04.12.1980
Sameinað þing: 29. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1136 í B-deild Alþingistíðinda. (1070)

31. mál, stóriðjumál

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Eitt af fyrstu málum þessa þings var till. frá þingflokki Alþfl. um að skipuð yrði þingmannanefnd til að fjalla um orkufrekan iðnað. Þessi till. hefur þegar verið rædd við fyrri umr. og er komin til nefndar.

Nú er til umræðu önnur till., frá þm. Sjálfstfl., sem fjallar um sama meginefni. Er í sjálfu sér ekki óeðlilegt að stjórnarandstöðuflokkarnir flytji slíkar till. hvor í sínu lagi, heldur er það miklu frekar eðlilegt. Hæstv. iðnrh. virðist ekki hafa gert sér grein fyrir að þó að flokkar verði að vinna saman í ríkisstj., þá er engin ástæða til þess að stjórnarandstöðuflokkar þurfi að hanga saman á sama hátt, vegna þess að þeir geta byggt stjórnarandstöðu sína á mismunandi rökum. En hér kemur samt saman áhugi beggja flokkanna á því meginatriði, að Íslendingar verði nú að snúa sér rösklega að hagnýtingu þeirra orkulinda sem eru ónotaðar í landinu og íslenska þjóðin nýtur öfundar fyrir meðal annarra þjóða á þessum tímum hinnar miklu orkukreppu.

Munur er á till. okkar Alþfl.-manna og till. sjálfstæðismanna í nokkrum atriðum. Þeir gera ekki ráð fyrir að hér sé um þingmannanefnd að ræða, og þeir fjalla á nokkuð annan hátt um hugsanlega þátttöku erlendra aðila í uppbyggingu stóriðju. Við Alþfl.-menn höfum lagt það mál þannig fram að við teljum Íslendinga nú að fenginni verulegri reynslu eiga marga kosti og geta ráðið því í hverju tilviki, hvort við viljum reisa verksmiðjur algerlega í eigu okkar sjálfra og á okkar vegum, hvort við viljum hafa að einhverju leyti — hvað snertir fjármagn, tækni og fleiri atriði — samband við erlenda aðila, eða í þriðja lagi hvort það yrði í einhverjum tilvikum talið rétt þrátt fyrir allt að heimila erlendum aðilum að reisa og eiga fyrirtækið alveg. Allir þessir möguleikar eru fyrir hendi og við verðum að meta það eftir aðstæðum, þegar við höfum ákveðið hvaða verkefni við ætlum að taka fyrir, hver þessara leiða er skynsamlegust fyrir okkur.

Hæstv. iðnrh. sagði í offorsi rétt áðan að það væri tilgangur með þessum till. að ganga fram hjá Alþingi. Ég veit ekki hvaðan honum kemur slík firra, ekki síst þegar það liggur fyrir, að till. Alþfl. er um að kjósa nefnd alþm. til að fjalla um þessi mál. Samt sem áður segir ráðh. slíkan þvætting. Hann talar um að slík verkefni megi fá nefndum þingsins, iðnaðarnefndum, og þar megi vinna undirbúningsstarf og leggja fram till. til rn. Þarna afhjúpar hæstv. ráðh. fáfræði sína í því, hvernig þingið og stjórnkerfi okkar starfar. Hann virðist ekki hafa hugmynd um það, að þingnefndir eru kosnar til hvers þings og þær missa umboð sitt þegar að þinglausnum kemur. Þær eru ekki til á milli þinga að undantekinni utanrmn. og geta því ekki starfað að varanlegum verkefnum eins og við erum að tala um og hljóta að taka langan tíma. Hitt er svo annað mál, að bæði Alþfl.-menn og aðrir hafa rætt um það, að þessu þyrfti að breyta og skapa þingnefndum annan starfsgrundvöll. En á meðan það er ekki gert er þýðingarlaust fyrir hæstv. iðnrh. að tala um hluti sem samkv. kerfi okkar, þingsköpum og öðrum lögum, eru ekki mögulegir. Hann hefði átt að kynna sér þetta og fá einhvern til að skrifa nokkrar skýrslur fyrir sig um það.

Ástæðan til þess, að tvær till. frá heilum flokkum hafa nú verið lagðar fram um stóriðju og þörfina á því að (Gripið fram í: Tveimur flokkum?) Tveimur, tveimur ólíkum flokkum, — það hafa verið fluttar till. af tveimur flokkum, hvorum í sínu lagi, eins og ég var að ræða um fyrir örskammri stundu. Ástæðan til þess er auðvitað sú, að Íslendingar hljóta nú að snúa sér að því að hagnýta orkulindir sínar, sem eru besti möguleikinn sem við eigum kost á til þess að auka verulega framleiðslu og framleiðni í landinu, auka þannig tekjur þjóðarinnar og útvega atvinnu, sérstaklega fyrir þær þúsundir manna sem munu koma á vinnumarkaðinn á næstu árum.

Enn fremur er það ástæða fyrir þessum tillöguflutningi, að það er rétt sem hæstv. iðnrh. segir: það þarf ákveðna forustu í stóriðjumálum. En staðreyndin er sú, að þessi forusta hefur ekki verið fyrir hendi. Sú ræða, sem hæstv. ráðh. flutti hér á undan mér, er glöggt dæmi um það, að hann er sjálfur andstæðingur stóriðju, hvað sem segir í loðnu orðalagi í samþykktum Alþb. af því að það þorir ekki að stiga skrefið til fulls. Þessi ræða, sem var gersamlega neikvæð og árásarræða á orkufrekan stóriðnað á Íslandi, leiðir það í ljós sem menn vita — og það er illt til þess að vita, að slík ógæfa hafi gerst að andstæðingur stóriðju skuli vera iðnrh. þjóðarinnar, ég tala nú ekki um með flokk eins og Alþb. á bak við sig. Alþb. er auðvitað andstætt þessum málum, þó að það reyni á landsfundi að samþykkja eitthvert snoturt orðalag. Hver einasti maður, sem fylgdist með fréttum af þessum landsfundi, fann að eitt meginatriðið, sem fram kom, voru gagnárásir á stóriðju. Þær komu fram í því, að fyrrv. formaður flokksins hafði vikum saman starfað að því að afla sér upplýsinga, m.a. frá stóriðjuverum eins og álverinu, og lagði fram vissar upplýsingar sem áttu að vega þungt á móti slíku fyrirtæki. Hann hafði sem sagt látið reikna út að það hefði orðið nokkurra milljóna tap á rekstri álversins og járnblendiverksmiðjunnar, og þetta átti að sýna að fásinna væri að ráðast í slík fyrirtæki. Ekki skal ég draga í efa að rétt hafi verið reiknað. En við skulum minnast þess, að í heiminum hafa ýmsir aðilar og ýmis fyrirtæki grætt ótalda milljarða bæði á stálframleiðslu, og þar með járnblendiframleiðslu, og á álframleiðslu. Það er bara spurning um hvar þessi gróði er. Hann mun verða á þessari framleiðslu áfram, enda þótt hún sé háð nokkrum sveiflum eins og flestar atvinnugreinar virðast vera. (Iðnrh.: Það er spurning hver græðir.) Spurningin er auðvitað hver græðir, og það er líka spurning um hvernig gróðinn er reiknaður og hvernig slík atvinnustarfsemi kemur þjóð til góða.

Hugmyndir um stóriðju eru ekki nýjar í Alþb. Ég man vel eftir því, fyrir þó nokkrum árum, að. Einar Olgeirsson, sem var hylltur á þessum landsfundi í tilefni af 50 ára afmæli stofnfundar Kommúnistaflokks Ístands, stóð hér upp aftur og aftur og talaði um glæsilega iðnaðarframtíð Íslendinga. Hver átti þessi stóriðja að vera? Hann lýsti því nákvæmlega. Það var verið að leggja olíuleiðslur frá Sovétríkjunum alla leið vestur til Austur-Þýskalands, að strönd Eystrasalts, og þaðan átti að flytja olíuna til Íslands, en hér átti að reisa „petrokemiskan“ iðnað. Það er rétt að gefa örlitla mynd af hugsuninni og kann að vera, ef hinir krókóttu vegir fjármagnsins á bak við mál eins og þetta — krókóttir eru þeir vissulega, ekki neita ég því — lægju eitthvað annað en verið hefur hingað til, þá væri afstaða sumra Alþb.-manna önnur en hún er í dag.

Stóriðjumál, bæði samningurinn um álverið og síðan um Grundartangaverksmiðjuna, eru með mestu málum sem rædd hafa verið á Alþingi undanfarin ár. Umræður um þessi mál stóðu vikum saman og voru feiknalega harðar. Ég tók þátt í þeim báðum og mér urðu þær minnisstæðar. Ég tel að umræðan um Grundartangaverksmiðjuna hafi verið stórum harðvítugri. En eitt er öruggt, að þegar rætt var um álsamningana hreyfðu Alþb.-menn lítilli gagnrýni um þau atriði sem nú eru dregin fram sem einhvers konar föðurlandssvik í þeim samningum.

Grundartangadeilan var mun harðari og gerðu Alþb.menn tilraun til að gera um hana þjóðarhreyfingu. Þeir létu sér ekki nægja andstöðuna hér í salarkynnum Alþingis, heldur var efnt til fundar í skóla í Borgarfirði skammt frá verksmiðjusvæðinu. Þar var auðvitað safnað saman hópi af Alþb.-mönnum af öllu Vesturlandi, en svo voru þarna auðvitað íbúar úr hreppunum í kring. Og hvílík ósköp áttu eftir að dynja yfir þessar vesalings sveitir eftir þeim lýsingum sem stórskáld eins og Jónas Árnason, sem var leiðtogi þessarar hreyfingar, flutti í ræðum sínum! Það var eins og svart, drepandi ský mundi leggjast yfir þessar sveitir og drepa þar allt líf, bæði mannskepnuna og aðrar skepnur.

Það vill svo til, að vegna frétta frá landsfundi Alþb.manna hefur Alþýðublaðið leitað sér nokkurra tíðinda af því, hvernig reynslan sé í þessum efnum. Ég skal sleppa frásögnum og viðtölum við ráðamenn í Hafnarfirði og á Akranesi, sem nú er vegna verksmiðjunnar blómlegasti kaupstaður landsins og með mestan vöxt í íbúatölu og afkomu. En við skulum líta á örfáar setningar af því sem oddviti Skilmannahrepps, Sigurður í Lambhaga, segir við blaðamann Alþýðublaðsins. Þetta er tiltölulega lítill hreppur þó hann hafi allnokkurt landrými, gott og verðmætt. Ekki man ég íbúatöluna, ætli hún sé ekki 200–300. Hann segir frá því, að beinar tekjur hreppsins af verksmiðjunni verði um 70 millj. kr. á þessu ári og heildartekjur hreppsins á þessu ári 110 millj. Þessi hreppur verður líklega einn af auðugustu hreppum landsins við hliðina á nágrönnum sínum í Hvalfjarðarstrandarhreppi, sem eru svo heppnir að hafa tvö stórfyrirtæki.

Þá segir hann frá því, hvað hreppurinn ætli að gera við þessa peninga. Það er ýmiss konar fjárfesting sem verður vafalaust öllum íbúum hans og nágrannahreppa til góða, og skal ég ekki fara út í það. Það er byrjað að undirbúa nýjan þéttbýliskjarna við Lambhaga, sem ég efast ekki um að muni rísa á tiltölulega fáum árum, og hann segir: Járnblendiverksmiðjan hefur hleypt nýju blóði í framkvæmdir á vegum hreppsins, og hér er góður hugur í mönnum. Sömu sögu gætu þeir sagt í Hafnarfirði.

Svo er hér að lokum úr þessu viðtali: Sigurður var spurður um viðhorf íbúanna almennt til járnblendiverksmiðjunnar. Hann kvað aðbúnað í verksmiðjunni til fyrirmyndar og starfsmenn væru mjög ánægðir, enda væru þeir tiltölulega hátt launaðir. Úrtöluraddir, sem heyrst hefðu í upphafi um byggingu verksmiðjunnar, væru nú að mestu þagnaðar. „Verksmiðjan færir okkur drjúgar tekjur, og það er erfitt að sjá önnur en jákvæð áhrif fyrir hreppinn og íbúa hans, enda væru viðhorf þeirra til verksmiðjunnar á eina lund.“

Þetta er sagt tveim árum eftir að íbúar þessa hrepps voru allmargir á fundi, boðaðir af Alþb., og hlustuðu á þá skelfingarlýsingu, sem ég hef fáar heyrt verri, um hvað þeirra biði ef þessi ósköp mundu dynja yfir.

Það er erfitt að reikna tölulega hvað fæst út úr fyrirtækjum eins og hér er um að ræða, en ég vil gera aths. við það, að hæstv. ráðh. telur óeðlilegt að tala um brúttógjaldeyristekjur. Ég held að það sé það venjulega, sem við gerum, vegna þess að svo að segja allir atvinnuvegir þurfa á gjaldeyri að halda til þess að geta framleitt það sem þeir flytja úr landi. Tölur um gjaldeyrisöflun sjávarútvegs, landbúnaðar og annars iðnaðar eru yfirleitt nefndar brúttótölur og þar er alls staðar um að ræða meira eða minna sem kemur á móti. Hitt vissum við frá upphafi, að hráefnisflutningur hingað til lands, t.d. í sambandi við álið og raunar báðar verksmiðjurnar, mundi kosta töluverðan gjaldeyri sem dregst frá. En fyrr má nú vera að stofna tvö fyrirtæki, sem eru á góðum vegi með að tryggja okkur upp undir 20% af brúttógjaldeyristekjum. Þó ekki væru nema 3%, þá vildi ég gjarnan fá nokkrar verksmiðjur, sem gæfu okkur 3% nettó í gjaldeyrisaukningu. Það eru miklir peningar. Prósentin eru ekki nema 100.

Fjandskapur hæstv. ráðh. í garð stóriðju, sem gekk í gegnum ræðu hans alla, náði auðvitað hámarki sínu þegar hann skýrði okkur frá því, að hann hefði verið að reikna út hvað gerðist ef hann léti skrúfa fyrir rafmagnið til álversins í Straumsvík. Hann kemst að þeirri niðurstöðu, að það sé hagkvæmasta orkuframkvæmd sem við getum gert í landinu. Mér þykja það tíðindi, að iðnrh. landsins skuli sitja á skrifstofu sinni og reikna út hvað gerðist ef skrúfað yrði fyrir rokuna til þessa fyrirtækis. Ég er viss um að þeim 600 mönnum, sem vinna í verksmiðjunni, mundu þykja þetta nokkur tíðindi. Það getur verið að sumir hafi meira gaman af reikningskúnstum en aðrir, en það sýnir oft innrætið, hvað það er sem menn eru að slá upp í dæmi og leika sér að. Menn hafa heyrt ýmsar bollaleggingar um hvað hæstv. ráðh. væri að gera á skrifstofunni, því að það er vitað að hann er vinnumaður með afbrigðum og eyðir þar löngum tíma. En ekki hélt ég að þær fréttir mundu verða svo furðulegar þegar þær bærust út. (Iðnrh.: Þetta heyra fleiri.)

Á landsfundi Alþb. var talað um það, m.a. af þeim nýkjörna og ágæta formanni sem flokkurinn fékk á fundinum, hvað Alþb. væri valdamikið í landinu. Annar ræðumaður, sem var held ég einn af tveim eða þrem höfuðframsögumönnum fundarins, talaði mikið um að Alþb. hefði stöðvunarvald. Þetta er rétt. Þeir treysta á það sem þeir kalla stöðvunarvald, t.d. í sambandi við ýmislegt sem er á döfinni í varnarmálum, og þeir treysta tvímælalaust á það, eins og reynsla er þegar fengin af, að þeir geti beitt stöðvunarvaldi sínu í stóriðjumálunum og það muni ekkert gerast annað en samfelld framleiðsla af skýrslum og myndun nýrra starfshópa og nefnda til þess að gera enn nýjar skýrslur — og ekkert gerist.

Ég vek athygli manna á því, að þeir hæla sér af stöðvunarvaldi sínu. Ég vil biðja menn að íhuga þetta vandlega, því að þetta þýðir að minnihlutaflokkur, sem hefur innan við 20% af atkvæðum og þingfylgi, getur fengið vilja sínum framgengt og stöðvar stórmál sem hin 80% eru meira eða minna sammála um að séu æskileg fyrir þjóðina. Að möndlið með ráðherrastóla og ráðuneyti skuli geta valdið því, að einn flokkur öðlast slíkt vald sem þetta, er auðvitað fráleitt, hvað þá að menn séu svo ósvífnir að nota sér stjórnarmyndanir til að reyna að skapa minni hluta þetta ólýðræðislega og óeðlilega stöðvunarvald. Það er hægt að fyrirgefa mönnum ef þeir eru þeirrar skoðunar með sjálfum sér, greindir og gegnir menn eins og t.d. hæstv. iðnrh., þó þeir séu úrtölumenn í máli eins og því sem við erum að tala um, jafnvel andvígir því, þegar það er af sannfæringu, sem ég tel að sennilega sé. En hitt, að beita pólitískum hrossakaupum til að minnihlutaflokkur í landinu geti öðlast stöðvunarvald í sjálfri ríkisstj. landsins, er pólitískt brask af verstu tegund, — pólitískt brask sem er andlýðræðislegt og hefur þau áhrif að hindra eðlilegar lýðræðislegar ákvarðanir sem meiri hlutinn er örugglega fylgjandi. Þetta er tvímælalaust ósiðlegt, svo að ég noti eitt af orðum hins nýja stíls. (Gripið fram í.) Skelfing er ég feginn að heyra hv. þm. Stefán Jónsson kalla fram í, því að ég var satt að segja farinn að hafa alvarlegar áhyggjur af því, að hann hefur ekki látið heyra slíkt í sér lengi. Ég hélt að honum væri farið að förlast, en það er gott að svo er ekki.

Herra forseti. Sú till., sem hér er til umr., fer vafalaust til nefndar, og er eðlilegt að hún fari til sömu nefndar og till. Alþfl. um sama meginefni. Ég er þeirrar skoðunar, að sá munur, sem er á till., sé ekki svo mikill eða þess eðlis, að það eigi ekki að vera möguleikar á því að leysa hann. En ég vil láta í ljós von um að flokkarnir, sem standa að ríkisstj. og hægt er að kalla lýðræðissinnaða —- það er reyndar ekki nema einn flokkur og flokksbrot, sjái sóma sinn í að beita stöðvunarvaldi sínu sem meiri hl. til að stöðva stöðvunarbrölt Alþb. og að úr sveit þeirra fáist þm. til að skoða þetta mál og ræða það alvarlega, vegna þess að það er enginn efi á því, að við verðum að snúa okkur að hagnýtingu orkunnar til að bæta lífskjör okkar og tryggja þau á næstu áratugum.

Ég tel að við verðum að reisa a.m.k. 4–6 stóriðjuver fram til aldamóta. Það liggur fyrir og er hverjum manni ljóst, að forusta í þessum málum er ekki fyrir hendi, heldur ríkir úrtölustefna í iðnrn. Alþingi verður því sjálft að taka forustuna. Þessar till. lúta báðar að því að svo verði gert og því fyrr því betra.