04.12.1980
Sameinað þing: 29. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1126 í B-deild Alþingistíðinda. (1069)

31. mál, stóriðjumál

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Það er nú ekki ýkjalangt um liðið síðan rætt var um till. sem efnislega er mjög svipuð, eins og hv. flm. þeirrar till. sem hér er til umr. gat raunar um í lok ræðu sinnar og taldi sig geta stutt. Við þá umr. gerði ég allítarlega grein fyrir viðhorfum mínum til þeirra mála sem hér um ræðir, þ.e. til orkufreks iðnaðar, og get e.t.v. haft mál mitt eitthvað styttra með því að vísa til þess, sem þá kom fram. En þó verður ekki hjá því komist að fjalla hér um marga af þeim þáttum sem flm. þeirrar þáltill., sem hér er til umr., bera fram og 1. flm., formaður Sjálfstfl., vék að í framsöguræðu sinni áðan.

Það er annars nokkuð táknrænt fyrir aðstæðurnar á stjórnarandstöðuheimilinu, að þeir flokkar sem þar eru, skuli ekki geta náð saman um mál sem þeir virðast þó vera samstæðir um, þ.e. í sambandi við orkufrekan iðnað í landinu og hvernig að þeim málum skuli staðið. Það eru greinilega ekki mikil tengsl þarna á milli, nema huglæg tengst sem ekki virðist vanta. En fyrir okkur, sem í ríkisstj. störfum, er það sannarlega fagnaðarefni að verða vitni að þessari sundrungu í einu málinu eftir annað. Ég vil þó út af fyrir sig ekki að mál mitt sé skilið svo, að ég setji Sjálfstfl. og Alþfl. algerlega í eina sæng í þessum málum, stóriðjumálunum svokölluðu. Ég hef þó von um það, að hugur Alþfl. í þeim efnum sé annar en Sjálfstfl., þ.e. stjórnarandstöðuliðs Sjálfstfl., og það geti verið meiri von til þess, að Alþfl. eigi eftir að sjá sig um hönd, heldur en líkur benda til varðandi stjórnarandstöðuarm Sjálfstfl.

Áður en ég vík hér að ýmsum þáttum, sem snerta málflutning hv. 1. flm. þessarar till., vil ég víkja nokkrum orðum efnislega að henni og þá í fyrstu ræða spurninguna um þá nefnd sem hér er lagt til að kosin verði sérstaklega til þess að hafa með hendi undirbúning að orkufrekum iðnaði í landinu til mjög langs tíma, nánast ótiltekið. Ég tel ekki þörf á né ástæðu til þess að efna til nefndakjörs af því tagi sem hér er lagt til, ekki frekar en fólst í till. Alþfl. Ég tel hins vegar mjög mikilsvert að um þessi stórmál eins og önnur atvinnumál þjóðarinnar ríki gott samstarf á milli framkvæmdavalds og þingsins, og ég tel að það eigi að endurspeglast í samstarfi framkvæmdavaldsins og þeirra nefnda sem Alþingi kýs og starfa á þingtíma og þurfa að fá heimildir til að starfa einnig milli þinga að þeim málum sem þær varða. Þar á ég m.a. við atvmn. Sþ. og iðnaðarnefndir beggja deilda Alþingis í sambandi við þau mál sem hér um ræðir, en þessar þingnefndir eiga einmitt að taka á þeim málum sem upp koma í sambandi við orkuöflun og iðnaðaruppbyggingu í landinu, og því er mjög mikilsvert að þær séu inni í málum á undirbúningsstigi, fylgist með þeim og láti að sér kveða í þeim efnum, og síst skyldi ég hafa á móti því, að frá þeim kæmu tillögur til rn. í sambandi við þessi efni. En það er kannske ástæðan fyrir því, að bæði Alþfl.-menn og stjórnarandstöðulið Sjálfstfl. vill nú reyna að fara að endurvekja stóriðjunefndina frá viðreisnartímabilinu, að þeir vilja búa svo um að það verði ekki unnið að þessum málum í sem nánustu samstarfi við þingið, heldur kannske fram hjá þinginu, óháð þinginu, því að eins og menn tóku eftir í málflutningi hv. flm. áðan lagði hann einmitt áherslu á nauðsynina á samhengi í þessum málum, óháð því hverjir væru við stjórnvölinn, og þá e.t.v. óháð því, hvernig Alþingi er skipað. Mér er spurn: Hví ekki að fela þeim nefndum, sem Alþingi kýs hverju sinni í viðkomandi málaflokka, að taka á þessu?

Ég vil líka benda á það, að ekki er skynsamlegt að vera að kljúfa út úr einn þátt atvinnulífs í landinu með þeim hætti sem hér um ræðir, vegna þess að á því er rík nauðsyn að menn horfi til allra átta í sambandi við atvinnuuppbyggingu hjá okkur og þeir aðilar, sem þar standa fyrir — hvort sem það eru rn. eða stefnumótun á vegum þingsins, — viti hver af öðrum og hafi skipulegt samstarf. Það er að sjálfsögðu verkefni framkvæmdavaldsins að taka við þeim tillögum, sem frá Alþingi koma, og vinna að útfærslu þeirra, og iðnrn. hlýtur eðli málsins samkv. að eiga að vera forustuaðili á þessu sviði af hálfu framkvæmdavaldsins.

En hvernig bjó Sjálfstfl. að iðnrn. sem stofnað var í valdatíð hans? Hvernig bjó hann að því í sambandi við möguleika á meðferð þessara veigamiklu mála? Þegar ég kom í þetta rn. sem ráðh. haustið 1978 voru þeir menn teljandi, ekki aðeins á fingrum annarrar handar, heldur mun færri, sem ætlað var að sinna iðnaðarmálum að einhverju leyti. Ég má raunar segja að það hafi verið einn fulltrúi sem hafi getað helgað sig þessum viðamikla málaflokki. En að orkumálum og alveg sérstaklega orkufrekum iðnaði og því sem að honum laut, að þeim málum skyldi unnið utan rn. eða fram hjá rn. A.m.k. liggur það fyrir, að tengslin voru ekki ýkjamikil þar á milli á þeim tíma þegar Sjálfstfl. var við völd og hv. fyrsti talsmaður þessarar þáltill. leiddi ríkisstj.

Nú er stefnt að skipulegri verkaskiptingu á vegum iðnrn., m.a. að koma á fót sérstakri orkunýtingardeild sem hafi með höndum að vinna að málum sem snerta hagnýtingu orkulindanna, þ. á m. varðandi orkufrekan iðnað og annan iðnað sem byggist á orkulindum, svo og varðandi þætti eins og orkusparnað, sem mikið hefur verið unnið að að undanförnu. Ég tel vera mikla þörf á því að efla stjórnarráðið og atvinnumálaráðuneytin alveg sérstaklega, til þess að þau hafi burði til að veita þá forustu og sinna þeirri vinnu sem nauðsynleg er í sambandi við stefnumörkun á sviði atvinnumála, bæði til að flytja tillögur inn í þingið og til að taka á tillögum sem koma frá þinginu í þessum efnum. Jafnhliða því þarf að treysta tengsl við þær stofnanir, sem við höfum þó nokkrar, sem geta tekið á málum, en þannig er að rn. búið, a.m.k. þar sem ég þekki til, að það er ekki hægt að segja að þau hafi möguleika á því að hagnýta sér þær stofnanir, sem undir þau heyra, með þeim hætti sem skynsamlegt væri og til þess að eðlilegt samhengi sé í vinnubrögðum.

Við vinnu og undirbúning að jafnviðamiklum og margslungnum málum og uppbygging stóriðnaðar er á vegum landsmanna sjálfra — og á það legg ég áherslu þarf ákveðna forustu íslenskra stjórnvalda. Flm. þessarar þáltill. kvarta undan því, að þessi mál skuli ekki fyrst og fremst vera í höndum stóriðjunefndar eins og þeirrar er hér starfaði á sjötta áratugnum og undirbjó hinn dæmalausa álsamning sem hv. flm. varði meiri hlutanum af ræðutíma sínum til að réttlæta og dásama, eða þá að nefnd um orkufrekan iðnað, sem síðar starfaði, skyldi vera lögð niður. Undan því er mjög kvartað af flm. Þessum nefndum báðum var það sammerkt, að meginhlutverk þeirra var að ræða við útlendinga er hingað leituðu fanga, en frumkvæði og þekkingaröflun varðandi orkufrekan iðnað var á þessum tíma sáralítil af hálfu íslenskra stjórnvalda. Sú breyting, sem síðar hefur orðið, ber vitni um nýjar áherslur, innlenda forustu í þessum efnum, íslenskt frumkvæði og forustu fyrir þeim atvinnurekstri sem hér þarf að rísa með orkulindirnar að bakhjarli. Þetta endurspeglast í stjórnarsáttmála núv. ríkisstj. þar sem segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Ríkið stuðli að uppbyggingu meiri háttar nýiðnaðar er m.a. byggi á innlendri orku og hráefnum, enda verði slíkur nýiðnaður og frekari stóriðja á vegum landsmanna sjálfra.“

Einnig er gert ráð fyrir að rannsóknir á sviði orkumála og orkunýtingar verði efldar og mörkuð samræmd orkustefna til langs tíma. Undirbúningur að slíkri stefnumótun stendur nú yfir á vegum iðnrn. og ríkisstj. Ég hef greint frá því nýlega hér á Alþingi, í umr. um svipaða þáltill. og hér liggur fyrir, að stefnt sé að því að leggja slíka stefnumörkun fyrir Alþingi til kynningar væntanlega fyrir lok yfirstandandi þings, þannig að þingflokkum og hlutaðeigandi þingnefndum gefist kostur á að fjalla um slíka stefnumótun og koma á framfæri sínum sjónarmiðum áður en till. yrði lögð fram til endanlegrar meðferðar hér í þinginu.

Ég gat þess áðan, að frsm. þessarar till., hv. 7. þm. Reykv., hafi varið drjúgum hluta af tíma sínum til að réttlæta þá stóriðjusamninga, sem gerðir hafa verið til þessa, og þá alveg sérstaklega álsamninginn. Það er vissulega eðlilegt, að þessi hv. þm. og þeir, sem að baki honum standa, hafi áhyggjur af þeim samningi og því áliti sem landsmenn hafa á þeirri samningsgerð að fenginni reynslu. Ábyrgðina á þeirri samningsgerð bar viðreisnarstjórnin, eins og rakið hefur verið, og það er full ástæða til að fara nokkrum orðum um þennan samning og reynsluna af honum kannske frá dálítið öðrum sjónarhól en hv. flm. gerði áðan. Ég vil þó áður en ég kem að því, vekja athygli á að þeir tveir samningar um orkufrekan iðnað, sem hér hafa verið gerðir á síðustu 10–12 árum, eru með mjög ólíkum hætti. Að baki síðari samningnum, þótt gagnrýnt sé af okkur Alþb.-mönnum hvernig að honum var staðið að lokum og hvenær hann var gerður,- að baki honum lá allt annar hugsunarháttur heldur en lá að baki samningsgerðinni um álverið í Straumsvík.

Við tókum eftir því, að hv. 1. þm. Reykv. vék einmitt að því, að skoðanir væru nú mjög skiptar um það, hvort réttmætt hefði verið að íslenska ríkið stæði sem meirihlutaaðili að baki þess fyrirtækis sem reist hefur verið á Grundartanga í Hvalfirði. Og það er kannske vegna þeirrar fréttar, sem lesa má á útsíðum í málgagni Sjálfstfl. einmitt í dag, um hvernig horfir efnahagslega fyrir þessu fyrirtæki eins og stendur, að þm. hefur áhyggjur af þessu. En það var ekki síst það atriði sem bent var á af þeim sem gagnrýndu þá samningsgerð á sínum tíma. Ég er hins vegar í hópi þeirra sem vænta þess, að þar fari ekki eins illa og horfir, að það verði breyting á í sambandi við efnahagslegar horfur Járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga. Við skulum vona að svo verði, en þar horfir því miður ekki vel á þessum tíma. En ef litið er á ýmsa þætti þeirrar samningsgerðar, m.a. varðandi orkuverð og verðtryggingu, þá er þar býsna ólíku saman að jafna. Mikið vantaði þó á að þar væri staðið að með þeirri fyrirhyggju sem þyrfti, og tekið var inn í þann samning á lokastigi hans ákvæði sem veitir nánast hinum erlenda aðila neitunarvald í sambandi við endurskoðun á orkuverði, og það er býsna afdrifaríkt þegar þannig er staðið að málum. Það var rifjað upp á sínum tíma í umræðum hér á hv. Alþingi og ætla ég ekki að fara um það frekari orðum.

Við skulum þá víkja að því flaggskipi sem Sjálfstfl. gumar af þegar litið er til baka og flokkurinn vill lýsa upp þá stefnu sem hann telur sig hafa borið fram í sambandi við stóriðjumálin hér á liðnum tíma, eins og segir í grg. með þessari þáltill.: „Stóriðjustefna Sjálfstfl. hefur þegar sannað gildi sitt og gefur mikil fyrirheit í framtíðinni. Þessi reynsla kallar nú á nýjar framkvæmdir og öflugri í stóriðjumálunum.“ Það er engin iðrunarmerki að finna á hv. 1. flm. þessarar till. í sambandi við samningsgerðina um álverið í Straumsvík. Þvert á móti staðhæfði hann að þar hefði verið staðið að á hinn besta hátt, og það er sú reynsla sem væntanlega á að endurnýja í þeim samningum sem hér er verið að hvetja til að gerðir verði fyrr en seinna.

Meginrök formælenda fyrir samningnum um álverið t Straumsvík voru:

1. Að tryggja skyldi stöðugleika í gjaldeyristekjum landsmanna.

2. Að fást ætti lægra raforkuverð til almennings að þessum samningi gerðum.

3. Að ríkið fengi verulegar skatttekjur samkv. samningnum.

4. Að fjölþættur úrvinnsluiðnaður ætti að rísa í tengsl um við þetta stóriðjuver.

Við skulum líta nánar á þessi atriði og þá fyrst á gjaldeyristekjurnar. Þar er gjarnan veifað brúttótölum, eins og hv. 1. þm. Reykv. gerði áðan, sem séu nálægt 20% — oftar eru þó nefnd 15% sem er kannske nær lagi — af brúttógjaldeyristekjum þjóðarinnar. Hitt gleymist, að Íslenska álfélagið, ÍSAL, flytur inn sem svarar um 8% af vöruinnflutningi til landsins, ef tekið er meðaltal tímabilsins 1969–1977. Auk þess flytur Alusuisse út fjármagn í formi alls kyns þjónustu, afskrifta og vaxta, þannig að hreinar gjaldeyristekjur verða langtum minni en halda mætti við fyrstu sýn. Hinar raunverulegu gjaldeyristekjur, sem rekja má til fyrirtækisins, eru þær sem ÍSAL greiðir fyrir raforku, og það er ekki ýkjamikið, og greiðslur í laun til starfsmanna, svo og framleiðslugjald og greiðslur fyrir hafnaraðstöðu, svo og lítils háttar fyrir matvæli og þjónustu. Þetta er aðeins um fjórðungur af vergum gjaldeyristekjum fyrirtækisins, fjórðungur af umræddum 20%, sem gjarnan er hampað, eða 15%, í mesta lagi á bilinu 3–4% af heildargjaldeyristekjum þjóðarinnar, en ekki 15% í reynd eins og oft er látið að liggja. En jafnvel þessi 3–4% sem nettógjaldeyristekjur af heildargjaldeyrisöflun Íslendinga segja ekki alla sögu. Þar er enn of í lagt. Þetta eru ekki hreinar gjaldeyristekjur, ef litið er á fjármagnskostnað af orkumannvirkjunum, sem þurfti til að selja auðhringum raforkuna á gjafverði. Ef þessir þættir eru teknir með, svo sem eðlilegt er, mun láta nærri að um engar teljandi gjaldeyristekjur sé að ræða s.l. 10 ár af þessum minnisvarða erlendrar stóriðju í landinu.

Þá skulum við koma að öðrum þætti þessa máls, raforkuverðinu, sem samkv. orðum hv. 1. þm. Reykv. á að hafa fært landsmönnum miklu ódýrari raforku á þeim árum sem liðin eru síðan samningurinn var gerður.

Samningurinn um raforkuverðið var ásamt öðru sterklega gagnrýndur af talsmönnum Alþb. allt frá upphafi, en viðreisnarliðið, sem knúði samninginn fram, taldi þvert á móti að með honum fengist tryggt lægra raforkuverð til almenningsþarfa í landinu. Reynslan hefur sýnt hverjir höfðu rétt fyrir sér í þeim efnum. Það er sama hvernig á málið er litið varðandi raforkuverðið. Þar eru skipti okkar við auðhringinn eins og á milli höfuðbóls og hjáleigu, nýlenduherra og hálfnýlendu, og búið svo um hnúta að undir erlend lög og erlendan gerðardóm er að sækja í sambandi við hugsanlega endurskoðun þessa máls. Að nafninu til hefur raforkuverðið hækkað vegna endurskoðunar er knúið var á um af vinstri stjórninni 1971–1974 og um var samið á árinu 1975, og það var víst sú leiðréttingu sem hv. þm. var að nefna hér og hefði mátt vera eitthvað meiri með tilliti til olíuverðshækkunarinnar fyrri 1973–1974. Að nafninu til hefur raforkuverðið hækkað úr 3 millum bandarískum í 6.5 mill nú, en sé miðað við fast verðtag hefur hækkunin engin orðið, fyrst og fremst vegna verðbólguþróunar í Bandaríkjunum, en um verðið er samið í dollurum. Þrátt fyrir þetta, þrátt fyrir þessa endurskoðun fyrir fimm árum greiðir álverið sama verð í reynd fyrir raforkuna og í upphafi og fékk raunar heimild til að auka umsvif sín með stækkun álversins í þokkabót út á umrædda endurskoðun.

Um 1970 jafngiltu 1000 gwst. af orku samkv. ál — samningnum um 120 þús. tonnum af gasolíu, sem fá mátti fyrir andvirðið. En með núverandi verði fengjust — hins vegar aðeins um 20 þús. tonn af gasolíu, 20 þús. í staðinn fyrir 120 þús. 1970. Auðvitað gat enginn séð fyrir þá þróun sem hefur orðið á olíuverði á þeim tíma sem liðinn er, en þetta dæmi sýnir að það orkuverð, sem álverið greiðir í dag, er komið langt út úr eðlilegu samræmi við almennt orkuverð í heiminum, svo að ekki sé fastar að orði kveðið.

Orkufrekur iðnaður er skilgreindur sem iðnaður þar sem orkukostnaður er hátt hlutfall af framleiðsluverðmæti. Undir þennan flokk fellur álbræðsluiðnaðurinn. En spurningin er hvort álbræðslan í Straumsvík er orkufrekur iðnaður. Líklega ætti svarið að vera, ef alls er gætt, að svo sé alls ekki ef miðað er við orkukostnaðinn hjá þessu fyrirtæki. Staðreyndin er nefnilega sú, að orkukostnaðurinn hjá ÍSAL er ekki nema tæp 7% af framleiðslukostnaði, á meðan hann er almennt ekki undir 15% hjá áliðnaði í heiminum. Til samanburðar má nefna að orkukostnaður í loðnuverksmiðjum hérlendis er a.m.k. helmingi hærri, eða um 15% af framleiðslukostnaði, en þær hafa hingað til ekki verið taldar til orkufreks iðnaðar, og hærri er hann hjá fleiri greinum iðnaðar hér, eins og sements- og graskögglaverksmiðjum.

Framleiðslukostnaður í nýjum virkjunum, sem m.a. þarf að reisa vegna þessa samnings um álverið, er ekki 6.5 mill eins og við fáum nú, heldur 18 mill. Álverið í Straumsvík greiðir nú 6.5 mill upp í þessi 18 mill sem framleiðslukostnaður er af nýaflaðri orku, eða um 10 kr. á kwst. sem kostnaðurinn við nýja orkuöflun nemur, þ.e. söluandvirðið er aðeins um þriðjungur af framleiðslukostnaði á raforku nú. Mismunurinn, nær 6 kr. á kwst., er þannig kostnaðurinn fyrir þjóðfélagið að selja þessa orku eða afla sambærilegrar orku í staðinn. Auðvitað kemur inn í þetta mál að um 600 starfsmenn vinna í álverinu. En þau atvinnutækifæri eru sannarlega dýru verði keypt og engin spurning að unnt hefði verið að skapa verkefni við þjóðhagslega arðbærari störf.

Í raun mætti leiða að því rök, þótt ég sé ekki að gera hér till. um það, að hagkvæmt væri að skrúfa fyrir þetta stóriðjuver, álverið, í áföngum og spara með því sem svarar heilli stórvirkjun. Slíkt væri raunar langsamlega ódýrasti virkjunarkostur landsmanna nú, þar sem þarna er ráðstafað um 1200 gwst. af raforku, eða tæpum helmingi þess sem framleitt er í landinu, á sama tíma og orka frá nýjum virkjunum kostar um 6 kr. meira en álverið greiðir á hverja kwst. Hvað er hv. 1. þm. Reykv. að fara þegar hann er að halda því fram hér, að þessi samningur og Búrfellsvirkjun, sem reist hafi verið í tengslum við hann, hafi lækkað almennt raforkuverð í landinu á þeim tíma sem síðan er liðinn?

Nettóhagnaður af því að hætta raforkusölu til ÍSALs gæti því orðið allt að því 7 milljarðar, þegar orkan væri fullnýtt fyrir innlendan markað. Þessa upphæð yrði auðvitað að bera saman og vega á móti öðrum þjóðhagslegum tekjum af álverinu, m.a. framleiðslugjaldinu, sem nam á árinu 1979 hálfum milljarði kr. Þetta nefni ég hér til þess að sýna mönnum fram á hvers konar minnisvarði það er sem Sjálfstfl. reisti sér með þessum samningi, sem við erum njörvaðir við til ársins 1994 og raunar með litlum sveigjanleika þá til endurskoðunar, og gildi hans skal vera nokkuð fram á næstu öld eða til ársins 2014.

En komum þá að þriðja atriðinu sem hér hefur verið til umræðu oft áður, skatttekjunum af þessu fyrirtæki. Við skulum líta á það dálítið nánar. Skatttekjur til ríkisins frá þessu fyrirtæki, álverinu, sem er stolt og lýsandi fordæmi leiftursóknarliðs Sjálfstfl. í atvinnumálum, — í sköttunum, sem fyrirtækinu er gert að greiða, koma fram samfélagslegu tekjurnar sem við höfum af stóriðjufyrirtæki sem þessu, það sem m.a. er notað til réttlætingar því að ráðstafa nær helmingi af einni helstu auðlind okkar, raforkunni, til þessa fyrirtækis. Skattgreiðslur ÍSALs reiknast sem ákveðið framleiðslugjald af hverri smálest áls sem skipað er út frá bræðslunni. Þessi skattur breytist með heimsmarkaðsverði á áli, en þannig að hann lækkar hlutfallslega miðað við framleiðsluverðmæti, sem þýðir að fyrir Alusuisse verður framleiðslugjaldið, þegar fram líða stundir, enn léttari byrði en nú er, og er hún nú vægast sagt smánarlega lítil. Framleiðslugjaldið er jafnframt háð afkomu ÍSALs á þann veg, að það má aldrei verða hærra en nemur 55% af nettóhagnaði. Þetta hlutfall er út af fyrir sig ekki óeðlilegt. Mergur málsins er hins vegar sá, að nettóhagnaðinum getur Alusuisse stjórnað að vild sinni með því að ákveða verð á aðföngum til ÍSALs og verð á framleiðslunni. Það hefur líka komið á daginn, að álverið sýnir oftast slæma rekstrarafkomu, en með því móti hefur verið safnað stórfelldri skattinneign hjá ríkinu. Hv. alþm. ætti að vera nokkurt umhugsunarefni sá áhugi sem þetta erlenda fyrirtæki hefur á að standa fyrir stöðugum taprekstri í fyrirtæki hér uppi á Íslandi.

Ég hef látið taka saman yfirlit yfir árlegar tekjur og heildartekjur af þessum meginskatti af álverinu þann tíma sem það hefur starfað. Samtals nema þær greiðslur á tímabilinu 1969–1979 2 169 300 þús. kr. á verðgildi hvers árs eða sem svarar 216 millj. kr. á ári að meðaltali. Ef reiknað er í erlendri mynt nema heildarskattgreiðslur ÍSALs á 10 árum um 12 millj. dollara. Á sama tíma hefur ÍSAL hins vegar, eins og ég gat um áðan, safnað stórfelldri skattinneign hjá ríkissjóði. Nam sú inneign í árslok 1979 hvorki meira né minna en 6 millj. dollara, sem er helmingur af skattgreiðslum ÍSALs allt tímabilið. Þetta má teljast búskapur í lagi eða hitt þó heldur, og eru þó vafalítið ekki öll kurl komin til grafar varðandi viðskipti við þetta erlenda stóriðjufyrirtæki og óskabarn hins erlenda stóriðjuliðs innan Sjálfstfl. Staðreyndin um skatttekjur ríkisins af átverinu er því þannig, að nettóskattar álversins hafa numið um það bil 600 þús. dollurum á ári eða um það bil þrem dollurum árlega á hvert mannsbarn í landinu. Miðað við núverandi gengi nemur þessi upphæð um 1700 kr. á mann eða um 7 þús. kr. á hverja fjögurra manna fjölskyldu í landinu. Ætli þær krónur séu ekki farnar til baka í hærra raforkuverði en ella hefði orðið, ef við hefðum ekki gert þennan nauðungarsamning?

Það hefur oft verið bent á að þótt álverið fengi orkuna ókeypis þyrftum við ekki að hækka orkuverð til almennings nema um 10%. Við þetta má bæta að hefði álverinu verið sleppt við að greiða framleiðslugjald þessi 10 ár sem það hefur starfað, hefðu skattgreiðslur fjögurra manna fjölskyldu á ári einungis þurft að vera um 7 þús. kr. hærri miðað við núverandi gengi, vel að merkja til að vega á móti tekjutapi ríkisins sem af því hefði leitt. Hvað segja hv. þm. um slíka samninga? Mundu ekki einhverjir telja þetta nauðungarsamninga, sem hluti sjálfstæðismanna telur sér til hróss og telur þegar hafa sannað gildi sitt? Í grg. með þáltill. þeirra stendur:

„Þessi reynsla kallar nú á nýjar framkvæmdir og öflugri í stóriðjumálunum.“

Þá er ótalinn mengunarþátturinn, jafnt innra sem ytra, hjá fyrirtæki þessu, sem sparað hefur sér ómæld útgjöld og safnað gróða út á linkind íslenskra stjórnvalda við upphaflega samningsgerð um fyrirtækið. Hv. fyrsti talsmaður sjálfstæðismanna í þessu máli leyfði sér í framsöguræðu sinni áðan að halda því fram, að ekki hafi verið tiltækir neinir möguleikar á því að leysa umhverfismál verksmiðjunnar á þeim tíma betur en gert var þegar um fyrirtækið var samið. Hann ætti að leita sér fyllri upplýsinga um aðstæður á árinu 1968 og 1969 í þessum efnum áður en hann endurtekur slíka dæmalausa fjarstæðu hér á hv. Alþingi.

Flúormengunin, sem frá þessu fyrirtæki hefur komið, svarar til um 7 millj. kg. sem borist hafa út í andrúmsloftið þann tíma sem fyrirtækið hefur starfað, og brennisteinstvísýringsmengun er sögð hafa vaxið að undanförnu og er raunar meiri en kemur frá járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga, og er það þó sú mengun sem menn hafa helst haft áhyggjur af í tengslum við það fyrirtæki. Fyrrv. heilbrmrh., Magnús Kjartansson og Matthías Bjarnason, tóku á þessu máli þannig að eftir mikinn þrýsting og eftirrekstur tókst loks að knýja fyrirtækið til aðgerða í mengunarvörnum sem nú eru smám saman að komast í gagnið.

Herra forseti. Ljóst er hvað fyrir þeim hluta Sjálfstfl. vakir sem að flutningi þessarar till. stendur. Þær hugmyndir sáust í leiftursóknarplaggi flokksins fyrir síðustu kosningar, þar sem rætt var um a.m.k. þrjár stórverksmiðjur á vegum útlendinga, og það hefur raunar verið rifjað upp hér. Hér er að vísu látið að því liggja í grg., að Íslendingar eignist stóriðjufyrirtækin í landi sínu eftir því sem tímar líða og þeim vex fiskur um hrygg, eins og það er orðað af svo mikilli reisn í grg. með þessari tillögu. Þetta er trú flm. þessarar þáltill. á getu Íslendinga til að standa sjálfir fyrir uppbyggingu atvinnulífs í landinu. Vitað er um menn í þessum hópi sem telja að við eigum hvergi nærri að koma meiri háttar iðnrekstri, en láta útlendinga atfarið um slíkan rekstur. Ég leyfi mér þó að vona að í hópi flm. þessarar till. finnist menn sem hafa aðra skoðun á málinu en lesa má út úr till. og málflutningi 1. flm. hennar.

Það væri langt mál ef taka ætti á þeim mörgu firrum sem fram komu í máli hv. 1. þm. Reykv. áðan, og ég ætla ekki að taka tíma þingsins til þess að fara langt út í þau efni. En ég vil drepa á örfá atriði áður en ég læt máli mínu lokið, kannske fyrst það sem lætur minnst yfir sér, að áhrif Swiss Aluminium á íslensk stjórnmál hafi engin orðið á þessu tímabili. Ég held að hv. 1. flm. þáltill. hafi afsannað þessa staðhæfingu mjög rækilega í sínum málflutningi. Hvernig má það vera, að erlendur auðhringur eignist formann stærsta stjórnmálaflokks landsins sem megintalsmann sinn á löggjafarsamkomu þjóðarinnar? Vegirnir eru ekki alltaf beinir. Þeir eru oftar krókóttir, þegar fjármálalegir hagsmunir eiga í hlut, og hið alþjóðlega auðmagn, sem að baki álversins í Straumsvík stendur og fyrirtækjum af þeirri gerð. Hv. flm. dró mjög í efa að við hefðum efnahagslegt bolmagn til að standa fyrir uppbyggingu orkufreks iðnaðar í landinu. Hann færði fram sem dæmi að við greiddum um fimmtung af okkar gjaldeyrisöflun í vexti og afborganir lána. Ég hef ekki upplýsingar um þessa tölu á árinu 1980, en á árinu 1979 var þetta hlutfall samkv. nýlegum upplýsingum 12.8%. Ég geti ráð fyrir að það hafi eitthvað hækkað á yfirstandandi ári eða komi til með að gera það, en það hefur farið lækkandi á undanförnum árum. Og hvað eru menn að draga hér upp grýlur af þessu tagi til þess að færa rök fyrir því, að við Íslendingar getum ekki verið forustuaðilar í uppbyggingu af þessu tagi?

Það er verið að tortryggja það, ala á tortryggni um það af stjórnarandstöðunni, og það skil ég ofurvel, að ekki sé staðið að undirbúningi orkumála, orkumannvirkja og iðnaðaruppbyggingu í landinu með þeim hætti sem æskilegt væri. Það er mjög eðlilegt, að stjórnarandstaðan reyni að halda slíku fram. En við skulum aðeins athuga þetta dæmi nánar. Það hefur verið unnið að því þau ár, sem ég hef nálægt þessum málum komið, að undirbúa með skipulegum hætti næstu virkjunarframkvæmdir í landinu, nauðsynlegar virkjunarframkvæmdir, sem jafnt þjóna hinum almenna markaði og þeim iðnaði sem skynsamlegt verður að byggja hér upp með orkulindirnar að bakhjarli. En ef Sjálfstfl. hefði mátt ráða, og sérstaklega sá armur hans sem hér mælir gegnum þessa þáltill., hefðu ekki verið miklar líkur á því, að þær hugmyndir, sem hv. 1. þm. Reykv. var að bera hér fram og reyna að gera að sínum, að virkjað yrði á Austurlandi eða Norðurlandi næst fyrir landskerfið, — þá hefðu ekki verið miklar líkur á því, að við slíkt væri hægt að standa. Þau mál hafa að vísu ekki verið gerð upp enn, en það kemur að því á komandi ári, að ákvarðanir þarf að taka í þeim efnum, og ég dreg ekkert af um nauðsyn þess að það verði gert og þá verði litið til fleiri þátta en bara næstu virkjunar. Við þurfum að koma okkur upp áætlun um meginaðgerðir í orkuöflun landsmanna til langs tíma og ganga þar skipulega til verks og gæta þess að dreifa virkjunum með skynsamlegum hætti um landið, bæði til öryggis fyrir landsmenn og aukinnar hagkvæmni.

Það var verið að lauma því að hér í leiðinni, að virkjun á Austurlandi og væntanlega á Norðurlandi líka væri ekki hagkvæm eða fært að ráðast í hana nema hengja hana beint aftan í orkufrekan iðnað og þá helst iðnað af því tagi sem Sjálfstfl. mælir hér sérstaklega fyrir. Það liggur fyrir tölulega frá sérfræðingum, sem bráðabirgðaniðurstaða að vísu, að allar þær stórvirkjanir, sem lengst eru komnar hvað undirbúning snertir og voru nefndar áðan í framsöguræðu hv. þm. Geirs Hallgrímssonar, eru hagkvæmar miðað við almenna orkunotkun í landinu eina sér og að virkjun á Austurlandi er hagkvæmari að þessu leyti heldur en virkjun við Sultartanga, þó að eingöngu sé miðað við almennan markað og þann kostnað sem væri af að flytja umtalsverðan hluta þessarar orku um langan veg. Svo hagkvæmur er þessi virkjunarkostur. Ég er ekki þar með að segja að við getum ekki hugsað til þess að koma upp orkufrekum iðnaði á Austurlandi eða víðar úti um landið. Það er annað mál. En menn eiga að varast nauðhyggju af því tagi sem hér er fram borin, að við getum ekki ráðist í hagkvæmar virkjanir í landinu án þess að binda þær samningum um orkusölu jafnframt og helst fyrir fram, eins og hér er mælt fyrir, og það kannske með þeim kjörum eða réttara sagt ókjörum sem við þekkjum af reynslunni.

Í sambandi við undirbúning að orkustefnu er nauðsyn að hyggja að iðnaðarstefnu og einstökum þáttum hennar, og ég held að hv. flm. þyrfti ekki langt að leita. Hann hefði ekki þurft að gera annað en að spyrja mig að því hér á fundi í hv. þingi eða utan funda, að hverju verið sé að hyggja í þessum efnum á vegum iðnrn. Ég gæti bent honum á að það eru ekki þrjár afurðir sem fyrst og fremst koma til álita í sambandi við orkufrekan iðnað á Íslandi í framtíðinni, heldur þurfum við að hyggja þar að mörgum fleiri þáttum. Og þó að þeir þættir, sem hann nefndi, geti komið til álita og eigi að koma til álita með öðrum eru þó margir meinbugir á t.d. í sambandi við álframleiðsluna vegna einokunaraðstöðu þeirra örfáu hringa sem standa að þeirri framleiðslu. En það eru aðrir þættir sem þarna eiga að vera og eru með.

Iðnrn. hefur leitað eftir auknu fjármagni til að standa fyrir könnun þessara mála, og ég vænti að það fjármagn fáist vegna athugana á komandi ári. Ég get nefnt hér sem dæmi nokkra kosti sem þarna þarf að skoða og verja fjármagni til fyrr en seinna: Magnesíumframleiðsla, sem gæti byggst á alíslenskum aðföngum, orku sem og hráefni. Framleiðsla á natríumklórati til stuðnings við aðra saltvinnslu sem nú er í undirbúningi á Reykjanesi. Framleiðsla á kísilmálmi, sem horfir þó skár um en varðandi kísiljárnið, vegna þess að það er notað til íblöndunar í áliðnaði, en ekki í stáliðnaði, sem stendur ekki sérlega vel, á þessum dögum. Það er framleiðsla á innlendu eldsneyti, sem er kannske ekki minnsta málið í þessu samhengi. Það er framleiðsla á léttari eldsneytistegundum úr svartolíu. Það er úrvinnsla úr áli, sem hv. flm. nefndi og var mjög otað að mönnum þegar álsamningurinn var gerður, ásamt athugunum sem tengjast álframleiðslu. Það er hugsanleg framleiðsla á þungu vatni og það er hugsanleg framleiðsla á pappír, sem hefur verið til umræðu. Þetta eru nokkur dæmi um kosti sem þegar er verið að líta á og taka þarf betur á á næstunni, hvort geta verið fýsilegir, vænlegir til að ráðast hér í af okkur Íslendingum undir íslenskri forustu og forræði. Og sannarlega þarf að tengja slíkar athuganir athugunum á orkuöflun í landinu.

Í sambandi við staðarval fyrir stóriðju, fyrir orkufrekan iðnað, sem hv. flm. þessarar þáltill. ætla þessari nefnd að taka á, er það að segja, að þegar er að starfi nefnd með fulltrúum frá þeim stofnunum, sem þetta mál helst varðar, sem ættað er að taka á þessu máli við sveitarstjórnir á landinu þar sem áhugi kemur fram í sambandi við staðsetningu á meiri háttar iðnrekstri. Í þeim efnum þarf sannarlega fyrirhyggju. Þær athuganir geta tekið langan tíma og skiptir miklu máli að vel ráðist um slíkt.

Ég geri ekki lítið úr byggðaþættinum í sambandi við iðnaðaruppbyggingu hjá okkur og þá einnig varðandi orkufrekan iðnað. En það var dálítið seinheppið, dæmið sem hv. 1. flm. kom hér fram með í sambandi við byggðastefnuna sem fylgdi niðursetningu álversins í Straumsvík á sínum tíma. Þó að nokkurt fé hafi runnið til Byggðasjóðs af því lága framleiðslugjaldi sem þetta fyrirtæki hefur greitt á þeim tíma, þá hygg ég að mínusarnir séu margfalt fleiri sem fylgt hafa staðsetningu þessa stóriðjuvers einmitt hér í höfuðþéttbýli landsins á þeim tíma sem það var gert og ákveðið.

Nei, góðir hv, þm., það er ekki vænlegt að lýsa fylgi eða standa að stuðningi við þá till., sem hér liggur fyrir, og þá hugsun sem að baki henni liggur og hér hefur verið svo skilmerkilega framreidd af hv. 1. flm. tillögu. Ég er honum afar þakklátur fyrir að hafa skýrt mál sitt með þeim ljósa hætti sem fram kom í orðum hans og að hann skyldi einmitt kjósa að lyfta því flaggi sem Sjálfstfl. telur að eigi að vera í fararbroddi í þessum málum — álverið í Straumsvík og hliðstæðir samningar — sem tákni fyrir þá stefnu sem hann vill bera fram í sambandi við uppbyggingu orkufreks iðnaðar í landinu.

Herra forseti. Að lokum vil ég aðeins rifja það upp, að Alþb. hefur fjallað um atvinnumál á nýlegum landsfundi sínum. Það fjallaði flokkum fyrr um orkumál og mótaði þar skýra stefnu sem þm. eiga aðgang að og lá fyrir á árinu 1976 og á var minnt í samþykktum landsfundar Alþb. Um orkufrekan iðnað segir í samþykkt þess fundar, með leyfi hæstv. forseta:

„Orkufrekur iðnaður og efnaiðnaður í tengslum við innlendar orkulindir lúti íslenskum lögum og reglum og sé örugglega undir forræði landsmanna. Slíkur iðnrekstur þarf að taka mið af efnahagslegum og félagslegum sjónarmiðum og kröfum um umhverfisvernd. Alþb. hafnar erlendri stóriðju, en leggur áherslu á skipulegan og vandaðan undirbúning og uppbyggingu orkufreks iðnaðar, sem m.a. byggi á innlendum aðföngum og skili viðunandi orkuverði. Á þessu sviði er margra kosta völ sem þjóðin þarf að hagnýta á komandi árum.“

Þetta var samþykkt Alþb. í þessum efnum. En við fjölluðum að sjálfsögðu um aðra þætti orkumála og ég ítreka það, að iðnaðaruppbyggingu, hvort sem um er að ræða almennan iðnað eða orkufrekan iðnað, á ekki og má ekki slíta úr samhengi við aðra atvinnuþróun í landinu og áætlanir þar að lútandi.