar að hvetja hollustunefndir til framkvæmda en gildandi lög gera, þar sem meiri trygging er fyrir því, að verkið fáist endurgreitt.

Meðal nýmæla má enn fremur nefna að hollustunefndum er sérstaklega heimilað að gefa fyrirmæli um meðferð og notkun matvæla og annarra vara þar sem settum reglum hefur ekki verið framfylgt. Lagt er til að nefndirnar geti þá eftir atvikum lagt hald á slíkar vörur eða fyrirskipað förgun þeirra, teljist slíkt nauðsynlegt. Slík ákvæði eru ekki fyrir hendi og hefur oft komið til harðvítugra deilna vegna þessa og hafa störf heilbrigðisnefnda samkv. gildandi lögum oft sætt gagnrýni vegna slíkra ákvarðana. Fer því best á því að leiða slíkar reglur í lög, enda hljóta þær að teljast á allan hátt eðlilegar. Hér er ekki um það að ræða að hollustunefnd leggi eignarhald á viðkomandi matvæli eða vörur, heldur eingöngu að um hald sé að ræða til að tryggja rétta meðferð eða þá til þess að vörunum verði fargað vegna óhollustu þeirra.

Hvað snertir valdssvið Hollustuverndar ríkisins sem stofnunar er gert ráð fyrir að það verði að mestu óbreytt miðað við vald Heilbrigðiseftirlits ríkisins samkv. gildandi lögum. Að vísu er gert ráð fyrir nokkrum leiðréttingum varðandi ýmis framkvæmdaratriði, sem ég tel ekki ástæðu til að nefna hér, en hvað snertir sýnatöku er sérákvæði varðandi Hollustuvernd ríkisins. Gert er ráð fyrir að stofnunin taki sýni þar sem starfræksla og notkun fer fram og að slíkt verði gert í samráði við viðkomandi hollustunefndir til þess að komið verði í veg fyrir að margir aðilar séu að taka sýni án þess að vita hver af öðrum.

Í frv. er lagt til að vísa megi til Hollustuverndar ríkisins ágreiningi um framkvæmd laganna, hollustuverndarreglugerðar, mengunarvarnareglugerðar, hollustusamþykktar sveitarfélaga og ákvarðana hollustuyfirvalda annarra en taldar eru upp sérstaklega í 29. gr., 1. og 2. tölul., og í 31. gr., en í þeim greinum er sérstaklega fjallað um ráðstafanir vegna almenningsheilla, eða vegna alvarlegrar hættu á óhollustu eða vegna deilna milli yfirvalda og stofnana. Enn fremur er gert ráð fyrir að vísa megi úrskurði stjórnar Hollustuverndar ríkisins til sérstakrar úrskurðarnefndar sem í eiga sæti þrír aðilar, einn tilnefndur af Hæstarétti og skal hann vera embættisgengur lögfræðingur, einn tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og einn af landlæknisembættinu.

Ég hef hér að framan reynt að gera í stuttu máli grein fyrir helstu nýmælum frv., en nýmælin eru að sönnu mörg og fleiri en ég tíndi til sérstaklega.

Í frv. er leitast við að tryggja rétt þeirra aðila sem starfa við þær stofnanir sem lagt er til að sameinaðar verði, og hið sama má segja um starfsmenn sveitarfélaganna er að þessum málum vinna. Í þessu tilviki bendi ég sérstaklega á bráðabirgðaákvæði frv.

Á s.l. vori voru samþ. hér á Alþ. lög er marka tímamót, þ.e. lög nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. S.l. sumar starfaði á vegum félmrn. sérstök úttektarnefnd á þessum lögum undir forustu Hallgríms Dalbergs ráðuneytisstjóra. Var nefndinni m.a. falið að kanna hugsanlega skörun þessa frv., sem ég mæli hér fyrir, við áðurgreind lög. Í þessari úttektarnefnd átti m.a. sæti Ingimar Sigurðsson deildarstjóri, formaður þeirrar nefndar er samdi þetta frv. Samkv. niðurstöðum úttektarnefndarinnar eiga ákvæði þessa frv. ekki að rekast á ákvæði laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, þegar af þeirri ástæðu að hér er um almennt lagafrv. að ræða sem gilda á að svo miklu leyti sem sérlög ná ekki yfir viðkomandi atriði eða þar sem sérlög eru ekki til. Úttektarnefndin taldi hins vegar að lög nr. 46/ 1980 breyttu nokkru afskiptarétti stofnana á þessu sviði og að hætta kynni að verða á ákveðinni skörun hvað snertir hollustueftirlitið.

Með lögum nr. 46/1980 er Vinnueftirlit ríkisins sett á laggirnar og því ætlað að fara með ákveðinn þátt hollustumála, þ.e. innan vinnustaðanna. Hollustunefndum sveitarfélaganna og Hollustuvernd ríkisins er ætlað að sinna þessum málum almennt. Enn fremur má nefna að Framleiðslueftirlit sjávarafurða fer með tiltekinn málaflokk á þessu sviði. Úttektarnefndin lagði því til í áliti, sem hún skilaði mér á öndverðu hausti, að 31. gr. frv. þessa yrði breytt á þann hátt að gert yrði ráð fyrir sérstakri samstarfsnefnd sem í ættu sæti forstöðumenn Hollustuverndar ríkisins, Vinnueftirlits ríkisins og Framleiðslueftirlits sjávarafurða.

Ég leyfi mér að leggja hér með tillögur úttektarnefndarinnar fyrir hv. heilbr.- og trn. og bið nefndina að taka þetta mál til alveg sérstakrar umfjöllunar, enda hygg ég að það sjónarmið, sem liggur að baki tillögunni, sé í góðu samræmi við þau viðhorf sem komu fram á hv. Alþ. við afgreiðslu laganna um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.

Ég sé ekki ástæðu til þess, herra forseti, að fjalla ítarlegar um einstaka þætti þessa frv., en legg til að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn. Þar sem hér er um viðamikið mál að ræða vil ég einnig fara þess á leit við hv. n., að hún hafi, ef um það verður samstaða í n., samstarf við hv. heilbr.- og trn. Ed.